Einfalda lífið í frumskógarparadís, ævaforna tréð og ástríka hippaeyjan.

Við vöknuðum snemma, borðuðum morgunmat, komum okkur niður á höfn, fundum bát og komum okkur þægilega fyrir. Í bátnum hittum við stráka frá Argentínu sem höfðu verið með okkur í bátnum frá Perú. Þeir komust að því að matur var ekki innifalinn og þrír af fjórum fóru í land til þess að kaupa mat. Þegar þeir voru nýfarnir í land lagði báturinn úr höfn. Strákurinn sem varð eftir á bátnum fór í væga geðshræringu og talaði um að þeir myndu skíta á sig úr óðagoti þegar þeir kæmu til baka að auðri bryggju og hann bölvaði starfsmanni bátsins sem sagði þeim að það væri nægur tími til stefnu. Við létum hann vita að báturinn væri ekki að leggja strax af stað niður ána, hann ætlaði bara að sigla niður að næstu höfn sem er rétt hjá. Báturinn fór í land rétt hjá staðnum sem hann var til að taka á móti vörum, þá hljóp Argentínumaðurinn í land að finna vini sína. Báturinn fór síðan í höfn aðeins neðar og þar gengu þeir allir fjórir um borð með stóra poka af mat. Argentínumaðurinn kom til okkar og sagði að þeir hefðu vitað allan tímann af því að báturinn myndi skipta um höfn.

Í bátnum eignaðist ég vinkonu. Gömul kona sem lá í hengirúminu sínu alla ferðina. Ég fór til hennar og sýndi henni orð í bókinni sem ég var að lesa á portúgölsku og spurði um framburðinn. Eftir að við töluðum meira saman byrjaði hún að segja mér furðulega hluti. Hún sagði að þegar hún var lítil hafði mamma hennar verið neydd til að selja líffræri úr sér og tveimur systrum sínum og að þær höfðu fengið dýralíffæri í staðinn og síðan sagði hún að það hafði verið reynt að ráða hana af dögunum nýlega og að það væri fylgst stöðugt með henni. Hún benti á örin á handleggjunum sínum. Ég hætti að spyrja hana um framburð á orðum, hélt fjarlægð og brosti bara til hennar í staðinn.

Sólin settist yfir ánni sem endurspeglaði ávaxtalituðum logum. Áin streymdi og báturinn leið inn í myrkrið.

Himinhvolfið litaðist og sólin vaknaði. Dagurinn leið í ótíma og fyrr en varir var dagur að kveldi kominn. Í myrkrinu sáust ljós í miklum fjölda við bakkann. Báturinn kom í höfn og við og nokkrar aðrar manneskjur fórum í land. Staðurinn hét Santarem og var á stærð við Reykjavík. Leigubíll flutti okkur á ódýrt hótel og við fundum okkur mat á götuveitingastað. Við röltum út að bryggjunni og svart fljótið gáraðist svo langt sem augað eygði; bakkinn hinum megin ósýnilegur undir feldi næturinnar. Við fórum upp á herbergi og féllum í drauma.

Í morgunsárið tókum við rútu sem leiddi okkur í gegnum laufþaktar hvelfingar frumskógarins og lét okkur út í litla 5.000 manna bænum Alter do Chão. Við fundum fallegt gistihús sem leyfði okkur að tjalda en verðið var alltof hátt þannig að þegar við römbuðum inn á hippatjaldsvæði í göngutúr um svæðið ákváðum við að færa okkur samstundis. Við náðum í allt draslið okkar frá hinum staðnum og komum okkur fyrir í skuggsælum mangólundi þar sem afslappað langferðafólk eða farandsöluhippar, líkt og ég kýs að kalla þau, lifðu í sátt og samlyndi við nútíðina og frelsið. Þau djögluðu, stunduðu fimleika, bjuggu til skartgripi, sungu og spiluðu á hljóðfæri til að vinna sér inn peninga. Oftar en ekki voru karlkyns hipparnir með dredda, ef ekki með mjög sítt hár og þykkt skegg. Sumar stelpurnar voru með dredda og sumar með rakaðar hliðar og ótal húðflúr. Næturgistingin var ódýr, 500 krónur á mann og sumt fólk svaf í tjöldum líkt og við en langflestir í hengirúmum undir stóru regnskýli. Það var eldhúsaðstaða sem var í grundvallaratriðum ástættanleg en það vantaði handföng á flesta pottana, borðið var heimagert úr afgangstimbri, skurðarbrettin voru stórar gólfflísar brotnar í tvennt og tvær af fjórum gashellum virkuðu ekki. En það genga allir vel frá eftir sig og yfir vaskinum stóð: Fyrir ástina. Við hliðina á því var friðarmerkið teiknað. Á klukkuna á veggnum vantaði stóra vísi og litla vísi og það var sjaldan sem einhver vissi hvað klukkan væri. Það var ein sturta sem var ágæt en klósettið var stíflað, sem betur fer var eigandinn, argentísk hippastelpa sem hét Meri, með samning við barinn við hliðina á þar sem nóg var af klósettum. Einföld aðstaðan var eitthvað sem sumir myndu ekki láta bjóða sér upp á, en fyrir mér var þetta heillandi staður með heillandi fólki sem heilsaði manni með opnu hjarta.

Við fengum okkur að borða og röltum niður að ströndinni. Í bænum voru nokkrar strendur, flestar voru venjulegar með börum og veitingastöðum sem buðu upp á skugga en svo var falda ströndin sem enginn fór á og var náttúruleg með fullt af trjám og laus við sprengjustillta popptónlist. Við römbuðum óvart inn á földu ströndina. Frumskógarvatnið var laufblaðagrænt og sandurinn paradísarhvítur, undir þykkum trjánum var svalandi skuggi og í ferskvatninu, sem var hvorki of heitt né of kalt, skein sólin glaðlega. Ef maður tók vatnið upp í lófana var það tært og gegnsætt. Við settum upp slackline’ið á milli stærðarinnar trés á bakkanum og annars trés sem óx ofan í vatninu þannig að ef maður missti jafnvægið datt maður ofan í vatnið. Ég rölti út í vatnið og fyrr en varir náði ég ekki til botns, ég gat ekki synt vegna þumalputtans sem var ennþá mjög aumur. Hér á þessum guðsgræna stað hafði myndast lón vegna tanga og eyju út í ánni þannig að það var lítill straumur og engin hættuleg dýr. Í þokkabót voru engar mannverur og engar byggingar í augsýn; bara undurfögur náttúra og meðfylgjandi friður. Formin í bárum vatnsins dáleiddu mig, sólin lýsti upp hörund mitt, loftið var gegnumsýrt ávaxtailmi og sandurinn lék við tærnar mínar.

Um kvöldið elduðum við og eftir mat röltum við niður á aðaltorgið. Meðfram norður hlið torgsins var súpermarkaðurinn og kirkjan, vesturhliðin var þakin í alskonar verslunum og nammibásum sem seldu ljúffengt kókossúkkulaði, suður hliðin vísaði niður að ströndinni og meðfram henni var stór pallur þar sem litríkur tugur farandsöluhippa sat og sýndi vörurnar sínar, á austurhliðinni voru veitingastaðirnir og á einum staðnum var hljómsveit að spila brazilíska tóna sem ómuðu yfir torgið og tóku alla með sér inn í brosmildan taktinn. Frumskógarnóttin var heit og ljúf. Ég hugsaði með mér að ég gæti verið hérna í langan tíma.

Ég vaknaði ferskur, fór út úr tjaldinu og gékk út í sólina. Á leiðinni í eldhúsið heyrði ég háan dynk. Nýfallinn mangó lá tilbúinn til átu. Ég tók hann upp og borðaði er ég hitaði upp vatn fyrir te. Ég drakk teið mitt og settist niður í hugleiðslu. Ég fann mig knúinn til þess að hugleiða, ég þurfti á því að halda. Í þrjár vikur var ég varla búinn að fá sekúndu fyrir sjálfan mig, annaðhvort var ég með Þór eða Írisi, aldrei aleinn. Núna fann ég virkilega fyrir því hvað ég þurfti á einveru að halda. Frið til þess að tala ekki, frið til þess að hlusta ekki, frið til þess að vera í friði og frið til þess að heyra í sjálfum mér. Venjulega heilsaði ég öllum sem ég heilsað gat en í bátsferðunum hafði ég leitað í einveru og einangrun. Mér leið ekki beint illa en það var einhver þyngd yfir augnaráðinu mínu. Ég þurfti að gera eitthvað, komast að rót vandamálsins. Þegar ég var einn á ferðalagi var ég aldrei einmana en núna þegar ég var að ferðast með tveimur manneskjum sem voru í þokkabót svo gjörsamlega ólíkar og með ólíkar þarfir þá fannst mér ég vera andstæðan við einmana. Ég settist þó niður í eldhúsinu á kvöldin og fór að kynnast fólkinu sem hafði áhugaverðar sögur að segja.

Daníel, þrítugur maður frá Venezúela, dökkur á hörund með svarta stuttklippta dredda upp í loftið, sterklega byggður, með kuðung hangandi úr gati í eyrnasneplinum og bein úr hinum, tónlistarmaður og lifir á því að spila á götunni með hatt fyrir framan sig. Hann var Hare-Krishna munkur í þrjú ár og átti fimm ára dóttir sem var langt í burtu. Hann átti heima í strandbæ í Perú og eignaðist þýska kærustu, þau ráku saman litla búð þar sem þau seldu listgripi og undu vel við. Foreldrar stelpunnar komu síðan í heimsókn og fyrsta kvöldið þeirra var Daníel að spila á bar í bænum. Tengdafaðirinn heillaðist af tónlistinni hans og sagði honum að hann gæti gert góða hluti í Þýskalandi og bauð honum að koma og gaf honum flugmiða. Í fyrstu vildi hann ekki fara af því að hann var hræddur, hafði aldrei farið í flugvél áður, aldrei farið útfyrir Suður-Ameríku og kunni ekki stakt orð í Þýsku. Kærastan hans skildi hann vel og sagði honum að vera eftir ef hann vildi ekki koma. En að lokum ákvað hann að slá til og skella sér.

Fyrsta daginn sinn í Berlín keypti hann sér gras og var viss um að gæðin væru ekkert miðað við Venezúela. Hann rúllaði sér eina hreina og reykti hana alla í rólegheitunum. Hann varð alveg ónýtur, lamaður í hausnum og gat varla staðið uppréttur vegna styrkleikans. Hann fór í sturtu, fékk sér kaffi og jafnaði sig eftir nokkra tíma af sturlun.

Hann byrjaði að spila tónlistina sína úti á götu og síðan hjálpaði tengdapabbi honum að tala við veitingastaði og bari. Fyrsta kvöldið hans spilandi á bar vissi hann að Berlín væri staður fyrir sig, hann hafði aldrei grætt svona mikinn pening áður, hann seldi nokkra geisladiska og lét hattinn sinn ganga um barinn sem fólkið fyllti alveg upp að brún.

Þegar hann var nýlega kominn til landsins var hann einu sinni úti að borða með kærustunni sinni, klæddur í nokkrar peysur vegna kuldans sem hann var óvanur. Skyndilega kom yfir hann svimi og það leið yfir hann. Hann skall með hausinn í borðið, naumlega framhjá matnum sínum. Hann rankaði við sér við háværar sírenur og það var farið með hann á spítalann þar sem að hann jafnaði sig fljótlega. Þeir sögðu honum að ástæðan væri streita. Nýtt land, ný menning, nýtt tungumál, nýr matur, allt framandi og streituvaldandi. Hann hafði enga leið til að tjá sig og það safnaðist ýmislegt upp.

Einn daginn fór vinur hans með hann í hljóðfærabúð og Daníel hafði aldrei áður farið í hljóðfærabúð á þremur hæðum. Hann missti sig í gleðinni og hljóp um búðina prófandi allt sem hann kom hendi á. Sláandi trommurnar, plokkandi strengina, blásandi í flauturnar. Síðan fór þessi sami vinur hans með hann í upptökuver og hjálpaði honum að taka upp nokkur lög. Daníel horfði í kringum sig á takkaborðin og upptökutækin, hann hafði aldrei séð neitt þessu líkt.

Eftir þrjá sumarmánuði í Berlín var vísa’ið hans að renna út, hann fékk þá hugmynd að fara úr landinu og koma aftur inn í það til að fá nýtt vísa. Hann flaug til Búlgaríu og kom aftur til baka daginn eftir. Hann var tekinn inn í hvítt herbergi og yfirheyrður eins og glæpamaður og þeir vöruðu hann við: Þú verður að taka flugið þitt heim, við vitum hvar þú átt heima og ef þú brýtur vísalögin máttu ekki koma aftur til Evrópu í tíu ár. Hann byrjaði að blóta framan í mennina á spænsku og kalla þá hálfvita og drullusokka.

Hann kvaddi paradísarlandið sitt þar sem að fólkið bauð hann velkominn og flaug til baka. Núna eru fjórir mánuðir síðan og hann brann af þrá í að snúa aftur. Hann sagðist ætla til Ríó að vinna sér inn pening fyrir flugmiðanum og hann sagði að það væri ekkert mál en í augunum hans sá ég sorglegan veruleika farandsöluhippana; þeir áttu ekki krónu; þeir voru frjálsir í hjartanu og lausir við hlutdýrkun en að kaupa sér flugmiða til Evrópu virtist aðeins vera fjarlægur draumur fyrir einhvern sem talaði um fimmþúsund krónur sem frábær dagslaun.

Hér í þorpinu varð dagur að viku og vika að vikum. Á hverjum degi fór ég niður að ánni að baða mig og halda jafnvægi á slackline’inu. Ég sat í sandinum og hugleiddi eða las í bók á meðan ég tók sopa af gómsætu chai’i sem ég útbjó og kom með á ströndina í hitabrúsa. Á fjórum dögum gleypti ég í mig ritlistar meistaraverk sem heitir Shantaram. Ég var oftast einn og naut þess vel að tala við endurspeglun himinsins í vatninu og lauf trjánna í þögulli hugleiðslu. Ég komst að því afhverju ég hafði verið svona þungur og jafnvel dapur, það gat vel verið að andstæða einmanaleikans hafi haft áhrif en í rauninni var það malaríu-lyfið sem ég tók á hverjum degi sem breiddi yfir mig þunga blæju dimmra hugsanna. Um leið og ég hætti að taka inn pillurnar byrjaði kertið innra með mér að skína; óvenjulegu þyngslin hurfu líkt og köttur fyrir hundi. Ég hélt áfram að hugleiða á hverjum degi, kvölds og morgna með þessi orð í huglægri endurtekningu:

Ég er.

Ég er ekki þessi búkur.

Af og til hrundi ég í djúpa upplifun á rými veruleikans en oftast sat ég og fylgdist með lífskraftinum flæða um mig og huganum ímynda sér hitt og þetta, hoppa fram og til baka úr framtíðinni yfir í þátíðina og spjalla um hversdagslega hluti við sjálfan sig eða eiga ímynduð samtöl við aðra. Með hverjum deginum varð skilningur minn á veruleiknum skýrari. Veruleikur; veru-leikur; við erum guð berandi grímur; guðsgrímur; við teljum okkur vera til sem aðgreindar persónur, egó, einstakar verur, en sannleikurinn er svo ótrúlega einfaldur að hann dylst okkur í flóknum heimspekikerfum, huglægum rannsóknum sem ganga út frá því að við séum hugurinn og líkaminn, reglubundnum trúarbrögðum og ótal óþarfa spurningum. Sannleikurinn er: Ég er ekki til, mun aldrei vera til og hef aldrei verið til – ég er guð, Alveran, hið ónafngreinda, hið óorðanlega, alltsemer, spilandi spil, leikandi leik: Ég er Veruleikurinn hinn Eilífi. Við, verurnar, berum grímur af því að ef guð vissi að heimurinn væri bara leikur innan í sjálfum sér væri ekkert varið í leikinn. Allt það hræðilega sem gerist í leiknum, allt sem mannverurnar gera hvorri annari er í raun og veru guð að gera sjálfum sér. Það sem við köllum hugljómun er einfaldlega guðsgríma að taka af sér grímuna. En ekki taka mig á orðinu, ég boða alheimssýn mína ekki sem heilagan sannleik, ekki trúa neinu sem ég segi fyrr en að þú upplifir það innan í eigin veru. Ef þú hefur áhuga þá býð ég þér í hugleiðslu: Hvernig veistu að þú sért til?

Með tímanum kynntist ég sumum af hippunum betur, orðið hippi er þó ekki fullnægjandi orð, þau eru ekki endilega andleg, boðandi ást og frið, reykjandi gras og sleikjandi sýru, heldur einfaldlega öðruvísi, kjósandi rótarlaust flakk og ræktun hæfileika yfir langtímalán, þægilega íbúð og skrifstofuvinnu. Stundum lögðu þau saman í púkk og elduðu stóra máltíð saman. Þau byrjuðu daginn snemma og oftar en ekki sátu nokkur saman í hóp og spiluðu á hljóðfæri þegar ég dröslaði mér úr tjaldinu eftir góða dýnulausa nótt á hörðu gólfinu. Söngur þeirra og frelsi ómaði upp til fuglanna í trjánum sem sveipuðu tjaldsvæðið í skugga með laufum sínum. Þau voru öll góðhjörtuð og almennileg. Við skildum dótið okkar venjulega eftir í tjaldinu og aldrei var neinu stolið. Léttglaður andi sveif yfir svæðinu og ég varð ekki var við eitt einasta rifrildi. Í þröngu eldhúsinu myndaðist oft fjölskyldustemmning. Einn daginn hætti ísskápurinn að virka þegar að Argentínumaðurinn í fjólubláu buxunum, Nicola, velskeggjaður og síðhærður, var að hreinsa ísinn sem hafði safnast upp í frystinum með hamri, hann sló eitthvað út og skápurinn hætti að kæla. Hinn daginn vildi Merí, stjórnandinn, taka pönnurnar og geyma hjá sér og láta fólk spyrja um leyfi til að nota þær en það gleymdist eftir nokkra daga. Á nóttinni sungu skordýrin og apahljóð heyrðust úr fjarska; kyrrð og ró, friður og ást, lífið lék í lyndi við tjaldsvæðið. Svo kom Karnavalið.

Bærinn fylltist af óþæginlega háværri, leiðinlegri, tónlist; hann fylltist af fólki frá Santarem og uppblásin dýrð áfengisþambs sprakk líkt og blaðra fyrir nagla er ég og Þór kíktum á veisluhöldin. Stórt torg fyllt af fimbuldrukknu fólki sem hoppaði um með skrækjum og sprautaði á hvort annað hvítum lit úr brúsa. Hljómsveit á stóru sviði æpti lagleysu yfir múginn. Strákur hvítur í framan, ófrýnilegur undir valdi drykksins, kom til okkar og reyndi að selja okkur brúsa til að sprauta. Ég afþakkaði öll samskipti, Þór nýtti tækifærið og spurði hann hvort að hann vissi um jiu-jitsu stað í þorpinu. Torgið minnti mig á menningarnótt. Ég fann ekkert nema sterkan fráhrindandi kraft og vildi koma mér í burt sem fyrst. Á tjaldsvæðinu ríkti endalaus tónlistarmengun, eyrnatappar breyttust í svefngjafa og það reyndi á þolinmæðina að hlusta á leiðinlega tónlist á fullum styrk á meðan við reyndum að sofna. Ég samþykkti tónanna og náði oftast að sofna fljótlega. Ég lét Írisi fá svefnpokann minn og ponchoið til að hafa mýkra undirlag og svaf á hörðu gólfinu líkt og jógín frá Indlandi eða fátæklingur án vals, ég vandist því furðuvel og fór að líka við hörð óþægindin. Íris missti þolinmæðina vegna hávaðans sem stafaði frá barnum við hliðina á og bauð mér eina nótt á gistiheimili. Ég lagðist í mjúkt rúmið, með klósett mér á hægri hönd, rafmagnsinnstungu og loftkælingu. Mér leið eins og villimanni sem var fluttur af seiðkarli þorpsins í framtíðina. Ég var orðinn vanur því að sofa á gólfinu, vera án rafmagns, án klósetts; allslaus og ánægður; varla eyðandi krónu. Líkt og Íris orðaði það: Þú ert eina manneskja sem ég þekki sem hefur kvartað yfir of miklum þægindum. Ég reyndi að koma mér þæginlega fyrir í mjúku rúminu en hugsaði aftur í tjaldhellinn minn með söknuði; að lokum leið ég inn í ljúfa drauma. Eftir fjóra daga vöknuðum við öll upp af Karnaval martröðinni og þorpið tók á sig fyrri mynd friðar og rólegheita.

Eitt kvöldið er tjaldsvæðið var mannlaust sat ég í hálfbrotnum plaststól og las. Inn um hliðið kom maður, dökkur á hörund með rastafléttur og svartan pípuhatt, með gítar á bakinu og reiðhjól undir hendinni. Ég hafði oft séð hann spila og syngja frá hjartanu fyrir framan matvöruverslunina og oft gefið honum klink í hattinn.
Ei bróðir, sagði hann á djúpraddaðri portúgölsku, sló mér í hönd og gaf mér hnefakoss, veistu hvar allt fólkið er?
Það fór heim til Fabíó, hérna rétt upp götuna til hægri, sagði ég.
Ég skil, sagði hann, ég held ég fari þá frekar heim í húsið mitt í frumskóginum.
Hús í frumskóginum, er það langt í burtu?
Nei, ekki svo, einn kílómetri eða svo, viltu koma í heimsókn?
Rétt í því kom Íris fram úr tjaldinu og við þáðum bæði boðið.
Við röltum aðalgötuna í myrkrinu, út úr bænum. Hann leiddi hjólið og á bögglaberanum stóð lítið ferðaútvarp sem spilaði reggae tónlist sem ég gekk í takt við. Hann heilsaði hverri einustu manneskju sem við mættum. Er við gengum í burtu frá ljósastaurunum byrjuðu stjörnur eilífðarinnar að birtast okkur. Kolniðarmyrkur og fuglahljóð úr frumskóginum blönduðust reggae tónunum. Hann kynnti sig formlega og spurði hvað við hétum. Elton, hét hann, brosmildi maðurinn sem leiddi okkur inn í dimmuna haldandi á vasaljósi. Við gengum og gengum, lengi, lengra en einn kílómetra. Íris hló upp úr þurru að sögu líðandi stundar. Bílar komu á móti okkur og lýstu upp umhverfið örskamma stund er þeir þutu framhjá. Loksins komum við að litlum stíg sem leiddi okkur inn í frumskóginn.
Ef þið heyrið risaeðluhljóð þá eru það aparnir, sagði Elton og öskraði eins og risaeðla og hló.
Hátt yfir höfðum okkar lifðu greinar og laufblöð; maður sá engar stjörnur í gegnum svart laufþykknið en skordýrahljómsveit tók lagið. Við gengum inn í myrkrið.
Þetta er einstakur staður, sagði Elton, sem fáir hafa aðgang að. Við erum komin.
Frá stígnum lá annar stígur sem leiddi okkur inn í lauflétt rjóður. Hús á tveimur hæðum, byggt úr timbri; á efri hæðinni svefnherbergi með laufþaki, á neðri hæðinni, opið veggjalaust svæði með hengirúmum og vinnuaðstöðu fyrir listamenn. Velkomin í listamannahúsið, sagði Elton brosandi. Þrír kettir komu hlaupandi til okkar, einn stór appelsínugulur, einn minni hvítur og einn pínkulítill svartur. Við fengum okkur sæti í hengirúmum og Elton settist á kassa, tók upp svarta kisan og knúsaði hann og teygði og kramdi líkt og grimmur fimm ára krakki myndi leika við kisu.
Þeir verja okkur fyrir snákum og eru skemmtileg dýr, sagði Elton, litli svarti er hættulegastur, hann vill ekki láta klappa sér og klóraði mig um daginn. Appelsínuguli kötturinn kom upp að honum og Elton lamdi hann lauslega, kötturinn forðaði sér í burtu.
Eruð þið grænmetisætur, spurði hann.
Já, svöruðum við í kór.
Í Brazilíu er fólkið kristið, og kristni segir að það skipti ekki máli hvað maður láti upp í sig, það verður allt að skít hvort sem er. Afsakið orðbragðið. Við borðum allt, það sem skiptir máli fyrir okkur er hvað við látum út úr munninum, orðin sem við segjum verða að koma frá hjartanu, slæm orð hafa slæmar afleiðingar, en það skiptir ekki máli hvað við setjum upp í okkur af því að það verður allt að skít, sagði hann og gerði tilheyrandi látbragð til að leggja áherslu á orðið skít.

Hann setti olíurafal í gang sem kveikti ljósið í eldhúsinu; gaseldavél, stórt borð og matarbúr undir stóru regnskýli. Hann eldaði fyrir okkur náttverð, ljúffengt grænmetisspagettí sem við borðuðum undir ljúfum reggae tónum. Kettirnir hlupu um á þeysingsspretti og í þessum aðstæðum er ég ekki sammála skáldinu sem orti forðum: Illt er að hafa þá marga á bænum.

Eftir matinn löbbuðum við tvær mínútur niður að ströndinni og vatninu sem stjörnuglitraði undir frumskógarhimninum og allt var í friði undir frumskógarþögninni sem var gegnumsýrð af skordýrum og risaeðluöpum.
Er hægt að baða sig hérna, spurði ég.
Já það er hægt, maður þarf samt að passa sig á stingskötunum, ef maður stígur á eina slíka haltrar maður í heilt ár, svaraði hann. Kettirnir hlupu á eftir okkur með næturaugun opin og voru á varðbergi eftir snákum og þvílíkum kvikindum. Litli svarti lenti í bardaga við stærðarinnar strá og Elton lyfti upp appelsínugula og geymdi hann á öxlinni sinni.

Hann fylgdi okkur aftur að tveggja hæða kofanum og sýndi okkur efri hæðina. Við klifruðum upp lítinn stiga. Tómt rými, draumfangarar hangandi úr loftinu, bogi, ýmis skrítin hljóðfæri og stór dýna í einu horninu. Þið getið sofið hér í nótt ef þið viljið, sagði hann og klifraði niður stigann. Við lögðumst niður og sofnuðum næstum því en ákváðum síðan að rölta heim á tjaldsvæðið.

Á tjaldsvæðinu voru allir að gera sig til. Daníel var málaður eins og trúður, Ivan var klæddur eins og kona, Merí líkt og mús, Nicola líkt og ítölsk klámstjarna frá sjöunda áratugnum og það var spenningur í loftinu. Skrautlegi hópurinn var tilbúinn. Þau löbbuðu yfir götuna yfir á barinn við hliðina á. Ég og Íris fengum okkur sæti og borguðum aðgangseyrinn til að fá að sjá sýninguna, til að sjá sirkusinn. Þór sat nývaknaður á tjaldsvæðinu og borðaði morgunmat. Klukkan sló fjögur högg og þau voru klukkutíma á eftir auglýstri byrjun. Hljóðfæraleikarnir þrykktu í trommur, plokkuðu strengi og sungu. Engir aðrir áhorfendur komu eftir korters bið. Þau ákváðu að gefa staðinn upp á bátinn og færa sýninguna yfir á torgið. Við fengum endurgreitt og röltum með þeim niður á torgið. Þau komu sér fyrir á miðju torginu og eftir að hafa vakið næga athygli með því að labba í hringi og syngja og dansa var komið nægilega mikið af áhorfendum til að byrja sýninguna. Þór sem hafði komið í tæka tíð fyrir hringdansinn fékk sér sæti kátur á svip. Hljóðfæraleikarnir hófu tóna sína á loft. Ivan, eða Filippa líkt og hann vildi láta kalla sig, dansaði líkt og stelpa og vakti almenna kátínu. Hann passaði að sýna ekki geirvörturnar og lyfti kjólnum sínum reglulega upp með ýktu látbragði. Síðan lét hann bolta snúast í hringi á puttanum sínum, setti snúandi boltann á endann á spjóti og lyfti spjótinu með snúandi boltanum upp á hökuna sína og hélt því í jafnvægi, síðan rétti hann litlum krakka spjótið og lét alla klappa fyrir honum.
Daníel fékk sér sæti á einhjóli og hjólaði gólandi líkt og brjálæðingur út um allt.
Næsta atriði var kólumbíski strákurinn og svissneska stelpan, strákurinn lék listir með hattinum sínum og djöglaði á meðan stelpan spilaði lagið úr Amélie á blástursharmonikku. Hversu oft við höfðum heyrt hana spila þetta lag á tjaldsvæðinu var ómögulegt að vita. Strákurinnn missti keilurnar af og til í gólfið og var ekki mjög öryggur en uppskar þó klapp í lokin.
Á sviðið stigu tvær dansmeyjar í indverskum kjólum sýnandi beran magann, þær héldu á kertastjökum með grænum logum og stigu þokkafylltum skrefum um sviðið. Síðan létu þær stjakana á gólfið og byrjuðu að dansa við högg trommunnar sem Daníel sló líkt og að hann hafi alist upp við bakka Ganges. Áhorfendaskarinn, sem fór stækkandi, klappaði æstur taktinn með dansinum. Dansmeyjarnar, brosandi út að eyrum, sveifluðu mjöðmunum líkt og um rólu væri að ræða og uppskáru fagnaðaróp þegar þær hneigðu sig í lok atriðisins.
Trúður hljóp um leikandi listir með boltum sem hann kastaði upp í loft og greip, krakkarnir voru mjög ánægðir með hann, sérstaklega þegar að hann datt á rassinn.
Trumbusláttur byggði upp spennu fyrir næsta atriði. Svissneska stelpan, Salka, klifraði upp í langt tvískipt klæði sem hékk úr tré og lék ýmsar listir, hangandi á hvolfi, snúandi sér í hringi, klifrandi upp og vefjandi klæðinu um sig. Þegar hún var komin efst upp í klæðið lét hún sig falla og í sekúndubrot hélt ég að hún myndi skella í gólfið en klæðið hélt henni örugglega uppi.
Lokaatriðið var eldimagnað. Ivan kveikti í þremur kyndlum og fékk sjálfboðaliða til að leggjast á jörðina og yfir honum, róna af götunni, fleygði hann logandi kyndlunum hátt upp í loftið og greip þá síðan af mikilli list. Síðan voru fjórar manneskjur á sviðinu, allar leikandi með eld, haldandi eldkyndlum á lofti og sveiflandi eldkúlum. Fljúgandi eldurinn var mikið sjónarspil í næturbirtunni.

Fólk var duglegt að gefa þeim pening í hattinn og með þeim gátu þau keypt mat handa öllum í hópnum og eftir sýninguna sátu þau öll saman á tjaldsvæðinu og átu sig södd og ráku upp gleðióp eftir vel heppnaða sýningu.

Á öðrum deginum okkar í þorpinu rákum við augun í krúttlegt kaffihús sem hét Siriá, ég fékk mér sæti í þægilegum sófa og Íris lagðist í hengirúm og við drukkum kaffi og lásum og skrifuðum í svölum skugganum. Staðurinn skiptist í útisvæði og innisvæði, úti er hengirúmið og sófinn og inni eru borð með kollum og stólum. Úr loftinu hanga litríkir óróar, á veggnum synda litríkir fiskar, málverk fylla staðinn af lífi, í krakkahorninu hanga listaverk eftir krakka og hundrað barnabækur í stórum bala (m.a. Tinnabók sem ég las fullur af kátínu), stólarnir handmálaðir, borðin handmáluð, brazilísk jazztónlist á vís við frumbyggjatónlist úr frumskóginum og eitt besta grænmetisfæði sem ég hef smakkað eldað af yndislegu konunni sem á staðinn, Bettaníu. Við byrjuðum að venja komu okkar á staðinn, eiginlega á hverjum degi kíktum við í kaffi eða hádegismat. Á kvöldin settu þau stundum upp bíótjald og sýndu yndislegar bíómyndir og eitt kvöldið sýndu þau eina bestu mynd sem ég hef séð: La Belle Verte.

Eitt eftirmiðdagið sat ég í sófanum og las í hinum mikla meistara Nisgardatta Maharaj. Það var rigning úti og ljúft að sötra kaffi undir regnskýlinu. Eftir veginum kom maður á hjóli, rennandi blautur og renndi sér í hlað til að fá sér hressingu. Augun okkar mættust og við heilsuðumst. Hann var greinilega fastagestur af því að hann faðmaði Bettaníu sem kom með rjúkandi heitt kaffi handa honum. Hann kveikti sér í handvafinni sígarettu og fékk sér sæti á litlum kolli rétt hjá mér. Andlitið myndarlegt og brosandi, léttskeggjaður, yogabúkur, friður og ró stafaði út frá honum og geislandi augu gáfu til kynna vaknaða sál. Við tókum tal saman.
Hvaðan ertu, spurði ég hann.
Írlandi, svaraði hann með þykkum hreim.
Ertu búinn að vera lengi hérna, spurði ég.
Eitt og hálft ár, var svarið.
Áhugavert, ertu þá að leigja húsnæði? Hvað ertu annars að gera hérna?
Reyndar byggði ég mér hús í frumskóginum. Við erum með jörð hérna rétt fyrir utan bæinn og sjáum um ayahúasca-athafnir. Ég er búinn að vinna með ayahúasca í sjö ár, sagði hann og fékk sér sopa af kaffinu.
Eftir smá spjall vorum við komnir yfir í djúpar samræður um veruleikann, aðrar víddir, drauma, guð, hugleiðslu og meðvitund.
Fólk fer að sofa á kvöldin og meðvitundin þeirra flyst yfir í aðra vídd þar sem að önnur lögmál gilda og ótrúlegir hlutir gerast, en flest fólk gerir sér ekki grein fyrir mikilvægi drauma og afskrifar þá sem eitthvað sem heilinn spinnur upp og gleymir þeim án þess að gefa þeim gaum, sagði hann.
Við tökum draumana sem sjálfsögðum hlut, við sjáum ekki mikilfengleika þeirra af því að þeir eru beint fyrir framan nefið okkar, sagði ég.
Hann hélt áfram: Þú og ég, við erum til í mörgum víddum og búum yfir ótrúlegu afli. Þegar ég segi orðið dreki, sérðu dreka fyrir þér? Hvaðan kemur þessi dreki, hvað í raun og veru er aflið sem við köllum ímyndunaraflið? Hvernig virkar það? Höfum við aðgang að myndefni úr öðrum víddum sem við vörpum fram á tjald hugans?
Hann hélt áfram, ég hlustaði gaumgæfilega: Ég er ekki til, þessi búkur er blekking. Ég er ódauðleg meðvitund. Ég er ekki hræddur við neitt. Ósjálfrátt er ég vitni að öllu sem kemur upp í huganum og líkamanum. Ég er í þessum búk af ástæðu, ég hef verk að vinna, einhverjum tilgang að sinna, hlutverk að uppfylla, það vinna kraftar í gegnum mig sem stuðla að því að vekja fólk. Flest fólk er sofandi. Það trúir á tryggingar, bankalánið sitt og fína húsið og þolanlegu vinnuna sem það neyðist til að gera, það trúir á metorðastigann, það vill ekki heyra að það sé ónauðsynlegt að taka lán og að merkjavörur muni ekki skila þeim hamingju. Ég er breyttur maður. Ég horfi til baka á sjálfan mig og hugsa: Hver var þetta? Var þessi manneskja ég?
Ég tek við orðinu: Ég var allt önnur manneskja fyrir þremur árum, ég trúi því að mannkynið sé að vakna fyrir eigin guðdómi af því að ég finn breytingarnar í sjálfum mér og á vegi mínum hitti ég reglulega vaknað fólk sem hefur sömu sögu að segja. Það er andleg bylting í gangi og hún er að gerast innra með okkur. Ég er mjög bjartsýnn á framtíðina. Því fleira fólk sem vaknar því auðveldara verður það fyrir hina að vakna. Því útbreiddari og viðteknari hugmyndin er, að við séum öll eitt, því auðveldara verður það að slökkva á sjónvarpinu og setjast niður í hugleiðslu.

Við héldum áfram að spjalla með glóandi augu og ánægju í eyrunum. Það er ekki á hverjum degi sem maður hittir mannveru sem er að upplifa sömu hluti og maður sjálfur. Hann sagði mér frá ayahúasca upplifunum; þegar að meðvitundin hans tilfluttist í maur og hann var staddur í maurabúinu og skildi þá, fyrir maurunum var allt skýrt, allt í reglu, gáfaðar verur; þegar að hann treysti tónlistinni og leyfði henni að opna þriðja augað sitt og spyrna sér yfir í aðra vídd; þegar að prófraunir voru lagðar fyrir hann, þar sem viljastyrkurinn hans og siðferði var prófað.

Það leið á daginn. Hann bauð mér að koma í heimsókn hvenær sem er. Við kvöddumst með faðmlagi, hann hjólaði út úr bænum og ég fór niður á strönd að halda jafnvægi á slackline’inu.

Daginn eftir sat ég á torginu og horfði á mannlífið. Gamall skítugur farandsöluhippi með þykka dredda sat á gangstéttinni og drakk bjór. Brazilískir ferðamenn tóku myndir hver af öðrum. Litlir fuglar flögruðu á milli greina í stóra mangó trénu. Himininn blár og eins og venjulega var ég ekki klæddur í neitt nema sundbuxurnar mínar. Eftir götunni meðfram torginu keyrði stór jeppi með skúffu. Í skúffunni stóðu fjórir menn og héldu borði kjurru, á borðinu var risavaxin kaka. Kökubíllinn keyrði hægt út götuna og tók vinstri beygju. Stuttu síðar kom annar eins bíll með stærðarinnar köku. Síðan þriðji, síðan fjórði. Hvaða kökuveisla er í uppsiglingu, spurði ég sjálfan mig. Ég hitti Tiago, brazilískan strák með stór saklaus augu og dredda sem létu hann líta út fyrir að vera geimvera. Hann sagði mér: í dag á þorpið afmæli, það er 256 ára gamalt. Í kvöld verður kökuveisla.

Um kvöldið, eftir að hafa horft á bíó á kaffihúsinu, lögðum við leið okkar niður að torginu sem er í mínútu göngufjarlægð. Það var stútfullt af fólki. Fólk hélt á diskum og bökkum með risastórum kökusneiðum. Við gengum inn í stóran íþróttasal sem ég hafði aldrei tekið eftir áður og við blasti litríkt sjónarspil. Í salnum var tuttugu borðstofuborðum raðað í hring, borð þar sem að tíu manneskjur geta fengið sér sæti og borðað hátíðlega, og á hverju borði var risavaxin kaka. Ég hafði aldrei séð svona mikið af köku á ævinni. Kökur hér, kökur þar og kökur allstaðar. Þetta var eins og fermingarveisla heillar fílahjarðar eða draumur fimm ára krakka. Hávær tónlist blandaðist kjamsi og kökuhrópum. Fólk fór hringinn og fyllti ílátin sín af köku, sumir voru með plastpoka sem þeir fylltu af kökusneiðum og tróðu í bakpokann sinn. Kökurnar voru allar mismunandi en allar jafn risavaxnar, kremaðar, sykraðar og regnbogalitaðar. Fólkið við kökuborðin skar sneiðar eins hratt og það gat og þegar sneiðarnar kláruðust af borðunum sá ég krakka skafa kremið af kökuplötunum með puttunum. Gömul kona rétti okkur plastdisk og við fengum kökusneið. Hún var svo sæt og fyllandi að mér var orðið illt í maganum eftir hálfa. Ég sá mann troða kökusneið upp í sig, nánast kyngja henni og vinda sér beint í aðra. Hægt og rólega hurfu terturnar upp í munna og niður í maga. Við hörfuðum út á torgið til að komast í burtu frá kökunum og kökuáti en þar stóð Ivan sem bauð okkur köku af bakkanum sínum sem hann var búinn að fylla af kökum. Ég hugsaði með mér að farandsöluhipparnir hljóta að hafa nýtt tækifærið og þegar ég kom aftur heim á tjaldsvæðið sá ég að ónýti ísskápurinn var troðfullur af kökusneiðum.

Eina af fyrstu nóttunum okkar á tjaldsvæðinu var svo heitt að um kvöldið tókum við himininn af tjaldinu vegna svitaslykju og loftleysis. Tjaldinu var tjaldað undir regnskýli búið til úr spýtum og plasti en plastið var eilítið götótt. Um nóttina vaknaði ég við grenjandi rigningu. Það láku dropar úr þakinu. Ég stökk út úr tjaldinu, setti himininn aftur á og nóttini var bjargað. Aðra nótt seinna í vikunni vöknuðum við í polli. Rigningin féll líkt og örvadrífur milljón hermanna í baráttu upp á líf og dauða. Dropar höfðu lekið í gegnum stærsta gatið og myndað lón í sandinum sem tjaldsbotninn þoldi ekki. Ég hoppaði út á sundbuxunum með vasaljós í kjaftinum. Ég skóflaði pollinum undan tjaldinu, mokaði sýki í sandinn og bjó til farveg fyrir vatnið þannig að það rann í burtu frá tjaldinu, síðan reisti ég varnarvegg til að passa upp á tjaldið. Á meðan þurrkaði Íris inni í tjaldinu og setti regnponchoið sitt yfir botninn, síðan kom hún út og við færðum tjaldið lengra í burtu frá sýkinu sem fylltist hægt og rólega af vatni. Ég var orðinn rennandi blautur er ég kom aftur inn í tjaldið. Ég þurrkaði mér með handklæðinu og við fórum aftur að sofa. Mér hafði aldrei verið svona kalt í Alter do Chão.

Eitt kvöldið fórum við á einstaklingssýningu sem hippasamfélagið sem á heima á eyjunni Macaco setti upp. Kona, máluð blá í framan, sagði frumbyggja sögu og lék listir.
Einu sinni lifðu mennirnir í sátt og samlyndi við náttúruna, þeir dönsuðu, sungu og ræktuðu jörðina með ást í hjartanu, fyrir þeim var allt guðdómlegt, sagði hún og steig dans við trumbuslátt og sveiflaði eldkúlum sem virtust vera sólir á tímalausum sporbaug um svartmyrkur alheimsins.
En eitt kvöldið kom púki sem hrifsaði guðdómleikann frá mönnunum og faldi hann, en það var mjög erfitt að að finna góðan felustað, sagði hún og lék kristalskúlu renna eftir hendinni sinni, meðfram viðbeinunum og yfir á hina hendina. Kúlan táknaði guðdómleikann og hún reyndi að fela kúluna á ýmsum stöðum og krakkarnir sem sátu fremst sprungu úr hlátri þegar hún faldi kúluna bakvið gamlan mann í áhorfendaskaranum.
Hún kastaði eldkyndlum upp í loftið sem dáleiddu áhorfendurnar. Síðan klifraði hún upp haldandi í tvö klæði sem héngu úr loftinu og lék ótrúlegar listir sem krefjast styrks, jafnvægis og hugrekkis af því að hún var það hátt upp í loftinu að ef hún hefði dottið hefði hún slasað sig alvarlega.
Hún lokaði sig inn í klæðinu sem myndaði hjúp utan um hana á meðan hún hékk í loftinu og sagði: Púkinn fann stað til að fela guðdómleikann, stað þar sem að maðurinn myndi aldrei finna hann; innan í honum sjálfum.
Fallegir krakkar og frjálst fólk undir frumskógarstjörnum, brosandi og minnt á veruleika eigin veru stóðu upp og klöppuðu af miklum ákafa.

Við vöknuðum fyrir sólarupprás og gerðum okkur til. Við pökkuðum saman tjaldinu, fengum okkur morgunmat og settumst og biðum eftir hinum sem ætluðu að koma með í ferðina. Þór hafði verið veikur í þrjá daga og fór á hótel til að jafna sig en hann hélt áfram að gista í þæginlega einkaherberginu í þrjár nætur í viðbót eftir að hann náði sér og eyddi nóttunum í að horfa á bíómyndir talsettar á portúgölsku og deginum í að sofa, venjulega vaknandi klukkan hálf fimm á daginn. Ég bjóst við því að þurfa fara á hótelið að vekja hann en Þór var kominn á tilsettum tíma á tjaldsvæðið, hann hafði ekkert sofið um nóttina og var vel víraður, talandi hratt og af ofstopa um hluti eins og að hengja upp þvott. Það kom í ljós að lásinn minn var of stór fyrir skápana á tjaldsvæðinu en Þór hvarf án þess að segja orð og eftir örfáar mínútur kom hann aftur með tvo lása, brosandi og hreyfandi augun hratt í svefnleysisvímu.

Allt var tilbúið og allir komnir, nema Tiago, viðskiptafræðamenntaði brazilíski strákurinn með stóru augun, geimverudreddana og með drauma um að spila tónlist á götunni í Evrópu. Hann lét okkur bíða eftir sér í einn og hálfan tíma og þegar hann kom á tjaldsvæðið var ekki merki í barnalegum svip hans sem sagði til um að hann hefði gert eitthvað ónotalegt eða slæmt. Ég og Íris tókum á móti honum, frekar pirruð og sögðum að við værum búin að bíða eftir honum heillengi. Þrátt fyrir að við höfðum talað við hann tveimur dögum fyrir og Daníel líka þá var hann ekki viss um hvenær við ætluðum að fara og fyrir tilviljun hitti hann á Ivan, þegar að Ivan var að kaupa bensín á bátinn, og Ivan sagði honum að við værum að bíða eftir honum. Þá hjólaði hann og náði í dótið sitt og kom á tjaldsvæðið alveg ómeðvitaður. Eftir nokkrar mínútur, þegar við vorum öll komin í bátinn, baðst hann fyrirgefningar. Ég fyrirgaf honum fljótlega af því að hann er 23 ára krakki og það er erfitt að vera pirraður út í krakka.

Daníel eða El Negro líkt og Ivan kýs að kalla hann, ýtti litla græna bátnum úr vör og hoppaði um borð. Ivan rykkti mótornum í gang og hófst þá siglingin. Marie, 28 ára frönsk stelpa, arkítekt og ferðalangur, sat á móti okkur Írisi. Ivan og Daníel sátu hjá mótornum og hlóu og sungu, Tiago hjá töskunum og við hliðina á honum lá Þór sofandi. Í loftinu var ferðagleði og sykursæt sól sem komst ekki í gegnum litla laufvafða þakið. Fljótlega vorum við komin úr augsýn frá þorpinu. Okkur á vinstri hönd var skógivaxinn bakkinn, fyrir ofan okkur blár himininn með einstaka skýi og á hægri hönd, lengst í burtu mátti sjá glitta í hinn bakkann; áin glampaði og flaut áfram áreynslulaust, róleg og öldulaus. Daníel tók upp björgunarvestin og Ivan sagði að það væru vesti fyrir alla nema El Negro, það vildi svo til að vestið hans gleymdist í landi og í þokkabót kann hann ekki að synda. Ivan, með langa dredda og klæddur í Bob Marley bol, hélt í mótorinn og stýrði okkur af mikilli ró með pírð augun líkt og hann hafi nýverið reykt jónu, sem hann hafði jú gert og aðstoðar stýrimaðurinn Daníel líka. Kapteinninn er í ákjósanlegu ástandi, sagði Íris og við hlóum. Daníel tók upp gítarinn, fór að syngja og Ivan tók undir viðlagið. Báturinn rann ljúflega eftir ánni og Þór lá á gólfinu og dreymdi ljúfa drauma.

Eftir einn og hálfan klukkutíma tókum við land til þess að teygja úr okkur og einnig, líkt og Ivan orðaði það, gera kúkú eða pípí. Ég og Íris tókum upp brauð og Nutella og deildum því með hópnum sem kláraði dolluna á augabragði. Sandurinn var mjúkur og steinarnir í grynningunum litríkir, stór tré stóðu úti í vatninu og ég labbaði aðeins meðfram ströndinni í burtu frá hinum til að gera þarfir mínar og baðaði mig síðan nakinn í vatninu og átti góða stund með sjálfum mér og endurspeglun himinsins í ánni. Þegar ég kom aftur til hópsins voru Ivan og Daníel að kveikja sér í einni grænni. Síðan sungu þeir, lömdu trommuna og blésu í flautuna í smá stund áður en við lögðum aftur af stað. Núna sat Daníel við mótorinn. Ivan, á svipinn eins og bólufreðinn Búddha, sat á hinum enda bátsins og lamdi í trommuna í gervihugleiðslu grasvímunar. Daníel bað hann um að kasta til sín sólgleraugunum sínum en Ivan hitti ekki og henti þeim í þakið, í annari tilraun tókst honum þó kastið. Ég get ekki sagt að traust okkar á leiðsögumönnunum hafi aukist með hverri mínútunni en einhvernveginn treystum við bjánunum sem sungu og hlógu á milli þess sem þeir sungu og hlógu ennþá meira.

Skyndilega varð þungt yfir himninum líkt og að hann hafi fengið áhyggjur af framtíðinni og farið í slæmt skap. Úr grámanum byrjuðu að leka dropar. Ivan breiddi plast yfir farangurinn og við hin hjúfruðum okkur saman undir laufvafða regnskýlinu. Dropar lentu í ánni og mynduðu hringlaga gárur í bárunum. Hringlaga gárur sem komu og fóru líkt og við sjálf. En það varð ekkert úr hellidembunni sem virtist vera á leiðinni og himininn fór aftur í gott skap líkt og að hann hafi verið hughreystur af gömlum vin.

Við erum komin, sagði Ivan, heim í náttúruna okkar. Við komum í land á sólsleginni strönd. Er við tókum töskurnar okkar af bátnum var ekki mannveru að sjá og öldufallið eina tónlistin sem ómaði í róboðandi endurtekningu. Rétt við ströndina stóð hvítmálað tveggja hæða hús, stórt og mikið, veggjalaust og opið og reist á stultum. Ivan, Daníel, Marie, Tiago og Þór komu hengirúmunum sínum fyrir á fyrstu og annari hæðinni á meðan ég og Íris fundum herbergi á efri hæðinni með stærðarinnar rúmi. Síðan lögðust sumir til hvíldar og leyfðu öldunum að vagga sér í blund á meðan að hinir fóru og böðuðu sig í ánni. Ég settist í ruggustól og horfði yfir ánna sem virtist vera úthaf, það sást dauflega yfir á hinn bakkann og þar sem áin rann áfram hvarf hún inn í sjóndeildarhringinn og virtist vera endalaus og án upphafs. Ég og Þór spjölluðum saman og ég var núfastur í ómælanlegu tímaleysi. Ég reyndi að sannfæra Þór um að halda sér vakandi fram á kvöld í staðinn fyrir að hvíla sig í fjóra tíma líkt og hann vildi gera. Hann fór og baðaði sig í ánni, ég nýtti mér tækifærið og setti upp hengirúmið hans og sökk í svefnrof auðgleymdra drauma. Ég rankaði við mér og fékk mér sæti hjá Írisi sem var að dotta í hinum ruggustólnum. Við sátum hlið við hlið líkt og gömul hjón og ákváðum að fara í göngutúr til að hressa okkur við. Stór tré vöktu yfir ströndinni og örfáu húsunum sem stóðu á víð og dreif innar í landinu. Hænur hoppuðu um rótandi í jörðinni eftir æti og tístandi ungar eltu mömmur sínar. Við fundum matvöruverslun sem var opin en enginn að afgreiða. Vörurnar stóðu í viðarhillum og störðu á okkur tómum augum. Við gengum eftir moldarvegi og fundum plöntur sem bregðast við því þegar maður snertir þær, þær lokuðu laufblöðunum við minnstu snertingu og hnipruðu sig allar saman ef maður potaði hressilega í þær. Við gengum eftir stíg sem leiddi inn í skóginn og sáum fugl gogga í tré, stígurinn leiddi okkur að frumskógartjörn. Við snérum við endurnærð eftir labbið og á leiðinni til baka fann ég plöntu sem ég kynntist í Ekvador, ég tók fræbelg og opnaði hann, inni í honum sátu rauð fræ sem ég makaði framan í mig og litaði mig rauðan. Með miklum erfiðismunum tókst mér loksins að þrífa litinn í burtu eftir langt bað í ánni.

Við ströndina stóð stórt fjólublátt tveggja hæða hús með verönd sem umkringdi húsið. Þar bjuggu eigendur gistihússins, gamall krúttlegur karl og gömul krúttleg kona. Um kvöldið eldaði konan fyrir okkur og við settumst öll saman og borðuðum fylli okkar af hrísgrjónum, baunum og fisk fyrir þá sem vildu. Áður en við byrjuðum að borða héldumst við öll í hendur og sungum lag sem að Ivan lærði af indjánum. Ivan þakkaði fyrir matinn og þakkaði fyrir að það væru engir Argentínubúar viðstaddir. Við hlógum. Ivan og Daníel byrjuðu að tala illa um fólk frá Argentínu og síðan sögðu þeir okkur frá hlutum sem gerast við þá sem deyja áfengisdauða eða sofna í partýi í Venezúela. Þeir hrækja í smokk og binda utan um hann, setja hann í lófann á þeim sem sofnaði og þegar að sá óheppni vaknar sannfæra þeir hann um að honum hafi verið nauðgað.

Nóttin var björt undir tunglinu. Við lögðumst upp í mjúkt rúm og höfðum regnponchoið undir okkur af því að það var ekkert lak og leyfðum ölduhljómunum að rugga okkur í svefn. Ég svaf djúpt og lengi og dreymdi marga drauma.

Um morguninn borðuðum við bananahafragraut, yuca-pönnubrauð með grænmetisfyllingu og drukkum te sem að Daníel lærði að búa til þegar að hann var Hare Krishna munkur. Síðan þrömmuðum við áfram veginn undir flautuspili og baráttusöngvum. Um leið og við stigum út fyrir hússins dyr byrjaði að rigna úða yfir okkur. Vegurinn sem við gengum eftir var moldarvegur og af og til kom mótorhjól fram úr okkur eða skólarúta. Húsin við veginn voru einföld og við veifuðum fólkinu sem veifaði til baka. Eftir tuttugu mínútna göngu kom til okkar maður og sagði að leiðsögumaðurinn myndi koma eftir smá og að við ættum að bíða eftir honum í stóru regnskýli. Við fengum okkur sæti í hringlaga rými á fallega útskornum bekkjum sem voru í laginu eins og skjaldbökur eða frumskógarkettir og þak vafið úr laufum varði okkur frá úðanum. Eftir smá bið kom til okkar hraustur miðaldra maður sem sagði ekki meira en nauðsynlegt var, hann tók í hendurnar okkar og leiddi okkur út úr þorpinu og inn í töfragarð hundraðþúsund laufa þar sem að augun syntu um í grænum djúpum lit og himininn rétt svo gægðist í gegnum þykkni gróðursins sem virtist vaxa úr öllum áttum.
Við gengum dýpra og dýpra inn í fornu veröld frumskógarins. Ég var með farangurinn okkar beggja í einni tösku og tók að þreytast í brekkunum sem leiddu okkur hærra og hærra upp. Því lengra sem við fórum því þykkari varð skógurinn, fljótlega komum við að mörkunum þar sem að skógurinn var alfriðaður og ósnertur. Blátt risafiðrildi flögraði yfir stígnum og sprækur fugl þaut í gegnum trjáþykknið. Eftir einn og hálfan tíma komum við að litlu skýli með laufþaki, einu borði og vegg í einu horninu. Við losuðum okkur við töskurnar, hvíldum okkur aðeins og héldum svo áfram göngunni laus við þyngdina af herðunum. Leiðsögumaðurinn leiddi halarófuna og benti af og til á nytjaplöntur og lækningajurtir. Ég reyndi að staðsetja mig nógu langt í burtu frá Daníel og Ivan, sem töluðu viðstöðulaust, til að geta notið þagnarinnar og hlustað á skordýrin og fuglana syngja. Eftir klukkutíma göngu komum við á áfangastað ferðarinnar. Við okkur blasti sex hundrað ára gamalt tré. Augun mín opnuðust af undrun og náttúrudýrkun. Ég sá ekki bara tré, ég sá Móður Jörð standa fyrir mér gnæfandi upp í himininn og breiðandi út arma sína. Ég sá ævaforna viskufyllta risaveru og ég gleymdi sjálfum mér í greinunum, laufunum og fagurmunstraða berkinum.Trjábolurinn var svo þykkur að það þyrfti sex tugi manna til að haldast í hendur og umkringja það. Ég gekk hringinn í kringum tréð og settist við rætur þess sem voru jafn þykkar og venjuleg tré. Ég lokaði augunum og fann velviljaða orku flæða inn í veru mína frá trénu. Ég hugsaði með mér hvernig trénu tókst að verða svona risavaxið og mikilfenglegt og viðarhjartað hvíslaði að mér leyndarmálinu sínu: Þrotlaus þolinmæði. Við sátum lengi og dáðumst að trénu í dulspekilegri dýrð.

Við gengum hungruð til baka í skýlið og skárum niður grænmeti og kveiktum eld. Síðan þegar að grænmetið var skorið og bálið brann af krafti settum við pott á hlóðirnar og biðum eftir súpunni. Fólkið setti upp hengirúmin sín og við tjölduðum tjaldinu okkar. Myrkrið skall á og garnirnar gauluðu líkt og spikfeitur ítalskur óperusöngvari. Tunglið sem var næstum því fullt lýsti upp dimmuna sem lék við dularfullan skóginn í kringum okkur. Til að setja eitthvað í magann fengum við okkur yuca-mulning með sykri sem bragðaðist eins og kornflex með alltof miklum sykri. Loksins varð súpan tilbúin og hver munnfylli var lífgefandi og yndisleg. Við lögðumst södd og glöð upp í tjald og þytur skordýranna togaði okkur í drauma.

Eftir morgunmatinn var ég að beatboxa í rólegheitunum og Ivan byrjaði að rappa og þegar hann hætti tók Daníel við sem flæddi líkt og hann hefði alist upp í Brooklyn og Ivan fór að beatboxa líka og Tiago fór að slá skeið í disk og það var rappað og rappað. Á leiðinni út úr skóginum tókum við stutt stopp og sveifluðum okkur líkt og Tarzan. Ég komst á þokkafullan hátt á flug og sveif í gegnum skóginn og spyrnti mér í stærðarinnar tré og byrjaði að fljúga til baka og áður en ég vissi af var mér búið að takast að skella bakinu í stærðarinnar lurk. Ég jafnaði mig líkt og Tarzan hefði gert og við héldum áfram röltinu út úr skóginum og ég fann hugann sveima fram í framtíðina – ég dró andann djúpt og opnaði skynfærin fyrir núinu. Ímyndanir og hugsanir höfðu sig á brott. Laufhafið, djúpur grænn litur flöktandi í golunni, skordýratónar og hreint loft í indælli þögn af því að ég labbaði aftast. Brún laufin sem þöktu jörðina minntu mig á dauðann og nýsprotnu grænverurnar sem gægðust upp úr jörðinni minntu mig á endurfæðingu. Ég leiddi meðvitundina inn í þögla skynjun; ég var Alveran á hreyfingu um Alveruna, ég skynjaði hvert einasta skref, ég var ekki líkaminn, ég var heimurinn.

Það var undurljúft að labba út í ánna og baða af sér frumskógarsvitann. Við borðuðum kex og lágum í leti. Ivan eldaði baunir og hrísgrjón og eins og venjulega sungum við þakklætissönginn fyrir matinn og eins og venjulega þurftum við að bíða eftir Tiago sem var ekkert að flýta sér þegar að við kölluðum á hann í mat. Við meltum og lágum aðeins meira í leti og sungum. Síðan settum við farangurinn í bátinn og lögðum af stað þegar að Ivan og Daníel voru búnir að reykja.

Allir voru í hamingjuskapi. Áin slök og sólin blíð. Ivan spilaði á gítar, Daníel hélt í mótorinn og söng og Tiago sló trommuna. Þór kom öllum skemmtilega á óvart þegar að hann fór að rappa einhverja helþétta Fenrisúlfavísu yfir trommutaktinn. Himininn glansaði bláma og ský svifu í fjarskanum. Eftir langa skemmtisiglingu fór dagsljósið að dofna. Daníel söng þakkarsöng til sólarinnar er hún seig. Gullöldur dönsuðu í grænsilfurkjólum. Þeir slökktu á mótornum. Heilög þögn tók við. Ivan slengdi sér út í ánna. Ég stóðst ekki mátið og tók heljarstökk út í vatnið og þegar ég lenti fann ég fyrir dýptinni og þögninni sem var ekki til staðar við bakkann.
Frá sjónarhóli vatnsyfirborðsins horfði ég agndofa á eitt fallegasta sólarlag sem ég hafði á ævinni séð. Ský á stærð við konungsríki, bleik líkt og rósir. Sólin hrein og rauð líkt og tifandi vökvi lífsins eða blóm í földum fjalladal. Við vorum öll bundin saman í augnablikinu, snortin af fegurð og ljóma alheimsins.

Við sigldum í höfn undir silfurmána sem vantaði einn dag í að vera fullur. Við komum okkur fyrir á tjaldsvæðinu og gerðum chai og ég settist í hugleiðslu. Ég rann inn í dýpstu leiðslu ævi minnar. Ég var meðvitundin að vera meðvituð um sjálfa sig. Ég var tómur í kollinum og fullur í hjartanu. Eftir langan tíma í djúpi sjálfs míns komst ég til venjulegrar meðvitundar og varð meðvitaður um að ég var algjörlega blóðlaus í fótunum. Ég lagðist og þagði.

Á tjaldsvæðið var komin einstæð móðir með tveggja ára strákinn sinn. Fyrstu nóttina sem við sáum hann var hann brosandi út að eyrum borðandi hafragraut úr plastglasi. Síðan daginn eftir var hann hágrátandi og daginn eftir grét hann ennþá meira. Mamman, stelpa frá Chile um þrítugt sem eignaðist strákinn með brazilíumanni, var auðsjáanlega þreytt og ég sá votta fyrir í augum hennar að hún vildi ekki eignast þetta barn og hún var ekki starfinu vaxin að ala upp strákinn; hún tók hann upp þegar að hann hætti ekki að gráta og sagði honum að þegja þegar að það eina sem að hann þurfti var ást. Hippatjaldsvæði er ekki ákjósanlegur staður fyrir krakka sem ætti að vera á leikskóla eða að minnsta kosti í einhverri snertingu við önnur börn. Á þessum tímapunkti fannst mér þetta sorglegt; peningalaus hippamamma ráðalaus með grátandi krakkann sinn á tjaldsvæði; hippasirkuslífsstíllinn með barn í farteskinu brann í rauðum logum fyrir mér þegar að mamman spurði Írisi, sem hafði huggað strákinn einu sinni þegar að hann stóð grátandi inni í eldhúsinu, hvort að hún gæti passað strákinn fyrir hana í fjóra tíma á meðan hún færi með annarri hippastelpu til Santarem að djögla á umferðarljósum til að vinna sér inn einhverja peninga af því að þeir væru alveg á þrotum. Hvað gat Íris gert annað en að samþykkja barnið sem var stungið inn á hana fyrirvaralaust að morgni til. Mamman vissi ekki einu sinni hvað Íris hét þegar að hún spurði hana og þegar að hún þakkaði henni fyrir um kvöldið, eftir að hafa komið fimm tímum of seint, sagði hún nafnið hennar rangt. Íris passaði krakkann sem brosti allan daginn og þegar að mamman kom var Íris alveg uppgefin og staðráðin í að hún væri ekki tilbúin í að eignast barn næstu fimm árin. Ég hugsaði um þann hrikalega glæp að fæða barn inn í heiminn og yfirgefa það líkt og faðir stráksins hafði gert og líkt og Daníel hafði gert við fimm ára dóttur sína sem á heima hjá móður sinni í Venezúela.

Eftir að hafa drukkið morgun chai’ið og gert allt tilbúið fórum við með töskurnar í bátinn. Íris brosti sólkinsbrosi og Nico, Daníel, Ivan og austurrísk stelpa reyktu jónu er báturinn rann úr vör. Þór varð eftir á tjaldsvæðinu, hann þáði ekki boðið að heimsækja Macaco, hippaþorpið sem var orðið goðsagnakennt fyrir mér. Ég geislaði af gleði og var ótrúlega spenntur. Himininn var hreinn og vatnið spegilslétt. Frumskógurinn í kringum vatnið grænn og mikill. Ég andaði inn í hjartað mitt og fann ástarorkuna titra. Ég horfði inn í gárurnar og upp úr vatninu stökk silfraður höfrungur; ég gapti úr fegurð, hann sýndi sig aftur og hvarf síðan ofan í djúpið. Nicola, argentíski gítarsnillingurinn með þykkt brúnt skegg og bítlahár, klæddur í lausar buxur með bláan klút sem belti, plokkaði strengi og fyllti andrúmsloftið af glaðværum tónum. Ivan, sem átti heima í Macaco í meira en þrjú ár, útskýrði fyrir okkur fyrirkomulagið er báturinn flaut ljúflega áfram. Í Macaco eiga heima sex fjölskyldur eða tuttugu mannverur. Hver fjölskylda lifir í sínu eigin húsi og svo er eitt stórt sameiginlegt rými þar sem að krakkarnir leika sér og þar er sameiginlegt eldhús þar sem að þorpsbúar elda stundum saman stórar máltíðir. Einu sinni var það þannig að hver sem var gat komið í heimsókn án þess að tala við neinn og þá var mikið um að fólk kom til að slappa af og reykja gras og drekka áfengi en núna verður maður að þekkja einhvern og tala við einhvern frá Macaco sem verður að samþykkja heimsóknina. Þið tvö eruð bæði mjög róleg og passið vel inn í stemmninguna sem er í gangi núna; kyrrð, friður og ró; fjölskyldustemmning, bætti Ivan við. Það er ekki rukkað fyrir gistinguna í Macaco en í sameiginlega rýminu er baukur ef þið viljið gefa fjárframlag en það er algjörlega valfrjálst. Það er góður andi í fólkinu og allir eru indælir, þið eigið eftir að njóta ykkur í botn.

Við vorum komin í völundarhús þar sem að Ivan smeygði bátnum á milli trjánna sem uxu upp úr vatninu af meistaralegri yfirvegun. Frá því að við komum til Alter do Chão hafði vatnsyfirborðið hækkað um einn meter, þar sem áður var strönd var vatn og þar sem við sigldum á milli trjánna er sandur á þurra tímabilinu. Farþegar um borð pössuðu sig á greinum sem reyndu að komast um borð í þröngum beygjum og sluppu allir ómeiddir fyrir utan nokkrar skrámur sem Daníel fékk í ógáti.

Við komum að litlu húsi sem stóð á stólpum úti í vatninu, meter yfir yfirborðinu, frá húsinu lá brú að landi. Húsið var varið með laufþaki og plasti og hengirúm hékk í einu horninu og lítið barnatjald með leikföngum í hinu. Við fórum í land rétt hjá húsinu og við okkur blasti stórt hús sem stóð í rjóðri við ánna. Gömul kona tók á móti okkur. Hún brosti mildu brosi og augun báru merki um hamingju. Hún heilsaði öllum og hélt svo áfram að vinda þvott og flauta með sjálfri sér. Við eltum Ivan sem þaut eftir stíg lengra inn í frumskóginn, gróðurinn var þykkur og umkringdi okkur. Ég leit upp og sá græna fegurð. Út frá stígnum láu fleiri leiðir í allar áttir. Við tókum beygju til hægri eftir smá labb og komum að sameiginlega rýminu; stórt rými með eldhúsi í einu horninu, stóru borði í miðjunni umkringt af bekkjum og í einu horninu stóð tjald og tvö hengirúm, þakið vafið úr laufum með yfirbreiðu úr plasti, hátt til lofts og trjástólpar héldu öllu saman uppi, gólfið þettpressuð mold og örlítið hækkað, engir veggir og grænverur gægðust inn. Við heilsuðum upp á stelpu frá Argentínu og strák frá Venezúela sem voru líka í heimsókn í Macaco og höfðu komið daginn fyrir. Við komum dótinu okkar fyrir og tjölduðum tjaldinu í þéttum frumskóginum í stuttri fjarlægð frá sameiginlega svæðinu.

Konan sem var með sýninguna um daginn kom og heilsaði upp á okkur, með henni var tveggja ára dóttir hennar, Pachita, sem faðmaði pabba sinn hann Ivan og sagði að hún vildi fara í bað. Ivan og konan höfðu verið saman í sjö ár en fyrir tveimur vikum slitu þau sambandinu og Ivan var að hugsa um að fara til Þýskalands með Daníel á vit draumanna og þar með yfirgefa dóttur sína. Ivan fór með hana niður að vatninu og bauð okkur með. Þegar við komum til þeirra stóð Ivan guðslifandi nakinn úti í vatninu sem náði honum upp í hné. Pachita, með ljóst hár og brún augu, buslaði í vatninu eins og lítill engill. Þið getið baðað ykkur alveg róleg hérna, sagði Ivan og brosti eins og Bob Marley. Ég, Íris og austurríska stelpan skelltum okkur úr fötunum og dýfðum okkur nakin ofan í grængeislandi vatnið. Sólin renndi gulli yfir frelsi hjarta míns. Íris synti í fangið mitt þar sem hún hékk góða stund áður en við fórum að synda í frumskógarvatninu. Við köfuðum niður á botn líkt og selir og fórum lengra út í vatnið þangað til að við náðum ekki til botns. Eftir góðan sundsprett gengum við upp stiga sem leiddi upp í húsið yfir vatninu, við sátum á pallinum og sólin þurrkaði okkur glaðlega. Við fórum aftur í sameiginlega rýmið og elduðum risa máltíð saman, ég sá um að gera salatið og á meðan ég skar niður gulrætur og ýmislegt grænmeti var tónlist spiluð af miklum krafti af heilli hljómsveit. Það var slegið á trommur, tekið í gítarinn og sungið með röddinni. Við settumst niður þegar allt var tilbúið, sungum þakkarsöng og tíu manneskjur deildu dýrð augnabliksins og borðuðu sig saddar með þakklæti í sálinni.
Eftir matinn setti ég upp slackline’ið í frumskóginum og labbaði fram og eftir línunni við undirspil tónlistarinnar sem ómaði frá húsinu yfir vatninu. Ég steig aftur og aftur upp á línuna þangað til ég var orðinn lekandi úr svita. Síðan tók ég dótið saman og rölti niður að vatninu og yfir brúnna sem liggur að húsinu yfir vatninu. Þar sátu Ivan, Daníel, Nico og Rodrigo og spiluðu frá hjartanu. Rodrigo er með sítt svart hár og ljúft andlit, hann á heima á eyjunni, heilsar með knúsi og spilar á flautu líkt og skógarálfur. Konan hans, brún og glansandi í sólinni, sat nakin á pallinum við stigann niður að vatninu og hélt á átta mánaða stelpunni þeirra sem horfði á heiminn gáttuð úr gleði. Mér fannst mjög eðlilegt að við værum að baða okkur nakin í vatninu. Afhverju að vera í sundfötum? Hvað höfum við að fela? Hvað höfum við að óttast? Nákvæmlega ekki neitt, hugsaði ég og hoppaði allsber ofan í kælandi vatnið til Írisar. Paradís var okkar.

Sólin tók að falla ofan í vatnið og litaði himininn með blómrauðu mistri. Ivan og fyrrverandi konan hans og dóttir þeirra Pachita, Daníel, Nico og austurríska stelpan fóru upp í bátinn og sigldu til Alter do Chão. Í því andartaki sem að ljósaskiptin féllu í hendur myrkursins komum við inn í sameiginlega rýmið þar sem við höfðum eldað saman um daginn. Við kveiktum á kertum og settumst niður til að skrifa í dagbækur og lesa. Í bókahillu í aðalhúsinu niðri við vatnið fann ég mér bók eftir Gabríel García Marquez og sökk mér ofan í stafi hennar sem blöktu undir fögru ljósu kertisins. Myrkrið var alsvart og notalegt. Þögnin var fullkomin og nóttin var hlý. Er kertin okkar höfðu brunnið upp til að agna lögðum við leið okkar í gegnum dimman frumskóginn og fundum tjaldið okkar sem stóð innan um þykkan gróðurinn. Á gólfinu lá teppið sem við höfðum keypt í dagsferð til Santarem og skuggar skógarins skreyttu veggi tjaldsins að innan. Ég settist niður í hugleiðslu og eftir smá stund byrjaði ég að heyra skrítin angurvær hljóð. Hljóðið var eins og blásandi vindur nema hann var andsetinn af djöflum sem vildu blóð. Hljóðið nísti líkt og einhver væri að kalla fram púka eða hafa samband við undirveröldina. Ég hélt áfram að hugleiða og lagðist síðan niður við hliðina á Írisi sem var líka búin að hugleiða. Hljóðið magnaðist og við heyrðum það bæði hátt og skýrt, það var ógurlegt og Íris varð dálítið hrædd og spurði eftir stutta stund hvort að mér findist það vera að nálgast okkur. Ég sagði að svo væri ekki og mundi eftir því hvað Elton, hippinn sem fór með okkur í frumskógarheimkynni sín, sagði um apana: Þeir öskra eins og risaeðlur. Hljóðin sem bárust okkur úr fjarska voru frá öskuröpum. Það byrjaði að rigna. Orðið regnskógur er gott. Það rigndi viðstöðulaust og óteljandi droparnir slóu takt er þeir lentu á tjaldhimninum. Í stutta stund óttaðist ég um að tjaldið myndi ekki þola fötuhellinguna en draumar helltust yfir mig og við sváfum þurr alla nóttina og vöknuðum í faðmlögum undir morgunhimni.

Í eldstæðinu raðaði ég litlum prikum í pýramída, líkt og Daníel kenndi mér daginn sem að gasið kláraðist á tjaldsvæðinu og ég þurfti að kveikja eld með rökum prikum til að útbúa chai, og undir pýramídann setti ég kerti, síðan gaf ég eldinum stærri og stærri prik að borða og blés líf í hann þangað til að ég gat komið lurki fyrir og þegar að eldurinn læsti sér í hann var bálið tilbúið. Við elduðum bókstaflega morgunmatinn og hituðum te. Við lágum í hengirúmum og lásum þangað til að við kláruðum að melta og fórum síðan að skoða svæðið. Við gengum eftir stíg sem leiddi okkur að rjóðri og húsinu hans Rodrigo sem var hringlaga vegglaust rými varið fyrir rigningu með laufþaki og plasti, pallur yfir jörðinni í einu horninu þar sem að rúm lá varið með flugnaneti, bækur stóðu í stöflum við rúmið og í einu horninu var borð og lítið eldhús. Við horfðum upp í trén og sáum apafjölskyldu klifra og hoppa á milli trjánna. Aparnir voru tignarlegir í hreyfingum og óttalausir. Lítill apakrakki hoppaði spakur á eftir mömmu sinni líkt og hann væri í sunnudagsgöngutúr um miðbæ Reykjavíkur. Við fylgdumst með öpunum sem litu út fyrir að vera kettir þegar þeir voru komnir í meiri fjarlægð og síðan hurfu þeir sjónum inn í haf frumskógarins.

Við gengum eftir stíg og komum að öðru húsi, síðan fórum við aftur inn á aðalstíginn og römbuðum inn á sirkushúsið, húsið þar sem Ivan átti heima, húsið sem fyrrverandi konan hans og Pachita eiga heima. Það var hátt til lofts líkt og í sirkustjaldi og stór pallur smíðaður úr timbri stóð í miðju húsinu. Úr loftinu hékk róla og líka þessi klæði til að klifra upp í; æfingaaðstaða fyrir sirkus. Bækur um allt á milli himins og jarðar stóðu í fallegri bókahillu og Ghandi plakat skreytti rýmið. Í horninu var eldstæði og fyrir neðan sirkuspallinn var leiksvæðið hennar Pachitu, afgirt svæði á stærð við hjónarúm fyllt af leikföngum. Allt í kring var frumskógurinn og til að fara niður að ánni þurfti að ganga tuttugu skref. Húsið var svo ævintýralegt að mér leið eins og að ég væri staddur í draumi.

Við gengum lengra eftir aðalstígnum og komum að opnu svæði þar sem að fólkið ræktaði hveiti, hitinn var steikjandi miðað við skuggasvalan skóginn. Við héldum áfram og eftir langa göngu heyrðum við daufa tónlist óma. Við komum að litlu húsi þar sem að gamall horaður maður, tannlaus að mestu leiti, með sítt grát hár, sat hjá litlu útvarpi með kaffi við höndina og bjó til skartgripi. Hann heilsaði okkur glaðlega. Húsið var ekkert nema stólpar sem héldu uppi laufþaki. Í hringlaga rýminu voru vinnubekkir og á þeim sátu ýmsir skrítnir hlutir smíðaðir úr beinum. Er þetta húsið þitt, spurði ég hann. Svona eiginlega, svaraði hann og brosti. Hann benti okkur á góðan göngustíg sem leiddi okkur að frumskógartjörn þar sem við settumst niður og nutum kyrrðarinnar.

Í Macaco lifði fólkið í friði frumskógarins, innan um regnbogalitaðar eðlur og öskurapa, undir vetrarbrautinni er draumanætur liðu og við ánna sem hreinsaði og svalaði þorsta þeirra. Landið var sameign og það borgaði enginn leigu. Fólkið vann saman þegar það þurfti að byggja eitthvað og ræktaði mat í sameiningu. Fólkið vann fyrir sér með því að selja brauð, búa til skartgripi, spila tónlist, setja upp sirkussýningu eða kenna Reiki námskeið. Þorpið var rafmagnslaust fyrir utan litla sólskífu sem gerði fólkinu kleift að hlaða rafmagnstæki. Að heimsækja Macaco var eins og að rifja upp gleymdan draum. Eitt sinn hafði ég séð fyrir mér slíkt líf á slíkum stað og nú sá ég með berum augum paradísina sem ég hafði ímyndað mér. Það rann upp fyrir mér að ég gæti gert hvað sem er, svo lengi sem ég gæti ímyndað mér það.
Fjórar nætur liðu í alsgnægtar friði og síðan snérum við aftur til Alter do Chão. Ég vildi alls ekki fara en það var kominn tími á að breyta til. Þegar við komum aftur talaði Þór um að hann vildi fara til Ríó og ég gat ekki ímyndað mér að stíga fæti inn í stórborg. Eftir eilitlar vangaveltur varð niðurstaðan sú að Þór keypti sér flugmiða til Ríó og ég og Íris ákváðum að kveðja Brazilíu og fara upp til Kólumbíu, landið sem við elskuðum bæði.

Nákvæmlega mánuði seinna yfirgáfum við Alter do Chão. Í bátnum frá Santarem til Manaus, sem tók þrjár nætur vegna þess að í þetta skiptið var báturinn að fara á móti straumi, vaknaði ég seinustu nóttina og fór á klósettið, þegar ég kom til baka í hengirúmið mitt var hvíslað á mig úr myrkrinu. Maður í hengirúmi rétt hjá mér lét mig vita að það hafði einhver verið að gramsa í töskunum okkar á meðan við sváfum. Ég opnaði töskuna mína og fann hvergi litlu höggheldu töskuna þar sem ég geymdi iPhone’inn, Kindle’inn og iPodinn. Ég vakti Írisi og hún fann hvergi myndavélina sína né iPodinn sinn. Við vissum um leið hver þjófurinn væri. Á öðrum degi hafði strákur með litað bleikt hár og ónýtar tennur komið hengirúminu sínu fyrir við hliðina á Írisi og verið með hávaða og ónotalegheit, m.a. verið að fikta í hengirúminu hennar á meðan hún var að reyna að sofa. Ég bað hann um að færa sig, af því að það var nóg pláss á öðrum stöðum, en þegar að hann hló að þeirri uppástungu skiptum við Íris um hengirúm. Núna um nóttina var hengirúmið hans hvergi að sjá, hann var horfinn. Við fórum að finna eiganda bátsins og töluðum við konu sem hafði verið vitni að glæpnum. Bleikhærði strákurinn og annar fimmtán ára strákur höfðu leitað í töskunum okkar og síðan fór bleikhærði strákurinn með hengirúmið sitt á neðri hæðina og svaf innan um tómatana. Við fórum niður með eiganda bátsins, eldri maður með sterkan búk og fundum þann bleikhærða sofandi. Við vöktum hann og sögðum honum að skila dótinu. Hann neitaði sök og spurði hvort að við hefðum séð hann stela. Nei, sagði ég, en við höfum þrjú vitni sem sáu þig og bleika hárið þitt. Hann sýndi okkur töskurnar sínar, sem innihéldu væntanlega ekki góssið, líkt og að það myndi hreinsa glæpinn af höndum hans. Við fórum upp og fundum vitorðsmanninn, fimmtán ára strák sem ég hafði talað við yfir hádegismatnum og meira að segja lánað honum heyrnatól. Eigandi bátsins sagði þeim að skila þýfinu. Þeir þóttust ekki hafa gert neitt. Skyndilega voru komnir fimmtán sterkbyggðir menn með stálvöðva, allir tilbúnir að verja heiður lands síns og hjálpa okkur að finna góssið. Þegar að það var pressað á fimmtán ára strákinn og þegar ég sagði að ég hefði engan áhuga á að senda hann í fangelsi, að ég vildi bara fá hlutina aftur, gaf hann sig aðeins og sýndi hvar þeir höfðu falið tólf brazilíska reala, eða sexhundruð krónur, sem þeir stálu úr buxunum mínum. Þá var það komið á hreint að þeir hefðu stolið af okkur og fimmtán ára pollinn sagði að bleikhærði strákurinn væri aðal sökudólgurinn. Sá bleikhærði var handjárnaður og neitaði enn sök með bálreið augu út í svik félaga síns. Feitlaginn ungur maður sló hann fast aftan í hnakkann. Hávaxinn maður, Wolbert, yfirheyrði hann með aðdáunarverðum töktum og sló hann síðan í andlitið með lófanum nokkrum sinnum en þegar að hann hrinti honum í gólfið og byrjaði að sparka í hann þurfti þrjá menn til að draga hann í burtu og róa hann. Sá bleikhærði virtist vera að bugast, hann var tómur á svipinn með lítið tár rennandi niður kinnina. Mér leið alls ekki illa yfir því að þeir væru að beita hann ofbeldi og ég var sallarólegur og viss um að við myndum fá hlutina aftur. Þeir tóku þjófana niður af því að allur báturinn var kominn á fætur, klukkan var fjögur um nótt og myrkrið yfir ánni var algjört. Það fóru allir að leita að góssinu sem fannst í plastpoka undir vatnsröri. Þegar við fengum hlutina aftur var það yndislegur léttir. Við þökkuðum hjálparsveitinni kærlega fyrir. Allir á bátnum horfðu til okkar brosandi og sumir komu og báðust fyrigefningar. Andrúmsloftið róaðist og allir fóru aftur að sofa, nema þjófarnir sem voru handjárnaðir við staur við hliðina á endalausum tómatakössum. Báturinn kom í land eftir sólarupprás og við létum okkur hverfa inn í frumskógarborgina án þess að kveðja glæpamennina sem ég hef ekki hugmynd um hvað þeir gerðu við að lokum.

20140403-112540.jpg

20140403-112619.jpg

20140403-112644.jpg

20140403-112654.jpg

20140403-112719.jpg

20140403-112831.jpg

20140403-112851.jpg

20140403-112919.jpg

20140403-112902.jpg

20140403-112912.jpg

20140403-112842.jpg

Standard

Stærsta fljót í heimi og glíman í frumskógarborginni.

Við settumst upp í lítinn mótorhjólaleigubíl og náðum rétt svo að koma öllum farangrinum fyrir. Eftir fimm mínútna keyrslu fór ekillinn að kvarta yfir þyngdinni, hann stöðvaði og labbaði hringinn í kringum hjólið til þess að gá hvort allt væri í lagi, hann vildi ekki halda áfram. Við mótmæltum. Hann fékk sér loksins sæti og hélt áfram með nöldurtón í röddinni. Við komum að fiskimannahöfninni og stigum út í brennandi sólina. Slorlykt fyllti vitin, jörðin var óhrein og plastrusl á víð og dreif. Við tókum farangurinn af vagninum og það kom í ljós að einn gönguskórinn hennar Írisar sem hékk utan í töskunni hennar hafði komist í snertingu við keðjuna sem sagaði sig þvert í gegnum skóinn. Það reyndist basl að losa hann. Húðflúraður fiskari með þykkar hendur rykkti skóinum úr klóm keðjunnar. Síðan henti hann skónum frá sér með litlu kettlingaópi; gúmmíið var brennandi heitt. Allir viðstaddir fóru að hlæja. Ekillinn vildi fá 200 krónur til að láta kíkja á keðjuna og við samþyktum það.

Við fórum um borð í tveggja hæða ferju, El Gran Diego. Ég og Íris komum tjaldinu okkar fyrir á annari hæð og Þór hengdi upp hengirúmið sitt rétt hjá. Það var nóg pláss í bátnum enda mættum við fjórum tímum fyrir brottför til þess að gulltryggja gott pláss. Sólin glitraði í brúnum bárum vatnsins og það var gleðiþrungin spenna í loftinu. Sölumenn þeystu um bátinn með hengirúm og matvöru, síðan tóku þeir sér pásu saman og spiluðu aðeins á spil. Fjölskyldur komu sér fyrir og ferðalangar með þykk skegg og sítt hár sátu og biðu eftir brottför. Hæðin fylltist smám saman af hengirúmum og litlir prakkarar hlupu um litríka hengirúma völundarhúsið með hrópum og brosum. Þeir sem komu seint fengu þröngsetin og léleg pláss. Vikapilturinn reyndi að banna tjaldið en við tókum það ekki í mál þar sem að við tókum jafnmikið pláss og tvö hengirúm; hann gaf sig eftir nokkrar tilraunir.

Sólin settist og ljósin kviknuðu í bátnum, vélin fór í gang og hristi dallinn hressilega til. Ég setti í mig eyrnatappa og las í Alkemistanum á portúgölsku er við runnum út í Amazon-nóttina.

Ég fór á neðri hæðina og þræddi mig í gegnum hengirúmma þrautabraut og passaði mig á því að stíga ekki á fólkið sem svaf á teppum á gólfinu. Ég fann klósettið sem var lekandi skítugt og án setu. Ég þakkaði Indlandi fyrir það að ég gæti losað úrgang hvar sem er, í hvaða aðstæðum sem er og haft það bara nokkuð notalegt.

Er ég kom upp stóðu Íris og Þór og burstuðu tennurnar við enda bátsins með Amazon ána í bakgrunninum. Áin breiddi úr sér voldug og stjörnusilfruð; hún leit út fyrir að vera haf eða endalaust stöðuvatn. Bakkarnir voru langt í burtu frá hvorum öðrum og dimmur frumskógurinn vakti yfir ánni. Stjörnum reifaður svartnæturhimininn merlaði í vatninu og ég gat ekki annað en staðið í myrkrinu og glápt í ósnertanlegri þögn.

Dagur vaknaði yfir ánni. Sólin glansaði, vatnið flæddi og skógurinn stóð. Sum trén voru hærri en fimm hæða blokk. Himininn djúpblár og skýin mjallhvít. Við bakkann bjuggu manneskjur. Af og til sátu litlar kofaþyrpingar við ánna og lítil börn með frumskógarsálir hlupu um í grasinu og veifðu bátnum. Sterkbyggður maður gerði við bátinn sinn og fljótfagurt fljóð sat við bakkann og þreif þvott upp úr ánni. Gluggalaus húsin voru litrík og smíðuð úr timbri. Af og til stóð einsamall kofi á bakkanum og frumskógurinn gnæfði yfir honum líkt og voldug vera sem gæti gleypt hann í sig á augabragði. Sumir kofarnir litu út fyrir að vera mannlausir og yfirgefnir.

Báturinn tók land í stærra þorpi og fólk á öllum aldri flykktist að með mangóa, kókoshnetur, óþekkta ávexti og djúpsteikt súkkulaðibrauð. Í einni svipan varð báturinn að óðum markaði sem fylltist af skvaldri; hrópum sölumanna og gleðismjatti viðskiptavina. Jafnsnöggt og markaðurinn skapaðist týndi hann lífinu er fólkið flýtti sér úr bátnum áður en hann leysti landfestar. Við sátum eftir með poka af mangóum og ferskan kókossafa.

Það leið ekki langur tími á milli mannabyggða. Fyrir fimmhundruð árum var sagan önnur en þá ríkti viðvarandi stríðsástand í frumskóginum. Ættbálkar héldu sig langt í burtu frá öðrum af því að reglulega fóru menn í víking og tóku land í óvinaþorpi, rændu börnunum og konunum til að eiga sem þræla, slátruðu öllum mönnunum sem náðu ekki að flýja inn í skóginn og brenndu þorpið og akrana til grunna. Núna voru engir ættbálkar við ánna, fyrir löngu voru þeir hraktir í burtu lengra inn í skóginn og til þess að heimsækja menningarlega ómengaðan ættbálk, sem var ekki hægt nema án sérstaks leyfis frá ríkisstjórninni, þurfti að ferðast í tíu daga dýpra inn í frumskóginn. Flestar mannverurnar sem bjuggu við ána áttu rætur sínar að rekja til frumbyggjanna, þau voru fórnarlömb kristniboðs og höfðu að miklu leiti glatað fornri menningu sinni og tengingu við seiðgaldra frumskógarins. Unglingarnir höfðu ekki áhuga á sögum gamla fólksins og vildu heldur klæða sig í bandarísk föt og setja myndir á facebook í staðinn fyrir að læra um plöntur og forna söngva.

Mannverurnar á bátnum höfðu ekkert að gera nema að vera til. Fólkið lá í hengirúmunum, spjallaði eða horfði upp í loftið. Á bátnum var tímaleysið lauslátt; það var auðvelt að gefa sig á vald líðandi stundar og stara á líðandi ána. Í störukeppni við strauminn byrjaði ég að skynja betur og betur mismunandi mynstur í grábláu vatninu. Dagurinn dó og ég sat og horfði á skuggasvartar útlínur trjánna sem virtust vera alelda er sólin sökk til fulls.

Dagur braust út. Við nálguðumst hægt og rólega landamærin. Áin streymdi og skógivaxinn bakkinn leið hjá á letilegum hraða. Áin var slétt og andi hennar stór og kraftmikill. Skýjaheimurinn var stórfenglegur líkt og konungsríki ævintýraheims. Himininn ljósblár líkt og haf fjarlægrar plánetu. Frumskógurinn reis upp til himins, bolirnir stóðu þétt saman (líkt og Stuðmenn og snéru bökum saman) og laufþykknið verðskuldaði orðið þykkni; laufin alveg upp við hvert annað líkt og apar hefðu fléttað greinarnar saman. Endurspeglun himnanna í kjurrum fleti fljótsins, gárurnar bláar og hvítar á víxl, kórónur trjánna grænar og bolir dauðra risa stóðu gráþurrkaðir með tómhentar greinar út í loftið líkt og betlarar. Fljótið óhugsandi breitt miðað við íslensk fljót, svo breitt og djúpt að tröll myndu eigi reyna við vaðið, svo breitt að á einum bakkanum var grenjandi rigning á meðan sólin skein á hinum með regnboga yfir fljótinu fyrir miðju.

Við komum til Brazilíu snemma um morguninn eftir tvo daga og tvær nætur í bátnum frá Iquitos. Í lítilli kænu sigldum við yfir ána frá landamærabænum Santa Rosa í Perú og stigum á land í öðrum heimi. Hávær tónlist spangólaði framan í okkur af veitingastöðum við bryggjuna. Portúgalska ómaði úr ljúfum raddböndum heimamanna og brosandi augu tóku vel á móti okkur. Við tókum leigubíl, mótorhjól fast við kerru, á lögreglustöðina þar sem að við stimpluðum okkur inn í landið, þaðan fórum við og keyptum tuttugu lítra dúnk af vatni, skiptum peningunum okkar í brazilíska og brunuðum svo niður á höfn til að kaupa miða í bátinn. Þar rann upp fyrir okkur að við værum ekki með nægan pening til að kaupa miða, en ekkert mál, ég hoppaði aftan á bak hjá leigumótorhjólaknapa sem rétti mér hjálm og rúllaði með mig eftir forugum strætum að hraðbankanum, síðan sneri ég aftur sigrihrósandi með nægan gjaldeyri til að kaupa miða. Við komum okkur vel fyrir í bátnum, ég og Íris tjölduðum og Þór setti upp hengirúmið sitt á góðum stað en stuttu síðar komu tvo gamalmenni og hengdu rúmin sín við hliðina á honum, líklega var það fagurt skeggið hans sem laðaði þau að.

Ég hafði aldrei séð Þór jafn nálægt því að vera ekki í góðu skapi af því að hann var ekki í bátnum samkvæmt sínum vilja, nánast í nauðarflutningum, en svo var mál með vexti að honum áskotnaðist ræpa í bátnum frá Perú sem ágerðist um nóttina. Ég sannfærði skástrik kúgaði hann til að koma um borð vitandi það að aðstæður í brazilíska bátnum yrðu miklu betri og maður getur ekki gert neitt betra en að liggja í hengirúmi allan daginn þegar maginn drullumallar og Tabatinga, landamærabærinn, hefur ekki upp á neitt að bjóða nema brottför. Hann lagðist upp í hengirúm, drullaði og róaðist furðuvel við að lesa um Steve Jobs. Íris lagðist upp í tjald og sofnaði í góðar þrjár klukkustundir. Um kvöldið borðuðum við ágætis máltíð sem er innifalinn í fargjaldinu. Spagettí, hrísgrjón, baunir og steiktur yuca-mulningur. Íris og Þór voru sammála um að maturinn væri vondur. Þór lagðist síðan í hengirúmið og Íris í tjaldið og ég settist uppi á þriðju hæð og skrifaði með eyrnatappa í eyrunum vegna brazilísku sápuóperunnar sem ómaði úr sjónvarpinu. Grænir skuggar skógarins liðu hjá og áin glansaði í síðdeginu.

Í tómi dagsins lauk ég við að lesa Alkemistann á portúgölsku. Fyrir þremur árum sat ég í herberginu mínu á íslensku haustkvöldi og þessi sama bók breytti lífi mínu. Ég var nýbúinn að ljúka við miðannarpróf í lögfræði og líkaði mér námið vel. En í helgarferð með vinum mínum, beint eftir prófin, í bústaðnum í Hvítársíðu skall í mig ímynd um framtíðarsjálfið mitt þar sem ég sat rykfallinn og grár inn á skrifstofu að fletta í lögbókum. Ég fór að efast. Lögfræði var ekki jafn skapandi fræðigrein og ég hafði haldið. Ég sá Alkemistann liggja upp í hillu í herberginu mínu og án þess að vita afhverju settist ég niður og byrjaði að lesa. Ég las bókina í einni setu og eftir lesturinn ákvað ég að hætta í lögfræði og eltast við örlagakostinn minn eða draum hjarta míns. Núna sat ég og sigldi niður Amazonfljótið með draumrætingu í hjartanu og fingurgómanna á lyklaborðinu.

Dagarnir á bátnum voru rólegir, atburðarlausir og ferðin niður fljótið var ekki jafn ævintýraleg og ég ímyndaði mér hana, en fegurð fljótsins og kyrrðin var yndisleg upplifun. Í morgun vöknuðum við klukkan sex, fórum upp á þilfar, horfðum á sólarupprásina, borðuðum morgunmat og síðan lagði ég mig fram að hádegismat. Saddur sat ég og horfði á ánna og bakkann, síðan las ég í bók. Það var ekkert sem lá á, ekkert sem þurfti að gera, ekkert til að hafa áhyggjur af og ekkert annað að gera en að vera.

Eftir þrjár nætur og þrjá daga komum við til Manaus sem er stórborg byggð í miðjum frumskóginum. Við fórum í land og ég burðaðist með tuttugu kílóa vatnskútinn á öxlinni sem við notuðum ekkert á bátnum af því að það var ókeypis ískalt vatn í boði. Við tókum leigubíl á Hostal Manaus og ekillinn svindlaði af okkur þúsund krónur. Síðan röltum við niður í bæ og fengum okkur ljúffengan mat á grænmetisveitingastað þar sem maður skóflaði mat á diskinn sinn af hlaðborði og borgaði fyrir þyngdina. Gömul litrík hús blönduðu geði við ljótar steypublokkir og hitinn í borginni mýktist við að drekka nýkreistan appelsínusafa. Við skoðuðum óperuhúsið og glöddumst yfir því að bílar stoppuðu fyrir manni á götunum sem var nánast óhugsandi í Perú.
Verðlagið í Brazilíu var allt annað, allt var dýrara. Við leystum það með því að kaupa grænmeti og ávexti á útimörkuðum og ég og Íris sáum um að elda og Þór vaskaði upp diskana. Eftir fimm mánaða ferðalag hafði ég matreitt ofan í mig ótal sinnum og eldhúskraftar mínir höfðu margfaldast.

Við eignuðumst franska vini og þeir kenndu okkur teningaspil. Við fórum í almenningsgarð og settum upp slackline’ið eða jafnvægislínuna sem að við keyptum í Lima og héldum jafnvægi í sólinni berir að ofan. Við hliðina á okkur var fótboltavöllur þar sem innfæddir spiluðu af hörku og það vakti eftirtekt mína að ungir sem aldnir spiluðu saman. Fimmtugur maður stóð í markinu og varði bolta frá tíu ára gutta sem fékk klapp á bakið frá mössuðum unglingi. Við tókum stutta pásu frá jafnvægislistinni og fengum okkur nýkreistan appelsínusafa.

Um kvöldið sat ég slakur og las í bók í sameiginlega rýminu á hostelinu. Stelpa frá Ísrael kallaði á alla út að sjá skrúðgönguna. Við skelltum okkur út á götu og við okkur blasti hundraðmanna trommusveit, risavaxinn hátalarabíll, hellingur af fólki á dansskónum og taktur sleginn af þrumukrafti. Við slóumst í för með hersingunni og gengum inn í taktinn. Halarófan var sameinuð í einni sterkri heild: Dansandi, syngjandi slanga límd saman með trommuslátti og almennum hávaða. Það var skorað á okkur að dansa og ég hófst handa við að stíga hraðan dans við fagnaðaróp innfædda sem klöppuðu og hrópuðu. Gömul hjón, rétt á undan okkur, brugðu á leik og stigu taktfastan dans á svo miklum hraða að maður hefði getað haldið að jörðin væri brennandi heit. Við dönsuðum og hrópuðum og brostum. Síðan þreyttumst við og kvöddum lestina og fórum heim á hostalið. Ég komst seinna að því að skrúðgangan hafi aðeins verið æfing fyrir karnavalið sem var á næsta leiti.

Seinna um kvöldið handþrifum við gi’in okkar, þ.e.a.s. glímugallana, og kreistum úr þeim bleytuna í mikilli athöfn. Daginn eftir um eftirmiðdegið tróðum við þeim þurrum í bakpoka og héldum á vit glímuævintýranna en það var einmitt hér í Brazilíu þar sem að Brazilískt Jiu-Jitsu var fundið upp. Við byrjuðum á því að ganga í vitlausa átt í korter, við snérum við þegar við vorum komnir í skuggalegri part borgarinnar og fundum ekki götuheitið sem átti að leiða okkur áfram. Við létum það ekki á okkur fá og röltum rólegir til baka í gegnum stræti borgarinnar. Þór talaði um að við værum á hápunkti tilverunnar og hvað það væri yndislegt að labba um götur Brazilíu í myrkrinu með tilgang í hjartanu og spennandi áfangastað. Við komumst á réttu slóðina en týndumst svo aftur, við spurðum vegfarenda um hjálp og hann labbaði með okkur í tíu mínútur til þess eins að hjálpa okkur. Við römbuðum inn á rétta götu, kvöddum vegfarendavin okkar og örkuðum seinasta spölinn yfir stærðarinnar brú. Eftir klukkutíma göngutúr í heildina fundum við staðinn. Hvít bygging glansaði í götumyrkrinu. Stórir svartir stafir og merki: Academia Gracie Barra. Við gengum inn og við okkur blasti stór dýnulagður salur og glímandi krakkar og nokkur forvitin augu. Við fengum okkur sæti og það kom til okkar brosandi ungur maður klæddur í gi með blátt belti um mittið. Hann talaði litla sem enga ensku en ég bað hann um að tala hægt og þá skildi ég meira og minna hvað hann sagði. Frá hvaða landi eruð þið? Ahh, Islandia. Hvar þjálfið þið? Ahh, Gunnar Nelson, ég veit hver það er, sagði hann, hann glímir fallega. Hann fékk sér sæti og byrjaði að stara í símann sinn. Það kom í ljós að það vissu allir hver Gunnar Nelson var.

Þjálfarinn, Bruno, mætti á svæðið og heilsaði glaðvær upp á okkur. Hann fór og klæddi sig í hvítt gi’ið og kom út úr búningsklefanum með svart belti um mittið. Hann sagði að við gætum farið og klætt okkur í gallana. Búningsklefinn var eitt lítið herbergi með einni sturtu, pissuskál, vaski og klósetti. Er við komum út var krakkaæfingin búin og kennarinn benti okkur á að koma til sín. Ég byrjaði að svitna við það eitt að vera í gi’inu. Það var heitt í salnum og raki í loftinu. Þjálfarinn sýndi okkur hvernig maður átti að hneigja sig áður en maður stigi inn á dýnuna. Við stigum inn á dýnuna og hneigðum okkur í virðingarskyni.

Á dýnunni voru um tuttugu manns. Við byrjuðum að hlaupa hringinn í kringum dýnuna til að hita upp. Eftir marga hringi átti maður að rúlla sér eftir dýnunni endilangri, þ.e.a.s. fara í marga kollhnísa í röð. Ég rúllaði mér fimm sinnum í kollhnís og stóð upp áttaviltur. Eftir nokkrar svona ferðir var ég orðinn vel ringlaður í hausnum. Kennarinn kom til mín og sagði mér að það væri nóg að gera einu sinni eða tvisvar eða bara labba ef maður væri mjög ringlaður. Síðan rúlluðum við okkur afturábak og síðan gerðum við tegund af kollhnís sem ég hafði aldrei séð áður þar sem maður var í raun að æfa sig í því að detta. Upphitun lauk og ég var perlaður úr svita. Það var frumskógarheitt og ég var móður og másandi. Kennarinn sagði okkur að fá okkur vatn eða fara á klósettið ef við þyrftum.

Það var byrjað að glíma. Kennarinn ákvað hver glímdi við hvern. Hann kallaði á mig og ég átti að glíma við blábelting. Við hneigðum okkur fyrir hvorum öðrum, tókumst í hendur og innsigluðum með hnefakossi. Við byrjuðum standandi. Ég hoppaði um leið á hann og greip um mittið hans með löppunum. Hann var sterkur en ég náði honum niður örugglega. Síðan náði ég hægri höndinni hans og náði honum fljótlega í það sem kallast þríhyrning sem er kyrking með fótunum. Við tókum strax aðra glímu þar sem ég náði honum í Kimura, eða armlás. Í þriðju glímunni vorum við báðir nokkuð máttlausir og kennarinn kallaði yfir hópinn, glímunni var lokið. Hann skipaði ný glímupör og senti mig hvíldarlausan í strákinn sem tók fyrst á móti okkur. Ég var nánast uppgefinn og lekandi úr svita er ég mætti honum. Ég náði að krækja löppunum utan um hann en hann stóð upp og ég hékk í honum líkt og api. Hann losaði sig hægt og rólega og náði mér niður. Síðan tók hann mig nokkuð auðveldlega í armlás. Ég hvíldi aðeins. Ég náði varla andanum úr hita, þreytu og svita. Við glímdun aftur og hann kláraði mig auðveldlega. Ég sagði honum að ég þurfti pásu og hann skildi það vel. Ég fór og lagðist við vegginn og fann svitafljót líða um líkamann. Hjartað sló þrefalt og ég var ringlaður í hausnum en mikið andskoti leið mér vel. Ég var í glímuvímu og fékk mér tíu gúlsopa af vatni.
Ég sat og jafnaði mig og spjallaði við fimmtán ára stelpu sem var líka á æfingunni. Hún heillaðist af því að í Mjölni væru æfingar sem bara stelpur mættu mæta á. Ég hélt áfram að svitna og glímdi ekkert meira á æfingunni, alveg búinn á því. Þjálfarinn kom og sest hjá mér og spurði mig út í allt saman. Hann sagði mér að í apríl til nóvember væri virkilega heitt, núna var frekar svalt í samanburði. Eftir tveggja tíma æfingu klappaði hann saman höndunum og við stóðum í röðum, blá belti og hærra í fremri röðinni og hvít belti fyrir aftan og börðum höndunum í síðuna og hneigðum okkur líkt og hermenn. Hann þakkaði okkur Íslendingunum fyrir komuna og allir klöppuðu fyrir okkur brosandi. Síðan tóku allir í hendurnar á öllum og sögðu: Oss.

Þjálfarinn spurði okkur hvar við gistum og sagði að það væri hættulegt að labba leiðina til baka núna. Hann spjallaði við nokkra nemendur og reddaði okkur í bíl sem lét okkur út hjá óperuhúsinu. Mér leið eins og að þau hafi boðið okkur velkomna í fjölskylduna er við kvöddumst. Frá óperunni var ekki langt heim. Við gengum í gegnum tóm stræti og ég fór í viðbragðsstöðu, ég læt Þór vita af hættunni og við vorum tilbúnir að hlaupa ef þess þyrfti. Skuggalegur maður með plastpoka gékk framhjá en hann hélt sig á gangstéttinni. Við gengum á auðri götunni, það var mannlaust, þögult, dimmt og óöruggt. Hjartað sló en augun héldu ró sinni. Við komumst á fjölmenna götu og fundum loksins götuna okkar. Við gengum inn á hostelið fegnir með gleðilega glímuþreytu í búknum.
Íris tók vel á móti okkur og eldaði ljúffenga máltíð fyrir okkur. Um nóttina svaf ég eins og steinn.

Daginn eftir fórum við aftur um kvöldið að glíma. Íris kom með. Annar þjálfari tók vel á móti okkur. Íris fékk ekki að taka þátt af því að hún var ekki með galla, hún fór og gerði yoga í teygjuaðstöðunni. Upphitunin var sú sama og það var farið að glíma úr ákveðnum stöðum án þess að fara í neina tækni. Ég og Þór vorum paraðir saman og ákváðum að taka því rólega til þess að klára ekki kraftana okkar. Síðan byrjaði alvöru glíman. Ég mætti blábeltingi sem spriklaði eins og fiskur og glímdi með miklum æsing og ofsa. Ég lenti í því að þumalfingur hægri handar beyglaðist afturábak í árekstri við dýnuna og varð ónothæfur með öllu. Ég hélt áfram að sækja á hann einhentur en allt kom fyrir ekki, kennarinn kallaði og glímunum var lokið. Ég settist og hvíldi með sársauka í puttanum. Ég var með blóð á fullri ferð að innan og svitaflóð að utan. Ég losaði beltið mitt og klæddi mig hálfan úr gi jakkanum; það var mikill léttir. Ég fékk merki um að klæða mig fallega í gi’ið og laga beltið, samkvæmt siðareglum sem eru ekki til staðar í yndislega afslappaða Mjölni. Ég lagaði mig til með smá mótþróa í sálinni vegna sársaukans í puttanum og hélt áfram að leka úr svita. Ég þurrkaði perlurnar af bringunni minni og hálfri mínútu síðar var ég aftur útataður í dropum. Eftir ágætis hvíld var mér úthlutað nýjum glímufélaga en gat lítið gert á móti honum annað en að verja mig útaf slasaða puttanum. Eftir þessa viðureign var ég orkulaus og blautur úr svita. Æfingin var búin. Við stóðum upp og röltum hringi í kringum dýnuna til þess að kæla okkur aðeins niður. Ég fékk merki um að hnýta beltið mitt rétt. Ég krafsaði saman orku til að hnýta það fallega með auma puttanum. Síðan slóum við höndum í síðuna og förum í halarófu og tökum í hendurnar á öllum. Eftir fyrstu æfinguna var ég í alsælu og ómældri ánægju en núna, með slasaðan putta til að koma mér niður á jörðina, var ég kominn með upp í kok af hermannasiðunum og agareglunum. Við tókum leigubíl heim og í staðinn fyrir að sjá allt það fallega tók ég eftir ruslahaugunum á gangstéttinni og hættunni á götunum.

20140329-181942.jpg

20140329-182002.jpg

20140329-181926.jpg

20140329-182009.jpg

20140329-182019.jpg

20140329-181951.jpg

20140329-182208.jpg

20140329-182222.jpg

20140329-182158.jpg

Standard

Vængjað gljúfrið, eilífa eyjan og þokufalda þorpið.

Ég sit á barmi næst dýpsta gljúfri jarðar og líð úr draumkenndum tilfinningum með lokuð augun yfir í að opna augun og sjá himnesku dýrð alheimsins birtast mér í tignarlegum fugli sem svífur í uppstreyminu rétt fram hjá mér; vænghafið þrír metrar, þyngsti fugl í heimi, borðar asna og kindur; svartur á litinn, vængirnir breiddir út líkt og að fjaðrirnar búi yfir frumkrafti sem hvert vængtak leysir úr læðingi. Kondórinn svífur í burtu þangað til að hann er orðinn að litlu listaverki skreytandi bláan himininn sem er svo hreinn að sálin hreinsast við að líta hann augum.

Biru fékk nafnið Perú vegna þess að Spánverjar báru Biru vitlaust fram. Fyrir nokkrum dögum hitti ég Þór vin minn í höfuðborg Perú, Lima. Við áttum rólega daga í höfuðborginni, glímdum í almenningsgarðinum sem lögreglan var ekki alveg sátt með, héldum jafnvægi á slackline, röltum niður að ströndinni, stóðum á háum kletti og dáðumst að fegurð hafsins sem glitraði út að endamörkum augnanna. Síðan settumst við upp í fimmtán tíma rútu sem keyrði með okkur til Arequipa. Þar hugleiddum við á morgnanna og spjölluðum á þakinu undir kyrrð sexþúsund metra eldfjalls sem gnæfði hvítt yfir borginni. Við röltum um hvít stræti og sötruðum kaffi í bakgarðinum við klaustrið er rigninginn hreinsaði göturnar og loftið og lyktin blandaðist veru minni. En mér leið ekki vel í borgunum, ég saknaði Kólumbíu, hlakkaði mikið til að Bettina kæmi og vildi í háfjöllin, himinbornu dýrðina, þorpið og vinalegu mennina í stígvélum sem leiða asna á eftir sér og litríku konurnar með barn á bakinu. Ég var ánægður að fá Þór til mín en fann einnig fyrir því að nú var nýr kafli hafinn, af því að á milli ferðalags í einveru og ferðalags í félagsskap er himinn og haf. Þegar maður er einsamall er maður opnari á að kynnast fólki og maður hefur meiri þörf fyrir að segja hæ. Maður fær meiri tíma með sjálfum sér í löngum rútum, tekur sjálfur allar ákvarðanir um næsta áfangastað og þarf að reiða á sjálfan sig, maður getur t.d. ekki spurt: Ertu viss um að við eigum að fara úr rútunni hérna?

En í félagsskap hefur maður einhvern til að passa upp á töskuna sína þegar maður fer á klósettið eða að finna upplýsingar, maður er öruggari, sífellt að deila reynslunni, sífellt að kynnast ferðafélaganum betur og bindast sálarböndum. En það fer eftir félaganum.

Þetta er fyrsta alvöru ferðalag Þórs, hann er í stöðugri vímu og fer upp á þak að dansa á kvöldin, hann lofsamar kaffibolla morgunsins og hlakkar til hvers einasta augnabliks. Þór og ég eigum margt sameiginlegt, við erum skrítnir, einfaldir en flóknir á sama tíma, tölum um hluti sem við skiljum stundum ekki alveg sjálfir, sitjum í þögn og skyndilega byrjar einn okkar að blaðra út í eitt um vitundarvakningu Alverunnar eða lofsama skuggafall hafsins eða velta fyrir sér orsakasamhengi orðsköpunar. Við förum á markaðinn og kaupum alla ávextina sem við þekkjum ekki og smökkum. Við sjáum heiminn sem undraverðan stað, fylltan af kraftaverkum og dularfullum leyndardómum, stað þar sem allt er hægt, ljóðrænan stað þar sem ásýnd hlutanna er svo falleg að munnur okkar gapir, stað þar sem að við berum ábyrgð á eigin líðan með viðhorfi og hugsunarhætti, stað þar sem að tími er blekking og ást á öllu lausnin á öllu; hlutir fylla ekki upp í tóm lífs þíns; það sem við sendum frá okkur snýr aftur til okkar, þess vegna er gott að slappa af, festa vitundina í núinu með daglegri hugleiðslu, brosa til ókunnugra, klappa hundum og þykjast deyja þegar krakkar skjóta þig með puttabyssu með tilheyrandi skothljóðum, lyfta þeim svo á hvolf og kitla þá; láta gott af sér leiða án þess að hugsa um verðlaunin; gefa; anda; elska; ferðast um plánetuna og opna hugann.

Eftir fimm daga dvöl í Arequipa stígum við upp í rútu og yfir mig byltist náttúrheimur fjallgarðsins; lamadýr bíta grænverur og fiðraðar goggverur loða við ljósbláan himininn sem endurspeglast í tæru fjallavatni við veginn. Hvítur litur tindanna bindur augu mín líkt og þula seiðkonu er rútan keyrir hærra og hærra, síðan yfir sléttuna sem breiðir úr sér sandblásin og ægifögur líkt og frumtómið og síðan hærra og hærra yfir skarðið í 4800 metra hæð, síðan líður rútan niður í gljúfrið, sikksakkandi vegi þar sem að mistök þýða dauði, síðan meðfram gljúfrinu langt inn í dalinn. Gljúfrið verður sífellt breiðara og dýpra því lengra sem við förum inn og frá barminum sem við keyrum eftir er auðvelt að ímynda sér að rútan keyri útaf. Á tímapunkti festist rútan í mölinni og heimamenn kalla á bílstjórann að þau vilji út, þrír skelkaðir gamlir túristar standa upp og ætla út; ég sit rólegur og horfi á gljúfurbotninn, síðan kippist rútan til og heldur áfram veginn líkt og ekkert hafi í skorist.

Við komum að endastöðinni, lítið þorp sem heitir Cabanaconde. Hér þekkjast allir og hundar ráfa um slitrótt strætin dillandi rófunum. Húsin eru fátækleg, steinhlaðin með bárujárnsþaki, ómáluð og litlaus. Við finnum okkur koju á hosteli og förum í göngutúr er sólin litar skýin með lagi sínu. Við erum í mikilli hæð og loftið er þunnt og ég finn þrýsting í hausnum.

Eftir ljúfa daga í gljúfrinu undir vængjum Kondóra og augnliti til augnlitis við fjallarefi og eðlur kveðjum við gljúfrið með söknuð í hjarta og tökum rútu að Titicaca vatni. Við komum til Puno er sólin er að setjast yfir vatninu og finnum okkur rúm. Við erum í 3800 metra hæð og ég er fjallaður, vel fjallaður, með skrítinn hausverk, óskipulagðar hugsanir og lélegt jafnvægi líkt og hálfdrukkin fyllibytta. Ég set kókalauf í vörina sem slá á áhrifin líkt og blóðberg losar mann við kvef.

Við förum á fætur við sólarupprás og göngum niður að bryggju. Við kaupum tvo miða og setjumst í bát sem fer með okkur langt út á vatnið. Fyrst er stefnan tekin á eyjunna Uros. Í bátnum kynnist ég spænskri stelpu sem vinnur sem leiðsögumaður í Noregi; hún ferðast um í rútu með fimmtíu spánverjum sem haga sér eins og smábörn. Vatnið er slétt og rólegt; skýjaður himininn endurspeglast í gárunum. Puno, sem er ágætlega stór borg, hverfur sjónum. Ég og Þór förum upp á þakið og ævintýralegt vatnið virðist óendanlegt og báðir erum við fylltir af gleði. Eftir klukkutíma siglingu komum við í land, sem er samt ekki land í hefðbundum skilningi. Ég stíg í land á eyjunni Uros og finn hvernig fótatak mitt hefur áhrif á undirlagið. Eyjan Uros er nefnilega búin til af mönnum og er fljótandi eyja búin til með aldagamalli tækni þar sem að trébolir, mold og ákveðnar plöntur eru notaðar í að byggja risastóran lifandi fleka. Höfðingi eyjunnar tekur á móti okkur og segir okkur frá lífsháttum: tíu fjölskyldur, þrjátíu manneskjur, lifa á eyjunni. Þau veiða litla fiska og skipta þeim fyrir kartöflur og grænmeti eða peninga sem er að verða algengara núna. Það tekur ár að smíða svona eyju. Krakkarnir sigla á litlum bátum í skólann sem er á stórri eyju í nágrenninu. Þau búa til allskonar gripi til þess að selja ferðamönnum sem streyma til þeirra. Höfðinginn fer með mig og Þór inn í litla húsið sitt sem er fléttað úr reyrgresi. Húsið er eitt herbergi, minna en lítið baðherbergi á Íslandi. Við kaupum koddaver með mynd af kondóri, púmu og snák. Kondórinn táknar efri heiminn, púman miðheiminn, heim hversdagslífsins, og snákurinn undirveröldina.
Höfðinginn segist muna sakna okkar.Við fáum okkur sæti á eyjunni og ég velti því fyrir mér hvernig það sé að búa í svona einangrun og stöðugum félagsskap, ekkert einkalíf. Við stígum upp í bátinn okkar sem siglir af stað út á vatnið sem lítur út fyrir að vera haf.
Ég tek mig á tal við einn stýrimanninn. Hann er frá Amantani, eyjunni þangað sem ferðinni er haldið. Langaafi hans og langaamma voru flutt nauðug út í eyjuna af Spánverjunum, hann segir að það hafi verið mikil heppni að þau hafi verið sent þangað en ekki í námurnar því að námurnar þýddu aðeins eitt: Dauði. Á eyjunni þekkjast allir fjögurþúsund íbúarnir með nafni og það tekur hálfan dag að labba hringinn í kringum eyjuna. Ég dett í vænan blund og vakna er við komum í land. Kona í marglituðum fötum tekur á móti okkur og fer með okkur heim til sín. Spænska stelpan kemur líka. Á leiðinni upp fer hjartað hennar að slá eins og í veðhlaupahesti og við bjóðumst til að taka töskurnar hennar fyrir hana sem hún þiggur eftir mikið kurteisisþras. Við erum í fjögurþúsund metra hæð. Á eftir okkur dröslast gömul kona með þunga byrði á bakinu. Brattur stígurinn tekur upp hærra og hærra. Yfir stígnum vaxa tré og gleðióp krakka heyrast úr húsum í nágrenninu. Húsin eru vel byggð með bárujárnsþökum sem eru öll appelsínugul á litinn. Steinhlaðnar girðingar marka lóðirnar og öldufall vatnsins iðar aftan í eyrunum okkar. Við komum loksins að húsinu sem er á tveimur hæðum og af svölunum sést langt yfir vatnið sem glitrar í hádegisbirtunni. Ég leggst berfættur í grasið og horfi sælufullur á skýin synda um himininn. Eftir ómældan tíma í innri friði og himnaglápi er kallað á okkur í hádegismat. Við fáum okkur sæti við lítið borð og konan, hún Virginia, sem talar takmarkaða spænsku, færir okkur quinoa-súpu. Maðurinn hennar, Venseslao, stendur upp úr plaststólnum sínum og bíður okkur velkomin. Virginia fær sér sæti við hlóðirnar sem eru hitaðar upp með eldiviði. Þau tala quechua sín á milli og nota spænsku aðeins þegar þess þarf. Hvernig segir maður takk, spyr ég. Isparasúnkí. Hvernig segir maður ég elska þig. Mún ækí. Maturinn er einfaldur og ljúffengur.
Við förum í göngutúr um eyjuna sem virðist vera sofandi. Þorpið er þögult. Fuglakliður úr laufþykkninu, mannlaust aðaltorg fyrir utan tvær gamlar vinkonur sitjandi fyrir framan litlu búðina sína að hekla. Ég heilsa þeim og þær brosa líkt og þær hafi fengið bestu fréttir lífs síns. Steinilagður stígur leiðir okkur út úr þorpinu upp að hæstu tindum eyjunnar. Kartöfluakrar eru afmarkaðir með hlöðnum steingörðum og útsýnið yfir vatnið er undurmagnað. Þór ráfar á eftir mér, fjallaður með þrýsting í hausnum og slitróttan andardrátt. Ég er í góðu lagi með kókalauf í kjaftinum og leiði okkur hærra upp í eyjuna. Það er hvergi mannveru að sjá og heilagleiki eyjunnar skynjast ósjálfrátt í gegnum vitin; hreint loftið, fornar gjörðir fornra manna, frumorkan, þögnin og djúpt vatnið í fjarska. Yfir stígnum vaka hlið hlaðin úr steinum sem virðast hleypa okkur úr einum heim yfir í annan, sífellt dýpra og dýpra þangað til að við komum að Pachamama hofinu sem er stór þriggja metra hár hringur hlaðinn úr grjóti. Stórt læst járnhlið meinar okkur aðgang að helgidómnum sem er lokaður öllum allan ársins hring nema einn dag í janúarmánuði þegar haldið er upp á uppskeruna. Við löbbum hringinn í kringum hofið og fáum okkur svo sæti á barmi kletts þar sem að sjóndeildarhringurinn blasir við okkur. Ég held ég geti teygt mig upp í skýin og snert þau, segir Þór. Endamörk vatnsins eru óskýr og yfir fjöllunum í fjarska rísa appelsínugul ský. Óteljandi bárur djúpsins dansa í sólskininu og ég hugsa með mér að þetta sé einn fallegasti staður sem ég hef komið á. Við sitjum lengi og leyfum dýrðinni að drjúpa inn í okkur.

Við röltum til baka niður hæðina til þess að fara upp á hina hæðina þar sem að Pachatata hofið stendur. Pachatata er faðir sól. Núna er sólin fer lækkandi erum við ekki einir. Túristar í hópum elta leiðsögumanninn sinn líkt og kindur. Þau eru flest armædd á svipinn og horfa á okkur líkt og fangar með hendurnar á rimlunum. Við valhoppum upp hæðina og virðum fyrir okkur hofið. Tveir litlir strákar fara á undan okkur sparkandi í steina. Frá þessari hæð sjáum við annað lítið þorp og sólgyllta akra skorna í hlíðina.
Við röltum aðra leið til baka niður í þorpið og tökum ævintýralegar krókaleiðir um mannlaus stræti og skoðum yfirgefið hús og mætum þremur hettuklæddum konum sem heilsa okkur hljóðlátar. Eyjan er dularfull líkt og óklifið fjall eða hálfgleymd draugasaga. Við komum að húsinu okkar og við setjumst á svalirnar og ég sauma blóm í hattinn minn er himininn tekur að rökkva. Voldugt myrkrið sendir okkur inn í herbergið okkar þar sem að við skiptumst á að lesa ljóð eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi fyrir hvorn annan. Síðan þegar ég er orðinn hungraður líkt og sléttuúlfur er kallað á okkur í mat. Spænska stelpan kemur og sest dösuð við matarborðið, hún hafði sofnað um eftirmiðdegið og sofið í þrjá tíma. Maturinn er ljúffengur og seðjandi. Við fáum te bruggað úr máttugri lækningarjurt. Isparasúnkí, segjum við í kór.

Þrumur rymja í fjarska og óveður í vændum. Hávær öskur heyrast úr þorpinu, ungir sem aldnir fara út og öskra á óveðrið til þess að bægja því frá. Allt kemur fyrir ekki og það byrjar að hellirigna. Við skríðum upp í rúm og sofnum. Ég vakna um miðja nótt og á erfitt með andardrátt en tekst að lokum að sofna.

Morguninn eftir heyrist hávært brothljóð. Þór, nývaknaður, setur höndina á vaskinn sem hrynur í gólfið og mölvast. Við bjóðumst til að borga helminginn þar sem að þetta var alls ekki honum að kenna. Þau taka því með brosi og við kveðjum Virginiu.

Venseslao fylgir okkur niður að bryggju. Á leiðinni útskýrir hann að í dag er hinn vikulegi rusladagur og þessvegna eru ungir sem aldnir á vappi um eyjuna að týna rusl í stóra poka sem eru síðan sendir á til meginlandsins. Við stígum upp í bát. Í bátnum sitja tveir góðir vinir og tyggja kókalauf í gríð og erg. Einn þeirra tekur stóra lúku af laufum úr sínum poka og setur í poka vinar síns, vinurinn gerir svo hið sama. Gömul reynsla gengur inn og lyftir hattinum sínum með breitt bros á vör. Hendurnar hans geisla af áralangri vinnu og augun hans búa yfir hugsanatengingu við Móður Jörð. Skipið leggur úr vör og ég kveð eyjuna með söknuði, ákveðinn í að snúa aftur. Vatnið er órólegt og ég berst við að gubba ekki í bátinn.

Um kvöldið tökum við hlægilega ódýra næturrútu til Cusco og komum ekki dúr á auga í þröngum sætunum. Við rennum inn í borgina fimm um nótt og komum okkur fyrir á fallegu hosteli. Er fyrstu geislar sólarinnar breiða úr sér yfir borginni ráfum við um strætin í leit að engu. Við fáum okkur sæti á aðaltorginu, dasaðir úr þreytu. Við gefumst upp á því að ráfa um og komum okkur fyrir í hengirúmum á hostelinu þar sem við liggjum í góða stund og reynum að sofna aðeins. Síðan fáum við okkur sæti á þakinu og pöntum okkur morgunmat. Við hliðina á okkur sest bandarískur furðufugl sem heitir Kent, hann er listamaður og málar veggi á hostelum í skiptum fyrir ókeypis gistingu. Hann var nýverið í frumskóginum að tengjast Móður Jörð í gegnum ayahuasca. Í gær tók hann sýru og fór í göngutúr upp í mánahofið þar sem að hann segist hafa hitt þrjár nornir sem vildu honum illt. Hann fær sér sopa af kaffinu sínu og hlær.

Síðan gerist dálítið skemmtilegt. Fyrir nokkrum dögum hafði ég samband við Cooper, strákinn sem gaf mér iPhoneinn fyrsta daginn minn í Quito og sagði honum að ég væri að koma til Cusco. Ég vissi að hann væri í nágrenninu. Skyndilega labbar hann inn og fær sér sæti við hliðina á mér. Við heilsumst með faðmlagi. Eftir fjóra mánuði er hann orðinn ævintýralegri í útliti með sítt hár. Hann er búinn að ferðast víða og eiga yndislegar stundir. Síðastliðnu tvær vikur átti hann heima hjá fjölskyldu í Cusco og var í spænskuskóla. Núna er spænskan hans orðin nokkuð góð og hann getur átt góðar leigubílstjórasamræður.

Við förum í göngutúr og hann sýnir okkur borgina. Við förum á markaðinn þar sem að hægt er að kaupa allt á milli himins og jarðar, meðal annars froska sem eru settir lifandi í blandara og eiga að vera góðir við allskonar kvillum. Við eigum litríkan dag saman þar sem við hoppum um þröng stræti borgarinnar, kaupum teikniblokkir og liti, drekkum mate upp á þaki og tölum um ævintýri og framtíðar háska sem við hyggjumst setja okkur í. Um kvöldið býð ég honum út að borða. Hann segist ólmur vilja koma með okkur niður Amazon fljótið en hann á stefnumót við vin sinn í Argentínu og seinna við pabba sinn í Chile. Við kveðjum hann og hann hverfur inn í leigubíl sem rennur inn í nóttina.

Hann gaf okkur allar þær upplýsingar sem við þurftum um Machu Picchu. Snemma um morguninn kemur lítil rúta og nær í okkur á hostelið. Hún keyrir okkur eftir ógleðisvaldandi vegum sex tíma upp í fjöllin. Ég spjalla við strák frá Sviss sem er í allt-innifalið túr og hann er að borga að minnsta kosti 70$ meira í heildina en við fyrir ferðina sína til Machu Picchu.
Hjá stórri virkjun stökkvum við út og löbbum meðfram lestarteinum í tvo klukkutíma í áttina að þorpinu Aguas Calientes. Leiðin er gullfalleg, hún liggur meðfram straumharðri á og alsgnægtar frumskógi og er umkringd af háum tindum. En það eru margir að labba leiðina og maður fær það á tilfinninguna að maður þurfi að flýta sér. Skyndilega heyrist hávaði líkt og tröll nálgist en fyrir hornið kemur lest fyllt af túristum sem borguðu okurverð fyrir ferðina. Að lokum komum við í þorpið sem er líklega mesta túristaþorp sem ég hef nokkurn tíman komið í. Við fáum okkar að borða og kaupum Machu Picchu miða og förum snemma að sofa.

Klukkan fjögur förum við á fætur. Ég klæði mig í plastpokann minn sem ég fékk í Kólumbíu og við höldum út í næturregnið. Það streymir fólk út á veginn, flestir klæddir í plastponchó með vasaljós í hendi. Við komum að hliðinu og bíðum í langri röð, síðan hefst klöngrið upp á toppinn. Ég stíg þrep eftir þrep í myrkrinu og svitna undir plastpokanum. Ég stoppa til að ná andanum og heyri útundan mér að við séum hálfnuð upp. Nú er vasaljósið óþarft. Út frá stígnum sést ekkert vegna þykkra skýja. Ég kem mér upp á toppinn og bíð í svitabaði eftir Þór sem ofklæddi sig og þurfti að stoppa nokkrum sinnum á leiðinni.

Við göngum í gegnum hliðið og líðum inn í skýjaþokuna sem er þykk og sveipar staðinn í dulúð. Við tökum fyrstu beygjuna til vinstri og lamadýr heilsa upp á okkur bítandi gras á pallinum fyrir ofan okkur. Við göngum eftir stíg í korter og komum að sólarhliðinu, útsýnið yfir þorpið er ekki til staðar vegna skýja. Við förum til baka og göngum inn að þorpinu. Í gegnum dalalæðuna má sjá glitta í steinhlaðna veggi skipulagðs þorps. Við stöldrum við og drekkum í okkur dýrðina. Háfjallaþorp fornar menningar, í loftinu fljóta horfnar kenningar um alheiminn, stjörnurnar og sólina. Ég ímynda mér ljúfa daga lýðsins sem reikaði hér um göturnar í leik, bæn og starfi, umkringt grænum tindum og gæfu guðanna. Í hverju húsi finn ég fyrir mætti mannverunnar og eilífð steinsins. Við göngum inn um háar dyr og reikum um þröng strætin. Á þessum tíma dags er þorpið nánast mannlaust og andar fyrri tíma fjúka um í þykkum skýjabólstrunum. Þokuvafin þögnin þekur sál mína er við göngum um þetta mannvirkisundur. Fjallasalurinn er fullur af fuglum sem þjóta um loftið af mikilli gleði. Er við stöndum við sólarhofið brýst sólin í gegnum skýin og smám saman hverfur þokan og falda þorpið sem almúgi síns tíma hafði ekki hugmynd um að væri til sýnir sig í heild sinni.

Eftir því sem líður á daginn lekur dýrðarljóminn hægt og rólega í burtu vegna túristanna sem traðka inn í stórum hjörðum og taka mynd á tíu sekúndna fresti. Við stöldrum aðeins við en komum okkur svo niður af fjallinu og röltum til baka þar sem að rútan lét okkur út fyrst og setjumst sveittir í rútuna. Það er svo vond lykt af okkur að ein stelpan skiptir um sæti þegar við erum u.þ.b hálfnuð til Cusco.

í Cusco slöppum við af, teiknum, skrifum og deilum alsælu lífsins. Síðan splæsum við í góða næturrútu til Lima sem tekur um tuttugu tíma.

Í Lima höldum við jafnvægi á slackline og fyrsti dagurinn líður í rólegheitum. Um kvöldið daginn eftir tek ég leigubíl út á flugvöll. Ég stend í biðsalnum með eftirvæntingu í augum og óafmáanlegt bros. Klukkan tifar, klukkan tifar. Taflan upplýsir að vélin sé lent. Ég bíð þolinmóður en spenntur. Síðan opnast hurðin og Bettina Íris birtist upp úr þurru líkt og hún hafi verið dregin úr hatti galdramanns. Augun hennar grípa augun mín um leið. Við mætumst og kyssumst líkt og ástfangnar plánetur sem hafa sigrast á þyngdarafli alheimsins og klesst inn í hvora aðra til þess að mynda eigin vetrarbraut. Síðan sitjum við hlið við hlið í leigubíl og draumvefur veruleikans virðist óraunverulegur líkt og við trúum ekki fréttunum sem skilningarvitin senda huganum. Við höldumst í hendur, hlægjum, horfumst í augu, kyssumst, tölum saman og fyrr en varir erum við komin á hostelið og förum beint upp á herbergi og liggjum í fangi hvors annars og reynum að sannfæra hvort annað um að veruleikurinn sé í raun og veru raunverulegur.

Daginn eftir röltum við um Miraflores hverfið sem er ekki ósvipað bandarískri stórborg og tökum strætó lengst í burtu til að skoða hverfið þar sem Íris átti heima í þrjú ár. Við finnum skólann hennar og gamla húsið. Síðan fáum við okkur sæti og lepjum kaffi. Írisi líkar strax vel við Þór og Þór líkar strax vel við Írisi. Við erum ein lítil skrítin fjölskylda og eldum okkur ljúffengan mat um kvöldið.

Við ljúkum undirbúningi fyrir frumskóginn daginn eftir og tökum síðan flug til Iquitos. Um leið og við stígum út úr flugvélinni tekur mikill hiti og raki við okkur. Við komum okkur fyrir á skrítnu hosteli sem Kent mældi með. Fólkið á hostelinu er furðulegt og óbrosmilt og starir tómum augum út í loftið.

Daginn eftir skiptum við um hostel sem er aðeins skárra en orkan heldur áfram að vera einkennileg líkt og það liggi ill norn yfir bænum. Við förum á safn og myndirnar á veggjunum og sögurnar útskýra þungu tilfinningarnar. Hér voru framin ódæðisverk í árhundruð. “Siðmenntað” fólk fór með upprunalegu íbúa og réttmætu yrkjendur landsins líkt og hunda; hrein illska, sú tegund af illsku sem nýtur þess ekki endilega að kvelja heldur er bara alveg gjörsamlega sama um fórnarlambið; nauðganir, útrýmingar, ógnvænlegt ofbeldi og trúarbragðaeyðing; í nafni gúmmígróða, siðmenningar og kirkju Drottins.

Um kvöldið, klukkan sjö, komum við aftur á hostelið með poka fulla af grænmeti og ætlum að elda. Konan á hostelinu bendir okkur á að eldhúsið lokar klukkan sex á kvöldin. Við þurfum að þræta og tauta til þess að fá að elda, enginn hafði látið okkur vita af þessari óskiljanlegri og einstöku reglu. Við borðum matinn og hlökkum til að yfirgefa Iquitos.

Íris og ég, þrátt fyrir að þekkjast í rauninni ekki neitt, högum okkur líkt og að við höfum þekkst í mörg ár og grínumst og hlæjum langt fram á nótt. Hún er svo ótrúlega falleg, hugljúf og vitur að það lýstur af og til niður í sál mína þakklætiseldingu sem dreifir hispurslausri gleði um atóm veru minnar. Brún augun bjóða mér inn í sál hennar og blá augun mín þyggja boðið og litirnir blandast saman í hringekju tímans sem snýst á ógnarhraða en við tvö sem sitjum í miðjunni greinum ekki hreyfinguna vegna þess að það eina sem við sjáum á þessu augnabliki er hvort annað og blábrúnir blossar umlykja okkur og við rennum saman í eitt.

Á milli hafsins og okkar eru 3.680 kílómetrar. Á morgun munum við hefja siglinguna niður stærsta fljót jarðar.

20140218-123254.jpg

20140218-123537.jpg

20140218-123609.jpg

20140218-123642.jpg

20140218-123659.jpg

20140218-123713.jpg

20140218-123725.jpg

20140218-123739.jpg

20140218-123810.jpg

20140218-123758.jpg

Standard

Villtar suðrænar nætur og örlagaríka næturrútan.

Við dagmál kveð ég Cami, Jay og hvolpinn og fer að leita að Andreú. Hann er ekki á hostelinu þannig að ég sest á kaffihús og skrifa í tvo klukkutíma. Síðan fer ég aftur á hostelið en hann er ekki kominn. Ég vil burt. Ég get ekki beðið lengur og tek leigubíl á rútumiðstöðina. Aðfangadagur er ekki á morgun heldur hinn og rútumiðstöðin er stöppuð af fólki á leiðinni til fjölskyldunnar sinnar. Ég bíð í langri röð til þess að fá að vita að það er uppselt í allar rútur til Santa Marta sem liggur við karibíska hafið. Ég reyni þá að koma mér norður í átt að hafinu og finn loksins rútu sem er ekki full. Ég sest uppí litla rútu til San Gil. Hún er tvo tíma að koma sér út úr kjafti Bogotá og rennur í hlað klukkan þrjú um nótt í San Gil. Ég kem mér fyrir á hóteli og strax um morguninn tek ég rútu í lítið þorp sem heitir Barichara.

Ég stíg út úr rútunni eftir indælan bíltúr um grænar hlíðar og tréskreyttan dal. Við mér blasir götumynd frá sautjándu öld. Göturnar hlaðnar með rauðleitum steinum. Húsin hvít, sum með neðri hlutann af veggnum í björtum lit og þökin hlaðin með leirlituðum skífum.
Ég finn mér ódýrt herbergi og fer í göngutúr um fortíðina sem birtist mér lifandi í spænskum dráttum fólksins og nýlendustíl húsanna. Það eru örfáir bílar á ferli og sumar göturnar eru mannlausar. Hitastigið er fullkomið og svalandi gola hvíslar í kyrrðinni. Meðfram torginu liggja kaffihús, veitingastaðir, hótel, handverksbúðir og auðvitað kirkja. Ég geng upp brekku og kem að endimörkum þorpsins. Fjölskylda situr fyrir framan húsið sitt og lítil stelpa kastar á mig kveðju. Ég geng eftir veginum út úr þorpinu og við mér blasir opinn dalur; hrein náttúra svo langt sem augað eygir, eftir dalsbotninum við rætur fjallanna rennur fljót. Fjallakeðjan er böðuð í bjartri sól sem lýsir upp skýin sem þekja dalsbotninn og topp fjallanna. Ég er agndofa úr fegurð.

Ég rölti niður í þorpið og kaupi mér jarðarber, mangó og fleiri ávexti, í einfalda herberginu mínu held ég veislu. Síðan fæ ég mér sæti í bakaríi við torgið og drekk ljúffengt kaffi og skrifa langt fram á kvöld núþegar ástfanginn af þorpinu.

Daginn eftir vakna ég glóandi úr gleði og fæ mér sæti í bakaríinu og skrifa allan liðlangan daginn. Ein af stelpunum sem vinnur í bakaríinu er afar aðlaðandi og ég tek mér stuttar pásur frá skrifunum til þess að horfa í augun hennar sem stara til baka. Þorláksmessukvöld fæ ég mér hrísgrjón og baunir. Á aðfangadag hringi ég heim og tala við fjölskylduna sem er samankomin hjá afa. Síðan fer ég í bakaríið og sleppi mér lausum í sætindunum. Ég drekk kaffi og skrifa allan daginn, dagurinn er alveg venjulegur fyrir mér ef ég er ekki í faðmi fjölskyldunnar. Um kvöldið eru tónleikar á torginu og jólaljós glitra í öllum regnbogans litum.

Dagarnir líða við skriftir í bakaríinu með kaffibragð í munninum og þegar ég get ekki skrifað meir taka við göngutúrar um tímalausar götur þorpsins. Það kemur í ljós að stelpan sem vinnur í bakaríinu á kærasta. Einnig fer að styttast í gamlárskvöld. Ég kveð þorpið mitt með þakklæti í hjartanu og kem mér til San Gil. Þar bíð ég í fjóra tíma eftir rútu til Bucaramanga þar sem ég þarf að skipta um rútu til að komast til Santa Marta. Stelpan við hliðina á mér í rútunni ælir í ruslapoka á leiðinni. Hljóðið gerir mér bylt við en ég þykist ekki hafa orðið var við neitt. Rútan kemur seint til Bucaramanga og ég missi af næturrútunni til Santa Marta. Starfsmenn fyrirtækisins benda mér á að fara upp á skrifstofuna til að fá nýjan miða í næstu þar sem að þetta var alfarið fyrirtækinu að kenna. Ég klíf upp þrjár hæðir og kem að afgreiðsluborði þar sem að slagorð fyrirtækisins stendur í stórum stöfum: Alltaf á réttum tíma. Klukkan er hálf níu að kveldi til. Stúlkan í afgreiðslunni segir mér að það sé fullt í allar rúturnar sem fara á næsta leiti en ég geti fengið miða í rútuna sem fer klukkan fjögur um nótt. Ég þigg það með bros á vör og kem mér fyrir á internetkaffi með kleinuhring í hönd. Síðan þegar internetkaffið lokar klukkan ellefu fæ ég mér sæti og skrifa þangað til að þreyta hellist yfir mig. Þá byrja ég að þamba kaffi og hlusta á tónlist. Unglingur í snyrtilegum fötum kemur til mín og biður mig um ölmusu. Ég spyr hvað honum gangi til og neita. Seinna meir kemur hann aftur og biður mig um kaffibolla. Síðan sendir hann vinkonu sína til mín að biðja mig um klink. Gamall maður í tötrum leggst á bekk og reynir að leggja sig en gefst upp eftir nokkrar mínútur. Mér til mikillar gleði ganga öryggisverðir fram hjá borðinu mínu. Nóttin er dimm og biðin er löng. Eftir þolinmóða bið rennur stundin upp og ég er sestur upp í rútuna og fljótlega sofnaður. Ég vakna við angurvær hljóð. Það er verið að sýna hryllingsmynd með Halle Berry í aðalhlutverki og hljóðið sem vekur mig er kona, talsett á spænsku, að veina og gráta. Ég reyni að sofna en greyið konan er læst í skotti morðingjans og hún hættir ekki að veina með spænskum hreim. Út um gluggan er sveitin græn, álfahólar, laufguð tré og engi með beljur á beit. Hryllingsmyndin tekur blessunarlega enda og ég hlæ upphátt að næstu mynd: The Intouchables.

Eftirmiðdegið er gengið í garð og ég stíg út í steikjandi sól strandarinnar. Lögreglan hjálpar mér að finna bíl til Taganga sem er lítið þorp rétt hjá Santa Marta. Á leiðinni hættir litli sendibíllinn fullur af fólki að virka og bílstjórinn endurgreiðir öllum farið og ég hoppa upp í næsta bíl sem er á leiðinni til Taganga.

Taganga, lítið fiskiþorp sem hefur gjörbreyst á örfáum árum í paradís lífsnautnaseggsins og fangelsi eiturlyfjafíkilsins sem kom hingað fyrir nokkrum árum og festist og vinnur núna fyrir sér með því að safna tómum flöskum. Kókaín er öflugt. Fyrsti maðurinn sem heilsar mér á aðalgötunni meðfram ströndinni reynir að selja mér kókaín. Það er yndislegt að sjá sjóinn aftur. Ég spyrst fyrir og gamall maður hjálpar mér að finna hostelið þar sem að Andreú er staðsettur. Ég kem í móttökuna og maðurinn í afgreiðslunni segir mér að Andreú sé sofandi en hann fer upp stiga og vekur hann og Andreú kemur niður í afgreiðsluna krúnurakaður, þó ennþá með dredda hangandi aftan úr hnakkanum og þykkt geitaskegg. Hann er verulega glaður í bragði og fer að segja mér frá djamminu sem entist í tvo daga og tvær nætur. Hann byrjaði á dæmigerðu kókaín-áfengis djammi fyrstu nóttina síðan setti hann draumsýrupappa á tunguna og endaði í litlum fjallabæ í tveggja klukkutíma fjarlægð, haldandi sér vakandi með hvíta duftinu. Síðan kom hann heim á hostelið um hádegi og fór að sofa. Mér finnst ótrúlegt hvað hann var allt annar maður í jógabúðunum, hann er góður strákur en á í vandræðum með sjálfstjórn, ég hálf-vorkenni honum. Við förum upp á efstu hæð hostelsins þar sem að ég fæ lítið einstaklingsherbergi við hliðina á hans herbergi. Við setjumst á bekk og horfum yfir þorpið af veröndinni. Sjórinn byltir sér undir sígandi sól. Hópur krakka sparkar í bolta á fótboltavellinum. Ég er á stuttbuxum og hlýrabol og mér er yndislega hlýtt. Appelsínulogar á sjávarhimni hverfa og tími tunglsins er kominn.

Við förum á djammið og það er ekki frásögufærandi nema að tónlistin á gringóstaðnum er leiðinleg og mér er boðið kókaín um það bil fimmtán sinnum.

Um morguninn segir hótelstjórinn okkur að verðið sé að fara að hækka þannig að við færum okkur yfir á tjaldsvæði sem er rétt hjá. Þar er nóttin ódýr, 500 krónur. Ég set upp tjaldið mitt á harðri jörðinni í þröngu plássi en harðneskjuleiki tjaldsvæðisins er bættur upp með hlýju viðmóti starfsmannanna. Eigandinn heitir Roberto og er frá Ítalíu og talar spænsku með sterkum hreim. Fyrir hann vinna hjónin Alvaro og Paula sem eiga litla eins og hálfsárs stelpu sem bræðir alla í hundrað metra radíus. Stelpan heitir Julia og er með stór gáfuð augu og ævintýrasál. Hún býður mér sopa af djúsnum sínum. Hún klifrar upp á borð og reynir að velta því hlægjandi. Hún kann að segja mamma og pabbi. Hún hlustar hugfangin á mig beatboxa og byrjar að dilla sér með taktinum. Síðan kallar hún á mömmu og fer að fikta í hárinu hennar.

Ég skelli mér á ströndina sem er skítug, ljót og yfirfull af kólumbískum fjölskyldum í jólafríi. Sólin er hátt á lofti. Ég sting mér til sunds og finn Ægisorku líða um líkamann. Ég syndi langt út á flóann og síðan aftur til baka og rölti upp á tjaldsvæðið.

Um kvöldið erum við í göngutúr eftir aðalgötunni og ég heyri útundan mér kunnugleg hljóð og trúi varla eigin eyrum. Ég sný mér við og sé tvær ljóshærðar stelpur og hávaxinn strák. Ég nánast hleyp til þeirra og kalla á þau: Íslendingar?

Þau snúa sér furðulostin við. Whaaat? Ertu ekki að grínast!

Íslensk tunga ómar á kólumbískri grundu. Við nemum staðar á gangstéttinni og spjöllum. Það er skrítið að tala íslensku en afskaplega notalegt. Þau heita Ásdís, Jenný og Reynar og eru á flottu ferðalagi um mið- og suðurameríku. Við spjöllum og spjöllum og Andreú situr og fylgist með. Síðan tekur hann sig á tal við Ásdísi sem var skiptinemi í Venezúela. Vinur Reynars átti heima lengi í Brazilíu og það var svo oft verið að ræna hann að hann byrjaði að ögra þjófunum sem héldu á hníf og neitaði bara að gefa þeim það sem þeir vildu; sjö sinnum komst hann upp með þetta, síðan var hann stunginn í bringuna. Þau fara að taka út pening en við hittumst aftur á ströndinni og eigum íslenskar samræður undir næturhimni karibíska hafsins þangað til að þau fara snemma að sofa vegna þess að þau eiga stefnumót við hafdjúpið í köfunarbúning snemma í fyrramálið.

Daginn eftir hitti ég Jenný og Reynar fyrir tilviljun á ströndinni. Þau fóru ekki að kafa um morguninn vegna þess að Ásdís veiktist. Við ákveðum að hittast um kvöldið og jafnvel djamma eilítið saman.

Taganga er pínulítill staður og allt gerist á aðalgötunni þar sem að farandsöluhipparnir selja handverkin sín og götulistamenn sýna sirkusatriði. Á röltinu eftir götunni hitti ég á þau og við förum saman á aðalskemmtistaðinn sem heitir El Mirador. Staðurinn er í raun risastórar svalir og útsýnið nær yfir allt þorpið. Hingað koma innfæddir til að dansa. Við stígum dans við ljúfa tóna en fljótlega fara Jenný og Reynar heim á hostel af því að Reynar er slappur í maganum. Ásdís verður eftir og við endum inn í danshring með innfæddum. Gullfalleg kólumbísk stelpa hreyfir mjaðmirnar samhliða villtum taktinum og augnaráðið segir meira en þúsund ljóð. Ég næ lófanum utan um eyrað hennar og spyr hana hvað hún heiti. Brenda, segir hún og við dönsum líkt og dauðinn sé vís er sólin rís. Fyrir tilskipan alheimsins skiljumst við frá danshringnum og ég tek um hana og hún þrýstir sér upp að mér. Hún er fögur líkt og prinessa úr ævintýri. Við dönsum blóðheitan dans við suðrænan takt og við hvert slag magnast kynorkan innra með okkur. Loftið er heitt og nóttin er ung. Hendur mínar leika um líkama hennar líkt og ég sé að móta leirvasa. Hér er allt leyfilegt. Engar hömlur. Nefin okkar snertast, síðan varirnar, við kyssumst innilega, hún kyssir af ástríðu; bítur mig líkt og villidýr og lætur tunguna langt inn í mig. Hún rennir höndinni niður eftir maganum mínum og grípur í grjót. Ég tek um rassinn hennar sem er fullkominn. Kynorkan nær hámarki og villimennskan verður villtari líkt og hungraður úlfur á veiðum. Síðan hægt og rólega róum við okkur niður, slítum okkur frá hvoru öðru og fáum okkur öl. Hugur minn fer ósjálfrátt með þakkargjörð; hvað hef ég gert til að verðskulda gjafir þínar og gull, elsku alheimur, takk, takk, takk.

Það er langt liðið á nóttina og hún segir með brest í röddinni að hún þurfi að fara bráðum. Foreldrar hennar húðskamma hana ef hún kemur heim seinna en tvö. Hún er nítján ára. Hún tekur upp símann sinn. Klukkan er hálfþrjú. Við stöndum þétt upp við hvort annað við jaðar dansgólfsins. Hávaxinn gringó kemur til okkar og heilsar okkur fullur. Í því augnabliki hrópar Brenda úr hryllingi. Síminn hennar, nýr iPhone, er horfinn! Ég tók ekki eftir neinu. Fulli gringóinn veit ekki alveg hvað er að gerast en biðst fyrirgefningar. Brenda gengur á milli fólks í örvæntingu en gerir sér svo grein fyrir því að síminn er glataður. Við göngum út af staðnum þar sem að vinir hennar eru búnir að hringja á leigubíl. Æ, nei, síminn minn, segir hún leið en bætir við að það hafi verið þess virði að glata símanum af því að hún kynntist mér. Hún er frá Santa Marta, röddin hennar er hunang, hreimurinn hraður og lausmæltur; ekta costeña, blóðheit og ægifögur. Vinkona hennar tekur niður upplýsingarnar mínar, við kyssumst djúpt líkt og hafið. Síðan hverfur hún inn í leigubílinn sem brunar yfir hæðina til Santa Marta. Ég sit eftir í skýjunum og kem mér síðan heim í tjaldið.

Morguninn eftir er ég með skilaboð á facebook. Hún vill hitta mig, kallar mig amor og lætur mig fá númerið sitt. Ég hringi í hana og klukkutíma síðar er hún komin á tjaldsvæðið. Tjaldsvæðið hefur alrei séð aðra eins fegurð, ljósir lokkar, jarðlituð augu, fimbulflottur líkami og bros sem gæti kveikt skógareld. Áður en við heilsumst með orðum kyssumst við líkt og við höfðum aðeins tekið stutta pásu frá því í gærkvöldi. Við röltum niður á strönd og fáum okkur sæti á veitingastað. Ég fæ mér mangósafa, hún fær sér bjór. Hún segir mér að hún hafi stolist út án leyfis og þurfi því að fara fljótlega til að borða hádegismat með mömmu sinni. Hún segir mér frá fjölskyldunni sinni. Faðir hennar vinnur fyrir ríkisstjórnina og hann lenti í því að vera rænt af skæruliðum og fékk að dúsa í sjö mánuði sem fangi í frumskóginum, borðandi rétt svo til að lifa af, baðandi sig af og til í ískaldri fjallaá en annars læstur inn í litlu herbergi án afþreyingar. Hún kyssir mig líkt og við séum í heimahúsi og spyr mig hvort að ég vilji koma á ströndina á morgun. Síðan kveðjumst við og ég skelli mér aðeins í sjóinn til að kæla mig líkamlega og andlega.

Ég tek rútuna til Santa Marta og leigubíl að húsinu hennar. Ég finn ekki dyrabjölluna og læst hlið kemur í veg fyrir að ég banki á dyrnar. Ég finn stað til að hringja og hún segir mér að bíða á bekknum í garðinum fyrir framan húsið hennar. Eftir smá bið kemur hún, glimrandi undir bláhimni, og við tökum leigubíl á ströndina í Santa Marta. Háhýsi standa í þyrpingum eftir sjávarlengjunni. Ströndin er falleg en pökkuð. Maður með græna derhúfu kemur til okkar og bíður okkur bátsferð á Hvítu ströndina, við prúttum verðið niður um helming og setjumst í lítinn bát sem ferjar okkur yfir í nærliggjandi flóa þar sem að sjórinn er gegnsær og sandurinn hvítur. Við finnum okkur stað á ströndinni og komum dótinu okkar fyrir í hrúgu. Hún klæðir sig úr fötunum sem hylja bikiníið og hleypir caféconleche húðinni sinni í sólarljósið. Skógardísir og álfameyjar myndu öfunda hana. Hún hleypur út í sjó og kallar mig til sín með vísifingri. Ég vippa mér úr fötunum og labba niður í flæðarmálið. Sjórinn er ljósblár líkt og eðalsteinn. Ég geng hægum skrefum til hennar og hún skvettir köldum gusum á mig hlægjandi. Ég gríp um hana, hún hoppar í fangið á mér og læsir fótunum um mig og kyssir mig líkt og að varir mínar séu sælgæti. Hugur minn staldrar við til þess að átta sig á mikilfengleika augnabliksins. Það er nóg af fólki í kringum okkur, en það skiptir engu máli, ég held þétt utan um líkama hennar, sem er guðdómlegur, og við kyssumst eins og að ég sé hermaður nýkominn heim úr stríðinu. Síðan syndum við að baugjunni en lífvörðurinn kallar okkur í land og segir að það megi ekki synda svona langt. Við tökum upp þráðinn í grynningunum þangað til að okkur er orðið kalt, hún fer og leggst á handklæðið, ég þarf aðeins að sitja eftir í sjónum til þess að róa líkamann. Þegar ég leggst hjá henni segir hún mér að ég sé guðdómlegur og að með mér gæti hún eignast fjörtíu börn. Hjartahrein orð hennar hlýja sál minni á sama tíma og sólin hitar upp húð mína. Við liggjum þétt upp við hvort annað í djúpri sælu.

Maðurinn með grænu derhúfuna kemur til okkar og spyr okkur hvort að við viljum borða eitthvað, fiskur er það eina sem er í boði og ég er hungraður. Við fáum okkur sæti á veitingastað og borðum ljúffengan fisk. Áður en ég sting fyrsta bitanum upp í mig heiðra ég tilveru fisksins og þakka honum fyrir orku sína. Við drekkum jökulkalt límonaði og niður sjávarins ómar í himinblíðunni. Lífið gæti ekki verið betra.

Brenda er að læra viðskiptafræði í háskóla í Panama, henni finnst fræðin skemmtileg en hún vill ekki fara aftur til Panama, en um það fær hún engu ráðið, foreldrarnir fara með valdið. Hún er kólibrífugl í búri foreldra sinna. Ég sting upp á því að hún komi að ferðast en fyrir henni er það aðeins draumur. Fjölskyldan hennar er efnuð þannig að peningar eru ekki málið heldur er það að hún mun ekki fá leyfi til að fara og ef að hún mundi fara án leyfis væri það ekki ósvipað því að stinga foreldra sína með hníf. Sjórinn kyssir ströndina og sólin nálgast sjóndeildarhringinn.

Ég spyr manninn með grænu derhúfuna um afganginn og hann segir mér að hinkra aðeins, við getum farið á ströndina og hann mun koma og finna okkur. Við förum í sjóinn og fingur hennar leika um líkama minn. Þvílíkur undraheimur sem við lifum í.

Við leggjumst á handklæðin og leyfum sólinni að þurrka okkur. Eftir langa unaðsstund talandi saman fer sólin að gylla öldurnar og breiða logalak yfir kvöldhimininn. Maðurinn með grænu derhúfuna hefur ekki látið sjá sig. Við klæðum okkur í fötin og gáum hvort að hann sé hjá bátunum sem eru byrjaðir að ferja fólk til baka. Manninn er hvergi að finna og hann lét okkur ekki heldur fá miða fyrir heimferðinni. Við förum á veitingastaðinn og þau kannast ekkert við hann og neita að greiða afganginn okkar sem ætti að vera um það bil 2000 krónur. Við leitum hátt og lágt að honum en hann hefur látið sig hverfa. Brenda tekur það inn á sig að vera svikin en ég samþyki vélráðin og beini hugarorkunni að ægifögru sólarsetri. Við tölum við lögregluna sem er á staðnum og síðan náum við að væla okkur inn á bát sem fer með okkur til baka ókeypis. Er við siglum meðfram höfðanum og óteljandi öldur hafsins stíga jafnvægisdans sekkur sólin ofan í hafið og er báturinn kyssir bryggjuna er myrkur. Við tökum rútu inn í bæinn þar sem við kveðjumst. Hún röltir niður strætið og ég hoppa upp í rútu til Taganga.

Á tjaldsvæðinu er Andreú hvergi að finna og Alvaro segir mér að hann sé ekki enn kominn heim af djamminu frá því í gær. Ég hugsa með mér að taka því rólega í kvöld og rölti niður á aðalgötuna og fæ mér ljúffengt maísbrauð fyllt með osti og guacamole á litlum götustandi fyrir framan áfengisverslunina. Þrír Colombianos frá Medellín spyrja mig hvaðan ég sé og við endum á því að setjast niður á ströndinni og spjalla. Ég vil ekki bjór en þeir heimta að fá að hella í glas handa mér. Þeir segja að í Medellín séu fallegustu konur í heiminum. Þeir eru allir vel þykkir og massaðir og segja mér frá íþróttinni sem þeir stunda, sund-rúgbý. Sund-rúgbý er stundað í fimm metra djúpri laug með sundblöðkum og sundgleraugum. Þeir voru að keppa í allan dag og eru að drepast í eyrunum. Þeir taka mig ástfóstri og vilja að ég komi og gisti heima hjá þeim þegar ég kem til Medellín. Þeir taka upp hnausþykka hreina jónu og tendra. Reykurinn liðast upp í stjörnuhimininn. Einn þeirra, sá sterkasti, er orðinn vel fullur og vill að ég fái mér sopa af vodkablöndunni sinni, ég fæ mér einn sopa. Sá myndarlegasti byrjar að sýna mér myndir úr símanum sínum, m.a. klúrar nektarmyndir af fáranlega heitri kærustunni sinni. Þeir tala um að í kvöld munu þeir finna heitar gellur og taka upp smokka hlægjandi. Ég spyr þann myndarlegasta: En þú átt kærustu? Já, svarar hann, en hún er í Chile! Hann slengir lófanum í lófann minn og hlær.

Að okkur kemur dulrænn maður og með hraðri röddu heilsar hann, spyr hvort að hann megi ónáða okkur stutta stund og svarar sjálfur spurningunni með breyttri röddu. Hann spyr okkur hvort að við höfum gaman af töfrabrögðum. Við erum hikandi, en játum. Hann byrjar töfrasýningu. Hann galdrar bolta upp úr engu og leikur undraverðar sjónhverfingarlistir. Við klöppum og hann biður okkur um smávegis samstarf ef að við eigum aflögu. Ég tek upp hálftómann graspokann minn og gef honum nokkur blóm. Hann þakkar mér kærlega fyrir. Drengirnir gefa honum eitthvað smáræði líka. Sá myndarlegasti spyr hvort að hann megi sjá pokann. Hann kemur auga á draumsýrupappann sem Andreú keypti handa mér og kallar yfir ströndina: Ég dýrka þennan mann!

Á morgun er þrítugasti og fyrsti og ég ætla að taka 2014 algjörlega laus við meðvitundarbreyti af öllu tagi fyrir utan kaffi og te. Engin eiturlyf. Ekkert áfengi. Ég spyr hann hvort að hann vilji taka draumsýruna, ég hafði hugsað mér að taka hana sjálfur við ströndina en sé ekki fram á að ég muni gera það. Hann spyr mig hvort að mér sé alvara. Ég segi að ef hann vill þá vil ég endilega gefa honum pappann. Hann ljómar en tekur ekki í mál að ég fái mér ekki hluta. Hann klippir litla pappaspjaldið í fjóra hluta og útbýtir fjórðungunum. Ég þykist setja pappann á tunguna og skýst til að hringja í Brendu og spyrja hana hvort að hún muni koma að dansa. Röddin hennar er leið og hún segir að foreldrar hennar vilja ekki að hún fari út í kvöld. Við sjáumst þá á morgun, segi ég. Sí mi amor, segir hún.

Ég kem aftur á ströndina og hitti á drengina. Við ákveðum að skella okkur á El Mirador. Dyravörðurinn vill ekki hleypa hinum myndarlegasta inn af því að hann er ber að ofan. Hann leysir vandamálið með því að klæða sig í þröngan speedo bol. Við göngum upp stigann, fáum okkur bjór og förum beint á dansgólfið. Ég heilsa upp á ástralska stelpu sem dansar brjálæðislega og spyr hvort að hún vilji hitta kólumbísku vini mína. Hún vill það ólm. Sá myndarlegasti er ekki lengi að taka utan um hana og tjá vilja sinn með þéttum dansi. Tónlistin er góð og dansinn dunar undir berum himni karibíska hafsins. Það er varla liðið á kvöldið og því er staðurinn ekki fullur. Sá myndarlegasti og sá sterkasti ákveða að skella sér í að skipta um föt, ná í pening og meiri draumsýru. Þeir skjótast og skilja mig eftir með honum sem er hrokafullastur og óöruggastur. Hann fer og fær sér annan bjór.

Inn á dansgólfið ganga átta argentískar fegurðardísir. Þrjár af þeim hafði ég hitt á ströndinni og spjallað aðeins við. Þær toga mig inn í danshringinn þeirra og hleypa engum öðrum karlmanni að. Skyndilega er ég umkringdur suðrænni fegurð í svo miklu magni að ég trúi varla eigin augum. Við stígum tryllt spor og þær klóra í loftið til mín líkt og kisulórur. Síðan skiptast þær á að koma upp að mér og vilja að ég snúi mér við svo að við getum slegið rössunum saman. Þær eru í stuði. Mér líður eins og guði. Argentísk fegurð er engu lík, hún er heit líkt og eyðimörk en blíð líkt og lækur, augun næturdjúp og kroppurinn engilfríður. Sá hrokafullasti reynir að stinga sér inn í hringinn en þær meina honum aðgang og segja honum blákalt að þær vilji ekki dansa við hann. Hann reynir að ná sambandi við mig en ég hef betri hluti að gera. Orkan í hringnum magnast og við byrjum að dansa í samræmi, við setjum hendurnar inn í miðju og hrópum er við setjum hendurnar upp í loft á sama tíma. Síðan stígur ein í einu inn í hringinn og dansar af eldmóð við klappandi hendur hinna í hringnum. Þær kalla mig í miðjuna og ég leysi alla mína danskrafta úr læðingi. Síðan gerist það að kólumbísku strákarnir koma aftur og sá hrokafullasti gerist aðgangsharðari að hringnum og reynir að kynna þann sterkasta og þann myndarlegasta fyrir stelpunum. Orkan deyr. Þær fælast í burtu líkt og dádýr sem skynja skyndilega þruskið í mjúkum fótsporum tígrisdýrsins. Ég bölva hinum hrokafullasta inni í mér. Ég heilsa þeim myndarlegasta og lít eitt augnablik af stelpunum. Síðan finn ég þær ekki, þær eru horfnar líkt og dögg fyrir sólu.

Sá hrokafullasti fer að segja hinum frá því hvernig að ég og hann vorum að dansa við gullfallegar argentískar stelpur á meðan þeir voru í burtu. Ég ranghvolfi augunum yfir þessum ómerkilegu lygum, hvað er hann að reyna að sanna? Sá myndarlegasti réttir mér fjórðung af draumsýrupappa. Ég þykist setja hann á tunguna en læt hann falla á gólfið. Eftir smá stund afber ég ekki nærveru hins hrokafulla og segji þeim að ég ætli að fara að leita af stelpunum en í raun læt ég mig hverfa á tjaldsvæðið og sofna vært.

Seinasti dagur ársins er genginn í garð. Brenda kemur til Taganga og við röltum fjallastíginn yfir hæðina að fallegri strönd og fyrir tilviljun í fylgd lögregluþjóns. Í Bogotá hitti ég par sem var rænt með hníf á þessum sama stíg. Við komum dótinu okkar fyrir á ströndinni og skellum okkur í hreinan sjóinn. Við festumst við hvort annað líkt og seglar. Líkamar okkar brenna líkt og miðnætursól. Sunna glitrar í dropum hafsins. Eftir ótalda ástarkossa syndum við langt út frá ströndinni, hún er stríðin og reynir að ýta mér í kaf en marvaðinn heldur, hún gefst ekki upp, ég þreytist og hún nær hausnum niður í hafið. Hún kafar og syndir í burtu, ég gríp í hælinn hennar og toga hana til mín. Hún tekur andardrátt, ég dýfi henni lauslega ofan í sjóinn. Hún kallar mig ribbalda og syndir í burtu. Ég toga hana aftur til mín. Hún kemur sér á bak og ég syndi með hana í átt að landi. Hún ýtir mér í kaf. Ég dreg hana með mér. Ribbaldi! Við syndum í land og kyssumst í fjörunni. Síðan leggjumst við hlið við hlið í sólargeislana. Hún býður mér heim til sín um kvöldið. Þegar ég er með þér líður mér eins og ég sé frjáls, segir hún, þú ert það fallegasta sem hefur komið fyrir mig. Ég spyr hana hvort að hún vilji koma með mér til Tayrona. Hún segir að foreldrar hennar muni aldrei leyfa henni það. Mér líkar ótrúlega vel við hana en hún er föst í búri foreldra sinna. Við löbbum stíginn aftur til Taganga með deyjandi sól litandi himininn eldrauðan. Hún tekur leigubíl heim og ég fer á tjaldsvæðið þar sem ég hitti Andreú.

Andreú hitti kólumbíska stelpu á djamminu og eyddi tveimur dögum og einni nótt með henni. Foreldrar hennar eiga glæsihús í hlíðunum fyrir ofan þorpið þar sem að hann sötraði bjór og kyssti stelpuna við sundlaugarbakkann.

Við tökum okkur nokkrir saman og eldum mat saman um kvöldið. Miðnætti nálgast er við sitjum saddir við borðið, einn Mexíkani, dos Colombianos, einn Spánverji og Íslendingur. Ég tendra í pípunni. Síðan rennur vísirinn yfir töluna tólf og gleðilegt nýtt ár. Nokkrar veiklulegar sprengingar heyrast utan úr þorpinu. Ég leyfi smá tíma að líða síðan tek ég leigubíl heim til Brendu. Hjartað í mér slær er ekillinn nemur staðar fyrir utan húsið hennar. Ég anda inn djúpt áður en ég opna hurðina og geng að hliðinu. Í forgarðinum situr fjölskyldan í plaststólum, tíu manneskjur horfa á mig opnum augum. Ég spyr um Brendu. Brenda rétt svo skrapp til vinkonu sinnar, komdu inn og fáðu þér sæti, segir stóra systir hennar og opnar hliðið. Ég geng hringinn og kyssi konurnar á kynnina og tek í hendurnar á mönnunum. Salsa seitlar úr háttstilltum hátölurum nágrannans. Ég fæ mér sæti og frændi hennar Brendu er fljótur að koma til mín og bjóða mér viský. Ég sting staupinu niður. Móðir hennar kemur með fullt fat af mat, m.a. kjötbita sem ég borða í kurteisisskyni. Áferðin er furðuleg, bragðið er dautt og mér er illt í maganum eftirá. Faðir hennar kemur og sest við hliðina á mér. Hann er brosljúfur og rjóður úr drykkju. Hann spyr mig spjörunum úr og er hæstánægður með mig og eftir gleðilegt samtal býður hann mig velkominn í fjölskylduna. Í þeim töluðum orðum gengur Brenda inn um hliðið í hvítum þröngum kjól, glansandi úr fegurð líkt og himinborin dís eða sólris við heimskautsbaug eða dalur blómanna í Himalaya eða vetrarbrautin á haustkvöldi í Hvítársíðu. Hún spyr mig hvort að allir séu búnir að kynna sig fyrir mér og hvernig mér finnist tónlistin. Frændi hennar kemur og hellir í annað staup fyrir mig. Tvær vinkonur Brendu ganga í gegnum hliðið, mig rámar lauslega í aðra þeirra en hina kannast ég við. Seggjafrændinn réttir mér fullt staup og suðrænn takturinn glymur. Inn um hliðið ganga tveir Bandaríkjamenn frá Miami, faðir eins þeirra er yfirmaður móður Brendu og þeir eru í stuttu ferðalagi um Kólumbíu. Þeir eru tvítugir, fæddir með silfurskeið í munninum og bjóða af sér hrokafullan þokka. Gamall frændi og gömul frænka standa upp og stíga dans. Mér er rétt viskýstaup. Síðan stöndum við unga fólkið upp og fleytum okkur niður í bæ þar sem að við náum að dansa í hálftíma áður en staðnum er lokað. Á dansgólfinu er Brenda hrædd við að kyssa mig af því að litla systir hennar myndi klaga í foreldrana. Við förum aftur heim til Brendu og setjumst í forgarðinum. Nú kemur tónlistin frá risavöxnum hátölurum í horni forgarðsins og hljómarnir glymja líkt og Dettifoss um hásumar. Pabbi hennar situr viskýglaður og dillar hausnum við taktinn. Frændinn úðar í mig viskýi þangað til að ég er orðinn mölvaður og ég tek fyrir að gleypa annað. Brenda skammar frænda sinn sem hlær viskýhlátri. Einn bandaríkjamannana segir mér að hann ætli inn á klósett að fá sér smá hvítt í nefið og spyr mig hvort ég vilji. Ég er góður. Augnlokin mín eru byrjuð að síga og þau hlægja að mér og frændinn býður mér meira viský sem ég tek ekki inn. Síðan stígum við inn í bíl, ég, Brenda, frænka hennar og litla systirinn sér um að keyra. Við keyrum hægt yfir til Taganga og þegar við komum er sólin komin upp. Ég kveð Brendu með kossi, leggst upp í tjald og sofna samstundis.

Ég vakna ferskur, skýr, hreinn líkt og Esjutindur á vetrarmorgni. Með tilgang í hjartanu og drauma syndandi um í huganum; sterka ákvörðun varðandi eigin hegðunarmynstur. Heilt ár án allra utanaðkomandi meðvitundarbreyta, fyrir utan te og kaffi. Ekkert nema eigið bros til að lyfta upp skapinu. Að innan skal krafturinn koma. Mér líður afskaplega vel með þessa ákvörðun. Það er hádegi og ég fæ mér sæti með fólki sem hefur ekkert sofið um nóttina. Ég gef Alvaro pípuna mína og leik tónlist fyrir Juliu litlu sem datt í gær og fékk krúttlegt sár á nebbann.

Ég kynnist sextugum furðufugli frá Bogotá sem hefur ferðast um allan heiminn og skrifað ótal bækur og leikstýrt leikritum og í hafurtaskinu sínu er hann með rafmagnsfiðlu, munnhörpu, ukulele og harmonikku. Hann tekur upp pípuna sína, fyllir hana af grasi og tendrar, otar henni síðan að mér spyrjandi án orða. Nei takk, segi ég. Hann segir mér söguna af því hvernig hann byrjaði að skrifa. Hann er af ríkum ættum kominn, faðir hans vann fyrir olíufyrirtæki og hann ólst upp á risavöxnu ættarsetri í Bogotá. Einn aðfangadagsmorgun þegar að hann var lítill vaknaði fjölskyldan hans upp við að finna lík við sundlaugina. Lögreglan kemur, rannsakar og málið er sveipað dulúð. Fjölskyldan var búin að bjóða öllum þeim merkilegustu íbúum Bogotá til boðs um kvöldið og lögreglan segir að boðið geti verið haldið með einu skilyrði að lögreglumenn verði viðstaddir. Boðið gengur fyrir sig án vandræða og rannsókn lögreglu leiðir í ljós að morðið var ástríðuglæpur, sá myrti var að stela kærustu morðingjans. Morðinginn lokkaði fórnarlambið heim til sín þar sem að hann stakk það margsinnis með hníf og kastaði því síðan yfir vegginn á sundlaugarbakkann í skjóli næturs. Morðinginn var dæmdur í fangelsi en þaðan slapp hann tveimur árum seinna, flutti til Cali og stofnaði einkaspæjaraskrifstofu. Þvílík jólagjöf, ímyndaðu þér, segir hann, líflaus manneskja við sundlaugarbakkann.

Ég hringi í Brendu og hún segir að hún megi ekki fara út í dag en kannski um kvöldið. Ég hringi í hana um kvöldið og með leiðri röddu segir hún að hún megi ekki koma.

Daginn eftir fær hún að koma í fylgd frænda síns og vinkonu sinnar. Hún kemur seint og við förum niður á strönd og himininn allur undirbýr sig fyrir sýningu sólarinnar. Frændinn sem úðaði í mig viský og vinkonan skella sér í sjóinn og við sitjum hönd í hönd og horfum á litadýrðina og innra með okkur finnum við sólina setjast. Á morgun ætla ég til Tayrona og hún fær ekki leyfi til að koma með, síðan er ég farinn brott.

Frændi hennar kemur og dregur hana í sjóinn með valdi. Þegar að hann er búinn að þurrka sér og klæða sig í bolinn hefni ég og þrykki honum í bleytuna. Sólin er sest.

Við röltum eftir aðalgötunni og síðan þarf Brenda að fara, hún segir að hún ætli heim að skipta um föt og koma svo um nóttina að dansa. Við kveðjumst í hinsta sinn og hún stígur upp í leigubíl. Hún fær ekki að koma um kvöldið. Ég fer að dansa með Andreú en er engan veginn í gírnum og fer heim í tjald að sofa.

Morguninn eftir vakna ég tilbúinn að fara til Tayrona. Andreú tímir ekki að taka bátinn þangað og vill fara í rútunni og hann þarf fyrst að fara til Santa Marta að redda pening og endalausar hindranir og flækjur. Hugur minn tekur ósjálfrátt ákvörðun um að hætta við Tayrona og drífa mig langt í burtu. Eitthvað ósýnilegt innsæi hvetur mig til að fara til Cartagena. Ég kveð Andreú og Juliu litlu og hoppa upp í rútu til Cartagena. Er rútan rennur eftir sænum er ímynd Brendu föst í sjáöldrum hugans.

Í útjaðri Cartagena lifir fólk í litríkum hreysum byggð úr afgangstimbri, aðeins lengra eftir veginum byrja að rísa upp voldug lúxushótel meðfram ströndinni. Sólin er appelsínugul yfir mistri sjávarins og kafar er ég stíg inn í leigubíl. Við keyrum inn í miðbæinn og ég fer inn á fimmtán hostel að leita að rúmi en allstaðar er fullt enda er tónlistarhátíð að byrja á morgun. Ég ákveð að taka skilaboðunum frá alheiminum og læt ekilinn skutla mér á rútumiðstöðina. Hann spyr mig hvort að ég sé alveg viss, hérna aðeins lengra eru fleiri hótel. Ég er alveg viss, segir innsæið. Á leiðinni segir hann mér hálfa ævisögu sína og sýnir mér myndir af börnunum sínum. Ég borða, fer á internetkaffi til að láta tímann líða og sest síðan inn í næturrútu til Medellín.

Klukkan sex ranka ég við mér í kulda fjallanna, rútan er stöðvuð við vegasjoppu, ég fæ mér kaffi og virði fyrir mér þykku þokuna sem hylur dalinn. Ég sest inn í rútuna og það kemur til mín ljóshærð stelpa sem byrjar að tala við mig á hollensku. Ég er ekki hollenskur, segi ég og hún fer vandræðaleg í sætið sitt. Ég dotta og vakna við það að við erum að renna inn í Medellín. Borgin liggur í víðum dal með fjallasali á báða bóga. Ég fer að ná í töskuna mína og tek mig á tal við hollensku stelpuna sem er líka að bíða eftir töskunni sinni. Með henni er önnur stelpa, kólumbísk, geislandi fögur líkt og Móðir Jörð. Þær spyrja mig á hvaða hostel ég sé að fara á. Kvöldið áður vegna ófaranna í Cartagena ákvað ég að taka frá rúm á hosteli sem heitir Secret Buddha, ég valdi það aðallega af því að það voru laus rúm í boði. Við erum líka að fara á Secret Buddha, segja þær, við getum farið saman. Ó, alheimur. Hollenska stelpan heitir Lotty og er brosmild, ljóshærð, hávaxin, með blá augu og starfar sem yogakennari. Gyðjan er hálf-kólumbísk, hálf-frönsk, með föngulegan líkama, hrafntinnusvart hár niður á axlir, göldrótt augu – í augum hennar sé ég jörðina -andlitið er móðurlegt og viturt, hlýlegt líkt og eplakaka á sunnudagsmorgni; hún er Pachamama holdi klædd, heilög vera af himnum ofan og ég þrái hana frá því augnabliki sem hún opnar munninn og himinljúf rödd hennar berst vitum mínum. Hún heitir Bettina Iris.

Medellín skartar frábæru lestarkerfi, þ.e metro. Við stígum inn í lest sem tekur okkur í útjaðar borgarinnar, þaðan tökum við leigubíl og endum á hostelinu sem er ótrúlega fallegt og friðsælt, en það er enginn þar, ekki sála og það er langt í burtu frá öllu. Ég sest og klappa tveimur elskulegum hvuttum. Stelpurnar vilja færa sig um set og bjóða mér með. Við tökum leigubíl inn í miðbæinn og förum á hostel sem einhver sagði þeim að væri snilld. Við tökum okkur þriggja manna herbergi þar sem að það er jafn dýrt og að vera í deildu rými. Í herberginu er hjónarúm og tvær kojur. Allir fara í sturtu og síðan förum við í göngutúr í leit að æti. Hverfið er snyrtilegt og fallegt; allt út í trjám og gróðri. Við römbum inn á kaffihús sem heitir Peregrino. Ég drekk hægum sopum besta kaffibolla sem ég hef á ævinni smakkað. Alvöru croissant bráðnar upp í mér. Bananakaka fullnægir bragðlaukunum. Við erum öll alsæl í áttunda himni. Við tölum um mat og þær eru báðar grænmetisætur. Við náum jafn vel saman og skúffukaka og mjólk eða góð bók og hægindastóll með regndropa lekandi niður rúðuna.

Við tökum lestina suður og förum í grasagarðinn. Aðgangur ókeypis. Við göngum um umkringd af grænverum. Vin í borginni. Friðsæld og angan blóma. Hundraðþúsund lauf blaktandi í sólinni. Við finnum okkur ljúfa laut og leggjumst í grasið. Við tölum um yoga, hugleiðslu, ferðalög og lífið. Við gerum nokkrar yogastöður og fíflumst og ég rúlla mér í grasinu og hleyp um eins og api. Síðan endum við í einni kös; ég sit í grasinu og Bettina hvílir hausinn á fætinum mínum. Þetta er fullkomið augnablik, segir Lotty. Eftirmiðdagssólin lýsir upp andlit Bettinu og baðar hana í töfraljóma. Ég rek fingurna í gegnum silkimjúkt hár hennar. Ljúfir eru lífsins dagar, segi ég og þytur trjánna tekur undir orð mín.

Um kvöldið fáum við okkur sæti á grænmetisætustað og innbyrðum ljúffengan mat og lífrænt kaffi. Samræðurnar flæða. Lotty talar um manninn sem hún er ástfanginn af og ástarsamband þeirra: argentískur kúreki sem er sautján árum eldri og á konu og fjögur börn, þau hafa verið að hittast leynilega í fimm ár og í mars ætlar hún til Argentínu að hitta hann. Undir borðinu snertast hnén okkar Bettinu. Eftir matinn rólum við okkur, vegum salt og förum upp á herbergi. Bettina leggst í hjónarúmið, ég við hliðina á henni og við hlustum á tónlist. Líkamar okkar snertast, hún er það fallegasta sem ég hef séð. Við skiptum um föt fyrir kvöldið og förum út.

Við röltum um hverfið sem er fullt af skemmtistöðum og krám, við fáum okkur sæti á bar, þær fá sér bjór og ég fæ mér kók í gleri. Barinn nær út á götu og borðið okkar er við gangstéttina, við deilum borði með tveimur innfæddum. Við sitjum drykklanga stund og virðum fyrir okkur mannlífið. Ein rosaleg pía stendur einsömul við veginn, haldandi á símanum sínum með eftirvæntingu í augunum. Stelpurnar segja að hún sé búin að fara í aðgerð fyrir rassinn og brjóstin, það er víst ekki óalgengt í Kólumbíu að láta sprauta smá fyllingu í rasskinnarnar.

Við stöndum upp og röltum þangað sem að veislan stendur hæst. Lítið torg er umkringt af skemmtistöðum af öllum stærðum og gerðum. Ég tek utan um Bettinu og við löbbum hlið við hlið, hún rennir hönd sinni eftir bakinu mínu og tekur í höndina mína. Við rekumst á tvo hollendinga sem stelpurnar höfðu hitt í Cartagena og borgum okkur inn á stað sem virðist vera að gera góða hluti. Við fáum stimpil og göngum upp stiga þar sem að dansgólfið er og nóg af borðum. Við fáum okkur sæti við borð og þau fá sér bjór. Ég og Bettina sitjum hlið við hlið, hnén snertast. Hún er alltaf brosandi. Hollendingarnir eru aðeins yfir þrítugt og eru stirðir og stífir í bragði en fínir gaurar, ég gef þeim ekki mikinn gaum. Bettina hefur hug minn allann.

Hún klárar bjórinn sinn og við förum að dansa. Reggaeton takturinn titrar, síðan kemur hver slagarinn á eftir öðrum. Við dönsum af miklum krafti og syngjum með einföldum viðlögunum. Svo ríð ég á vaðið og tek utan um getnaðarlegar mjaðmir hennar. Við dönsum þétt upp við hvort annað og þegar Salsa tónlistin tekur við sveifla ég henni í hringi og hún kennir mér ýmis brögð. Augun hennar geisla út frá sér yfirnáttúrulegu afli er við snúumst í hringi við seyðandi slátt suðrænnar nætur sameinuð í algleymisalsælu tveggja sála sem fundið hafa hvor aðra eftir árþúsunda leit í þúsundusta skiptið í gegnum hið eilífa ferðalag Alverunnar um sjálfa sig. Ég elska hana.

Við fáum okkur sæti til að hvíla okkur um stund. Bettina segir að ég dansi líkt og sé frá suðurameríku. Lottý og einn hollendingurinn eru að taka sig saman, hinn situr sviptómur drekkandi drykk. Lottý vill fara upp á hostel að ná í meiri pening. Við röltum út á götu. Ég og Bettina leiðumst, án þess að hugsa sný ég mér að henni og kyssi hana. Hjartað hennar tekur kipp er varir okkar snertast, segir hún mér daginn eftir.

Lottý nær í pening og hollendingarnir vilja fara á stað sem heitir Luxury sem er dálítið langt í burtu. Ég spyr þann sviptóma afhverju þeir vilji fara þangað þegar það er allt fullt af stöðum hérna rétt hjá. Hann segir að þeir vilji fara þangað af því að þeir heyrðu að það væri besti reggaeton staðurinn í bænum og að ég þurfi ekki að koma með ef ég vilji það ekki. Ég hlæ smá inni í mér. Lottý er smá skotin í hinum þannig að við komum auðvitað með henni. Við stökkvum upp í leigubíl sem hollendingarnir borga og ég borga mig inn á staðinn en stelpur fá frítt inn. Staðurinn er sæmilega fámennur og dansgólfið er skringilega yfirfullt af háum hringlaga borðum til að geyma drykkinn sinn á. Tónlistin er hinsvegar frábær og hljómgæðin mikil. Lottý og hollendingarnir standa við lítið hringlaga borð og drekka drykk en fyrir mér og Bettinu eru þau ekki til. Við dönsum og kyssumst og þreifum á holdi hvors annars með heitum lófum af kynngimagnaðri þrá. Hún er með stór yndisleg brjóst, þau stærstu sem ég hef komist í slíkt návígi við. Í huganum klæði ég hana úr fötunum og vil fara með hana burt og eiga með henni nóttina. Lottý og hollendingurinn kyssast og dansa en hann er stífur og heldur aftur af sér. Hinn sviptómi kemur upp úr þurru og kyssir mig á kinnina og kveður. Hann hverfur út um dyrnar. Stuttu eftir spyr Bettina mig hvort að við ættum ekki að láta okkur hverfa líka. Við erum sest upp í leigubíl á leiðinni upp á herbergi. Ég er einmitt með nóg af klinki í vasanum til að borga bílinn. Við opnum dyrnar inn í herbergið. Bettina sest á rúmið. Hún spyr mig hvort að ég eigi til smokka. Að sjálfsögðu.

Við liggjum upp í rúmi og kyssumst innilega. Tungur okkar lepja hvor aðra í fullkomnu samspili líkt og að allir okkar fyrri kossar með öðrum mannverum hafi einungis verið æfing fyrir þetta augnablik. Varir hennar eru það mjúkasta sem ég hef skynjað. Ég losa brjóstarhaldarann og klæði hana úr bolnum. Húð hennar er heit. Ég gríp um brjóstin hennar, fingurgómarnir senda hreinan unað upp í heilann. Orð fá því ekki lýst hversu rafmagnað loftið er í herberginu. Við losum okkur við öll föt og liggjum sem ein vera brennandi af ástríðu líkt og glóandi kvika í iðrum jarðar. Ég vil fá þig inn í mig, segir hún. Við sameinumst í frumaflsins kraftaverki og ólýsandi unaði. Que rico, stynur hún er líkamar okkar gleyma öllu afturhaldi og stíga lífsins heilaga dans við takt ástarinnar. Við veltumst um eins og dýr með útvíkkaða augasteina starandi inn í eilífð hvors annars. Við erum Alveran sjálf í æðstu hæðum tilverunnar og dansinn dunar í óralangan tíma. Komum á sama tíma, segir hún og ég eyk hraðann og við springum út eins og blóm að vori í örmum hvors annars lekandi úr svita og hjörtun okkur slá sem eitt líkt og svissneskur úrsmiður hafi samstillt þau af stjarnfræðilegri nákvæmni. Við liggjum hreyfingarlaus í alheimsins ástarsælu þangað til að bankað er á dyrnar hálftíma síðar.

Gefðu okkur smástund, segir Bettý. Við klæðum okkur og hleypum Lottý inn. Hún er glöð, við erum geislandi. Hún tekur stóra vatnsflösku, sest á milli okkar og talar og talar. Hún segist hafa fengið einhverskonar hugljómun, horfandi á hollendingana sem dönsuðu líkt og spýtur og svo á okkur sem sveifluðumst um í frjálsum hreyfingum óttalaus og hlæjandi. Hún talar langt fram á nótt og við hlustum á hana þolinmóð og brosandi.

Ég og Bettina sofnum í örmum hvors annars og er ég vakna og uppgötva að mig sé ekki að dreyma lengur lofsama ég alheiminn með ástarorðum. Bettina opnar augun og ég faðma hana að mér og við liggjum sameinuð í ástarsælu. Okkur hitnar í hamsi en höldum aftur af okkur þar sem að Lottý liggur sofandi rétt hjá. Þegar að hún vaknar og skellir sér í sturtu njótum við ásta í undraverðu samspili líkt og við séum ætluð hvort öðru, pöruð saman af Urði, Verðandi og Skuld. Síðan skellum við okkur í sturtu og ég gapi yfir fegurð hennar, líkaminn líkt og frjósemisgyðja.

Okkur til mikillar armæðu er Peregrino kaffihúsið lokað og við neyðumst til að finna önnur úrræði. Við fáum okkur sæti á miðlungsstað og drekkum miðlungskaffi. Við tökum metroinn á rútumiðstöðina og þaðan tökum við rútu upp á fjallið; vegurinn hlykkist til og frá og klifrar upp þar til að borgin blasir við í öllu sínu veldi og himininn er fullur af svífandi fólki í fallhlífum.

Við höfðum mælt okkur mót við klifurkonu sem tekur á móti okkur á toppnum. Hún lætur okkur fá búnað og líkt og ég hafði reiknað með á hún ekki til klifurskó í minni stærð. Við göngum niður bratta brekku eftir litlum stíg og komum að mikilfenglegum fossi og háum klettavegg. Ég læt vaða í erfiðu leiðina, þverhnípta sprungu, en næ engu gripi með skónum mínum og þarf því að koma fljótlega niður, örmagna í höndunum. Stelpurnar klifra af krafti og fossinn fellur, himininn blár og hreinn; bjarkarilmur og fuglasöngur úr laufþykkninu. Ég reyni við hina leiðina en gönguskórnir mínir renna til á yfirborði klettsins, ég kem mér hátt upp en læt mig svo síga niður. Ég væri svo mikið til í að klifra upp á topp en samþykki hlutskipti mitt. Eldingahljóð berast úr fjarska. Stelpurnar eru alveg búnar á því eftir gott klifur og við röltum til baka. Við stöndum yfir borginni og virðum fyrir okkur útsýnið. Þegar við komum til baka upp á skrifstofuna bið ég um helmingsafslátt sem ég fæ. Um leið og við komum undir þak byrjar að hellirigna og hundraðþúsund droppar skella á jörðinni er við sitjum og sötrum á heitu súkkulaði. Þruma lýsir upp grá skýin. Til þess að taka rútuna aftur niður þarf eitt okkar að hlaupa út í úrhellið að veginum og stöðva hana. Við fáum okkur kaffi og maísbrauð með smjöri og bíðum eftir því að rigningunni sloti. Eftir langa bið er stelpunum orðið kalt. Ég býð mig fram og hleyp út að veginum og stend í úðanum bíðandi eftir rútunni. Svo þegar rútan kemur loksins og ég er orðinn rakur kalla ég á stelpurnar en þær er hvergi að finna enda skruppu þær aðeins á salernið. Það er þungt yfir fjallinu en rigningin er orðin að léttum úða. Ég fer að finna þær og þær koma með mér að bíða við veginn. Rútan hleypir okkur upp í en það eru engin laus sæti og lágt til lofts, ég stend kengboginn með herðarnar í þakinu og rútan sveiflar sér niður hlíðina á ógnarhraða og mér verður óglatt. Ég sest niður á stólarm og mér líður aðeins betur. Síðan losnar smá pláss aftast þar sem ég get sest á gólfið. Mér líður eins og ég gæti ælt á hverri stundu. Bettina stendur áhyggjufull yfir mér og spyr hvort að það sé allt í lagi. Ég segi að ég gæti þurft að æla. Gömul kona heyrir það og kallar hástöfum fram í rútuna: Bílstjóri, bílstjóri! Poka, poka! Á ógnarhraða lætur fólkið ganga á milli sín svartan poka og hann berst mér á svipskotsstundu. Rútan fer að skellihlæja. Um leið og ég fæ pokann róast maginn og ég æli ekki. Ég þykist æla á litla stelpu í sætinu við hliðina á mér, henni bregður og maðurinn hinum megin við mig skellihlær og gefur mér hnefakoss. Loksins rennur rútan í hlað.

Við fáum okkur að borða á sama veitingastað og í gær. Síðan leggjumst við dauðþreytt inn á herbergi. Lottý segir að hún vildi gjarnan yfirgefa herbergið og leyfa okkur að vera í friði en hún er örmagna úr þreytu og ætlar að fara að sofa. Við getum farið upp á þak, segir Bettina. Við förum upp á þak. Á þakinu er lítil sundlaug og stórt rými með stólum til þess að slappa af. Þakið er mannlaust. Við kyssumst. Bettina er 25 ára. Hún er nýútskrifuð með master í alþjóðlegri blaðamennsku. Hún hefur átt heima í Frakklandi, Kólumbíu, Perú, Benín, Hollandi, Taílandi og Dóminíska lýðveldinu. Hún talar fjögur og hálft tungumál. Hún hefur ferðast víða og var lengi í Taílandi að kenna köfun. Draumurinn hennar er að halda áfram að ferðast og kynnast fleira fólki. Hún er allt sem hug minn dreymir um. Ég er ástfanginn af henni. Á morgun þarf hún að fara til Bogotá til að ná flugi til Amsterdam þar sem hún fékk vinnu á frumkvöðlaskrifstofu. Á morgun verður hún farin.

Við kyssumst undir næturhimni, alein á þakinu, ástföngin hjörtu örlögum bundin. Við fækkum fötum og skyndilega stend ég nakinn undir stjörnunum. Með henni er allt hægt, ekkert ómögulegt, við þekkjum engan hérna á hostelinu og okkur er sama. Ástarblæja dregin fyrir augum okkar, blind fyrir eðlilegri hegðun á síðasta kvöldinu okkar saman í langan tíma. Við gefum okkur á vald hvors annars og sameinumst í eitt, leikandi á demantahörpu líkamans í tímaleysi og himnaríkismunaði. Allt sem var, er og verður hverfur inn í þetta eina andartak og örlagaþræðirnir okkar, tvinnaðir saman, glóa líkt og gull. Síðan heyrist þrusk í stiganum. Við náum að hylja okkur eilítið áður en að kínverji labbar upp á þakið, hann kemur auga á okkur og flýtir sér niður: Afsakið, afsakið, fyrirgefið, fyrirgefið.

Við fáum okkur sæti á gólfinu með ponchoið yfir okkur og tölum saman þangað til að okkur er orðið kalt. Hún segist elska mig. Ég segist elska hana. Alheimurinn er klikkaður. Hún er að fara á morgun en við erum ekki leið. Við vitum að við munum sjást aftur.

Morguninn eftir er rigning og grátt yfir borginni. Við fáum okkur sæti á kaffihúsi og sitjum í notalegu skjóli og drekkum kaffi er droparnir hrynja niður umhverfis okkur. Bettina segir okkur frá frænku sinni sem fór og bjó hjá ættbálki í frumskógi Kólumbíu í tíu ár. Sonur hennar sem hún eignaðist rétt áður en hún fór í frumskóginn ólst upp líkt og Tarzan og eyddi dögunum klifrandi í trjánum, talandi við dýrin og hoppandi á steinum yfir ánna. Síðan þegar að hann var tíu ára flutti hann til Frakklands til föður síns og komst aldrei inn í samfélagið þar, hann þekkti allar plönturnar í skóginum en að reikna með tölum og skrifa niður málfræði var ekki hans sérgrein. Hann endaði í rugli á unglingsárunum, hann stal og sótti í eiturlyf. Síðan reif hann sig upp og núna starfar hann sem húsgagnasmiður.

Við förum á rútumiðstöðina þar sem að við kynntumst. Allt í heiminum fer í hring. Um æðar okkar rennur elskað blóð. Við kveðjumst með djúpum kossi og þær stíga upp í rútuna sem hverfur í burtu og hjartað mitt með henni. Tómur að innan en á sama tíma óyfirstíganlega glaður yfir því að hafa kynnst henni. Ég stíg upp í átta klukkutíma rútu til Armeniu og hugsa einungis um hana. Ég sé hana í öllu og engu. Við töluðum um að hún myndi koma til Íslands í sumar. Ég er fullviss um að við munum hittast aftur, jafnvel bráðlega.

Rútan rennur í hlað og í rökkrinu finn ég mér hótelherbergi. Ég sofna og dreymi hana. Snemma um morguninn tek ég rútu í lítið þorp sem heitir Salento. Rútan líður í gegnum Armeniu sem er forljót og fráhrindandi, kemur síðan út í sveitina og eukalyptus ilmur fyllir vit mín, landið er blessað, grænt og hreint, gróður í hverju horni og trén glampa í morgunbirtunni. Rútan klífur upp bratta hæð og ég hoppa út í litlu friðsælu þorpi. Húsin litrík líkt og regnbogi. Fólkið afslappað líkt og það þekki tilgang lífsins. Ég tek leigubíl á hostel sem er korter í burtu frá bænum. Ég fæ rúm í deildu rými og læt mig detta í hengirúm í garðinum. Útsýnið er ótrúlegt. Skógivaxnar hlíðar, græn engi, beljur á beit, fjallagarðar og djúpur dalur fylltur af kaffiplantekrum. Hér ætla ég að vera í nokkra daga og skrifa í kyrrðinni.

Ég kynnist hollendingnum Sjourde, hann ákvað að hætta í vinnunni sinni, selja allt og fara í ferðalag um Suður-Ameríku í átta mánuði. Hann er sterkbyggður, krúnurakaður og var einu sinni í landsliðinu í Júdó. Við tölum spænsku saman sem gleður hann afskaplega, af því að venjulega þarf hann að tala ensku á hostelunum, hann er búinn að vera að læra í nokkra mánuði og talar furðulega vel miðað við stuttan tíma. Á hostelinu sem heitir La Serrana, er boðið upp á kvöldmat, lítil tafla stendur í anddyrinu og ef maður vill mat skrifar maður sig niður og ef maður er grænmetisæta setur maður lítið (v) fyrir aftan nafnið sitt. Við fáum okkur sæti við stórt borð úr viði í daufri birtu kertaljósa og líflegar samræður hefjast á milli ferðalanganna sem eru komnir saman við borðið. Maturinn er ljúffengur og gerir mig pakksaddann og konurnar sem sjá um matinn eru yndislegar. Við Sjourde ákveðum að fara í göngutúr saman á morgun inn í Cocorra dalinn og ein þýsk stelpa og argentísk kona vilja slást með í för.

Á slaginu sjö um morguninn sitjum við fjögur saman við morgunverðarborðið þar sem yndislegu konurnar útbúa ókeypis morgunverð handa okkur. Ég drekk svart kaffi og borða eggin mín og brauðið. Sólin er nýskriðin yfir fjallið og breiðir ljúfri morgunbirtunni yfir ríki sitt. Við röltum inn í þorpið þar sem að við hittum á vinkonu argentísku konunnar og tökum síðan jeppa inn í dalinn. Jeppinn er stútfullur og ég og Sjourde stöndum aftan á og höldum okkur í járngrindina á þaki jeppans er hann rennur niður í gegnum sveitina, blíður vindur í hárinu, ilmur í loftinu, skýlaus bláhiminn; þetta er fallegur dagur. Við keyrum meðfram stórri á sem baðar steina farvegs síns af mikilli alúð. Eftir um hálftíma akstur erum við komin. Við eltum stíginn og erum brátt komin út í glaðgræna náttúru þar sem fuglar syngja á kvisti og fjallstindur gnæfir yfir dalnum af eilífri ró. Lækur rennur meðfram stígnum og hvít belja með svörtum blettum bítur gras og horfir á mig ótrufluðum augum. Ég og Sjourde röltum og röltum og erum komnir langt fram úr konunum, við bíðum aðeins við stóran stein sem hefur eytt stórum hluta seinustu aldar í að klæða sig í mosa og skóf. Stígurinn verður forugur og blautur og við tipplum á tánum á litlum steinum sem liggja í leðjunni.

Við erum komin dýpra inn í dalinn og há tré umlykja stíginn. Við komum að skógará. Við förum yfir brú sem sveiflast til hliðanna við hvert fótspor. Athugið, aðeins einn í einu, segir skiltið við brúnna. Niðurinn í ánni heltekur hu minn og minnir mig á að lífið er ljóð. Við bíðum eftir argentísku konunum og ég stari inn í strauminn og nem hvernig áin slípar steininn og hvernig hún finnur sér leið án þess að hugsa. Afhverju er ég að eyða tíma í stórborgum? Hér líður mér best, hér á ég heima; á meðal trjánna, ánna og dýranna; í þögninni, í kyrrðinni, í fámenninu, í náttúrunni og í tæru flæði alheimsins; hér er svipur minn bestur: brosandi án afláts.

Við förum yfir fimm brýr til viðbótar. Við seinustu ánna ákveð ég að sleppa brúnni og stikla á steinunum í staðinn. Grjótið er sleipt en ég held jafnvæginu og kemst naumlega yfir seinasta stökkið. Við komum að lítilli húsaþyrpingu hátt í hlíðinni þar sem að við borgum 200 krónur í aðgangseyrir sem fer í að laga brýrnar og viðhald á stígunum og í þokkabót fáum við heitan drykk að eigin vali. Um leið og við komum undir bárujárnsþakið byrja skýin að fella tár. Ég sest niður með rjúkandi kaffibolla og horfi á hundrað kólibrífugla þjóta um loftið, þeir setjast rétt hjá mér og þeim er alveg sama um mannverurnar sem hlaupa um að reyna að ná góðum myndum af þeim. Þeir eru pínkulitlir, glansandi grænir og fjólubláir og fljúga um á ógnarhraða líkt og ofurþyrlur. Síðan kemur eitthvað furðulegt dýr með langt röndótt svarthvítt skott og snapar ostbita frá konunni sem sér um staðinn. Ég tek upp ananas og mangó og sker í bita og gef hópnum. Væntanlega tekur ein argentíska konan upp hitabrúsa og mate, hún fyllir sérhannaðan bollan af grænum laufunum, hellir sjóðandi vatninu yfir og fær sér sopa í gegnum stálrörið. Hún lætur bollann ganga þannig að hver og einn drekkur þangað til að vatnið klárast, síðan setur hún meira vatn og næsti fær. Hægt og rólega gleðjast skýin og hætta að gráta. Til vonar og varar fæ ég mér svartan plastpoka með til að klæða mig í.

Núna liggur leiðin upp í móti. Stígurinn er blautur en ekkert svo sleipur. Fuglar gefa frá sér fagra tóna er við klífum upp brattann. Þykk tré gnæfa upp í himininn. Eftir mikinn svita komum við að rjóðri þar sem að lítið rautt hús stendur einsamalt og í bröttu engi liggur spök belja og vinur hennar hesturinn. Frá húsinu er leiðin greið og breiður vegurinn liggur niður í móti. Skýin úða blíðlega yfir okkur. Frá veginum sést niður í dalinn og skýin sem sveipa allt hvítum lit sínum hreyfast fyrir augunum á mér. Síðan göngum við í gegnum ský og þegar við komum út úr því sjáum við risavaxin pálmatré sem teygja sig langt upp í geim líkt og lítill krakki aðspurður hvað hann sé stór. Svona stór! Þau eru mörg, dreifa sér um fjallshlíðina og eru ævintýraleg í mistrinu sem sveipar dalinn í dulúð. Eftir langa göngu erum við komin aftur á byrjunarreit og við hoppum upp í jeppa sem fer með okkur í þorpið. Við fáum okkur að borða á torginu og röltum svo heim á La Serrana.

Daginn eftir fáum við Sjourde okkur fjallahjól og brunum niður endalausa brekku niður í kaffidalinn þar sem við förum í heimsókn á kaffibúgarð. Don Elías, sjötíuogfimm ára kaffibóndareynsla með hvítan kúrekahatt leiðir okkur í gegnum plantekruna með barnabarninu sínu. Þau framleiða þrjú til fjögur tonn af kaffi á ári og það dugir til að halda fjölskyldunni á lífi. Það eru tvær uppskerur á ári. Þeir sem vinna við að týna kaffibaunirnar fá borgað tuttugu krónur fyrir kíló af baunum. Þeir sem eru góðir að týna ná jafnvel að týna fimm kíló á dag. Kaffitýnsla er aðeins smá aukastarf til að drýgja tekjurnar. Andskotinn hafi það, hugsa ég, þessi þrælalaun eru ekki upp í nösina á rottu. Í raun er mjög einfalt að rækta kaffi en handavinnan er gífurleg. Á hverjum mánuði þarf að yfirfara hverja plöntu til að gá að því hvort að laufblöðin séu sýkt af ákveðnum sveppi eða þá hvort að ákveðið skordýr sé að borða berin. Ef það finnst sýkt laufblað eru laufblöðin klippt af og þau brennd upp til agna.

Þegar það er búið að týna baunirnar eru þær látnar í gegnum kvörn sem losar þær við húðina, þaðan falla þær ofan í vatnskar þar sem þær eru látnar liggja í eina nótt. Síðan eru þær settar í þurrkun. Þegar þær eru þornaðar er meirihlutanum af baununum pakkað saman og þannig eru þær fluttar úr landi í útlenskar kaffibrennslur. Við mölum kaffibaunir og fáum síðan þrælgóðan svartan bolla. Ég kaupi mér poka af lífræna kaffinu þeirra sem þeir selja aðeins á búgarðinum. Við dröslum okkur upp brekkuna á hjólunum, ég fer í yndislega heita sturtu og leggst upp í hengirúm og horfi á sólina setjast yfir fjöllunum í fjarskanum.

Morguninn eftir heldur Sjourde ferðalaginu sínu áfram og ég sit eftir í yndislegum friði og skrifa. Andinn í húsinu er góður og ég kynnist fullt af yndislegu fólki.

Alex, tuttuguogtveggja ára stelpa frá bandaríkjunum, nýútskrifuð úr sálfræði, verður besta vinkona mín og við sitjum marga morgna í röð og borðum pönnukökur með sýrópi og tölum fram á hádegi. Hún er gagntekin af ástarsögunni minni og segir að þegar ég tali um Bettinu glansi ég allur og augun mín fyllast af ljósi.

Colin, jafnaldri minn, enskur hippi með hringlaga Lennon gleraugu sem pabbi hans átti, spilar á gítar við varðeldinn sem er haldinn á hverju kvöldi, er grænmetisæta, með langt sítt hár og lítur alveg eins út og Jesús eða John Lennon eða Alan Watts. Hann er spakari en lækur.

Ástralska parið Jess og Chris, þau flugu til Kanada, keyptu sér lítinn húsbíl og keyrðu niður Bandaríkin til Mexíkó. Jess ákvað að verða grænmetisæta þegar að hún sá þjáningu dýranna á markaði í Gvatemala. Chris stendur á höndum og talar um hátíðina Burning Man sem er vikulöng, haldin lengst út í eyðimörkinni og á að vera mesta
snilldin í heiminum.

Curt, þrjátíuogfimm ára Ástrali, búinn að ferðast út um allan heim, alltaf glaður líkt og hann sé fimm ára, ótrúlega hress, fékk þá hugmynd að gera matreiðsluþátt þar sem hann mun elda einfalda rétti á hostelum víðsvegar um heiminn, býr til fáranlega gott guacamole, búinn að vera á La Serrana í níu daga og er ekki ennþá búinn að labba um Cocorra dalinn, fer í iðnaðarvöruverslun og kaupir pípur, býr til Didgeridoo úr pípunum, við varðeldinn fer hann með ljóðin sín og einn morguninn klæðist hann litríkri skyrtu og stuttbuxum og segir að þetta sé Kúbverski rútubílstjóra klæðnaðurinn sinn.

Dagarnir líða í vináttu og ró, ég skrifa á morgnanna, borða mangó og drekk lífrænt kaffi, alltaf er einhver að elda eitthvað og bjóða mér, um eftirmiðdegið spjöllum við og hlustum á tónlist og á kvöldin sitjum við varðeldinn, ég spila á munnhörpuna, Curt spilar á didgeridooið og Colin sendir spænska tóna út í nátthimininn.

Ég og Bettina sendum hvoru öðru ástarbréf og það er ótrúleg ljóðlistin sem vellur út úr mér þegar ég skrifa henni. Einn daginn þegar við erum að tala á Skype býð ég henni að koma til Perú og ferðast með mér og Þór til Brazilíu. Hún segir að hún sé búinn með peninginn sinn. Allt sem er mitt, er þitt, segi ég. Hún vill ekki vera fjárhagsleg byrði á mér. Ég segi að ef peningarnir sem ég eigi geti ekki verið nýttir í að koma henni yfir hafið til mín séu þeir verðlausir. Hún segir að hjartað hennar segi já en að hún þurfi aðeins að hugsa með hausnum. Hún talar við vini sína og talar við foreldra sína. Tveimur dögum seinna tölum við saman á Skype og hún segir: já, ég vil koma. Líkaminn titrar úr alsælu og ég get ekki hætt að brosa í marga daga. Ég millifæri á hana fyrir fluginu og hún er að koma eftir tvær vikur. Lífið er undravert, lífið er fullkomið, lífið er kraftaverk og ást er aflið sem knýr okkur öll. Lífið gæti ekki verið betra.

20140122-110658.jpg

20140122-110716.jpg

20140122-110727.jpg

20140122-110737.jpg

20140122-110744.jpg

20140122-110751.jpg

Standard

Skrímslið og klettarnir.

Þriðji desember. Flugvélin lendir mjúklega. Sólin er nýkomin upp. Ég stíg út í svalt loft Bogotá. Rúta fer með okkur í flugmiðstöðina. Ég finn töskuna mína og kem mér út af flugvellinum. Brosandi maður í jakkafötum kemur til mín og spyr hvort að ég þurfi leigubíl. Ég sýni honum heimilisfangið. Úff, segir hann, þetta er langt í burtu, ef þú ferð með með okkur mun þetta kosta þig, ég mæli með því að þú farir í leigubílana þarna aðeins lengra í burtu, þeir eru ódýrari, gangi þér vel! Ég stíg inn í ódýrari leigubíl og glaðværasti leigubílstjóri sem ég hef séð spyr mig hvort að ég hafi gaman af tónlist. Já, svara ég. Hann setur háværa kólumbíska tónlist í spilun og horfir afturí kinkandi kollinum glottandi. Hann spyr hvert ég sé að fara, ég segi að ég sé að fara til vinkonu minnar. Ah ég skil, “vinkona”, er hún sæt eða ljót, spyr hann hlægjandi. Ég horfi útum gluggan á þetta framandi land og glaðvær tónlistin passar fullkomlega við hugarástand mitt. Eftir langa bílferð stöðvum við í Palermo sem er heilbrigt hverfi að sögn leigubílstjórans. Ég dingla á dyrabjöllunni á þriggja hæða fjölbýli. Kvenkyns rödd svarar. Hæ, þetta er Ari, segi ég. Þögn. Leigubílstjórinn bíður í bílnum og horfir á mig með eftirtekt. Síðan kemur ung kona niður stigann og opnar hurðina fyrir mér. Við kyssumst á kinnina og hún bíður mig velkominn. Við förum upp á fjórðu hæð og komum inn í litla krúttlega íbúð sem er skreytt frá toppi til táar, hér eru jólin byrjuð. Dúkkur og jólabangsar sitja í öllum hornum, kransar dekka borðin, lítil heimagerð Betlehem sýnir fæðingu Jesúsar, jólasveinn með stóran poka á bakinu fylltan af gjöfum stendur við hliðina á ríkulega skreyttu jólatréi. Allsstaðar þar sem hægt er að koma fyrir skreytingu er skreyting og litaðar jólaseríur blikka og baða allt í anda jólanna. Unga konan segir mér að fá mér sæti og slappa af, vertu eins og þú sért heima hjá þér. Ég fæ mér sæti í sófa við hliðina á nokkrum dúkkum og stórum böngsum með jólasveinahúfur. Unga konan heitir Juanita og ég er inná heimili hennar í gegnum Couchsurfing. Hún er 24 ára, ljós yfirlitum, með fallegt bros, á auðvelt með að hlægja, er búinn með BA próf í líffræði og er núna að læra þýsku til þess að komast inn í háskóla í þýskalandi af því að hún hefur svo mikinn áhuga á ákveðnum plöntutegundum sem einhver þjóðverji rannsakaði fyrir nokkrum áratugum. Á veggjunum hanga falleg málverk sem sýna sólarsetur yfir hafinu, fugla á flugi og ævaforn tré. Ég hrósa málverkunum. Juanita segir að mamma sín hafi málað þau öll. Hún spyr mig hvort að ég sé þreyttur, hvort ég vilji hvíla mig aðeins eða koma út í göngutúr. Ég svaf í þrjá tíma í nótt og kannski hálftíma í flugvélinni, ég er góður, skellum okkur í göngutúr.

Bogotá er allt öðruvísi en ég hélt að hún yrði. Ég bjóst við skrímsli sem myndi tæta mig í sundur en í raun nýt ég mín röltandi um göturnar. Við göngum uppí móti og við enda götunnar í fjarskanum sést glitta í skógivaxið fjall á milli háhýsa. Juanita fer með mig í háskólann sinn þar sem hún er að vinna að rannsóknum. Skólalóðin er rosalega flott og svo virðist sem allt á milli himins og jarðar sé kennt hérna. Hávaxin tré vaxa út um allt og blessa umhverfið með grænum laufum og fersku lofti. Nemendurnir eru allir komnir í frí þannig að það er lítið af fólki á vappi. Við komum við í kaffisölunni og ég fæ mér jarðarberjasafa. Skólinn er byggður í brattri hlíð og frá íþróttahúsinu sem er efst í hlíðinni er frábært útsýni yfir borgina sem breiðir úr sér eins langt og augað sér. Á leiðinni niður hlíðina nemum við staðar við lítið tré og Juanita slítur litla grein af og setur í bakpokann sinn, hún þarf greinina til þess að teikna hana fyrir litla samkeppni sem hún vill taka þátt í. Hún er kraftmikil listakona líkt og mamma sín.

Við fáum okkur sæti á súpuveitingastað en það kemur í ljós að engin súpa er laus við dýr þannig að við göngum aðeins lengra og förum á stað sem er alveg laus við dýr, veitingastaðinn Maha sem færir okkur ljúffengan mat. Eftir matinn fer Juanita í háskólann að vinna í rannsókninni. Rannsóknin er búin að vera í gangi mjög lengi og það sem verið er að rannsaka er hvort að ákveðin pálmaolía hafi góð áhrif á mannverur.

Ég ráfa um einsamall umkringdur háhýsum. Fólk af öllum stærðum og gerðum labbar um í ókunnum erindagjörðum. Fólkið er stílhreint og svalt. Konurnar guðdómlegar; aðra eins fegurð hef ég ekki séð í slíku magni og í slíkum gæðum á jafn stuttum tíma. Ég rölti niður breiðgötuna og horfi á fólkið, gangstéttin er breið og meðfram henni liggur hjólastígur. Unglingar þjóta niður hjólastíginn á hjólabrettum. Ástfangið par situr á bekk. Hestur dregur frumstæðan vagn eftir götunni, vagninn er drekhlaðinn af allskonar drasli og gamall útigangsmaður heldur í taumana. Gömul kona stendur við götustandinn sinn og hellir svörtu kaffi í bolla viðskiptavinarins. Gullfalleg blómarós kemur á móti mér niður götuna, engilfríð og glampandi líkt og blástjárna. Hún hverfur út í sögu lífs síns og aldrei mun ég sjá hana framar, en nokkrum mínútum síðar lít ég aðra enn fallegri. Maður kemur til mín og bíður mér að kaupa reykkelsi, ég neita kurteislega, hann spyr mig hvort að ég geti gefið honum smá aur, ég neita og hann heldur áfram leið sinni eftir smá þras sem endar þó á góðum nótum.

Ég sest niður á bekk og sofna næstum því sitjandi. Ég fæ mér kók í gleri og hressist aðeins, ég sit á bekknum og horfi á fólkið koma og fara. Á bekknum við hliðina á mér situr heimilislaus maður vafinn inn í svefnpoka. Hann horfir grimmum augum á heiminn sem hefur eflaust leikið hann grimmt. Hann er með djúpa afmyndun í enninu eftir þungt högg eða slys fyrir langa löngu. Hann heldur litlu útvarpi alveg upp að hægri eyranu, hann setur það niður á bekkinn þegar að félagi hans kemur til hans með ílát fyllt af mat. Félaginn kemur, lætur hann fá matinn og fer án þess að segja orð. Maturinn hverfur fljótlega ofan í magann. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að bjóða honum upp á kók í gleri, mig virkilega langar til þess en eitthvað innan í mér stöðvar mig: hræðsla. Ég sit á bekknum og horfi þögull, síðan stend ég upp og geng niður götuna þangað til að þreytan skolast yfir mig aftur, ég fæ mér sæti á öðrum bekk. Útigangsmaður kemur til mín. Svartur elskulegur hvutti fer hringinn í kringum mig og biður um blíðu. Þetta er hundurinn minn, segir hann, og þetta er kerran mín. Hann bendir á þá mestu hrákasmíði sem ég hef augum litið. Þarna sef ég með konunni minni, segir hann. Hvernig vinnið þið ykkur inn pening, spyr ég hann. Við söfnum pappa og plasti og förum með það í endurvinnsluna, við fáum borgað kílóverð, segir hann. Hjálpar ríkisstjórnin ykkur eitthvað, spyr ég. Nei, eina hjálpin sem við fáum er ruslið frá fólkinu. Hann er klæddur í buxur sem hafa aldrei verið þvegnar, svarta úlpu sem var eitt sinn hvít og tennurnar, þær sem eftir eru, eru rotnar. Samt brosir hann þessu sakleysislega brosi. Ég gef honum smá pening til þess að fá sér að borða með konunni sinni. Ég sé hann seinna um daginn og hann brosir til mín líkt og leikskólakrakki.

Ég fæ mér gluggasæti á kaffihúsi, dreypi á kólumbísku og horfi á mannlífið líða hjá. Ég upplifi þá yndislegu gleði sem fylgir því að vera í glænýju landi. Síðan hringi ég í Juanitu og við hittumst á götuhorni og förum heim til hennar.

Juanita og mamma hennar Esperanza eru ótrúlega ljúfar manneskjur. Við förum á jólatónleika í fullum íþróttasal háskóla Juanitu þar sem að vald kaþólskrar kirkju yfir hugum viðstaddra kemur skýrt fram í einróma endurtekningu á bænum. Þúsundir samtaka: Amen. Jólalögin eru nokkurn veginn þau sömu og á Íslandi fyrir utan eitt stórskemmtilegt um asna. Eftir tónleikana römbum við inn á aðra tónleika þar sem að heil sveit af tónlistarmönnum spilar ekta kólumbíska tónlist. Allir klappa taktinn og hrópa úr kátínu eftir hvert lag. Laglínurnar eru gleðiþrungnar og fagna tilvistinni við undirleik grípandi takts. Allir í kringum mig eru brosandi.

Daginn eftir fer ég með Esperönzu, móðurinni, í grasagarðinn. Við göngum hægt og skoðum trén og plönturnar gaumgæfilega í mildri sól fjallanna. Laufblöð dansa í golunni og orka trjánna skolar þrýstingi borgarinnar í burtu; garðurinn er vin í eyðimörkinni, þögult hof fræja og ljóstillífunar.

Daginn eftir er ég á göngu um miðbæinn. Umhverfið hefur áhrif á svip minn, hann er harður og tómur með einstaka brosi, þveröfugt við svipinn minn í þorpinu eða náttúrunni. Ég labba eftir aðalgöngugötunni og virði fyrir mér götulistamennina, fólksmergðina og mæti flóttalegum augum fjöldans. Þegar ég er að ganga inn á aðaltorgið kallar ung stelpa á mig, hún situr í tröppunum fyrir framan stóra kirkju og það er verið að pússa gulu skónna hennar. Hún biður mig um að fá mér sæti hjá sér. Ég hika. Enginn er traustvekjandi í Bogotá og ráð Esperönzu fljúga mér til hugar: Ekki treysta neinum. Ég fæ mér sæti hjá henni og þegar að hún segir mér að hún sé að vinna fyrir módelskrifstofu og að ég sé með góðan prófíl fyllist ég af efasemdum um tilætlanir hennar. Hún er með hnetubrúnt hár og seyðandi augu. Hún heitir Gabriela en er kölluð Conejita, eða litla kanína, sem er dregið frá eftirnafninu hennar Coneo. Við sitjum í stiganum og spjöllum góða stund, hún er með áhugaverðar skoðanir og er grænmetisæta. Smám saman læt ég varnirnar mínar niður falla en held þó eftir miklum efasemdum og vantreysti henni langt fram á kvöld. Við setjumst niður og fáum okkur kaffi, síðan röltum við um strætin og endum í stórum almenningsgarði sem er lýstur upp með milljón blikkandi ljósum. Við göngum um ljósagöng og mér líður eins og í draumi. Uppistandari með stóran hóp af fólki í kringum sig segir brandara af miklum hraða og talar um hvað það var ömurlegt að fá föt frá leiðinlega ríka frænda sínum þegar að hann var lítill og hvað hrísgrjón og baunir á hverjum degi sé helvíti þreytandi til langs tíma.

Við setjumst á bekk og ég hjálpa henni að gera upp bókhaldið sem hún þarf að sýna yfirmönnum sínum. Hún fær pening til að ferðast um borgina og leita að útlendingum til að setja á skrá. Hún er búin að gleyma hvernig hún eyddi góðum hluta af peningunum en það reddast með vel smíðuðum lygum. Hún er full af góðri orku en samt er eitthvað varhugavert við hana. Hún flutti til Bogotá frá ströndinni þegar hún var ellefu ára. Núna leigir hún litla íbúð með vinnufélögum. Hún talar um hvað lífið geti verið erfitt. Hún gleymir stundum að borða. Hún átti kærasta sem leiddist út í grimma fíkniefnaneyslu. Hún sjálf var komin í neyslu og segist hafa náð botninum þegar hún var að vinna við að rétta fólki auglýsingamiða úti á götu fyrir lítinn sem engan pening. Hún reif sig upp úr ruglinu og hætti með kærastanum. Hún er skynsöm stelpa en dálítið klikkuð. Hún tekur höndina mína og setur á mittið sitt er við löbbum í gegnum garðinn.

Við setjumst á litlum stað og fáum okkur ís. Hún spyr mig hvort að ég hafi einhverntímann lent í slagsmálum. Ég get ekki sagt að ég hafi gert það fyrir utan smá stympingar í grunnskóla. Hún segir mér frá því að einu sinni umkringdi stelpuhópur hana eftir skóla og kallaði hana öllum illum nöfnum. Þær leyfðu henni ekki að fara og gerðu gys að henni. Besti vinur hennar var nýfarinn og hún var ein og varnarlaus. Hvað viljiði mér, spurði hún stelpuhópinn með hendur á mitti og öryggi í augum. Stelpuhópurinn ansaði engu. Ég er þá farin, sagði hún og byrjaði að ýta einni stelpunni frá til þess að komast í burtu. Þá ýtir stelpan til baka og rífur í hárið hennar. Þær byrja að slást eins og villikettir og Gabriela endar á því að lúberja stelpuna sem reyndist vera með barn í maganum. Ég hafði ekki hugmynd um að hún væri með barn í maganum, segir hún. Ég sleiki ísinn minn og melti söguna furðulostinn. Það er orðið áliðið, ég kveð hana og tek leigubíl heim í hús til mæðgnanna sem gefa mér heitt kakó.

Daginn eftir fer ég með mægðunum á einhverskonar vörusýningu þar sem stórir salir eru fylltir af básum sem sýna handverk úr öllum hornum Kólumbíu og heimsins. Litirnir og munstrin vekja aðdáun mína. Allskonar glansandi gripir blasa við og brosandi sölumenn bjóða manni í básinn sinn. Ég kaupi mér litla músagrímu og geng um með hana, börnum og sumum fullorðnum til mikillar skemmtunar.

Bogotá er full af list. Sumsstaðar eru veggirnir skreyttir af hæfileikaríkum listamönnum sem gleðja augum með pólitískum veggmyndum og litagleði en einnig eru flestar byggingar útataðar í barnslegu veggjakroti. Stór veggur sýnir kókflöskuhaf og ringlaða ísbirni.

Eftir fjórar nætur hjá mægðunum þrái ég frelsi. Svo er mál með vexti að það þarf lykil til þess að komast inn og út úr húsinu. Á morgnanna þarf ég að fara út eða vera eftir læstur inni og síðan þarf einhver að hleypa mér inn og ekki get ég komið of seint heim. Ég kveð þær hjartanlega og fer á fund vinar míns sem ég kynntist í yogabúðunum í Ekvador, Andreú.

Hann segir mér að hann sé á hosteli sem heitir Tiptop. Um morguninn fer ég þangað en hann er hvergi að finna. Ég skelli mér út í daginn og ráfa stefnulaust um nýja hverfið mitt, Candelaria, listamanna bóhemhverfi Bogotá. Byggingarnar eru gamlar, litríkar, lágar og í nýlendustíl. Göturnar eru steinilagðar. Meðfram þröngu galdrastræti liggja kaffihús og veitingastaðir, strætið er svo þröngt og ævintýralegt að það minnir mig á skástræti úr Harry Potter. Meirihlutinn af fólkinu sem gengur um strætið er með síða dredda og skreytt litum Jamaíku.

Ég hringi í Gabrielu, kanínuna. Við hittumst á kaffihúsi. Hún er afskaplega glöð að sjá mig, hún hélt að hún myndi aldrei sjá mig aftur. Ég er ekki viss um afhverju ég vildi hitti hana. Hún er sæt, en ung, bara átján ára, jafngömul og litli bróðir minn. Er það ekki of ungt? Síðan ég sá hana síðast er hún búin að lita hárið sitt rautt. Við sitjum og spjöllum. Hún byrjar að sýna mér myndir úr símanum sínum. Allt í einu er hún að sýna mér myndir af sér á nærfötunum og mynd þar sem hún heldur fyrir brjóstin sín. Hún er heit, en hún er klikkuð og án alls efa of ung. Við fáum okkur að borða á pítsustað og eftir það þarf hún að fara að vinna, ég fylgi henni í strætóskýlið. Við sjáumst aldrei aftur.

Sólin er horfin og myrkrið hvelfist yfir borgina. Það er merkilegt hvað andrúmsloftið breytist svakalega við það að vera allt í einu aleinn gangandi um stræti stórborgarinnar, mér finnst ég vera berskjaldaðri og í meiri hættu. Ég finn leiðina inn í hverfið mitt og geng upp brekkuna sömu leið og ég gekk niður hana. Eftir smá spöl geri ég mér grein fyrir því að ég er villtur og eftir dimmum strætunum læðast dimmar verur. Ég geng hröðum skrefum og heyri fótatak fyrir aftan mig. Ég kem að kirkju sem ég hef aldrei séð áður. Ég horfi til beggja átta, myrkrinu er haldið í skefjum með daufum gulum ljósum. Ég spyr leigubíl hvort að hann viti um hostelið, hann hefur ekki hugmynd og keyrir út í nóttina. Ég ráfa um lítandi ótt og títt til baka. Ég finn hjartað slá. Ég róa mig niður og geng til baka þangað til ég kannast við mig og finn internetkaffi þar sem ég átta mig með hjálp google kortsins. Ég finn þrönga strætið og léttir fyllir veru mína. Mér líður ennþá eins og að allir vilji ræna mig og ég geng hratt og forðast augu. Hurðin inn á hostelið opnast og ég sest öruggur niður, sýð vatn, helli því í glerglas sem klofnar í tvennt, fleygi því lúmskur í ruslið en ákveð síðan að segja eigandanum frá slysinu, hann segir að það sé allt í góðu, ég helli restinni af vatninu í bolla og horfi á tepokann lita vatnið. Andreú er hvergi að sjá, enda eru auðvitað til tvö hostel sem heita sama nafni. Við erum báðir of þreyttir til þess að færa okkur um set og ákveðum að hittast morguninn eftir.

Morguninn eftir sit ég á kaffihúsi og inn gengur Andreú, saklausi drengurinn úr yogabúðunum, hálfsjúskaður, þreyttur og klæddur í úlpu sem hann keypti notaða í Nicaragua. Hann er myndarlegur en ögn ræfilslegur, með geitaskegg, stuttklipptur með tvo dredda að aftan. Ég býð honum upp á kaffi og við rifjum upp góðar stundir. Síðan förum við og finnum okkur hostel. Þegar konan í móttökunni spyr Andreú um starfstitil segist hann vera flökkumaður. Hann er búinn að vera á ferðalagi um Suður-Ameríku í tvö ár.

Við göngum í átt að fjallinu Montserrat sem gnæfir yfir borginni. Við styttum okkur leið í gegnum yfirráðasvæði heimilislausra, í ófrýnilegri grasbrekkunni stendur hreysi búið til úr plasti og brotajárni. Ég er ekki róin uppmáluð. Andreú segir að það verði allt í lagi með okkur. Við brjótum okkur leið í gegnum þykka runna og finnum klósett hverfisins. Ég skynja eitthvað á hreyfingu neðar í hlíðinni. Við hröðum okkur upp og komumst að umferðargötu sem við eltum alla leiðina að fjallinu.

Við tökum háf upp á fjallið og við blasir skrímslið. Eins langt og augað eygir í allar áttir. Háhýsi, hreysi, einstaka tré, steypa og malbik. Í norðrinu liggja lúxusíbúðir ríka fólksins, í miðjunni lifir millistéttin og mér er ekki óhætt að fara að skoða suðrið. Við sitjum í þögn er skýin svífa yfir háfjallasléttunni.

Andreú kveikir sér í sígarettu og segir mér frá því þegar að fyrrverandi kærastan hans frá Spáni kom að heimsækja hann til Gvatemala, þá var hann búinn að eiga í mánaðarlöngu líkamlegu sambandi við eina innfædda. Svo þegar kærastan er búin að vera hjá honum í viku þá segir hann henni sannleikann. Hún liggur grátandi inni á hótelherbergi í tvo daga. Á meðan fer hann í heimsókn til innfæddu. Kærastan tekur næsta flug heim. Þetta var dýrkeypt grín, segir hann, ég borgaði flugmiðana hennar. Þú verður að biðjast fyrirgefningar, segi ég. Ég veit, ég hef reynt að setjast niður og skrifa bréf en þegar það kemur að því veit ég ekki hvað ég á að segja, við vorum búin að vera saman í tvö ár, þetta var besta stelpa sem ég hef kynnst, segir Andreú með sjálfsfyrirlitningu í augunum. Hann horfir yfir borgina með hugann við karmaið sitt og andvarpar: Ég þarf að segja fyrirgefðu.

Um kvöldið á hostelinu stöndum við í eldhúsinu og eldum mat saman. Þegar maturinn er kominn vel á leið ráfar ráðvilltur einstaklingur inn í eldhúsið. Hann er greinilega ekki í jafnvægi, eitthvað hefur komið honum í uppnám. Hann er kólumbískur í útliti og byrjar á því að heilsa okkur á hreinni spænsku. Síðan spyr hann mig með þykkum bandarískum hreim hvort að ég tali ensku og augun ljóma eins og stjörnur þegar að ég svara játandi. Hann er ekki búinn að hitta neinn sem talar almennilega ensku í allan dag. Hann byrjar að segja mér söguna sína. Andreú skilur ekki ensku og hann virðist vera feginn að þurfa ekki að hlusta á söguna.

Ég fæddist í Kólumbíu en þegar ég var lítill fór mamma mín til Bandaríkjanna að byrja nýtt líf. Frá fimm ára aldri bjó ég í Flórída og í dag er ég þrítugur. Ég er bandarískur! Ég upplifi mig ekki sem frá Kólumbíu. Ég tala tungumálið en ég þekki menninguna varla og ég þekki ekki eina einustu manneskju í þessari borg! Ég er ókunnugur í mínu eigin landi. Lífið mitt var fullkomið! Ég hafði heiminn í hendi mér! Ég átti hús á besta staðnum í Miami, í hégómlegasta hverfi Bandaríkjanna! Ég átti tvo bíla… Ég átti fallegustu konu í heimi og sex ára dóttir… Nú er það allt horfið. Allt farið. Beint á byrjunarreit. Lífinu kippt undan fótum mér. Allt útaf þessari helvítis týk. Ég er að segja þér það maður, hún eyðilagði líf mitt! Ég var búinn að vera með konunni minni í sex ár og konan mín er ljóshærð frá Þýskalandi, gullfalleg, og ég gerði þau herfilegu mistök að halda framhjá henni í hálft ár með týkinni sem eyðilagði líf mitt. Hún rústaði lífinu mínu! Aldrei vanmeta krafta biturrar konu. Ég fór frá konunni minni og flutti inn með hjákonunni. Eftir tvær vikur var sambúðin orðin óbærileg. Það rann upp fyrir mér að ég hafði gert stór mistök og ákvað að reyna að fara aftur til konunnar minnar. Ég sagði hjákonunni það um morguninn og sagði henni að vera farin úr íbúðinni um kvöldið. Þegar ég kem svo heim í íbúðina um kvöldið er hún að djamma í íbúðinni með þremur stórum blökkumönnum. Ég bið þau vinsamlegast um að yfirgefa íbúðina. Mennirnir þrír veitast að mér, á mínu eigin heimili! Ég var með hnefajárn uppi á hillu hjá mér og setti það á mig og varði sjálfan mig. Hvað annað gat ég gert? Lögreglan kemur og handtekur mig! Ég er síðan leiddur fyrir rétt! Fyrir rétti lýgur týkin því að dómaranum að ég hafi kýlt hana. Hefði hún sleppt því að mæta fyrir rétt hefði ákæran verið felld niður, en hún flaug inn frá Los Angeles bara til þess að ljúga og koma mér bakvið lás og slá. Ég fékk sjö ár í fangelsi. Ef ég færi í fangelsi og ég myndi lifa af myndi mér vera nauðgað og ég veit að ég myndi missa vitið! Þannig að ég kvaddi fjölskylduna mína og vini og rétt svo náði að fljúga hingað áður en þeir lokuðu á vegabréfið mitt. Hefði ég ekki flúið væri ég núna á leiðinni í klefann. Ég get aldrei snúið aftur. Ég kom hingað í morgun og fartölvunni minni var stolið á flugvellinum. Ég hef ekki náð að skipta peningum og er glorhungraður. Helvítis týkin eyðilagði líf mitt!

Það er eitthvað við söguna sem gengur ekki alveg upp, hann er aðeins að umorða sannleikann. Seinna kemur í ljós að hann var ólöglegur innflytjandi og var því frekar réttindalaus í baráttu sinni við réttlætið. Áður en við setjumst niður til að borða býð ég honum í pípu sem róar hann aðeins niður. Hann er ótrúlega þakklátur fyrir matinn sem hann hámar í sig líkt og að hann hafi aldrei fengið að borða áður. Hann er í gífurlegu áfalli en heldur andlitinu furðu vel miðað við aðstæður. Hann er búinn að samþykja hlut sinn og gera sér grein fyrir því að hann þarf að byrja upp á nýtt. Ég var ekki hamingjusamur, lífið mitt var ekki á leiðinni neitt, segir hann. Ég segi honum að þetta sé hrein birtingarmynd karma og að hann geti dregið djúpan lærdóm af þessu. Hann þakkar mér fyrir að hlusta á sig og segir að orkan mín hafi róandi áhrif á sig. Morguninn eftir fer ég með honum og sýni honum hvar hann geti skipt dollurum í pesóa. Síðan kveðjumst við. Hann á pantað flug til Barranquilla þar sem að hann á frænku sem flúði Bandaríkin á áttunda áratugnum útaf fíkniefnaákærum. Aðstæðurnar hans láta mig líta í eigin barm og ég fyllist af þakklæti fyrir einfaldleika og frelsi lífs míns.

Um kvöldið römbum við Andreú inn á tónleika sem eru haldnir á aðaltorginu í mótmælaskyni við það að borgarstjóra Bogotá, Petro, var vikið til hliðar af elítu bakvið tjöldin. Á sviðinu stendur drottning frá Afríku og syngur kraft í lýðinn við takt sleginn af fimm spökum jötnum. Hún kallar: Petro! Múgurinn svarar: Se queda! Síðan þegar sólin er á hverfandi hveli og dúfur fljúga yfir sem svartir vængjaðir skuggar stíga rapparar á sviðið og trylla hugsanagang múgsins með sönnum orðum um ranglæti heimsins. Þeir varpa fram staðhæfingum og láta múginn svara: Þetta vitum við! Þúsundir sameinast í kallinu. Rapparinn staðhæfir að stjórnmálamennirnir séu spilltir og allir á torginu staðfesta að þeir viti það með háværu kalli. Eso lo sabemos! Andreú fær sér bjór beint úr kælinum hjá gömlum manni sem gengur um margmennið og tautar með sér að hann sé að selja ískalt öl og ég kveiki mér í pípu. Ljósaskiptunum er lokið og myrkrið tekur við. Til mín kemur stelpa og strákur, strákurinn feiminn en stelpan frökk. Stelpan spyr mig hvort að þau megi fá smá pípureyk. Að sjálfsögðu, segi ég, þjappa vel í pípuna og rétti þeim. Reykurinn liðast upp í loftið. Eftir þessi viðskipti eru þau góðir vinir mínir. Andreú fær sér þriðja bjór og síðan fjórða.

Á sviðið gengur ný hljómsveit. Tvær ólýsanlega fallegar meyjar og maður með síða lokka líkt og Jesús setjast við einfaldar tunnur og halda á prikum í sitt hvorri hendinni. Tveir ungir menn ganga inn á mitt sviðið og taka upp hljóðnema. Meyjarnar og Jesús byrja að slá eftirtektarverðan takt á tunnurnar og mennirnir byrja að flæða mjúklega yfir í fullkomnu samræmi. Ég tendra í pípunni og gef nýju vinum mínum með. Rétt hjá mér stendur stúlka sem horfir reglulega til mín. Ég furða mig á fegurð hennar. Eftir langdregin augngot og hik stöndum við skyndilega rétt hjá hvort öðru og það verður óhjákvæmilegt að heilsa. Við heilsumst eiginlega á sama tíma. Hún er með strák en hann virðist vera vinur hennar. Hún spyr mig hvort að ég styðji Petro. Að sjálfsögðu. Andlit hennar virðist vera samvinnuverkefni hundrað guða. Hún dreypir á víni úr fernu. Hún spyr mig hvað mér finnist um Kólumbíu. Hún spyr mig hvað mér finnist um Kólumbískar stelpur. Þær fallegustu í heiminum, segi ég. Hún spyr mig hvað mér finnist um sig. Ég segi henni að hún er ein sú fegursta sem ég hef augum litið. Hún hlær og brosir líkt og hún hafi verið ómeðvituð um eigin fegurð. Hún spyr mig hvað ég verði lengi í Bogotá. Það tekur mig sárt að segja henni að ég sé að fara á morgun. Hún spyr mig hvort að ég vilji ekki vera aðeins lengur. Mér verður hugsað til þess að ég er búinn að lofa að hitta stelpu sem ég þekki á rútustöð Bogotá á morgun og með henni ætla ég til Suesca að læra að klifra. Kólumbíska stelpan horfir á mig með samanbitnar varir. Fegurð hennar blindar mig og ég segist kannski geta verið aðeins lengur. Andreú kemur auga á stelpuna. Hann er orðinn vel fullur. Ég kynni þau og dreg mig í hlé og einbeiti mér að tónlistinni. Skyndilega byrjar gosbrunnur fyrir framan höll forsetans að gjósa litum og spila háværa tónlist ofan í tónleikana, skemmandi fyrir listamönnunum og mér.

Tónleikunum lýkur og við hópumst saman, ég, Andreú, furðufallega kólumbíska stelpan, vinur hennar, frakka stelpan og feimni strákurinn. Frakka stelpan talar heilluð um gosbrunna sýninguna sem ég þoldi ekki. Við tendrum í pípunni. Andreú og Furðufalleg eru bæði virkilega full. Vinur hennar segir að ég sé að tapa baráttunni. Ég geri það með glöðu geði þegar ég geri mér grein fyrir því hvað hún er hauslaus. Þau eru nálægt því að kyssast og enda á því að draga sig úr hópnum og fara og setjast við auglýsingaskilti, þar sest hún ofan á hann og þau byrja að sleikja upp í hvort annað á svo sóðalegan hátt að götuhundunum er misboðið. Sjónarspilið dregst á langinn og vinur hennar sem er í raun alls ekki náinn vinur hennar heldur vinur fyrrverandi kærasta hennar vill fara að koma sér heim. Þegar hann segir henni það vill hún ekki að hann fari. Það endar á því að þau standa upp og hópurinn færist í áttina að kirkjunni. Þar bjóða frakka stelpan og feimni strákurinn okkur heim til sín, þau eiga heima rétt hjá. Furðufalleg og vinur hennar kveðja og hverfa út í myrkrið. Andreú draugfullur gengur með okkur að íbúðinni þeirra en ákveður að koma ekki inn og fer upp á hostel.

Hvað er ég að pæla að fara inn í íbúð með tveimur ókunnugum manneskjum? Það er eitthvað við þau sem er hreint, góðviljinn er skýr og stelpan er sæt. Ég treysti þeim einfaldlega af því að ég skynja góða orku frá þeim. Það er allt á rúi og stúi inni í lítilli en krúttlegri íbúðinni. Lítill hvolpur kemur hlaupandi á móti okkur er við opnum hurðina, hún er fimm mánaða og heitir Kika. Við tendrum í pípunni og stelpan býður mér ost með hnetusmjöri að borða. Hún heitir Maria Camila, kölluð Cami og hann Yeimer, kallaður Jay. Jay er inni í herberginu sínu og veit ekki hvað snýr upp né niður, hann kallar á Cami að koma að hjálpa sér. Kemur í ljós að fyrr um kvöldið settu þau hálft draumsýruspjald á tunguna og góðan slurk af viskýi ofan í magann. Hún kemur hlægjandi út úr herberginu hans. Jay veit ekkert hvað er að gerast. Hann kallar aftur á Cami, raddbeitingin er væld og sérhljóðarnir dregnir á langinn. Við hlægjum. Við sýnum hvort öðru tónlist og hún verður yfir sig hrifin af Ásgeiri Trausta. Hún brosir og augun hennar glansa eins og sneisafull tungl. Dökkt hárið liðast niður axlirnar. Hún segir mér að þegar að hún var þriggja ára var pabbi hennar myrtur af skæruliðum. Á torginu hafði ég ekki gert mér grein fyrir fegurð hennar, líklega vegna þess að hún var með Jay og ég hélt fyrst að þau væru saman, svo kemur í ljós að hann er samkynhneigður. Nóttin er djúp og klukkan slær fjögur. Cami segir mér að hún þurfi að mæta í skólann klukkan sjö. Hún spyr hvort að hún eigi ekki bara að sofa inni hjá Jay og þá get ég sofið í hennar rúmi. Ég segi að ég geti nú alveg rölt upp á hostel. Hún vill ekki að ég fari út í myrkrið einn. Hún stingur upp á því að við sofum þá bara saman í hennar rúmi. Allt í lagi, segi ég. Ég leggst upp í rúmið dauðþreyttur. Það er mjúkt og hlýlegt. Á vegginn er hún búin að mála fugl uppi í tré og tómt fuglabúr, einnig stendur skrifað í skrautstöfum: Love. Hvolpurinn Kika kemur hlaupandi upp í rúm og sleikir mig í framan, hún treður sér inn á milli okkar og horfir á mig með stóru augunum sínum. Það er smá bil á milli mín og Cami. Þegar ég klappa hundinum strýkst ég óvart utan í Cami, klaufalegt af mér. Ég finn fyrir sterku aðdráttarafli sem dregur mig til hennar, smám saman fer bilið minnkandi. Ég opna augun og virði fyrir mér fegurð hennar. Hún opnar tunglskins augun sín mjúklega. Við erum komin alveg upp að hvoru öðru. Ennin okkar snertast og ósýnilega stíflan sem hélt okkur í sundur brestur. Varir hennar eru þykkar og mjúkar. Húðin líkt og silki og hreyfingarnar ástríðufullar. Við hendum hvolpinum í burtu og skynjum hvort annað með fingrunum. Brjóstin fylla upp í lófann, maginn sléttur með hring í naflanum og rassinn líkt og kúluís. Við látum hörpu líkamans ósnerta og sofnum í faðmlögum.

Cami vaknar ekki til þess að fara í skólann klukkan sjö. Hún er á þriðja ári í jarðfræði við besta háskóla Kólumbíu. Við liggjum uppi í rúmi með opin augun klukkan hálf tíu. Ég þarf að vera mættur upp á rútustöð klukkan tólf. Mig langar alls ekki að fara en það kemur ekki til greina að fara ekki af því að ég var búinn að lofa. Kika sleikir mig í framan og bítur mig ástúðlega í puttana. Cami kúrir í fanginu mínu og tíminn sem við eigum eftir er dýrmætur vegna þess að hann mun brátt taka enda. Síðan þegar stundin er runnin upp kem ég mér á fætur og Cami fylgir mér til dyra og Jay opnar hurðina og flækist vandræðalega fyrir þegar við Cami kveðjumst með kossi og ég geng upp götuna og þau standa í dyragættinni og það byrjar að rigna og ég get ekki annað en brosað.

Á hostelinu hitti ég Andreú sem er næfurþunnur með blóðhlaupin augu. Við tölum um Furðufallegu og hann spyr hvort að ég viti hvað hún er gömul. Átján ára, svara ég. Líklega ein sú fegursta í heiminum en eitthvað tæp, bæti ég við. Andreú hlær og spyr mig hvernig fór hjá mér og kallar mig zorro. Síðan kveðjumst við með faðmlagi og tölum um að hittast á ströndinni. Ég reyni að koma mér undan því að borga nóttina á hostelinu en allt kemur fyrir ekki. Ég tek leigubíl á rútustöðina og hringi í stelpuna sem var að taka tuttugu tíma rútu frá ströndinni, hún svarar ekki og lætur ekki sjá sig á rútustöðinni eftir langa bið. Það verður að hafa það. Ég kem mér í rútu til Suesca. Ég kaupi kók í gleri sem ég sötra á er rútan hlykkist um breiðgötur Bogotá. Það tekur klukkutíma að komast úr borginni. Eftir klukkutíma í viðbót er ég kominn. Ég fer út hjá pítsustað sem heitir Pizza Rica. Ég hringi í Sebastian, klifrara sem ég fann á Couchsurfing og læt hann vita að ég sé kominn. Hann segist vera að klifra en að ég geti komið upp í klettana eða fengið mér eitthvað á veitingastaðnum og beðið þar eftir honum. Ég panta mér dýra en gómsæta pítsu og borða hana úti í garðinum á bakvið veitingastaðinn.
Það kvöldar og ég sest fyrir framan veitingastaðinn og bíð eftir Sebastian sem stígur af mótorhjólinu sínu og heilsar mér. Við spjöllum stutta stund síðan brunum við á mótorhjólinu að húsinu hans sem er um það bil fimm kílómetra í burtu frá þorpinu. Tveir brosandi hvuttar koma hlaupandi á móti okkur. Húsið er einfalt og fallegt timburhús sem að hann smíðaði sjálfur. Konan hans Sandra tekur á móti okkur. Ég hefst handa við að tjalda gula tjaldinu sem ég keypti í Bogotá. Sebastian kveikir eld í litlu leireldstæði, síðan hjálpa ég honum að færa bekk alveg upp að eldinum. Hann fer inn og segir góða nótt við sjö ára son sinn hann Elías. Ég hugsa með mér hvort að honum sé sama ef ég tendra í pípunni. Hann kemur út og við fáum okkur sæti við eldinn. Hann þjappar í pípuna sína og tendrar. Ég geri hið sama og við réttum á milli pípurnar eins og indjánahöfðingjar í friðarviðræðum. Eldurinn snarkar og hitar upp svalt fjallaloftið. Það er dimmt og enga ljósmengun að finna. Tunglið glampar í friði. Þoka yfir skóginum. Við horfum inn í eldinn og logarnir toga mig inn í meðvitund fyrri alda. Kvöldi er vart varið betur en fyrir framan dansandi eldtungur og þögn himinsins. Sandra kemur út og fær sér sæti hjá okkur. Sebastian bíður henni í pípu en hún afþakkar. Við eigum góðar samræður á milli þess sem við deilum djúpri þögn. Er eldurinn dofnar bætir Sandra smá eldivið við og blæs í hann lífi. Síðan fara hjónin inn að horfa á bíómynd. Ég og kötturinn Loki sitjum og störum í eldinn þangað til að hann kulnar. Belti Óríons skín glatt yfir mér er ég skríð inn í tjaldið. Ég fer ofan í svefnpokann minn og líð inn í draumljúfan svefn.

Morguninn eftir fæ ég mér múslí í morgunmat og við brunum á mótorhjólinu inn í þorpið. Frá aðalveginum röltum við smáspöl sem tekur okkur á lestarteinana sem leiða okkur að klettum Suesca. Klettarnir rísa ævintýralega upp í himininn og skarta ýmsum plöntum, þykkum mosa, marglituðu skófi og grárri tegund af skófi sem hangir niður klettana líkt og skegg. Klettarnir halda áfram þrjá kílómetra. Meðfram klettunum vaxa tré sem með hundrað ára þolinmæði reyna að ná sömu hæð. Við setjumst niður og Sebastian byrjar á því að spyrja mig afhverju ég vilji læra að klifra. Ég prófaði að klifra einu sinni í Ekvador og það var eitt það skemmtilegasta sem ég hafði gert og ég hef mikinn áhuga á að læra að klifra vel og gera það að list til þess að tengjast náttúrunni betur og ýta við sjálfum mér. Hann segir mér að hann klifri til að hafa gaman af því og uppgötva hluti um sjálfan sig. Í gegnum klifur öðlaðist hann trú á sjálfum sér, gífurlegt sjálfstraust og stanslausa skemmtun. Hann segir mér frá sögu klifurs og útskýrir þróunina frá því að vera með band um mittið á nítjándu öld fram að því að vera með sérhannaðan öryggisbúnað þróaðan á síðasta árhundraði. Það eru til þrjár tegundir af klifri: Frjálst klifur, þar sem að klifurkappinn er ekki tengdur í neitt öryggi og ef hann dettur úr hárri hæð bíður hans dauði eða örkumlun. Sportklifur, þar sem að klifurkappinn tengir sig við öryggi sem aðrir klifrarar hafa borað djúpt inn í bergið. Hefðbundið klifur, þar sem að klifurkappinn kemur fyrir eigin öryggjum í sprungum í berginu og þarf hann að treysta eigin hyggjuviti til þess að koma öryggjunum nógu vel fyrir til þess að þau haldi fallinu hans skyldi hann detta. Það sem ég er að fara að læra er hefðbundið klifur. Ég iða í skinninu úr spenningi. Hann sýnir mér öryggin sem ég mun læra að koma fyrir í klettunum og kennir mér nöfnin á öllum búnaðinum, síðan förum við að klifra til að hreinsa hugann. Sebastian byrjar á því að fljúga upp og festa reipið í öryggi á toppnum, hann lætur reipið síga niður og það er fest í öryggisbeltið mitt með hnút sem kallast átta. Þegar Sebastian kemur niður fer ég upp. Ég gríp í klettinn og fikra mig upp bergið. Leiðin er létt og ég er kominn upp á topp fyrr en varir. Ég síg niður með yndislega tilfinningu í líkamanum.

Næsta leið sem við klifrum er töluvert erfiðari. Ég er búinn að koma mér upp á mjóa brún og þrýsti mér upp að vegginum með puttahald í sprungu fyrir ofan mig. Nú þarf ég að hýfa mig upp með lítið sem ekkert til að setja fæturna á. Ég ríf mig upp og næ góðu gripi með vinstri höndinni en fæturnir finna ekki hald. Ég gríp í tómt með hægri og missi takið með vinstri. Ég byrja að falla í tómið. Reipið grípur mig og ég dangla aðeins fyrir framan klettinn. Ég kem mér aftur upp á brúnina og reyni aftur að hýfa mig upp þakið. Í þetta skiptið kemst ég aðeins lengra áður en ég fell. Með því að detta lærum við að treysta manneskjunni sem stjórnar reipinu og reipinu sjálfu. Í raun er frekar öruggt að klifra ef allt er gert rétt, klaufaleg mistök við uppsetningu öryggisbúnaðar getur þýtt að einhver hrapi niður og slasi sig, því ber alltaf að gulltryggja að allt sé í lagi og fara yfir allt áður en lagt er af stað upp klettinn.

Við löbbum meðfram lestarteinunum og göngum síðan upp stíg sem leiðir okkur hátt upp í klettinn. Þar læri ég að koma fyrir öryggisfestingu og læt mig síga niður. Áður en ég byrja að síga og horfi niður á jörðina finn ég fyrir hræðslu en um leið og ég er byrjaður að síga hverfur hún og ég lækka mig rólega niður á jörðina. Það er byrjað að rigna aðeins og kuldi leikur um mig. Við komum okkur fyrir í skjóli og förum aftur yfir allan búnaðinn og komum okkur síðan í þorpið þar sem að sólin er við það að hverfa.

Þegar við komum heim í hús eldum við mat og borðum, síðan kveikjum við í eldinum og tendrum í pípunni. Tunglið er næstum því fullt. Mér hefur aldrei liðið jafn vel, hugsa ég. Sebastian setur á tónlist og hvert einasta lag er snilld. Augnablikið gæti ekki verið betra. Ég fer að hugsa um atburði dagsins og skilja hvernig Sebastian fékk mig til að treysta öryggjunum með því að segja mér gaumgæfilega frá þróun þeirra og beitingu. Ég horfi á Sebastian, hann er rólegur á svipinn, þrítugur, búinn að vera að klifra í þrettán ár, myndarlegur, minnir mig á teiknimyndapersónu, húmoristi, afskaplega fróður um allt sem við tölum um og snillingur í samræðusköpun. Einn nettasti gaur sem ég hef kynnst.

Þoka sveipar sveitina í dulúð og stjörnur blika himni á. Tjaldið er blautt að utan eftir úða dagsins en inni er þurrt og notalegt. Kötturinn Loki kemur í heimsókn í tjaldið og ég hleypi honum út og fer að dreyma um klifur.

Sólin er á lofti. Við brunum í þorpið og fáum okkur morgunmat þar. Sebastian virðist þekkja alla í þorpinu. Þegar við göngum meðfram lestarteinunum sem eru ekki lengur í notkun hittum við fullt af klifrurum á leiðinni upp í klettana. Sebastian byrjar á því að koma fyrir öryggjum í klettinum og síðan kennir hann mér að dæma hversu gott öryggið er. Hann rykkir í öryggið niður á við með augun til hliðar til þess að fá öryggið ekki í andlitið skyldi það losna. Öryggið heldur og þá kippir hann létt út til þess að sjá hvort að hreyfingar reipisins gæti losað það. Síðan metur hann hversu djúpt í sprungunni það er og hversu sterkt bergið er og hvernig yfirborð bergsins er. Það eru til tvær gerðir af öryggjum, ég veit ekki hvað þær eru kallaðar á íslensku og mun því þýða beint frá spænsku. Ein gerðin kallast stoppari eða hneta, það er stálkubbur sem er mjór að framan og breikkar út í endann, maður kemur honum fyrir í sprungum sem þrengjast smám saman. Kubburinn festist þá í sprungunni og heldur fallinu. Hin gerðin heitir vinur og er flóknari græja en mjög einföld í notkun. Maður tekur í lítið handfang með puttunum og þá slaknar á þrýsting á fjögur tannhjól sem opnast inn og það gerir manni kleift að koma græjunni fyrir í sprungu, svo þegar maður sleppir handfanginu með puttunum þrýstast tannhjólin út og grípa í bergið. Það verður að gæta þess að öll hjólin snerti bergið. Báðar tegundirnar af öryggjunum koma í öllum stærðum sem henta fyrir misstórar sprungur. Einnig verður að gæta þess að það sé auðvelt að fjarlæga öryggið aftur úr sprungunni. Hann lætur mig koma öryggjum fyrir í klettinum og dæma síðan öryggið með einkuninni gott, venjulegt eða slæmt.

Síðan klifra ég upp sprungu fastur í reipi að ofan. Þegar ég kem niður spyr Sebastian hvort að ég vilji klifra upp án reipis að ofan og tryggja mig með því að festa mig í öryggin sem hann er búinn að koma fyrir í sprungunni. Það kallast að leiða þegar þú ert ekki með band að ofan heldur band að neðan og ef þú dettur þá detturðu frá síðasta öryggi sem þú náðir að leiða reipið í gegnum. Ég læt vaða. Það er sigur í hvert einasta skipti sem ég næ að setja bandið mitt í gegnum öryggi og að lokum næ ég toppnum án þess að detta. Andrenalín flæðir um mig og þegar ég kem niður er ég slakari en pakksatt letidýr. Það er allt öðruvísi tilfinning að klifra með bandið að neðan, miklu meira adrenalín. Við klifrum og klifrum og dagurinn hverfur. Ég hef aldrei upplifað jafn fljótlíðandi dag. Við röltum meðfram lestarteinunum í síðdegissól sem gyllir blaktandi grasið og á túninu við lestarteinana má sjá beljur bíta gras og í þögninni heyrist hver einasta tugga. Er það tekur að myrkva klifrum við einn klett í viðbót og ég kemst með naumindum á toppinn.

Við fáum okkur mat á hamborgarastað í þorpinu og brunum í gegnum kalt fjallaloftið á mótorhjólinu og slökum vel á í sófanum líkt og indjánahöfðingjum sæmir. Síðan kemur félagi Sebastians á bílnum sínum og við keyrum heim til vinar Sebastians sem er að halda lítið teiti. Tunglið er næstum því fullt og sveitin er silfruð. Það er nýbúið að tendra í varðeld og hópur af fólki situr á drumbum við bálið. Ég geng hringinn og kyssi konurnar á kynnina og tek í hendurnar á körlunum. Eldurinn logar glatt. Sebastian hefst handa við að rúlla stærstu hreinu jónu sem ég hef séð. Hann kveikir í henni og lætur hana ganga til allra. Það er settur rakur viður á eldinn sem myndar gífurlegan reyk sem svíður í augun. Ég færi mig í burtu frá eldinum, aftar í garðinn þar sem loftið er hreint. Sebastian stendur við tré og tekur inn djúpan andardrátt í gegnum jónuna.

Bálið hættir að spúa reyk og allir hópast aftur í kringum eldinn. Óþarfa orð eru látin eiga sig. Við sitjum í þögn og horfum á viðinn brenna. Síðan þegar fer að líða á kvöldið keyrir vinurinn okkur heim. Tunglskinið er það bjart að inni í tjaldinu er vasaljós óþarfi. Ég hlusta á smá tónlist og dett í svefn.

Dagurinn líður í ævintýralegu adrenalíni. Í dag set ég sjálfur öryggin í sprungurnar og klifra nokkrar léttar leiðir þannig. Síðan þegar kvölda tekur fer Sebastian með mig í erfiðar leiðir með reipið að ofan. Ein leiðin er svo erfið að ég næ rétt svo að komast upp fyrsta þakið en síðan dett ég nokkrum sinnum og alltaf heldur reipið mér örugglega. Eftir þá leið förum við í leið sem er aðeins auðveldari. Ég klifra upp hana með reipið að ofan og adrenalínið leikur um mig. Hann spyr mig hvort að ég sé tilbúinn að leiða upp leiðina. Ég spyr líkamann minn og hann segir nei, of þreyttur, en svo skipti ég um skoðun og ákveð að leiða. Ég kemst auðveldlega upp að fyrsta örygginu og smeygi reipinu í gegnum haldið. Annað öryggið er á þverhníptum vegg en ég næ því líka örugglega. Ég horfi upp á þriðja öryggið. Það er langt fyrir ofan mig. Ég klifra rólega upp og kemst í þá stöðu að vera með hræðilegt grip með höndunum og hvíli tærnar á pínulitlum útskotum úr vegginum. Ef ég dett núna dett ég niður að næsta öryggi. Ég fala eftir betra gripi og tek eftir góðu gripi aðeins ofar en ég næ með höndunum. Nú er að duga eða drepast. Ég lyfti fætinum og næ dvergvöxnu haldi með tánni, síðan hýfi ég mig upp og næ að grípa í ágætt hald með hægri höndinni. Ég titra allur. Ég næ ekki í öryggið fyrir ofan mig. Ég veit ekki hvað gerist en líkaminn tekur yfir og þýtur ósjálfrátt upp u.þ.b einn og hálfan meter þannig að ég enda fyrir ofan öryggið og smeygi reipinu mínu í gegnum haldið með skjálfandi puttum vinstri handarinnar, hægri höldin rígheldur í klettinn. Ég kem mér á toppinn og smeygi reipinu mínu í akkerið. Ég staldra aðeins við og virði fyrir mér útsýnið í tærri sælu. Síðan lét ég mig síga niður, losa mig úr reipinu, fæ mér sæti og finn hjartað slá orku sinni um líkamann.

Skuggar taka að lengjast og við komum í þorpið er sólin er nýsest. Við brunum heim í hús. Ég tendra í pípunni með Sebastian og við spjöllum um undraheim kletta og klifurs. Síðan tekur hann fram sjónaukann sinn og sýnir mér ýlfrandi fullt tunglið. Ég hef aldrei áður séð tunglið á þennan hátt. Gígarnir blasa við og ég sé það hreyfast. Álit mitt á honum fer vaxandi með hverjum deginum, þvílíkur meistari. Síðan leggst ég upp í tjald og fer að sofa.

Daginn eftir klifrum við yndislega skemmtilegar leiðir og ég klifra upp ágætlega erfiða leið á öryggjum sem ég set sjálfur í sprungurnar. Dagurinn líður á ógnarhraða og klifurgleðin er mikil. Seinasta leið námskeiðisins er rosaleg. Sebastian spyr mig hvort að ég vilji leiða hana. Ég læt vaða. Hún er erfið frá fyrsta haldi. Ég næ fyrsta örygginu, síðan öðru og síðan þriðja. Ég er kominn í ágætis hæð. Með miklum erfiðleikum og jafnvægisleik næ ég fjórða. Ég stend á hárri syllu og veggurinn kemur á móti mér og ýtir mér út í átt að brúninni, ég get ekki staðið án þess að halda mér í með báðum höndum. Sebastian bendir mér á að inni í einni sprungunni er mjög gott grip. Ég finn það og það er fullkomið. Ég læt vaða og reyni að hýfa mig upp þakið af öllum krafti. Ég kemst með vinstri höndina upp og næ ágætu taki en fótavinnan mín er slök og ég þarf koma aftur niður á brúnina. Ég held mér í klettinn og anda djúpt til þess að hvíla og ná í ró. Síðan gef ég mig allan í framkvæmdina og næ að koma báðum höndunum upp yfir þakið og reyni að lyfta mér upp með tærnar spyrnandi í vegginn og bakið klemmt upp við bergið. Síðan gerist það. Ég næ ekki að hýfa mig upp og bakið rennur frá berginu. Ég byrja að hrapa niður að næsta öryggi, í loftinu finn ég enga hræðslu, bara traust og síðan kippist reipið til og öryggið heldur mér. Ég dangla í loftinu og hamingja flæðir um veru mína. Ég er alveg búinn í höndunum og eitthvað aumur í þumlinum þannig að ég síg niður og fæ mér sæti. Þetta var geðveikt, segir Sebastian og við skellum lófum saman og innsiglum með hnefakossi. Fallið spilast fyrir mér í huganum, aftur og aftur. Í hvert skipti fæ ég fiðring í magann.

Dagur er að kvöldi kominn og við förum heim í kotið. Við borðum yndislega máltíð sem Sandra eldar í tilefni þess að námskeiðinu er lokið og Sebastian rúllar stærðarinnar jónu sem við reykjum eftirá. Hann stingur upp á því að við förum í indjána, sem við gerum og Sandra tekur þátt, enda er Elías litli kominn í pössun í Bogotá hjá ömmu sinni og afa. Síðan sýnir Sebastian mér klifurmyndir og við spjöllum langt fram á nótt.

Daginn eftir fer Sebastian að vinna og ég er einn eftir í húsinu með hundunum og kisu. Ég set á mig ullarsokka og leggst upp í sófa og les klifurblöð í nokkra klukkutíma. Síðan skrifa ég. Þegar Sebastian kemur heim um eftirmiðdegið sit ég á veröndinni með pípu tilbúna handa honum. Við fáum okkur sykurvatn með osti í og kveikjum í pípunni. Á morgun er Sebastian í fríi í fyrsta sinn í tvær vikur. Hann gefur mér lítið tannhjól úr ónýtu öryggi og segir að ég geti gert hálsmen úr því, hann gefur mér líka pípu sem er búin til úr stærðarinnar fræi. Síðan vefur hann jónu úr laukhúð. Nettasti maður sem ég hef kynnst, hugsa ég enn og aftur.

Ég fer á netið í fyrsta skipti í nokkra daga og tek eftir því að Cami er búin að senda mér skilaboð segjandi að ég sé búinn að gleyma henni. Ég sendi henni sms og hún spyr mig hvort að ég ætli ekki að koma aftur til Bogotá. Ég segist koma á morgun.

Morguninn eftir tek ég tjaldið saman og fer inn í hús þar sem að Sebastian situr í mestum makindum að rúlla jónu. Sandra stendur við eldavélina og er að steikja maísbrauð. Út um gluggan sést grænfögur sveitin, rúllandi hlíðar með skógum á stangli og litlum bæjum, fjallshlíðin guðdómleg í morgunbirtunni. Við reykjum jónuna saman og borðum gómsætt maísbrauð löðrandi í smjöri. Ég ætlaði að taka fyrstu rútuna en fresti för minni til þess að njóta morgunsins með Sebastian og Söndru. Sandra er menntaður líffræðingur, hún var vegan í átta ár, þegar hún var í háskóla lærði hún tíbetska hugleiðslu sem hún stundaði á hverjum degi en núna hefur hún borðað kjöt í nokkur ár og ekki stundað neina hugleiðslu fyrir utan að rækta garðinn sem hún segir að hafi komið henni í djúpt samband við Mömmu Jörð, hún segir að hún þurfi að snúa aftur á gamla veginn. Sebastian keyrir mig á mótorhjólinu niður í þorpið og við fáum okkur kaffi er við bíðum eftir rútunni. Við kveðjumst með hnefakossi og ég sest upp í rútuna sem rennur af stað til Bogotá. Ég er ótrúlega glaður.

Rútan tekur mig í úthverfi skrímslisins og þaðan tek ég strætó í miðbæinn. Ég rölti heim til Cami og við förum og fáum okkur að borða. Þegar við komum heim í íbúðina tekur Kika vel á móti okkur og Jay liggur þreyttur uppi í rúmi að hlusta á Lady Gaga. Íbúðin er ennþá svínastía og hundaskítur liggur á víð og dreif um gólfið í stofunni. Þau afsaka óhreinindin og segjast ekki hafa haft tíma í prófunum. Cami var í seinasta prófinu sínu í dag en á morgun þarf hún að flytja fyrirlestur sem hún þarf að byrja á núna. Ég skrifa og hlusta á tónlist. Síðan sofna ég þegar hún er ennþá að gera fyrirlesturinn.

Ég geng um göturnar í leit að engu. Tíminn líður er dagur níu milljón mannvera gengur sinn vanagang; ofbeldi, hungur, fæðing, gleði, vonbrigði, ást, stórkostlegur sigur, brostnar væntingar, sofandi meðvitund, draumkennd framtíð, tilfinningin að tími sé af skornum skammti, óvæntur dauði, ungmenni undir áhrifum draumsýru upplifir einingu við alheiminn, götustrákur andar inn lími, þriggja ára krakki er skyndilega búinn að ná tökum á tungumálinu, heimilislaus maður kemur að vin sínum sem situr á bekk vafinn inn í svefnpoka og réttir honum helminginn af matnum sínum, múgur hrópar í mótmælaskyni, grafkyrr maður málaður grænn og klæddur í hermannabúning heldur á kólumbíska fánanum og tekur í höndina á hálfskelkaðri telpu sem setti smáaur í dósina fyrir framan hann, auglýsing dregur úr sjálfsáliti ungrar stúlku, alblóðugur í framan blindfullur maður nýkominn úr höndum lögreglu er leiddur af mömmu sinni sem öskrar á pabbann sem er líka blindfullur, vinir hittast fyrir tilviljun og ákveða að fá sér kaffi saman, á margmennri göngugötu velja þjálfaðir hamstrar sér lítið númerað hús og það er veðjað á útkomuna, betlari biður um aur og borgin teygir úr sér líkt og ódeyðandi skrímsli brjótandi undir sig risavaxin háfjalladal fyrir ríkið sitt sem það steypir úr gráum tárum fjallanna.

Cami sendir mér sms og segir að hún verði búin í skólanum átta um kvöldið. Klukkan níu sit ég á kaffihúsi og þegar ég hringi í hana fer ég beint í talhólfið. Klukkan ellefu er ég ekki búin að ná í hana. Mér er ekki farið að lítast á blikuna og fæ mér rúm á hosteli og fer að sofa.

Daginn eftir sendir hún mér sms um að hún hafi farið upp í sveit með vinum úr skólanum en komi til Bogotá eftir hádegi. Ég er stórt spurningarmerki í framan. Ég fæ mér sæti á kaffihúsi og enda á því að sitja á borði með hollensku pari og þýskri stelpu. Við eigum gott spjall og ákveðum síðan að færa okkur yfir á annað kaffihús. Á leiðinni hitti ég Andreú fyrir tilviljun og hann kemur með á kaffihúsið. Síðan kveðjum við hitt fólkið og förum á grænmetisveitingastað. Hann segir mér frá því að hann hafi hitt Furðufallegu fyrir tilviljun og fengið sér bjór með henni. Svo á leiðinni heim af djamminu komu tveir ungir menn að honum að reyna að selja eitthvað drasl, þegar að hann neitaði drógu þeir upp eldhúshníf og hirtu allt af honum, sem var hlægilega lítið. Leigubílstjóri sá þá ræna hann og hann hringdi á lögregluna og elti ræningjana á bílnum sínum, lögreglan var rétt hjá og náði þeim um leið og hann fékk draslið sitt til baka og þjófarnir voru sendir í steininn. Mér líður strax eins og að ég vilji komast úr þessari borg. Ég þrái lítið rólegt þorp.

Við Andreú ákveðum að fara saman á ströndina áður en við kveðjumst. Ég fer heim til Cami og læt eins og að það sé eðlilegt að hún hafi horfið út í sveit án þess að láta mig vita. Hún og Jay tala um að þau vilji fara á djammið í kvöld. Ég er til í það. Kika komst í sundgleraugun mín og reif þau í tætlur. Ég sest niður og skrifa á meðan Cami og Jay taka íbúðina í gegn og gera hana tandurhreina. Síðan taka þau sér einn og hálfan klukkutíma í að gera sig til. Þau banna mér að fara í ponchoinu af því að dyraverðirnir muni líklega ekki hleypa mér inn á staðinn ef ég færi í því. Við tökum leigubíl á skemmtistaðinn sem er í raun ekki skemmtistaður heldur skemmtunarmiðstöð. Við borgum fimmtánhundraðkall inn og við byrjum á því að fara hringinn til þess að sýna mér staðinn. Aðalrýmið er risastórt með tveimur börum sitt hvorum meginn, það er hátt til lofts og umhverfið minnir á spilavíti. Við göngum upp stiga og þar er reggaeton salurinn, síðan upp annan stiga og komum þá upp á stórt útisvæði eða torgið. Við torgið eru nokkrir skemmtistaðir, billiardstaður sem spilar rokk, teknó staður sem spilar lélegt teknó, salsastaður og staður þar sem strákum er meinaður aðgangur. Þar dansa stelpurnar þétt upp við hvor aðra. Einnig er staður bara fyrir stráka.

Við fáum okkur sæti og þau reykja, drekka og bíða eftir því að staðurinn fyllist. Mér býður við sígarettureyknum og fæ mér ekki drykk. Vinur Cami kemur og sest hjá okkur, hann er augljóslega samkynhneigður og tekur brosandi í hendina á mér. Við sitjum og spjöllum og ég horfi á fólkið í kringum mig. Smám saman fyllist torgið af fólki og við förum að dansa í aðalrýminu. Tónlistin er hávær og mér blöskrar hvað hún er léleg, ég geri mitt besta til að dansa. Justin Bieber brýst í gegnum hátalarana og tónlistarmyndbandinu er varpað upp á vegg líkt og í bíó. Við dönsum í litlum hring og allir virðast fýla tónlistina. Við lélegu mainstream lagi tekur við lélegt teknó lag. Jay dansar af mikilli innlifun og er strax kominn með dansfélaga sem sleikir upp í hann af mikilli innlifun. Þeir káfa á hvor öðrum og eyrun mín nötra úr leiðindum. Cami fer að ná sér í drykk og Jay fer á klósettið. Ég stend einn eftir með dansfélaga Jay og tveimur stelpum sem ég veit ekki hvað heita. Fyrrum dansfélagi Jay gerir sér glaðan dag og byrjar að dansa þétt upp við mig og strýkur hönd sinni eftir klofinu mínu og grípur um getnaðarliminn minn. Ég bakka hægum skrefum og dansa líkt og ekkert hafi í skorist. Eftir nokkrar mínútur í viðbragðsstöðu kemur Jay aftur og þeir taka upp þráðinn þar sem þeir skildu hann eftir. Jay tekur upp sólgleraugu og réttir mér. Hann setur á sig og Cami líka. Þeim finnst það geðveikt svalt, ég set á mig sólgleraugun og fæ kjánahroll. Tíminn líður. Við förum inn í annan sal og dönsum við reggaeton síðan förum við í salinn sem spilar kólumbíska tónlist. Hvert sem ég fer horfa á mig girndaraugu, en það eru ekki stelpurnar heldur strákarnir sem þrá mig. Við erum komin aftur í aðalsalinn og tónlistinn hefur skánað aðeins. Ljóshærð stelpa kemur til mín og spyr mig á ensku hvort að ég sé hommi. Hún er að spyrja fyrir vini sína sem dansa í hóp og gjóta augunum til mín brosandi. Ég svara á spænsku að ég sé fyrir stelpur og hún heyrir varla í mér fyrir hávaðanum. Þegar hún nær skilaboðunum spyr hún mig hvort að ég sé viss. Alveg viss, segi ég. Hún brosir tvíræðu brosi og horfir yfir til vina sinna og hristir hausinn til hliðanna. Þeir gretta sig og halda áfram að dansa. Einn þeirra heldur áfram að stara á mig. Ég tek um ljóshærðu stelpuna og við stígum dans sem þætti ekki smekklegur í miðborg Reykjavíkur. Kynlíf í fötunum. Lóðrétt tjáning á því sem þú vilt gera lárétt. Mjöðm upp við mjöðm. Mjúkur þrýstingur og hreyfingar í takt við tónlistina. Við dönsum og dönsum þangað til að staðnum er lokað. Þá förum við í fræknu föruneyti, ég, Cami, Jay, ljóshærða stelpan og vinir hennar á stað rétt hjá sem er allt öðruvísi. Við fáum okkur sæti í horninu og reykjum jónu. Staðurinn er skítugur og orkan er skrítin. Hópur af kynskiptingum dansar rétt hjá og massaður blökkumaður í körfuboltabol reynir að heilla þá/þær upp úr skónum; hann horfir til mín með þrá í augum. Stór svört kelling þykk í vexti klædd í netabol sem hylur ekki neitt skoppar um staðinn með júllurnar úti. Cami situr við hliðina á mér og spyr mig hvort að ég sé hræddur. Ég segi henni að ég sé rólegur. Hendur okkar læsast saman og hún strýkur mér mjúklega niður lærið. Ljóshærða stelpan sem þekkir eiganda staðarins pantar ginflösku á borðið. Þau taka ekki í mál að ég fái mér ekki skot. Ég þykist taka skotið og helli því lúmskur í gólfið. Einn af strákunum í föruneytinu sofnar í sófanum. Ljóshærða stelpan spyr mig hvort að ég vilji koma með henni að finna eitthvað að borða. Cami hvíslar að mér að treysta henni ekki. Klukkan slær fimm. Við hoppum út og tökum leigubíl heim til hvolpsins. Ég og Cami stundum innihaldslaust kynlíf og eftirá kemur yfir mig tómleg tilfinning og löngun til þess að koma mér langt í burtu frá þessari borg, langt langt í burtu frá skrímslinu.

20140120-210928.jpg

20140120-211014.jpg

20140120-211049.jpg

20140120-211128.jpg

20140120-211202.jpg

20140120-211248.jpg

20140120-211259.jpg

20140120-211318.jpg

20140120-211352.jpg

20140120-211446.jpg

20140120-211703.jpg

20140120-212837.jpg

Standard

Hinn heilagi dalur.

Ég er búinn að sitja í rútu síðan klukkan sjö í morgun. Ég horfi út um gluggann á fjöllin sveipuð gullinni slæðu deyjandi sólar. Útsýnið nær langt yfir breiðan og djúpan dal. Brattar hlíðarnar verða að skuggamyndum sem mynda margskipt lög. Rútan brunar eftir veginum inn í aðsvífandi myrkrið. Stjarna flöktir á himninum. Hvar ætli ég sofi í nótt? Það er ábyggilega hótel alveg við rútumiðstöðina, svara ég sjálfum mér hughreystandi. Svo reynist vera. Ég kem mér fyrir í fábrotnu herbergi í niðurdrepandi rútumiðstöðvarhóteli og sofna fljótlega eftir að hafa horft á CSI þátt í sjónvarpinu.

Ég vakna snemma og hugleiði. Síðan fæ ég mér morgunmat og hoppa upp í rútu, ferðinni er heitið til Vilcabamba, hins heilaga dals. Rútan þræðir sig í gegnum gróðurþakin fjöllin og eftir klukkutíma keyrslu stíg ég út í litlu þorpi. Þorpið er svo rólegt að ég verð syfjaður. Ég fer á internetkaffi og læt vin minn Axel vita að ég sé kominn í þorpið. Ég kynntist Axeli þegar ég heimsótti hann á Indlandi í Auroville, andlegri kommúnu þar sem hann átti heima í langan tíma.

Ég finn mér hostel og kem farangrinum mínum örugglega fyrir. Ég fer út í bæinn og fæ mér hádegismat. Ég ætla mér að labba um og skoða bæinn en enda sitjandi á bekk á aðaltorginu og þar sígur gífurleg þreyta yfir mig. Ég leggst niður á bekkinn og sofna. Eftir blundinn skunda ég á safabarinn á horni torgsins, um leið og ég geng inn hefjast samræður við mann frá Texas sem hrósar buxunum mínum og spyr um bankahrunið þegar að hann lærir að ég er frá Íslandi og segir mér síðan frá kenningum um eðlisfræði vatns sem hann er að vinna að og hvernig Biblían hafi öll svörin. Hann heitir Kern, er akfeitur með stutt hár og hlær að eigin bröndurum. Ég kemst ekki í að panta mér safa vegna ólinnandi orðaflæðis. Er hann lýkur við að segja mér sögu úr Biblíunni um talandi asna sem endar á hans eigin hlátri gengur eldri kona inn á staðinn, heilsar og fær sér sæti hjá okkur. Ég fæ stundarfrið til þess að panta mér drykk. Konan heitir Maggie og er frá Englandi, heldur ófríð og frek í samskiptum, Kern fær ekki að halda orðinu. Kern talar um hvað fjölmiðlar eru spilltir og hvað þeir stjórna hugsunum okkar, Maggie segir að það sé ekki rétt af því að við ráðum sjálf hvaða fjölmiðla við innbyrðum og hún er komin með leið á því að heyra fólk tala um sig sem fórnarlamb. Kern virðist ekki vera vanur því að fólk sé ósammála honum. Ég sit rólegur á milli þeirra og legg ekki orð í belg. Kern þarf að fara. Ég og Maggie færum okkur út, við setjumst á borð hjá Duke, merkilegum gömlum manni frá Kanada. Duke hefur átt heima lengi í Vilcabamba. Hann hefur siglt niður Amazonfljótið og setið í Síberíuhraðlestinni, einnig komið nokkrum sinnum til Íslands og m.a.s. átt íslenska kærustu. Aðspurður hvaða hluta heimsins hann hafi ekki komið til segist hann ekki hafa komið til Afríku fyrir neðan Sahara, en hann stefnir á að fara til Congo á næsta ári að sigla niður fljótið.

Er ég drekk ljúffengan mangójarðaberjasafa og spjalla við Maggie og Duke sé ég kunnuglega veru hinum megin við veginn, labbandi meðfram torginu. Það er Axel með litlu dóttur sinni Þóru. Ég geng til hans og faðma hann. Vá, þú ert virkilega kominn, segir hann brosandi með rólegu röddinni sinni. Hann kallar á Sonju konuna sína sem situr á bekk við torgið. Hún kemur og ég faðma hana líka. Við setjumst á bekk og spjöllum. Ég eignast samstundis tvær litlar vinkonur, Þóru, 3 ára og Mandala, 6 ára. Mandala kemur með rauð blóm sem hún tínir í runnunum á torginu og gefur mér, hún sýgur endann á blóminu og kallar það hunang, ég sýg líka og fæ sætan vökva upp í mig. Við förum í draugaleik þar sem að ég er draugurinn og á að ná þeim. Þær eru stikkfrí í stiganum við kirkjuna. Síðan förum við Mandala í kapphlaup, hún hleypur svo hratt að hún vinnur mig. Síðan sýnir hún mér hvernig hún getur næstum því flogið, hún hoppar af háum kanti og blakar höndunum. Þóra segir mér frá hafmeyjunum og draugnum í trénu. Þær klifra upp á bekkinn og segjast vera á hestbaki. Við förum og setjumst hjá gosbrunninum. Mandala hífir upp um sig buxurnar og veður í gosbrunninum, vatnið nær henni upp að hnjám. Þóra kemur fljótt á eftir og situr lengi á bakkanum að ákveða sig hvort hún ætti að dýfa tánum ofan í, á endanum fer hún ofan í vatnið og bleytir buxurnar sínar aðeins. Sonja situr á bekk með eldri dóttur sinni Önnu sem er fjórtán ára og er nýkomin til Ekvador fyrir fimm dögum, þær sitja og spjalla við ljóshærða konu. Axel situr á safabarnum og spjallar við fólkið. Tímaleysið er algjört. Ég og stelpurnar leikum okkur þangað til að Axel kemur aftur að bekknum til Sonju. Ég og Axel förum á hostelið þar sem taskan mín er, hann skoðar gítar sem þau eru með til sölu og skiptir á Þóru sem gerði smá slys í buxurnar. Ég næ í töskuna mína og borga þeim smáræði fyrir að hafa geymt hana. Á leiðinni til baka á torgið kaupir Axel buxur fyrir Þóru, til þess að hún hafi eitthvað til að vera í. Þegar Mandala sér það vill hún fá eitthvað þannig að hún fær skó, þá vill Þóra fá skó og loksins er jafnvægi náð með litlum svörtum skóm. Við setjumst niður á kínverskum veitingastað og borðum. Síðan tökum við leigubíl heim í dalinn. Ég, Axel, Mandala og Þóra setjumst í skúffuna. Hverfandi sól litar þúsund ský bleik líkt og rósir í aldingarði indversks fursta; gylltur ljómi svífur yfir fjallinu Mandango sem vakir tignarlega yfir dalnum. Það er verið að bjóða þig velkominn, segir Axel.

Hér líða dagarnir í kyrrð líkt og litla fljótið sem rennur eftir dalnum og fyllir húsið með fallegri rödd sinni, hún er alltaf til staðar í bakgrunninum flytjandi ljóð sín. Það er verið að gera við þakið á húsinu þeirra þannig að tímabundið dvelja þau í öðru húsi á sömu landareign. Það er ekki laust herbergi fyrir mig í tímabundna húsnæðinu en ég er hæstánægður að fá að sofa á bambusdýnu á gólfinu í stofunni, verkurinn sem ég er búinn að vera með í hálsinum í nokkra daga hverfur eftir tvær nætur á gólfinu.

Landareignin sem þau leigja fyrir 300$ á mánuði er stór og liggur í hlíð, gróður umlykur allt með sínum fallega græna lit og há tré vaxa uppi í brattri hlíðinni. Ímyndaðu þér þröngan fjörð, í staðinn fyrir sjó liggur áin í gegnum hann og í staðinn fyrir berg og kletta vex grænn gróður og tré niður hlíðarnar báðum megin. Frá húsinu er útsýni yfir hlíðina hinum megin, útsýni yfir grænklæddann fjörðinn. Þetta er brött hlíð, svo brött að hún er ókleif þegar hærra kemur en neðar í hlíðinni er hún rétt svo hallandi. Hús á stólpum byggt hátt í hlíðinni virðist vera tilflutt úr ævintýri. Hestur stendur á beit og einmana asni bölvar lífinu með háværum búkhljóðum. Fuglar fljúga um himininn og staldra við á greinum til þess að syngja. Þau eiga hund sem er ekki lengur hvolpur en ekki orðinn fullorðinn. Hvolphundurinn Morena sprettir taugaveikluð úr spori ef einhver nálgast hliðið og geltir hástöfum ef einhver dirfist að labba framhjá meðfram veginum. Fyrstu dagana víkur hún sér óttaslegin frá hönd minni en nú klappa ég henni blítt og hún kemur til mín og þefar af mér. Þegar ég vakna hoppar hún í hringi og vill láta elta sig. Hún stundar það að myrða litlar hænur sem álpast yfir girðinguna, þá er hún skömmuð, ef nágrannarnir komast að því myndu þeir líklega reyna að eitra fyrir henni. Nýverið beit hún reimarnar af gönguskónum mínum.

Þóra, litla þriggja ára stelpan er algjör frekja, hún fær það sem hún vill, hún á það til að vera reið að tilefnislausu en reiðisvipurinn getur umbreyst í óstjórnanlega gleði á augabragði. Þegar Sonja var með hana í maganum var hún uppstökk og reið, hún fattaði ekki afhverju fyrr en á sjöunda mánuði: Reiðin kom frá barninu. Þóra hlær stundum upp úr þurru. Hún er með blá augu og mjallhvítt hár, dæmigerður Íslendingur með víkingablóð í æðum. Hún er skörungur og hefur eflaust leikið stóran þátt í Brennu-Njálssögu í fyrra lífi.

Mandala er ljúf og fim, stöðugt í ævintýraleit, með sterkan vilja en ekki næstum því jafn frek og Þóra, getur klifrað upp í hvaða tré sem er og hleypur líkt og vindurinn. Hún er með brúnt hár og dökk augu. Hún á kærasta sem heitir Silas en hún segist ekki vilja hugsa um að giftast honum strax.

Ég vakna í takt við sólina, klukkan hálf sex stíg ég á fætur, set tónlist í eyrun, drekk teið mitt og sest í hugleiðslu. Síðan förum ég og Axel út í morgunsólina og gerum yoga saman. Hann er með kennararéttindi í QiYoga. Við stöndum og finnum fyrir orkuflæði líkamans. Við skynjum orku jarðarinnar, orku loftsins, orku eldsins, orku vatnsins og orku eþersins. Við nemum orkuna með höndunum og leyfum henni að flæða um líkamann. Síðan förum við í stöðurnar og höldum þeim lengi. Sólin hitar mig upp, fjallaloftið blandað angan gróðursins flæðir rólega inn í alheim líkama míns. Eftir yoga förum við í garðinn þar sem Þóra og Mandala hoppa um og rúlla sér í mjúkum grasbala. Morena hleypur um ærslafull og hrindir Þóru litlu um koll sem hlær bara er hún lendir í grænu grasinu. Viltu horfa á mig hoppa í grasið eins og froskur, spyr Mandala og hoppar. Síðan kemur Mandala með brómber og gefur mér að smakka.

Axel spyr mig hvort ég vilji skjótast í bæinn og ná í ferska mjólk. Hann réttir mér hjálm og lyklanna að mótorhjólinu sínu. Góða ferð, segir hann er ég labba niður að hliðinu. Ég hef ekki keyrt mótorhjól með gírum síðan á Indlandi og það var reyndar hjólið hans Axels, ævintýrablátt Royal Enfield. Ég sest á mótorhjólið sem myndi líklega flokkast sem krossari og reyni að setja það í gang. Ég næ að kveikja á því en þegar ég reyni að fara í gír slokknar á vélinni. Eftir nokkrar tilraunir bruna ég af stað eftir frumstæðum malarvegi. Ég held mér á lágum hraða og einbeiti mér að því að lifa. Hjólið er hálfslappt og er á leiðinni í viðgerð í yfirhalningu, það hökktir aðeins en vinnur vinnuna sína annars vel, fótbremsan virkar þó ekki og ég fer varlega í að bremsa með handbremsunni sem stöðvar fremra hjólið. Ég mæti gangandi vegfarendum sem heilsa mér allir. Á leiðinni upp litla brekku drep ég óviljandi á hjólinu, ég drösla því niður úr hallanum og næ að kveikja aftur á því og renna mjúklega upp brekkuna. Ég kem inn í úthverfi þorpsins og mæti bílum. Mér tekst að drepa aftur á hjólinu fyrir framan litla búð og eftir margar tilraunir kemst ég aftur af stað. Ég keyri framhjá menntaskóla, það er nýbúið að hringja bjöllunni, skólinn er búinn í dag, nemendurnir flykkjast út á götuna, ég hægi á mér og þarf að finna leið í gegnum þvöguna líkt og um völundarhús sé að ræða; ég kemst í gegn án þess að valda tjóni. Núna er ég kominn inn í þorpið og fer eftir leiðbeiningum Axels að mjólkinni. Ég enda á vitlausum stað og spyr tvo gamla menn um leiðbeiningar, kemur í ljós að þeir eru ekki héðan og vita ekki hvar Rosita á heima. Ég læt reyna á gæfuna og finn húsið að lokum, ská á móti hugleiðslusetrinu. Ég geng inn um hlið að stóru einbýlishúsi, Land Rover situr í innkeyrslunni, ég kalla: Hola!

Karl kemur aftan að mér og kallar á konu sína, hún kemur með fimm lítra af mjólk, beint úr beljunni og ég borga henni 3$. Ég set mjólkina í bakpokann og bruna heim. Á leiðinni heim er ég miklu öruggari á hjólinu og það gerir ferðina töluvert ánægjulegri. Ég drep óvart á hjólinu rétt við hliðið og ýti því þrjá metra til að leggja því. Síðan fer ég og kem mjólkinni fyrir í ísskápnum sigrihrósandi. Mjólkin er yndisleg á bragðið, næstum því jafn góð og íslensk mjólk.

Axel flutti frá Íslandi þegar að hann var sex ára. Hann hefur átt heima í tíu löndum út um alla heim. Pabbi hans var skipstjóri fyrir Sameinuðu þjóðirnar. Þegar að hann var ellefu ára átti hann sterka upplifun með heilara og byrjaði eftir það að nudda fjölskyldu og vini. Hann hefur starfað við allt á milli himins og jarðar og lærði arkítektúr í fjögur og hálft ár. Einu sinni var hann til sjós í heilt ár, fiskandi á miðum Íslands. Hann var skráður í lausaróður og einu sinni þegar að hann kom á skip í Grindavík var komið fram við hann eins og hund. Hann starfaði sem kennari á Hvammstanga um stund og upplifði það að vera á milli tannanna á öllu þorpinu. Hérna í Vilcabamba starfar hann sem heilari. Andlega og líkamlega veikt fólk kemur til hans og með sérstækum aðferðum hreinsar hann orku fólksins og nuddar það. Hann spilar póker og treystir á hjálp frá lítilli skjaldbökustyttu sem talar við hann og segir honum hvenær hann á að veðja og hvenær hann á að leggja niður spilin. Einu sinni þegar að hann var í New York sem unglingur var otað að honum hníf um miðjan dag á götu fullri af fólki, hann var með síðustu 50$ í rassvasanum og þurfti þá fyrir hótel og mat, hann gat ekki hugsað sér að láta þjófinn fá peninginn þannig að hann byrjaði bara að bulla og bulla um að hann hafi verið rændur daginn áður og að allt hafi verið tekið af honum og hvað þjófurinn væri með vitlausan mann til að ræna og hann bullaði og bullaði og þjófurinn stóð með hnífinn ringlaður og hlustaði þangað til að Axel labbaði bara í burtu og stöðvaði svo á horni rétt hjá máttlaus í fótunum með hjartað í buxunum. Þegar við erum í þorpinu virðist hann þekkja alla og vera á góðum nótum með öllum. Hann geislar út frá sér hlýrri orku og virðist vera miklu yngri en hann er í raun og veru. Hann er með sterka tengingu við Alveruna og getur talað við tré og plöntur. Nærveran hans er mjög þægileg og hann er ein áhugaverðasta manneskja sem ég hef kynnst. Hann vill allt fyrir mig gera.

Hér er gott að hugleiða. Ég einbeiti mér að andardrættinum, síðan færi ég meðvitundina í gegnum líkamann og nem titringinn í frumunum sem eru sífellt að endurnýjast. Þegar hugurinn byrjar að ímynda sér framtíðina eða rifja upp fortíðina, sætti ég mig við það og kem aftur að andardrættinum. Hugurinn byrjar að hugsa um allan andskotann, það getur verið hvaða handahófskenndi hlutur sem er. Aðferðin sem ég nota er að fylgjast með huganum og aðgreina sjálfan mig frá hugsununum. Ég festi einbeitinguna í eyrunum og kliður ánnar rennur um vitund mína, þaggandi niður í síblaðrandi rödd hugans. Áin flæðir mjúklega eftir slípuðum steinum farvegsins, hljóðið heldur mér hugföngnum. Hugurinn byrjar að ímynda sér áframhaldandi ferðalag til Kólumbíu, ímyndar sér ströndina og hvað lífið verður gott; ég fatta það og dýfi eyrunum aftur ofan í ánna. Hugurinn þagnar. Áin streymir. Vitund mín fylgist með starfseminni, hún situr þögul í smá fjarlægð, hún er vitni að hugsunum sem birtast á skjánum, hún er vitni að gamalli minningu, hún er vitni að ímyndaðri framtíð, hún er vitni að þögninni, hún er vitni að titringi frumnanna, hún er vitni að verkinum í bakinu vegna langrar setu, hún er vitni að blóðleysinu í hægri fætinum, hún er reikul, hættir að fylgjast með og gleymir sér í dagdraumi. Áin streymir. Ég steypist í djúpa leiðslu þar sem að meðvitund hversdagsleikans umbreytist í næma skynjun á minni eigin veru. Ég nem rifbeinin þenjast út og axlirnar lyftast er loft fyllir mig að innan með snigilhægu flæði inn um nefið. Ég skynja rýmið í kringum mig líkt og ég hafi stækkað töluvert. Dropinn skynjar sig sem hafið. Ég nem smæstu agnir líkamans. Hjól tímans liggur hreyfingarlaust í hendi mér. Áin streymir. Hugsanir koma og fara líkt og hvít ský svífandi um bláan himinninn. Vera mín titrar góðlátlega. Ég sit með augun lokuð í tímaleysi nútíðarinnar. Ég er tómið. Ég er ekki lengur bundinn orðinu Ég. Ég er hafið ekki dropinn. Alveran er ég og ég er Alveran. Hægt og rólega líður meðvitund mín inn í sitt venjulega form. Bakið er þreytt. Ég leggst niður og finn lífsorkuna titra. Áin streymir.

Sonja er líka heilari. Þegar ég heimsótti þau á Indlandi tók hún mig í heilun, aðferðin heitir The Hladina Method. Ég lá á bekk og hún sat við hliðina á mér og leiðbeindi mér. Ég byrjaði á því að anda djúpt. Fylla líkamann af orku loftsins. Hún sagði mér að beina önduninni þangað sem líkaminn gefur til kynna eitthvað merki, lítinn sársauka eða óþægindi. Ég andaði inn djúpt og senti orku andardráttsins niður í fótinn, í öxlina, höndina, hálsinn, á alla þá staði þar sem ég fann líkamann kalla á orku. Hún spurði mig hvort ég sæi einhverja liti. Ég lá með lokuð augun og sá sterkan bláan lit svífa um myrkrið á bakvið augnlokin. Vera mín byrjaði að fyllast af orku og titra. Sonja beindi mér inn í hjartað. Beindu allri önduninni í miðju brjóstkassans, sagði hún. Ég fann um leið fyrir hlýjum titringi rétt yfir bringubeininu. Hún sagði mér að spyrja sjálfan mig þessarar spurningu: Er ég tilbúinn að fara inn í fyrsta lag hjartans? Ég spurði mig í hljóði og um leið sökk ég dýpra inn í hjartað. Síðan eftir áframhaldandi orkuöndun spurði ég hvort ég væri tilbúinn í annað lag hjartans. Ég sökk ennþá dýpra, sæla lék um sálina. Síðan þegar ég sökk inn í þriðja lagið fann ég hvernig hjartað sló ástmagnaðri orku sinni um líkamann, elskandi hverja frumu. Ég lá með hendurnar á hjartanu í ákafri alsælu sem ég hafði aldrei upplifað áður. Sonja sagði mér að ég gæti alltaf komið aftur í þessa tilfinningu þegar ég þyrfti á því að halda og það reyndist vera satt. Dagarnir á eftir heilunina liðu í ljóma sólar sem skein á mig brosandi frá hjartanu.

Casa de Felicia, segi ég við leigubílstjórann. Við keyrum út dalinn og áður en við komum að þorpinu tökum við vinstri beygju og keyrum yfir litla brú og nemum staðar við stórt hlið. Ég borga bílnum, opna hliðið og geng eftir stíg að húsinu hennar Feliciu. Garðurinn hennar er vel snyrtur og skartar fjölmörgum mismunandi blómategundum, trjám og plöntum. Þegar ég kem að veröndinni heilsar hún mér útum gluggann og biður mig um að fá mér sæti. Hún hefur átt heima í Vilcabamba í tuttugu ár, hún er með svart hár, stóra eyrnalokka úr fjöðrum, góð augu, mjó og hávaxin. Húsið hennar er blátt á litinn. Hátt uppi í tré situr páfagaukurinn hennar Pepe, hann er stór og gulur, rauður, grænn og blár á litinn. Hola, segir hann með skrækum róm. Felicia kemur út á veröndina og sest á móti mér við borðið. Hún ávarpar mig með nafni sem hún lærði í tölvupóstinum sem ég sendi henni í gær. Felicia er seiðkona, eða shaman. Á morgun sér hún um athöfn sem felur í sér að innbyrða San Pedro kaktusinn í vökvaformi. San Pedro hefur verið nýttur af frumbyggjum álfunnar í þúsundir ára. Hann er mjög hávaxinn, í garðinum hennar vex kaktus sem er hærri en þrír metrar. Virka efnið sem lætur mann í leiðslu kallast meskalín. Hún útskýrir að athöfnin er haldin um nótt vegna þess að á nóttunni kemur undirmeðvitundin fram og nóttin táknar móðurkviðinn sem við ætlum að fara inn í og fæðast á ný er sólin kemur upp. Hún segir að upplifunin gæti verið óþægileg, t.d uppköst og draugar úr fortíðinni geta komið upp eða fólk þarf að horfast í augu við hræðslurnar sínar. Venjulega hleypir hún fólki ekki inn í athöfn með svona stuttum fyrirvara en vegna þess að ég er grænmetisæta, drekk í miklu hófi og stunda hugleiðslu telur hún mig undirbúin fyrir ferðalagið. Hún segir mér að eiga rólegan dag á morgun og koma til hennar hálf níu um kvöldið. Við kveðjumst og páfagaukurinn Pepe kveður mig er ég geng út um hliðið: Ciao!

Ég fer heim og vinn aðeins í garðinum þangað til að það byrjar að rigna, síðan les ég og hugleiði. Morguninn eftir hugleiði ég og slappa rækilega af. Um miðjan dag fæ ég mér tveggja tíma blund. Ég fer niður að á og fylgist með vatninu flæða. Hnígandi sól gyllir flauminn. Ég sit og stari dágóða stund, síðan fylli ég vatnsflöskuna mína og geng aftur upp í hús og pakka í tösku fyrir nóttina. Axel hringir á leigubíl fyrir mig. Ég renn af stað út í nóttina. Ég kveiki á vasaljósinu, opna hliðið og geng upp að húsinu hennar Feliciu.

Á veröndinni tekur Felicia á móti mér með kossi á kinnina. Ég heilsa Amy, enskri stelpu í holdum með órólegt fas og slæma fortíð í augunum. Stutt á eftir kemur Terry labbandi upp stíginn, Bandaríkjamaður á eftirlaunum, búsettur í fjallaþorpi í norðrinu, hokinn í baki með stór gleraugu sem stækka saklaus og hlý augu. Síðan kemur ástralska parið Matthew og Anne, glöð í bragði, ennþá ungleg, aðeins að grána, með peninga í veskinu af fötunum og fasinu að dæma. Þá eru allir komnir, fimm sálir reiðubúnar í ferðalag inn í hið ókunna.

Við fáum teppi og setjumst í hring í kringum steinhlaðið eldstæðið í garðinum. Athöfnin byrjar á þakkargjörð þar sem Felicia þakkar öllum öflum alheimsins og sérstaklega San Pedro kaktusinum og anda hans sem hún kallar afa. Hún fer með smá ræðu um tilveruna og talar um að allt í heiminum sé óaðskiljanleg heild og að við séum eilífar verur á lærdómsferðalagi. Síðan fer einn í einu til hennar og hún hreinsar í burtu slæma anda og kallar á góða með því að hrista laufblaðsvönd, umlykja okkur í reykelsi og slá hristu meðfram líkamanum. Síðan tekur hún upp trommu, með djúpu og þykku hljóði, sem hún heldur á í höndinni og slær á með mjúkum kjuða, leðrið er úr litlu blettóttu kattardýri kallað Ocelot. Hún trommar og syngur til kaktusins og biður hann um að kenna okkur, vernda okkur og leiða okkur í gegnum nóttina. Síðan lætur hún trommuna ganga og hver og einn slær smá takt. Síðan er stundin runnin upp.

Felicia kemur til mín og réttir mér lítinn bolla af svörtum vökva. Þrír stórir sopar tæma bollann. Bragðið er rammt. Biturleikinn er svo sterkur að það fer um mig ógeðishrollur. Hún býður mér sítrónu en ég ákveð að leyfa bragðinu að liggja óhreyfðu á tungunni. Ég kippist aðeins til vegna óbragðsins. Ég sit og halla mér upp að háu tré með mjúkum löngum barrlaufum vaxandi úr greinunum. Ég finn vökvann seitla um vélindað niður í magann þar sem að hann kraumar. Eftir dálitla stund fer mér að vera óglatt, ég reyni að láta það líða hjá en eftir hálftíma verður ekki hjá því komist að sleppa takinu. Ég tek upp plastpoka sem Felicia lét mig fá fyrr um kvöldið og fylli hann af magavökva. Eftir nokkrar gusur líður mér betur og ég bind fyrir pokann og Felicia fjarlægir hann. Ég finn að eitthvað er að gerast. Hugsanir mínar eru sterkar og minningar sem skjóta upp kollinum í kollinum eru ljóslifandi, líkt og ég sé að upplifa þær einmitt núna. Lyktin, sjónin, hljóðin, tilfinningin, nákvæm eftirlíking minningarinnar endurspilast fyrir mér. Hlutar af lífi mínu sem ég hef ekki hugsað um lengi rifjast upp fyrir mér. Fyrir þrem til fjórum árum var ég allt önnur vera, sjálfselsk, egósentrísk, útlitsdýrkandi, tilfinningaheft, hrokafull vera sem öfundaði aðra, vildi peninga og virðingu og kunni varla að umgangast annað fólk með kærleik. Ég kom stundum illa fram við fólk, gat verið algjör seggur og var sífellt gerandi grín að öðrum. Ég var með stelpu og sagðist elska hana þegar ég hafði ekki minnstu hugmynd um hvað ást væri. Ég lifði í huganum og vissi ekki að hjartað væri til.

Kvöldið er orðið að nótt. Tunglið glampar í gegnum skýjabólstra. Ég finn fyrir kaktusnum flæða um mig. Ég er afskaplega glaður. Ég ligg í grasinu, vel klæddur, væntanlega í ponchoinu og vafinn inn í þykkt teppi. Ég horfi á trén í garðinum, laufin mynda sterkar svartar útlínur í næturbirtunni, greinar teygja sig til himins. Ég legg ennið upp að berkinum; ég finn fyrir orku trésins, ég finn að það er lifandi og með meðvitund. Ég gríp um trjábolinn með höndunum og finn viðarhjartað slá.

Er ég virkilega að gera það sem ég vil gera við líf mitt? Kaktusinn spyr og sálin svarar. Ég er að fara eftir hjartanu í einu og öllu. Ég er að gera nákvæmlega það sem ég vil gera við líf mitt, ferðast, skrifa, yrkja, læra tungumál, kynnast fólki, hugleiða, tengjast jörðinni og læra nýja hluti. Líf þar sem að ég veit eiginlega aldrei hvaða vikudagur það er, áhyggjulaust líf, einfalt líf, náttúrulegt líf og síðast en ekki síst líf þar sem að ævintýrin gerast á hverjum degi.

Felicia slær trommuna sína og syngur. Söngur hennar tekur mig aftur til fornaldar, aftur til fyrri lífa. Ég sé hana fyrir mér sem gamla indjánakonu með sítt hvítt hár. Hún slær trommuna í takt við einfaldann en tilfinningaþrunginn sönginn, orðlaus söngur sem ég hef heyrt þúsund sinnum í þúsund lífum. Tromman hreyfir við mér að innan. Ímyndanir mínar verða skýrari.

Ljóslifandi sé ég fyrir mér Hvítársíðu. Mosaklædd hraunbreiðan blasir við mér og geislar miðnætursólarinnar strjúka Fljótstungu, bænum þar sem að afi minn fæddist og náði í hestana með hundinum sínum Kópi. Hann var svo lítill að hann beið þangað til að þeir bitu gras, síðan hoppaði hann upp og greip í faxið þeirra og komst á bak þegar að hesturinn reisti hálsinn við. Birkilauf fjúka í vindinum. Strútur stendur sterkur, Eiríksjökull vakir yfir auðninni klæddur í skarlatsskikkju sumarbirtunnar. Hér á ég heima. Hér liggja mínar rætur. Hér rennur víkingablóð í víkingaæðum, hér er landið sem var numið af hetjum. Mér verður hugsað til fjölskyldunnar minnar á Íslandi og ég fyllist af þakklæti alveg upp að brún.

Felicia kemur til mín og spyr hvernig ég hafi það. Ég er hjá Pedro, svara ég, mér líður vel. Felicia heldur áfram hringinn. Það er skrítið að tala. Ég hlæ að núverandi ástandi meðvitundar minnar. Ég ligg í grasinu og hlæ. Ég heyri í einhverjum gubba. Ég heyri í einhverjum hósta. Hljóð berast úr þorpinu. Hundrað hanar galandi. Hænur gaggandi. Guffar geltandi. Dauf bassalína dynur úr fjarska. Hún er óþolandi. Ég get ekki einbeitt mér að neinu. Það eina sem ég heyri er bassalínan, leiðinleg bassalína úr dæmigerðu popplagi. Hún endurtekur sig aftur og aftur. Ég pirrast og hugsa að Felicia þurfi að færa sig um set, lengra í burtu frá bænum, þetta gengur ekki. Stjörnublik berst mér úr geimnum en það eina sem ég upplifi er bassalínan. Sem betur fer er ég með ráð. Ég smelli á mig heyrnatólum og kveiki á tónlist. Ég hef aldrei upplifað annað eins. Tíminn hægir verulega á sér. Englarödd Ásgeirs Trausta tekur yfir alla veraldlega skynjun. Hærra, hærra, heimsins prjál. Hann lyftir huga mínum á flug. Skærar stjörnur blika í samráði við hljómanna. Ég trúi varla eigin eyrum. Ósýnilega fegurð veraldarinnar umbreytir meðvitund minni í sjálfstæðan hjartaheim hljóma, tóna, tilfinninga og hins eilífa takts sem aldrei mun enda og hófst án upphafs. Ég prófa að hlusta á allskonar tónlist, en get aðeins hlustað á rólega. Ég dett djúpt inn í lagið Child eftir Edward Sharpe and the Magnetic Zeros. Takturinn er einfaldur, þæginlega þykkt slag á einum, tveimur, þremur og fjórum. Gítararnir eru ljúfir og einhverskonar didgeridoo blæs í bakgrunninum af og til. Söngurinn er hrein tilfinning og bergmálar í vinstri eyranu. Í laginu er lítil stelpa sem vill alltaf vera krakki og hún veltir því fyrir sér af hverju við þurfum að deyja. Línan slær mig í hjartað. Ég horfist í augu við dauðann, ekki leiður heldur brosandi í alsælu. Vertu velkominn dauði, ég hef enga trú á þér. Ég hef gengið í gegnum hlið þitt ótal sinnum, alltaf hefur það opnast inn í næsta farartæki sálarinnar. Vertu velkominn dauði, þá og þegar þú kemur, ég tek þér opnum örmum. Ég horfi upp í geiminn þar sem að eilífð alheimsins blasir við. Eilífðin, óendanleikinn, hringsnúandi hjól orsaka og afleiðinga, hringrás alls sem er. Það að við munum aldrei hætta að vera og sú undraverða uppgötvun að tími samandstendur af eilífu núi.

Ég byrja að hlusta á The Dark Side of the Moon. Hjartsláttur. Klukka tifar. Peningar. Ég hef alltaf verið geðveikur, segir hann. Kraftmiklar bylgjur stanga veru mína. Andaðu inn loftinu, segir hann. Takturinn breytist skyndilega, verður hraðari. Hljóð umkringja þungamiðju sálarinnar. Þau kasta mér til og frá, eru mér næstum því ofviða. Þyrla flýgur yfir mér. Sprengja springur. Maður á hlaupum. Klukkur byrja að tifa, síðan byrja þær að slá, allar í einu! Þá þarf ég að lækka og síðan slökkva. Ég ligg í þögn, tunglið skín í gegnum barrlaufin og stjörnumerkin glitra.

Er ég að ljúga einhverju að sjálfum mér? Blekkingamúr sjálfs míns hrynur líkt og mongólar hafi gert árás á hann. Ég hagaði mér illa gagnvart stelpu, fór illa með hana. Ég hleypti mér inn í hjarta hennar en stökk síðan í burtu og lokaði á hana. Ég þarf að segja fyrirgefðu. Ég þarf líka að segja fyrirgefðu við fyrstu kærustuna mína sem ég fór verr með, ég hélt fram hjá henni með því að kyssa aðra stelpu á fylleríi í útskriftarferð. Ég þarf að segja fyrirgefðu.

Svartur himinninn verður dimmblár. Stjörnuherinn heldur stöðu sinni. Nætursvalinn býr sig undir að deyja í morgunsólinni, þó er enn langt í upprisu. Með hægum en vönduðum pensilstrokum verður himininn ljósblárri með hverjum andardrætti. Fuglar taka á rás um himinhvolfið, þeysandi á milli trjánna. Söngur þeirra hvetur sólina til að gægjast yfir fjöllin og sýna sig. Hvítur máninn situr einn eftir á ljósbláum himninum, stjörnurnar horfnar. Ég hlusta á Sun It Rises með Fleet Foxes er bálhnötturinn lyftir sér yfir fjallshrygginn og lýsir upp veröldina. Baðaður í gulli halla ég mér upp að trénu sem gleðst með mér, börkurinn brosandi. Terry, gamli Bandaríkjamaðurinn, röltir friðsæll á svip um garðinn og virðir fyrir sér blómin í gegnum þykk gleraugun. Matthew, Ástralinn með peningasvipinn, situr og borðar besta epli sem hann hefur smakkað á ævi sinni. Anne, konan hans, liggur og starir dreymin upp í skýin. Amy, óhamingjusami Englendingurinn, liggur á grúfu og grætur gleðiblönduðum sannleikstárum.

Ég sit lengi og stari á alla litina í kringum mig, ég stari upp í barrlaufin, ég stari á kólibrífuglinn sem þýtur um á ógnarhraða og ég stari á plönturnar. Ég finn fyrir sterkri tengingu við móður jörð.

Við komum öll saman fyrir framan styttuna af Pachamama, þ.e Mömmu Jörð. Hún er með risavaxin júgur, stóran maga og þykkar varir. Fyrir framan hana standa blómin sem við færðum henni í gær. Felicia þakkar henni fyrir allt saman með langri ræðu. Síðan tekur hún upp vínflöskurnar sem við komum með í gær; ég fann eina vínflösku á hagstæðu verði í búðinni, fannst ekki við hæfi að kaupa í fernu. Ég er eilítið máttlaus í löppunum, ég slæ tvær flugur í einu höggi og fer niður á hnén líkt og múslimi og beygi mig fyrir Mömmu Jörð í auðmýkt og hvíli fæturnar í leiðinni. Felicia fær sér sopa af víninu og hellir niður fyrir Pachamama, hún hellir í lófann og litar varir hennar vínrauðar. Síðan lætur hún flöskuna ganga, Matthew fær sér sopa og hellir niður, Anne fær sér sopa og hellir niður, ég fæ mér ekki sopa og sulla smá í grasið fyrir Mömmu Jörð. Á þessa vegu hellum við niður þremur vínflöskum. Síðan göngum við til San Pedro kaktusins sem gnæfir upp í loftið í þéttri þyrpingu, a.m.k. fimmtán kaktusar saman. Hún þakkar kaktusinum fyrir allt saman og byrjar svo að skvetta á hann víni. Blóðrauðir dropar leka niður græna húð kaktusins glóandi í sólinni. Felicia beygir sig fyrir kaktusinum í djúpri lotningu. Ég sit dasaður á stein og fylgist með. Þakkargjörðinni er lokið. Ég fæ mér valhnetur, möndlur og rúsínur, tómur maginn fyllist af gleði og bragðlaukarnir stíga dans. Felicia bíður okkur te. Ég þigg. Hugarástand mitt samanstendur af þreytu, þögn, þakklæti, ást og vellíðan.

Felicia hleypir hundunum sínum út, þeir eru fjórir talsins. Stór svartur fjallahundur kemur til mín og þefar af mér, augun hans eru svo tilfinningarík að hann er mannlegur í útliti. Lítill ljónshundur hleypur hugrakkur út í garðinn og geltir aðeins á fuglana. Smávaxinn knúshundur kemur til mín og sleikir mig upp til agna, ég klappa honum góða stund og hann horfir á mig eins og að ég sé uppáhalds manneskjan hans í heiminum. Yfirvegaður danskur risahundur hoppar upp á bekkinn og fær sér sæti við borðið, hann heldur að hann sé manneskja. Hvuttarnir fá að borða, þeir eru allir svo ótrúlega glaðir og heilbrigðir. Felicia eldar fyrir þá á hverjum degi. Felicia fer til Pepe og ég elti, hann er hátt upp í trénu sínu en kemur klifrandi niður til að fá mat og grínast aðeins í okkur, hann heilsar okkur og bankar hnefanum í pallinn sem Felicia er búin að útbúa fyrir hann í trénu. Hann bankar hnefanum þrisvar í pallinn og horfir á mig glottandi eins og að hann sé að spyrja mig: Er ég ekki sniðugur og fyndinn?

Hann fær að borða og bítur Feliciu aðeins í puttana og hlær með háværum skrækjum. Hann er hættur að fljúga eftir bitra reynslu, stundum flaug hann um og varð nokkrum sinnum fyrir því óláni að einhver stal honum. Núna heldur hann sig í trénu sínu eða á prikinu sínu á veröndinni.

Ég hugsa um að þegar ég muni einhverntímann koma mér fyrir á einum stað vil ég yrkja jörðina og jafnvel stofna samfélag. Ég ímynda mér lítið draumasamfélag í brazilíska frumskóginum rétt við sjóinn, hér ræktum við mat og iðkum brazilískt jiujitsu og hugleiðslu. Það væri toppurinn á tilverunni.

Terry kveður okkur með sterku handabandi. Ég, Anne og Matthew sitjum við borðið og drekkum te. Amy situr í garðinum og reykir. Matthew var ógeðslega svangur um nóttina og í leiðslunni upplifði hann að vera borðaður af könguló en á sama tíma var hann köngulóin að borða sjálfan sig, hann var dauðhræddur en upplifunin var ánægjuleg af því að hann var svo svangur. Síðan upplifði hann sjálfan sig sem hin ýmsu skordýr. Anne leið eins og að hún væri að fæða barn og síðan sökk hún hálf ofan í jörðina og spriklaði þar með fótunum. Þau eru bæði mjög ánægð með upplifunina. Ég fer út í garð og geng um eins og górilla, áhrifin af kaktusnum eru ennþá til staðar en í litlu magni. Eftir dágóða setu og slökun pöntum við tvo taxa og förum. Áður en ég fer þakka ég Feliciu og gef henni fjárframlag. Er við göngum út um hliðið kveður Pepe okkur glottandi. Þegar ég kem heim í hús dóla ég mér og horfi á tvær hasarmyndir til þess að halda mér vakandi og fer svo að sofa klukkan átta, uppgefinn úr þreytu.

Daginn eftir hugleiði ég við sólarupprás og vinn í garðinum. Dagurinn líður í ró og áin streymir.

Ég set mótorhjólið í gang og bruna niður malarveginn meðfram ánni. Gírskiptingin er komin og kúplinginn er orðinn vinur minn. Vindurinn strýkur andliti mínu. Áður en ég kem að bænum tek ég hægri beygju upp þröngan malarveg sem leiðir mig inn í lítinn skógivaxinn dal. Augun fyllast af grænu. Laufblöð böðuð í geislum varpa götóttum skugga á veginn. Ég legg hjólinu við lítið skýli þar sem að Peugot bíll slappar af í skugganum. Stígur liggur upp í bratta hlíðina, hann tekur mig hærra og hærra, ég svitna aðeins úr áreynslu. Stígurinn hefur verið skorinn út í bergið. Úr mikilli hæð horfi ég yfir megindalinn, hér og þar eru hús á stangli, himinhvolfið breiðir úr sér yfir grasi prýddum fjallshryggjunum og þykkir skýjabólstrar fljúga yfir jörðinni. Stígurinn tekur mig hærra upp í fjallshlíðina, tekur krappa beygju og leiðir mig inn í annan dal eða fjörð. Ég sé glitta í risastórt hús á fjórum hæðum byggt í snarbrattri hlíðinni, á toppi hússins er pýramídi. Er ég kem nær gelta á mig hundar sem eru mér til mikillar gleði innilokaðir í litlu hundaskýli. Ég banka upp á í pýramídahúsinu. Ég heyri hreyfingar að innan en enginn kemur til dyra. Ég banka aftur. Loksins kemur kona til dyra, hún býður mig velkominn og bendir mér á að fara inn niður stigann og bíða þar.

Maður kemur og tekur á móti mér. Við tökumst í hendur. Hann er með svarta húfu á höfðinu með ying og yang merkinu á og er klæddur í hvítann slopp. Hann fylgir mér inn í lítið herbergi með klósetti og sturtu og kemur með stóra fötu af seyði búið til úr plöntum. Hann segir mér að þrífa mig frá toppi til táar og koma svo upp til hans. Ég klæði mig úr fötunum og skola mig með heitum vökvanum. Síðan fer ég upp og leggst á magann á nuddbekk, nakinn með lak yfir mér. Maðurinn sem heitir Kleber kemur inn í herbergið. Kleber byrjar á því að sprauta vökva úr munninum sínum yfir bakið mitt sem hann hellir upp í sig úr flösku. Vökvinn sem ég held að sé sótthreinsandi er kaldur og ég get ekki sagt að það sé unaðsleg tilfinning að láta hrækja köldum vökva á bakið sitt. Hann frussar á mig allan, hendur, háls, fætur, iljar og dreifir síðan úr bleytunni með höndunum og nuddar mig harkalega en vel. Hvar er ég og hvað er ég að gera? Kleber er mjög langt kominn heilari, hann hefur m.a. unnið með fyrrverandi forseta Ekvador, ég er kominn til hans að láta skyrpa á mig til þess að sjá hvort að hann geti hjálpað mér með augun mín sem eru haldin sjaldgæfum sjúkdómi sem veldur því að þau hristast ósjálfrátt þegar að ég horfi á eitthvað í smá fjarlægð. Sjúkdómurinn heitir Nystagmus og samkvæmt vestrænum lækningum er engin lækning til. Hann segir mér að ég verði að treysta guði. Hann fer með bæn og biður drottinn um að hjálpa mér, síðan nuddar hann mig frá toppi til táar. Hann tekur eftir því að það er einhver þreyta í líkamanum, ég segi honum að ég hafi verið uppi heila nótt undir áhrifum San Pedro. Hann segir að það sé slæmt, mjög slæmt. Hann segir að hann sé að vinna út frá vísindunum en í sambandi við guð, hann er enginn shaman. Eftir tímann sýnir hann mér herbergi þar sem að veggirnir eru þaktir í plöggum sýnandi fram á gífurlega menntun frá hinum og þessum háskólum.

Í annað skiptið sem ég fer til hans segir hann að orsök sjúkdómsins sé áfall eða högg sem móður mín fékk þegar ég var í kviðnum. Hann segist hafa séð það og tárast. Það gæti verið eitthvað til í því, ég átti að fæðast í janúar en fæddist seint í nóvember og var fárveikur fyrirburi. Hann skyrpir meiri vökva á mig, í þetta skiptið líka í andlitið, á brjóstkassan og magann. Hann segir að ég verði að hafa trú á guði og ekki innbyrða nein eiturlyf, áfengi né kaffi í heilt ár. Hann nuddar mig allann.

Í þriðja skiptið sem ég geng upp fjallið til hans skrúbbar hann mig allann með plöntum, gefur mér laufin og segir mér að henda þeim í ánna notandi aðeins vinstri höndina. Síðan segir hann mér að ég þurfi að fara og ná í heilagt vatn úr sjö kirkjum. Ég horfi á hann sannfærður um að mér hafi misheyrst. Á ég að fara að ná í heilagt vatn úr sjö kirkjum, spyr ég hann. Já þú ferð með vatnsglas til föðurins og biður hann um að blessa vatnið, svarar hann. Ég hika og reyni að koma mér út úr því að þurfa að gera það. Ég trúi ekki á kirkjuna, ég trú ekki á prestinn, segi ég. Ef þú trúir ekki á kirkjuna þá gerirðu það fyrir mig, svarar hann. Ég ákveð að gera það fyrir hann en fyrst tekst mér að lækka kirkjurnar niður í fimm og fá að taka tvö glös frá móður jörð.

Daginn eftir setjumst við Axel upp í jeppann sem hann er nýbúinn að kaupa og keyrum niður í þorpið. Sólin er hátt á lofti og dagurinn er fallegur. Fjöllin sem umlykja dalinn fylla okkur af orku. Ég held að ég hafi aldrei áður í neinum af mínum fyrri lífum fundið fyrir jafn mikilli lífsfyllingu, segir Axel. Jeppinn er mikill persónuleiki, gamall bandarískur Chevrolet, einfaldur og auðmjúkur, við rúllum mjúklega inn í þorpið og leggjum við aðaltorgið. Brátt kemur til okkar maðurinn sem er að selja honum bílinn, David. Ég hoppa afturí og hann sest framí. Leiðin liggur til Loja þar sem að þeir ætla að ganga frá kaupunum á bílnum og ég ætla að verða mér út um heilagt vatn. Við keyrum í gegnum ótrúlegt landslag fjallanna. Vegurinn liggur hátt uppi og þræðir sig í gegnum djúpan dal þar sem að skógivaxnir tindar bera við bláeygðan himininn og bílar sem keyra útaf hleypa öllum innborðis yfir í næsta líf. Við tindunum tekur heit borgin við. Við leggjum bílnum í bílageymslu og ákveðum að hittast á kaffihúsi þegar að erindunum er lokið. Þeir fara í sína átt og ég hina.

Ég geng inn um innganginn að skrifstofu kirkjunnar með nettan kjánahroll og spyr í móttökunni hvort að faðirinn sé við. Hún hringir í nokkur símanúmer en ekkert svarar. Hún segir mér að faðirinn hafi skroppið einhvert út og hún veit ekki hvenær hann komi til baka. Ég ákveð að taka málin í eigin hendur og geng inn í kirkjuna sjálfa, hún er gömul og ríkulega skreytt. Andrúmsloftið er friðsælt en bælt. Ég geng eftir hægri hlið kirkjunnar, fólk situr á bekkjunum og biður upphátt. Jesús hangir á krossinum, blóðugur og þjáður. Í bakpokanum mínum er ég með glas, tvær vatnsflöskur, eina fulla og eina tóma. Ég helli smá vatni í glasið, stend fyrir framan styttu af Jesúsi og bið hann og kristsmeðvitund hans um að blessa vatnið. Þetta geri ég vitandi að það er afar ólíklegt að styttan heyri í mér og enn ólíklegra að hún búi yfir kröftum til þess að blessa vatn, en þetta dugar ábyggilega fyrir Kleber. Ég helli blessaða vatninu í tómu flöskuna og fer út að finna næstu kirkju.

Hár turn stendur í miðju torgs, hann er tileinkaður Spánverjanum sem stofnaði Loja. Nokkur fimbulforn tré standa róleg og veita hrukkóttum öldungi skugga. Ég geng upp tröppurnar að gamalli kirkju sem rís hátt upp í himininn. Sama sagan endurtekur sig, faðirinn er ekki við. Komdu aftur eftir hálftíma, segir hún í móttökunni. Ég fer og fæ mér að borða á litlum stað rétt hjá kirkjunni, til þess að fá mat án kjöts hef ég komist að því að það er best að segja að ég vilji mat án dýra. Ég háma í mig hrísgrjón og baunir og fer síðan aftur að gá að prestinum. Hann er rétt ókominn, segir hún. Ég sit á bekk í móttökunni og stari á vegg í hálftíma. Faðirinn lætur ekki sjá sig. Aftur læt ég Jesús sjá um verkið. Ég fer inn í kirkjuna og leik sama leik. Ég geng út í steypumagnaða sól borgarinnar og finn næstu kirkju. Enn og aftur er föðurinn hvergi að finna. Þegar ég fer í fjórðu kirkjuna að vitja föðursins bregður mér ekki í brún þegar gráhærð kona í gráu pilsi segir mér að presturinn sé ekki í húsinu. Ég Jesúsa vatnið og kem mér vel fyrir á kaffihúsinu þar sem við ákváðum að hittast með dagblað og drekk svart te. Orkan í borginni er ekki að gera góða hluti fyrir mig. Eftir sæluna í sveitinni finnst mér erfitt að sjá menn í jakkafötum og auglýsingaskilti. Mér finnst erfitt að horfa á fólkið gangandi um í svefni; þrælar klukkunnar í ofskynjunardraumi tíma, augnablikið sífellt hverfandi fyrir þeim og það verður að flýta sér. Mér finnst erfitt að heyra í umferðinni og anda að mér menguðu loftinu. Þegar Axel kemur á kaffihúsið ligg ég á grúfu yfir dagblaðinu mínu sem segir: Á hverju ári glatar Ekvador 65 þúsund hektörum af frumskógi í skógarhögg og ruðning fyrir beitarlandi. Ég segi Axeli að ég hafi ekki fundið einn einasta föður til að blessa vatn fyrir mig. Hann segir að þeir séu líklega á barnum að blanda geði við kvenfólk. Við hlæjum. Þegar Axel var unglingur var hann í þrjú ár í kaþólskum heimavistarskóla á Ítalíu, bara fyrir stráka. Skólinn var strangur og þurr. Hann var sífellt að koma sér í vandræði. Einn faðirinn gekk inn í herbergið hans þegar að kærastan hans úr kaþólska heimavistarskólanum fyrir stelpur hinum megin í bænum var í heimsókn. Hann var í engu nema sundskýlu, vegna þess að það var sundlaug á skólalóðinni sem hann var á leiðinni í og hún lá uppi í rúmi að lesa bókmenntir. Faðirinn varð rauður í framan og sagði skólastjóranum að hann hefði komið að þeim í miðjum klíðum. Axel var rekinn úr skólanum, þremur vikum fyrir lokaprófin. Nokkrum vikum seinna fékk hann þó sent útskriftarplagg.

Á leiðinni heim stoppum við í litlu fjallaþorpi sem heitir Malacatos, þar stendur kirkja. Ég banka á dyrnar. Er presturinn við? Að sjálfsögðu ekki. Maðurinn sem tekur á móti mér spyr hvað mig vanti. Ég segi að mig vanti að láta blessa vatn fyrir mig. Ég á smá heilagt vatn handa þér, segir hann og dregur upp næstum því tóma tveggja lítra plastflösku og gefur mér smá í flöskuna mína. Við fáum okkur ís og keyrum svo heim.

Þegar við komum yfir hrygginn og byrjum að renna niður í dalinn og sólgylltur Mandango blasir við vakna ég til lífsins. Vá hvað það er gott að koma aftur í dalinn, segi ég. Það er alltaf jafn gott, segir Axel. Við leggjum á torginu og kveðjum David. Síðan setjumst við á veitingastað og borðum. Það er kirkja við torgið en ég nenni ekki að gá hvort presturinn sé við. Ég ætlaði með Axeli í póker að sjá skjaldbökustyttuna í fullu fjöri en er uppgefinn eftir ferðina í borgina þannig að ég fæ mér leigubíl heim í dalinn. Áin streymir og borgarþreytan rennur af mér, ég hugleiði og glugga í bók.

Úti er blátt myrkur, klukkan er hálf sex, ég vakna og set tónlist í eyrun. Seinustu daga hef ég varlað hlustað á neitt annað en Tame Impala – Innerspeaker. Ég hita vatn í katli og helli yfir tepokann. Er ég stend úti og drekk teið mitt situr sólin bak við fjöllin en skilar daufri birtu í dalinn. Ég sit í hugleiðslu í klukkustund og þegar ég opna augun er grasið í hlíðunum orðið grænt og himinninn blár. Ég fæ mér morgunmat og held síðan niður stíginn í átt að hliðinu með bakpoka fylltan af nauðsynjum. Ég geng aðeins niður malarveginn og fer yfir brú sem leiðir mig að göngustíg upp í fjallið. Stígurinn er mikið notaður af hestum, ég sé það á hófförunum og gjöfunum sem þeir gefa jarðveginum. Sumstaðar er stígurinn þröngur og brattur; ég undrast á hæfni hestanna til að bera jafn þunga skepnu og mannveruna upp brekkuna. Ég geng framhjá litlum kofa hátt uppi í hlíðinni, hann er til sölu. Hér væri gott að horfa á sólarsetrið, hugsa ég. Ég tek eitt skref í einu og anda að mér morgunloftinu. Ég er kominn upp á hrygginn og útsýnið er um leið orðið mikilfenglegt. Fjallahringurinn grænn úr gróðri. Hástemmd tré vaxa í brattanum algjörlega laus við lofthræðslu. Ég elti stíginn sem liggur meðfram hryggnum. Dalirnir báðum megin við mig glansa í ferskri birtu morgunsins. Ég hitti tvo ferðalanga sem eru á leiðinni niður, þau segja mér hvaða leið ég á að fara til að komast að fossinum.

Áfram líður stígurinn dýpra inn í dalinn. Af og til þarf ég að stansa til þess að dást að fegurðinni. Blávængjaður fugl með appelsínugulan gogg hefur alla mína athygli í þær örfáu sekúndur sem hann sýnir sig. Hátt yfir dalnum sveima aðrar tístandi vængverur njótandi hins jarðneska lífs jafn mikið og ég. Gamalt tré stendur við stíginn, ljúf gola leikur við laufskrúðinn. Hitinn er eins og á fullkomnum íslenskum sumardegi. Ég geng í gegnum grænt hlið og brátt mæti ég heilögum verum bítandi gras. Þær horfa á mig líkt og þeim þyki ekki mikið til mín koma, augun eru róleg eins og augu hugleiðslumeistara. Tvær spakar vinkonur liggja á stígnum og þeim dettur ekki í hug að færa sig. Ég skauta framhjá þeim og afsaka ónæðið. Hér lengst uppi í dalnum kem ég að bóndabæ, búendurnir eru búnir að búa til hið fínasta beitarland fyrir beljurnar sínar og það sést glitta í stæðilegan grænmetisgarð frá stígnum. Einn myndarlegasti hani sem ég hef séð leiðir púturnar sínar um túnið. Bóndinn stendur við bæinn sinn og meinar hundinum sínum að ráðast á mig, hundurinn er þegar byrjaður að gelta. Ég kasta á hann kveðju sem hann skilar til baka með ljúflingsröddu og hendi upp til himins.

Ég er kominn langt inn í dalinn, áin syngur daufan nið úr botninum. Gullfalleg barrtré fylla hlíðarnar, laufin eru mjúk líkt og mannahár. Ég teygi mig í laufhárin og kitla mig í framan. Sólin er komin hærra á loft og svitadropar leka eftir húð minni sem þakkar fyrir hvern einasta skugga sem verður á vegi mínum. Á köflum leka litlar lækjarsprænur yfir stíginn sem þræðir sig eftir brattanum og alltaf held ég að ég fái útsýni inn í dalbotninn eftir næsta skarð. Ég kem að bóndabæ sem virðist vera yfirgefinn. Meðfram stígnum vaxa tré sem skipa greinum sínum í fullkominn skugga fyrir vegfarendur. Gaddavírsgirðingin meðfram stígnum er búinn til úr gömlum trjágreinum. Skordýr syngja í samhljóm. Það kemur yfir mig tilfinning að ég sé staddur í sögu. Hér stendur tíminn í stað. Ég sest niður og borða mangó, avókadó og banana. Mangó er það besta sem ég veit. Ég leggst niður í sælu skuggans og hlýði á hljóma þagnarinnar. Þögn er tungumál sem ég er hægt og rólega að ná tökum á, ég hef komist að því að náttúran er besti kennarinn.

Ég klíf upp langa brekku, á toppnum blasir við mér dalsbotninn, ný vídd opnast, hér lifir ósnertur skógur frá toppi til táar, hamrar klæddir grænu laufblaðalandi, einsamalt ský yfir tindi og stígurinn liggur niður að ánni. Ég elti stíginn niður hlíðina og kem að ómþýðum vatnsflaumnum sem rennur frjáls, kominn langt að ofan úr fjöllunum, ósnertur af mannahöndum, geislandi út frá sér hreinni orku. Það er búið að leggja þykkan drumb yfir ánna til þess að komast yfir. Ég læt vaða, drumburinn byrjar að nötra þegar ég er fyrir miðju, ég geri mér grein fyrir því að það er búið að strengja vír meðfram drumbinum til þess að halda í og ná betra jafnvægi. Hinum megin við ánna dríf ég mig úr skónum og sting tánum ofan í kaldan strauminn. Árbakkinn er þakinn í gróðri, þykk tré teygja sig upp til himins og veita mér skugga. Berfættur og ber að ofan sest ég í hugleiðslu og finn fyrir ánni streyma um vitund mína, hún segir mér leyndarmálið sitt: Líkt og hjartað þitt hætti ég aldrei að flæða, stöðugt streymi ég, nótt og dag, svo hefur það verið í þúsund ár en einn daginn mun ég hætta að slá líkt og þú, því ekkert er varanlegt; vitandi það flæði ég eftir steinunum og nýt hvers einasta augnabliks þangað til ég þorna.

Á leiðinni til baka mæti ég hestum sem þjóta um stíginn af meistaralegu öryggi. Síðan hitti ég guðdómlega gyðju frá Argentínu, hún á heima í litlu listamannasamfélagi í dalnum og er nýbúin að giftast manninum sínum sem kemur rétt á eftir henni upp stíginn. Þau eru á leiðinni upp í lítinn fjallakofa þar sem þau munu eyða hveitibrauðsdögunum. Þau segja mér að það verði haldin veisla í samfélaginu þeirra næstkomandi laugardag. Sjáumst þar, segi ég og við kveðjumst.

Við lítinn læk er einhver búinn að tjalda, þvílíkur unaður. Ég hugsa að ég kaupi mér tjald í Kólumbíu. Ég er orðinn svo spenntur fyrir því að fara til Kólumbíu að ég get stundum ekki sofnað, en á sama tíma vil ég alls ekki fara héðan. Ég veit að hingað mun ég koma aftur. Axel sagði mér að ég væri alltaf velkominn og að ég væri einn af fjölskyldunni. Ég geng stíginn til baka og kem þreyttur heim í hús fullur af fegurð alheimsins.

Daginn eftir fer ég til Kleber, heilarans sem hrækir á mann. Ég gef honum blessaða vatnið og segi honum að prestana var hvergi að finna þannig að ég bað Jesús um að redda mér, hann samþykkir það með bros á vör. Hann skrúbbar mig með plöntum og nuddar mig eftir að hafa frussað framan í mig dularfulla vökvanum. Eftir tímann segi ég honum að ég muni ekki koma aftur, hann skilur það en vill gefa mér lyktarmeðferð í afmælisgjöf. Ég þigg það og við föðmumst í kveðjuskyni.

Daginn eftir tekur Sonja mig í heilun. Ég ligg á bekk og byrja á því að anda inn í augun, þar sem vandamálið liggur. Um leið skynja ég smá sting í augunum og óþæginlegan hristing í höfðinu. Hún segir mér að anda inn í sársaukann. Ég sé grænan lit á skjá hugans. Ég anda inn í óþæginlegu tilfinninguna sem ég fæ þegar höfuðið hristist. Öndunin leiðir mig dýpra inn í augun. Ég fæddist langt fyrir tímann og fæðingin var átakanleg. Ari litli, eða Grettir litli eins og ég átti að heita, birtist mér grátandi, hann segir mér að fæðingin hafi verið sársaukafull og ótímabær, hann fékk ekki nægan tíma til þess að þroskast inni í maganum. Ég sé Ara litla ljóslifandi fyrir mér. Ég finn sting í eyrunum. Ég var sífellt með eyrnabólgu fyrstu mánuði lífs míns.

Ég segi Ara litla að hann hafi verið duglegur og að hann þurfi ekki lengur að þjást og ég býð honum inn hjartað mitt. Þar róast hann niður. Ari litli segir mér að elska augun mín. Ég kafa dýpra inn í hristinginn í höfðinu og finn fyrir ofsalegri hræðslu. Ég skelf. Þetta er hræðsla móður minnar, hún óttaðist um líf mitt þegar ég fæddist. Hún hélt að ég myndi deyja og það skildi eftir sig spor í mér. Ég segi mömmu minni að hún þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur lengur, hún hefur ekkert að óttast. Það er allt í lagi með mig. Óttinn hverfur og gleði hellist yfir mig.

Ég anda inn í sterkan sting sem ég finn í augunum. Það er líkt og einhver hafi skorið í þau. Ég heyri öskur. Ég sé vígvöll, ég sé sjálfan mig í fyrra lífi, ég er með þykkt brúnt hár og sítt skegg, ég er klæddur í þykkan feld og held á sleggju í höndunum. Ég er staddur í Gallíu, djúpt inni í skóginum. Ég er að berjast við Rómverja. Ég finn verk hægra megin í brjóstkassanum. Ég er stunginn með sverði. Ég fell í jörðina. Ég sé gamla andlitið mitt fyrir mér líkt og ég sé liggjandi við hliðina á því, það er furðulostið og útatað í blóðslettum. Svo gerist það. Rómverskur hermaður beygir sig yfir mig og sker þvert yfir augun mín með rýtingi, augun kljúfast í tvennt og rautt gums vellur út. Ég ligg í svartamyrkri og heyri í hamaganginum í kringum mig. Ég finn hvernig jörðin titrar af trampi stríðsmannanna. Augun mín eru tvístruð blæðandi óreiða. Ég er í áfalli. Svona gerir maður ekki. Rómverjinn braut kóðann, heiður hans er fokinn út í vindinn. Ég spyr gamla sjálfið mitt hvað það vilji gera. Hann vill öskra. Ég spyr hann hvort að ég geti gert eitthvað fyrir hann. Svarið kemur: Stríð er stríð. Fyrirgefðu honum.

Eftir heilunina ligg ég í einrúmi og jafna mig. Mér líður vel. Ég er ekki viss um hvort að ég hafi verið að ímynda mér þessa hluti eða hvort að ég hafi raunverulega séð inn í fyrra líf og talað við Ara litla. Um kvöldið segir Sonja mér að allt sem líkaminn segi okkur sé satt. Ég er með frjótt ímyndunarafl og gæti auðveldlega ímyndað mér þessa hluti, en það var eitthvað öðruvísi við þessar myndir, þær voru svo skýrar, svo raunverulegar og þegar ég fyrirgaf rómverska hermanninum var það eins og að taka þungan bakpoka af sér eftir langa göngu.

Daginn eftir geng ég niður stíginn að hliðinu og elti malarveginn að litlu kirkjunni á horninu þar sem að útsýnið yfir dalinn slær mig að venju. Skilti bendir mér að fara niður þröngan stíg sem rennur niður í dalinn þar sem að veislan er haldin. Við stíginn eru skilti sem segja manni að fara varlega. Eftir nokkrar mínútur er ég kominn inn í annan heim, ævintýraheim sem tilheyrir í huga mínum sjöunda áratugnum; frjálst fólk, hippar, flakkarar klæddir í tötra með skítugar táslur, indjánatjöld, risastórt tréhús, ávaxtatré, lífrænir grænmetisgarðar, álftir syndandi í spegilsléttri tjörn. Hér í miðjum dalnum, umkringt glæstum fjöllum, á þremur hektörum býr 25 manna listamannasamfélag sem siðmenning svokölluð nær engu gripi á, krumla neysluhyggjunnar grípur hér í tómt, hér eru fáar reglur og fólk á að gera það sem það vill gera, samfélagið hefur þessi einkunnarorð: Samstaða, samlyndi og heiðarleiki.

Ég geng úr skugga um að mig sé að dreyma er ég geng eftir stígnum framhjá indjánatjaldi fullu af fólki sláandi fornan takt á djúpraddaðar trommur. Orkan á svæðinu er hlaðin kærleika og velvilja. Hér eru allir vinir. Ég kem inn í stórt hringlaga rými með yfirbyggðu þaki, hér er boðið upp á dýrindis hrísgrjónarétt sem er borinn fram í bananalaufi, stærðarinnar skammtur kostar 1$. Ég fæ mér sæti á gólfinu og borða þrjá skammta. Ég spjalla við Mofufu en hann er eigandi landareignarinnar og stofnandi samfélagsins, samt er hann langt því frá að vera stjórinn, hér eru allar ákvarðanir teknar í sameiningu. Hann er klæddur í ríkulega skreytt vesti frá Austurlöndum og fæturna hylja bláar röndóttar buxur, hann er með alúðleg augu og grátt skegg. Ég segi honum að ég hafi séð hann í draumi nokkrum dögum áður. Hann er upp með sér. Hann átti heima í kommúnu í Þýskalandi í fimm ár og lærði hvað er gott fyrir samfélag og hvað er slæmt. Hann segir að ég sé velkominn í heimsókn í tréhúsið hans hvenær sem er. Núna eru tveir sjálfboðaliðar að vinna í samfélaginu annars eiga allir hinir heima hérna til frambúðar, þess er krafist af sjálfboðaliðum að vera í allavega einn mánuð til þess að geta kynnst staðnum og fólkinu almennilega. Hér væri ég til í að koma og lifa í einhvern tíma, ég harma það að ég sé að fara á sama tíma og ég gleðst yfir tilhugsuninni um Kólumbíu.

Ég sest niður hjá flækingi. Hann er með svart úfið hár, möndlubrún augu, fas sem minnir mig á Dalí og þykkt skegg sem hverfist um munnsvipinn. Hann heitir Dailan og ég heyri um leið að hann er frá Argentínu. Hann er ungur en það er erfitt að gera sér grein fyrir nákvæmum aldri hans. Hann liggur á bambusdýnu og bendir mér á ökklann sinn sem hann getur varla hreyft. Hann lenti í slysi. Hann var að hjóla bólufreðinn niður bratta brekku og missti stjórn á hjólinu og skall beint á ökklann. Hann er búinn að dvelja í samfélaginu í tíu daga og fær að vera þar eins og lengi og hann þarf til að láta sér batna. Ég spyr hann hvað hann sé búinn að vera lengi á ferðalagi. Tíu ár, svarar hann hversdagslega. Ég bið hann um að segja mér sögur af ferðalögum sínum og hlusta hugfanginn. Af þeim tíu, tvö ár á hjóli, án penings, ég bið fólk um stað til að sofa á og segi þeim að gólfið nægi mér, oftast gefur fólk mér rúm og mat, ég á gott samband við fólkið, fyrir mér er það geðveikt en fyrir þeim er ég geðveikur, þessvegna hjálpa þau mér, stundum sef ég á torginu undir litlu skýli sem ég hef með mér. Ég hjóla um þorpið þangað til ég finn lyktina af marijúana, síðan renn ég á ilminn og finn þann sem er að selja. Einu sinni í ljósaskiptunum þegar ég var að ganga á ilminn lá leið mín framhjá lítilli þriggja ára telpu sem var að leika sér við veginn. Þegar hún sá mig fylltust djúp augu hennar af undrun og hún kom upp einu orði: Flökkumaður.

Einu sinni lenti ég í því að kólumbísk stelpa, átján ára, gaf mér mat á litlum stað úti á götu, er við sátum saman við borð og snæddum kom til okkar háöldruð kona, hún settist við hliðina á mér og setti höndina sína í klofið á mér og byrjaði að káfa á mér. Ég hafði ekki hugmynd um hvað var að gerast, sú gamla reyndi að komast ofan í buxurnar mínar, kólumbíska stelpan var eins og jarðarber í framan. Káfglöð konan kvartaði yfir því að ég væri varla með neitt á milli lappanna, síðan stóð hún upp og gékk niður götuna eftir að hafa kvatt okkur kurteislega.

Ég geng á tal við blíðlynda stelpu frá þýskalandi, augun hennar skær og fögur, hún heillar mig upp úr skónum þangað til að hún dregur upp sígarettu. Við göngum saman niður að sviðinu og fáum okkur sæti í grasinu. Trúðurinn er byrjaður með sýninguna sína. Hápunktur atriðisins er þegar að hann heldur jafnvægi á þriggja metra háu einhjóli, með kristalskúlu á toppi höfuðsins og kastandi þremur eldkyndlum upp í loftið, grípandi og kastandi aftur hátt upp í loft. Þessi list kallast því ófrýnilega nafni að djögla.

Ljósaskiptin byrja og himininn rökkvast. Maður þakinn í leðju birtist og byrjar að blása í skel við eldstæðið. Skelin hljómar eins og verið sé að blása til stríðs. Leðjuþaktar meyjar ganga um líkt og kettir, þær taka sér stöðu hringinn í kringum tjörnina. Eldurinn logar. Rétt hjá mér sitja tvær meyjar, þær eru klæddar í jörðina, að þeim er beindur hljóðnemi, ein heldur á hristu og hin á karibísku ásláttarhljóðfæri sem hljómar eins og hamingja. Ein talar í hljóðnemann og segir okkur frá því að þau ætli að framkvæma fórnarathöfn fyrir frumefnin fjögur og Mömmu Jörð. Hún byrjar að syngja á fornu tungumáli og tónninn er hreinn og flæðir inn í mig. Birtan í dalnum fer hverfandi. Meyjarnar við tjörnina stíga dans. Síðan er þögn. Síðan byrjar hún að slá á haminguhljóðfærið. Gleðihljómar fjúka inn í eyru viðstaddra. Ég gleymi mér í tónunum. Síðan er þögn sem varir ekki lengi. Það er enn næg birta til að sjá umhverfið. Menn klæddir í laufblöð stíga úr skóginum líkt og þeir hafi ætíð verið þar, þeir slá á þykkar trommur og blása í viðarhólka sem óma. Þeir ganga að eldstæðinu líkt og þeir hafi alist upp með öpum. Meyjarnar koma að eldstæðinu og byrja að dansa við trylltan takt mannapanna. Allt verður vitlaust. Sólin er horfin og næturblár himininn skartar tungli og blikandi stjörnum. Þau draga fólk inn í dansinn, eldurinn lýsir upp frelsiþrungin andlitin. Líkt og börn hoppandi úr gleði vita þau að tími er ekki til.

Máninn endurspeglast í tjörninni. Svanir synda ljúfir. Ker með kertum í umkringja tjörnina og gefa blíða birtu. Allir viðstaddir, um það bil tvö hundruð manns, mynda hring í kringum tjörnina. Við höldumst í hendur og syngjum: Við erum öll einn hringur, hringur inni í hring.

Við endurtökum lagið mörgum sinnum. Síðan föðmum við fólkið við hliðina á okkur. Athöfninni er lokið. Fullt af fólki hoppar útí tjörnina.

Hljómsveit byrjar að spila á sviðinu. Ólétt kona kveikir í þremur kyndlum og fer að djögla. Eldurinn hringsnýst í loftinu og dáleiðir mig. Hún kveikir í fjórða. Myrkrið lýsist upp er kyndlarnir þjóta um loftið. Maðurinn hennar kveikir í kyndlum og þau byrja að kasta á milli glóandi eldi líkt og þau séu að fylla út krossgátu fyrir börn.

Næst kemur ungur maður klæddur í vesti, hann heldur á priki og kveikir í því báðum meginn og sveiflar því í hringi líkt og hann sé Darth Maul. Hann sveiflar því svo hratt að að lokum slokknar á því.

Atriði tekur við að atriði þar sem óttalaust fólk handfjatlar eld á einhvern hátt. Síðan byrjar ballið! Hljómsveitin fer í stuðgírinn og dansgólfið fyllist. Ég er þreyttur og ákveð að drífa mig heim. Ég geng veginn til baka í kolniðarmyrkri. Það er svo dimmt að ég sé varla móta fyrir veginum. Eftir dálítið rölt birtist mér bjargvættur með vasaljós og við göngum saman út. Ég labba síðan eftir malarveginum og spila á munnhörpuna. Ég fer spenntur að sofa með þessa hugsun sveimandi um hugann: Ekki á morgun heldur hinn fer ég til Kólumbíu.

20131206-221050.jpg

20131206-221105.jpg

20131206-221114.jpg

20131206-221126.jpg

20131206-221137.jpg

Standard

Dvölin í paradís. Seinni hluti.

Það rignir þannig að ég og Gopal getum ekki unnið í brúnni. Við förum í staðinn að vinna í húsinu sem er verið að byggja fyrir Bhaga. Verkefni dagsins felst í því að kasta kúk í vegg. Mykjublandan er búin til úr yuca-slími, sandi, leðju og beljuskít. Við köstum mykjunni í vegginn og dreifum úr henni með spöðum. Þetta er skítastarf en skemmtilegt. Slettur skjótast til og frá er við þrykkjum skítnum. Að sjálfsögðu fæ ég smá í munnvikið og djúpt inn í augað, Andreú líka. Við skolum augun með vatni og höldum áfram ótrauðir. Andreú er frá Katalóníu og segir mér og Gopal litla sögu á katalónsku, við skiljum lítið sem ekkert og hlægjum. Sturtan eftir vinnu er gefandi upplifun.

Seint um kvöldið spilum við Lola og Varshena leik. Einn teningur á mann, sá sem fær lægst þarf að svara spurningum frá hinum aðilunum sem mega spyrja að hverju sem er. Í fyrsta kasti fæ ég einn. Lola spyr mig um leið hvenær ég hafi síðast stundað kynlíf. Rétt áður en ég fór út, svara ég. Alia iacta est og spurningar dynja á okkur í gríð og erg. Margt skemmtilegt kemur í ljós. Varshana er að hugsa um tvær stelpur. Eina þekkir hann vel, hann átti heitar lostafullar nætur með henni en það entist ekki lengi, núna er hún í Madríd, hann þykist gráta dálítið. Hin er í Ekvador en hann þekkir hana ekki vel. Lola hefur tekið þátt í ástarþríhyrning, hún er bæði fyrir stelpur og stráka, hún trúir á frjálsa ást og á í opnu ástarsambandi við Melisu. Það var erfitt í fyrstu, en núna er það yndislegt, segir hún. Þær hafa verið saman í fimm ár. Hún trúir því að það sé ekki bara ein sönn ást heldur margar og að hvert ástarsamband sé öðruvísi og við lærum mismunandi hluti af elskhugum okkar og hver manneskja kallar eitthvað ákveðið fram í fari okkar.
Skyndilega tökum við eftir því að það liggur leðurblaka á veggnum, hreyfingarlaus. Hún lítur út eins og svört mús með vængi, ég klappa henni, hún er mjúk. Nóttin er dimm og við förum að sofa.

Morguninn eftir sé ég um yogatímann, Varshana sá mig iðka yoga um daginn og bað mig um að kenna tímann. Ég kenni þeim að heilsa sólinni og að standa á haus. Við förum í gegnum ýmsar stöður hægt og rólega. Ég blanda inn ýmsum æfingum sem ég lærði í einkaþjálfaranáminu. Eftir gott púl setjumst við niður og hugleiðum. Ég stýri og við einbeitum okkur að hljóðum frumskógarins. Festið einbeitinguna í eyrunum, ímyndið ykkur að hljóðin komi að innan, segi ég. Skrjáf skordýranna og gleðiflaut fuglanna tekur yfir vitund okkar. Ég bið þau um að opna augun og segi að í dag sé knúsdagur. Við stöndum upp og knúsum öll hvert annað, síðan förum við niður og knúsum alla hina. Ástarorka svífur yfir hausum okkar er við setjumst niður saman til þess að borða morgunmat, öll vel knúsuð.

Dagarnir líða eins og eldingar og ég finn hvernig hjartað mitt er að skjóta niður litlum rótum í þessari paradís. Hérna er gott að vera, læra, lifa, hlægja, tengjast, elska, hugleiða, anda og hugsa. Hérna mun ég vera í einhvern tíma í viðbót, hversu lengi veit ég ekki, en ég er ekki á förum alveg strax.

Vrajendra, að nálgast fertugt, þykkur í vexti, með háan róm, klæddur í Krishna bol, með sítt svart hár að aftan og hökutopp; úr stórum hringjum í eyrunum hanga skærir steinar, hann smíðar skartgripi í höndunum og selur á götunni sér til framfæris. Vrajendra sefur í tjaldi í tréhúsinu, í kvöld fer hann til Quito í þrjá daga sem þýðir að tréhúsið er autt.

Ég segist ætla að gista í tréhúsinu um kvöldið. Chintamani vill með og síðan bætist Lola við. Lola, fallega Lola. Lola með jarðlituðu augun, Lola með nætursvarta síða hárið, Lola með súkkulaðihúðina. Við leggjum af stað út í tunglsilfrað myrkrið. Máninn endurkastar ást sólarinnar og gerir vasaljósin næstum því gagnslaus, þangað til við komum inn í þykkildi frumskógarins. Laufin vinna saman að því að loka út alla birtu. Við göngum forugann stíginn í svartamyrkri, ég fer fyrst með vasaljósið, Lola rétt á eftir mér og Chintamani rekur lestina rólegur að vanda. Mér tekst að rata í myrkrinu og fyrr en varir erum við komin að stiganum sem leiðir okkur upp í tréhúsið.

Við komum dótinu okkar fyrir og setjumst niður. Við deilum djúpri þögn. Þúsundir lítilla lífvera brjóta þögnina með söng sínum. Fuglar, apar, skordýr af öllu tagi, engisprettur, flugur og froskar. Ómeðvitað sameinast þúsundir í villta sinfoníu og óreglulegur takturinn dáleiðir mig er tunglið merlar á rökkvuðum laufblöðum trjánna og allar hugsanir hverfa inn í hreinan óm frumskógarnæturinnar.
Við sitjum í góða stund og þegjum fyrir dýrðinni.

Við opnum gátt tungumálsins og opnum okkur fyrir hvoru öðru langt fram á nótt. Í hverjum haus er heimur. Tveimur kvöldum fyrir fullt tungl er gott að sitja í tréhúsi og hlusta á skoðanir, drauma og sögur úr öðrum heimum. Chintamani segir okkur frá því að þegar að hann var lítill, dó einhver náskyldur honum. Í jarðarförinni, þegar allir stóðu í hring yfir kistunni grátandi, gat hann ekki annað en hlegið, hlegið að dauðanum. Foreldrar hans héldu að það væri eitthvað að honum af því að það sama gerðist í öllum jarðarförum sem hann fór í þegar hann var lítill, hann skellihló.

Klukkan eitt leggst ég í tjaldið og breiði yfir mig ponchoinu. Þau sitja aðeins lengur og spjalla, ég flakka á milli svefns og vöku er ég hlusta á samræðurnar. Lola skríður inní tjaldið og leggst við hliðiná mér, Chintamani treður sér inn líka, ég vakna algjörlega og í galsa spjöllum við fram á rauða nótt.

Við vöknum við sólarupprás nokkrum tímum síðar. Gullhjúpur brýst upp úr skýjunum og hlýjar sjáöldrum mínum með eldrauðum ljóma sem litar morgunþokuna sem liggur hér og þar yfir laufhafi skógarins.
Ég drekk í mig sjónarspilið, leggst aftur upp í tjald og fer geispandi að sofa smá stund í viðbót. Síðan trítlum við niður í hús og borðum morgunmat.

Er ég dunda mér við að festa steina í brúnna birtast tvær verur, þær ganga niður stíginn og heilsa. Maðurinn er með axlarsítt hrafntinnusvart hár, með galdramannahatt úr hnýttum laufum, djúp augu, góðviljaða andlitsdrætti; lágvaxinn en stæltur á við indverskan jógín. Konan dularfull með hverfullt augnaráð, í mynstruðu pilsi, nett í vexti með viðkvæmar hendur, nefið ættað úr fjöllunum og munnsvipurinn feiminn. Þau eru bæði frá Kólumbíu, þau eru á flakki um Suður-Ameríku í leit að þekkingu. Þau ferðast um á mótorhjóli og lifibrauð þeirra er að selja listgripi, skó, hálsmen, armbönd og fleira sem hún býr til í höndunum. Þau heita Juan og Alejandra og hafa verið saman í fimm ár.

Morguninn eftir sér Juan um yogatímann. Hann er sjálflærður jógi og hefur stundað yoga í meira en fimm ár. Við byrjum á sitjandi upphitun og virkjum orkustöðvarnar með möntrum. Með einbeitinguna í þriðja auganu samstillast hljóðbylgjur raddbandanna er við kyrjum hljóðið sem spekingar segja að hafi skapað heiminn: OM. Við byrjum á stöðunum. Það er ótrúlegt að horfa á hann iðka list sína. Jafnvægi á við risafuru, liðleiki á við kött, styrkur á við foss, friður á við tjörn. Hann kemur sér í ótrúlegustu stöður, ég geri mitt besta og reyni að herma eftir. Lekandi úr svita leggjumst við niður eftir góða æfingu.

Í dag ætlum við í Temascal, gufubað forfeðranna. Til þess að hita steina þurfum við brennivið. Ég og nokkrir vaskir menn byrjum að ferja viðardrumba, sem eru geymdir við innkeyrsluna, inn í frumskóginn þar sem að við munum tendra bálið. Ég kúfylli hjólbörur og keyri þær áfram upp stíginn að húsinu og síðan forugan stíginn inn í frumskóginn, hjólið sekkur ofan í leðjuna og ég þarf að taka stærsta drumbinn af og bera hann á herðunum til þess að geta mjakað hjólbörunum áfram. Sólin er hátt á lofti og ég svitna miskunnarlaust. Eftir nokkrar ferðir er komið nóg af viði og við byrjum að tendra bálið. Við stöflum drumbunum í góða hrúgu. Hér og þar í miðri hrúgunni sofa steinarnir. Fljótlega blossar bálið kröftuglega og veitir steinunum sál sína. Varshana vakir yfir eldinum.

Eftir hádegismat meltum við aðeins og röltum svo stíginn í gegnum frumskóginn að Temascalinu. Bálið hefur brunnið í góða stund. Temascal er ævaforn siður frumbyggjanna og athöfnin er ekki svipuð því að flatmaga í sánunni í Vesturbæjarlauginni. Við förum inn í Temascal með ákveðinn tilgang í huga, ákveðna spurningu, ákveðna ósk. Í hjarta frumskógarins förum við inn í kvið móður jarðar til þess að endurfæðast.

Við stöndum í hring er bálið brennur í ofsafengnum logum; hægt og rólega vakna steinarnir. Við höldumst í hendur og lokum augunum. Við hugsum um það sem við erum þakklát fyrir. Síðan göngum við í röð að Temascalinu. Við beygjum okkur í auðmýkt fyrir móður jörð áður en við skríðum aftur inn í kviðinn. Temascalið er lítið hringlaga rými, í miðjunni er steinagryfja. Ég skríð fyrstur inn, fer inn til vinstri og skríð hringinn eins og klukknavísir og fæ mér sæti. Á eftir mér koma hin, koll af kolli, allir inn vinstra meginn og skríða hringinn. Við sitjum í hring við gryfjuna og bíðum eftir steinunum.

Rama, Varshana og Chintamani sjá um steinanna. Þeir veiða þá úr klóm eldsins og bera þá með skóflum inn til okkar og skella þeim í gryfjuna. Steinarnir rauðglóa líkt og kvika. Hitastigið hækkar. Fyrsta stig athafnarinnar hefst þegar gryfjan glóir af steinum og hurðinni er lokað: Fæðingin og æskuárin. Kolniðarmyrkur umkringir vitund mína. Chintamani byrjar að skvetta vatni soðnu upp úr blómum á steinanna. Belén byrjar að slá trommuna. Vatnið gufar upp samstundis. Hitinn magnast. Skvetta eftir skvettu. Við syngjum líkt og frumapar. Tónarnir skella á veggjunum, endurkastast og magnast. Ég sit uppréttur og finn svitann leka líkt og einhver sé að hella brúnni sósu niður hnakkann á mér. Hitinn er bærilegur en fer hækkandi með hverri skvettu. Vatnið kveinar er það splundrast í gufu. Er hitinn, trumbuslátturinn og söngurinn nær hámarki lýkur fyrsta stigi. Hurðin er opnuð og þeir sem vilja geta kælt sig aðeins í litlu tjörninni. Ég fer út til að pissa og drekka smá vatn.

Annað stig hefst: Ungdómur. Þeir koma með fleiri steina í gryfjuna. Við lokum hurðinni og Varshana byrjar að skvetta líkt og hann sé búinn að missa vitið. Hitinn fer upp úr öll valdi. Ég þoli ekki hitann og þarf að stinga hausnum í moldina til að kæla mig. Ég ligg hreyfingarlaus á hliðinni og stikna. Brennandi gufurnar hita upp lærin mín, líkaminn biður mig fallega: Farðu út! Farðu út, þú hefur fengið nóg! Hugurinn svarar: Þú getur þetta.

Ég anda djúpt. Það er sárt. Loftið er brennandi heitt. Varshana, rennandi svitablautur og rauður, getur ekki meir. Hann opnar hurðina og fer út í loftið. Við byrjum að syngja, ég syng ekki með. Ég reyni að setjast upp en hitinn er of mikill. Ég ata mig út í kælandi mold. Ég samþyki hitann og einbeiti mér að andardrættinum. Juan jógameistari liggur með andlitið í moldinni. Lola liggur á bakinu, Belén líka. Elena liggur með andlitið upp að veggnum. Chintamani situr rólegur, næstum því brosandi. Rama situr uppréttur og skvettir á eldsteinanna sveittur á svipinn. Hitinn er kæfandi. Við þegjum. Tíminn er hættur að líða.

Hurðinni er hrundið upp og við týnumst öll út, nema Lola sem liggur ennþá á bakinu. Ég spyr hana hvort að það sé í lagi með hana. Allt í lagi, svarar hún brosandi. Ég baða mig í litlu tjörninni sem er í rauninni djúpur pollur. Holur trébolur tekur strauminn úr læknum sem liggur að pollinum og skilar honum flæðandi yfir mig. Yndislega vatn, hugsa ég, yndislega kælandi vatn. Ég baða mig allan, finn síðan góðan stein og sest á hækjur mér. Innan í mér titra ég líkt og farsími sem verið er að hringja í. Allt í kring standa há tré, þau rétta út greinarnar og beina laufblöðunum að lækkandi sól. Við skríðum aftur inn í kviðinn. Ferskum steinum er komið fyrir í gryfjunni. Hurðinni er lokað og sólargeislarnir hverfa úr augsýn. Þriðja stig: Fullorðinsárin.

Ég sit við hliðiná Lolu, hún strýkur á mér öxlina og spyr mig hvort að ég vilji stýra hjarta-hugleiðslu. Ég spyr hvort að allir vilji. Allir vilja.

Er Rama skvettir á steinanna finnum við heitt loftið lenda í miðjum brjóstkassanum. Hjörtun spúa út krafti sínum og ástin blandast eldheitri gufunni. Titrandi ástbylgjur fylla rýmið. Mér dettur í hug einföld mantra. Við syngjum: Te amo – Te amo – Te amo – Amor! Ásthlaðnar hljóðbylgjur mætast yfir gryfjunni og sameinast í hreinan tón. Ég elska þig, elska þig, elska þig, ást.

Hugleiðslunni lýkur en orkan stendur eftir. Úr dimmum hornum heyrast ástarorð til alheimsins. Ég elska þig vatn. Ég elska þig eldur. Ég elska þig loft. Ég elska þig jörð. Juan fylltur eldmóði fer með þessi orð: Ég elska þig vegur. Ég elska þig lærdómur. Ég elska þig eilífð. Ég elska þig ást.

Lola liggur við hliðiná mér. Ég hvísla að henni: Me gusta tu alma. Hún hvíslar að mér til baka: Veran þín er falleg, te amo Arí.

Steinarnir klárast og athöfninni er lokið. Er við skríðum út er sólin að syngja sitt síðasta fyrir tré skógarins. Ég reyni að horfa á heiminn líkt og ég sé að sjá hann í fyrsta skipti. Ég fyllist undrun, við mér blasir fegurð náttúrunnar. Ég skynja hvert einasta laufblað blakta í frumskógarlogninu. Ég geri mér grein fyrir því að allar plönturnar eru lifandi, ljóslifandi, alveg eins og ég. Í ljósaskiptunum föðmumst við öll. Lola kemur til mín, hún er í gulu bikiníi með appelsínugult handklæði um hálsinn, geirvörturnar stinnar. Við föðmumst innilega.

Draumurinn hennar Lolu er að geta flogið út í geiminn. Um kvöldið sem ég lítið ljóð handa henni á spænsku:


En un sueño te doy alas,
y al cielo tu escalas
y encuentras unas bellas
parpadeando estrellas
que te saluden muy quietas
y dicen: mira los planetas!
Tu siges tu viaje
al espacio salvaje
más oscuro, más profundo,
encuentras otro mundo,
que nadie ha visto antes
dónde viven los gigantes.
Ellos intentan a cazarte
porque quieren abrazarte
y comerte con gusanos
tu esquivas todos los manos
y vuelves a nuestra madre tierra
volando encima de la sierra
en ese momento me despierto
en el silencio del desierto.


Í draumi gef ég þér vængi, þú klifrar upp til himins og finnur blikkandi stjörnur sem heilsa þér rólegar: Sjáðu pláneturnar!
Þú heldur ferðalagi þínu áfram inn í villtan geiminn, hann verður sífellt myrkari og dýpri. Þú finnur annan heim, sem enginn hefur áður séð, þar sem risarnir lifa. Þeir reyna að veiða þig af því að þeir vilja knúsa þig og borða þig með ormum, en þú forðar þér frá höndum þeirra og snýrð aftur til móður jarðar, fljúgandi yfir fjallgarðinum. Á þessu augnabliki vakna ég í þögn eyðimerkurinnar.

Áður en við förum að sofa les ég fyrir hana ljóðið. Hún knúsar mig brosandi og þakkar mér kærlega fyrir.

Ég fer einn út í dimmuna og arka í gegnum frumskóginn. Að vera einn er öðruvísi en að vera þrjú. Í glætu vasaljóssins þræði ég mig eftir stígnum. Eitt augnablik týni ég stígnum og villist í myrkrinu. Ég sný við og ramba lukkulega inn á stíginn og held áfram. Að lokum kem ég að tréhúsinu. Ég kem dótinu mínu fyrir og sest líkt og lótusblóm. Undir segulmögnuðum fullum mána hugleiði ég þangað til að lappirnar verða blóðlausar. Mánaljósið er ekki silfrað líkt og í gær, það er gyllt líkt og hið alheilaga hof Sikhanna í Amritsar eða armbandsúr bankastjóra. Ég stari líkt og ég sé í störukeppni við eilífðina. Þúsundraddaður frumskógarsinfóninn leikur undir. Ég reyni að sofna í hengirúminu en það reynist óþæginlegt til lengdar og auk þess herja á mig litlar bítandi flugur. Ég forða mér inn í tjaldið og dett í draum.

Ég vakna fyrir sólarupprás og hugleiði. Ég anda djúpt og þen magann og rifbeinin út á sama tíma. Smám saman læðist ævintýrablá birta yfir himininn. Ljósheimur lifnar við er sólinn rennur upp úr sjóndeildarhringnum líkt og galdramaður hafi dregið hana úr hatt sínum. Ég set tónlist í eyrun og dansa niður í hús og geri yoga fyrir morgunmatinn.

Ég og Gopal leggjum lokahönd á brúnna, snákur með sjö höfuð mun nú taka vel á móti öllum þeim sem koma í heimsókn. Dagurinn líður í vellíðan en þegar kvölda tekur færist einhver óró yfir mig. Ég á erfitt með að sofna en það tekst að lokum.

Morguninn eftir vakna ég við að Lola strýkur á mér iljarnar og segir mér að morgunmaturinn sé tilbúinn. Ég fer niður og fæ mér sæti. Mér líður ekki vel. Ég er heltekinn af þrá. Ég horfi á Lolu, hún brosir til baka. Ég er ekki viss um hvort að hún vilji mig. Ég fer illa inn í daginn og nýt þess ekki að vinna. Ég borða hádegismat tómur á svip og fer að þrífa fötin mín. Rama stendur og þrífur nærbuxurnar sínar með ró í augum. Ég segi honum að ég ætli kannski að fara á morgun. Ég segi honum ástæðuna, ég þrái Lolu og mér finnst illt að sjá hana án þess að fá hana. Rama verður eilítið leiður og spyr mig hvort ég hafi ekki áhuga á Elenu, þýsku stelpunni, hann hlær og mælir með henni í staðinn.

Eftir kvöldmat sitjum við, Lola og Chintamani og spjöllum. Ég segi þeim að ég sé að hugsa mér til ferðar. Þau þvertaka fyrir það og segja mér að vera í a.m.k. nokkra daga í viðbót. Er þreytan sígur að augnlokunum fer Chintamani að sofa. Í stjörnubjartri þögninni liggjum við Lola á bambusmottu og þegjum. Hún segist ætla að fara að sofa, beygir sig yfir mig og kyssir mig undurljúft á kinnina. Ég fer að sofa með von í hjartanu.

Daginn eftir vakna ég snemma, hugleiði og geri yoga. Ég vinn vinnuna mína í hugleiðsluástandi – aðeins í núinu. Ég og Juan fáum far niður að ánni. Þar fyllum við fimmtán poka af grófum sandi og litlum steinum. Við deilum nákvæmlega sömu heimsmynd: Að við séum ein meðvitund að upplifa sjálfa sig í ýmsum formum og að við séum eilíf.

Hann segir mér frá því að áður en að hann og Alejandra fóru að ferðast voru þau næstum því hætt saman. Ferðin var það sem bjargaði þeim. Hann er samt ekki viss um framtíð sambandsins, hann hugsar oft um að hætta með henni en svo skiptir hann um skoðun hálftíma seinna. Þau stunda Tantra. Við tölum um mikilvægi þess að halda sér frá sáðláti. Sáðlátið sjálft hefur ekkert með fullnægingu að gera og það tekur sinn toll á líkamann að gefa frá sér fræið sitt, það kostar mikla orku að búa til nýtt. Í staðinn fyrir að byggja upp alla þessa kynorku og skjóta henni út er hægt að læra einfalda tækni til þess að taka kynorkuna og veita henni í orkuhringrás líkamans. Fyrir áhugasama mæli ég með bókinni The Multiorgasmic Man. Juan segir að það sé auðvitað mjög erfitt fyrst að halda sér frá sáðláti en smám saman kemur það. Hann segir að af og til missir hann stjórn og gefur fræið sitt; þegar það gerist finnur hann hvað það tekur frá honum gífurlega orku. Hann vill helst fara að sofa eftirá.

Þegar við klárum að fylla pokana skellum við okkur ofan í ánna. Ég sit á slípuðum steini og finn fyrir ánni flæða mjúklega áfram. Ég greini nákvæm mynstur í bylgjum vatnsins. Við sitjum á hækjum okkar og blár himininn skreyttur skýjum vakir yfir okkur. Með leyfi, segir Juan, má ég benda þér á eitt varðandi líkamsstöðu þína? Að sjálfsögðu, svara ég. Slakaðu á öxlunum og dragðu hálsinn aðeins aftur, segir hann. Um leið verð ég meðvitaður um að ég er ómeðvitað að lyfta öxlunum aðeins og hálsinn er reigður fram. Ég laga mig og þakka honum kærlega fyrir.

Bhaga kemur og nær í okkur og steinapokanna og við förum til Talag að ná í meira sag. Við gjörfyllum skúffuna og brunum síðan heim sitjandi í mjúku sagi og haldandi í poka svo að þeir falli ekki útbyrðis. Er við komum í innkeyrsluna byrja ég að ferja steinanna að húsinu í hjólbörunum. Það reynir á alla mína krafta að þjösna börunum upp brekkuna eftir brúnna. Ég fer með pokana að grunna skurðinum sem við höfum verið að grafa fyrir leiðslur sem muna taka allt þvagið í burtu frá húsinu og skila því í jarðveginn á náttúrulegan hátt. Ég sé um að ferja alla pokana á meðan Juan vinnur í að laga til skurðinn við húsið. Er ég er hálfnaður tek ég mér pásu til að ná andanum. Þegar seinasti pokinn er kominn á sinn stað fer ég og baða mig í pollinum hjá Temascalinu, nakinn að sjálfsögðu. Ég borða hádegismat og finn lífsorkuna flæða um mig líkt og fljót.

Sólin flýgur hring sinn og hádegi verður að kveldi, kveld verður að nótt. Ég, Chintamani og Lola sitjum niðri á bambusmottunum og spjöllum. Flestir eru farnir að sofa. Þrumur lýsa upp himininn en þær eru svo langt í burtu að það heyrist ekki í þeim. Hvítir hljóðlátir blossar. Chintamani fer að sofa. Lola situr á lágum vegg með bakið stutt við stólpa. Við erum ein. Hljóðlaus þruma lýsir upp himininn. Ég stend upp og fer til hennar, set hendurnar á lágan vegginn og horfi út í myrkrið. Ég sný mér að henni. Elding skellur niður frá himnum; ég sé glampann endurspeglast í dökkum augum hennar. Í þetta sinn heyrist lágvær gnýr. Ég strýk kálfunum hennar, byrja hjá tánum og fer upp að hnjánum. Hún segir að ég sé með mýkstu hendur sem húð hennar hafi komist í snertingu við. Ég strýk niður lærið. Þrumu slær niður, nálægt, hún öskrar líkt og tröll. Hljóðið er þykkt og fornt. Dropar taka að falla. Ég horfi djúpt í augun á Lolu. Hún sperrir varirnar. Ég kyssi hana. Tröllið hristir trén og rymur líkt og það hafi verið slegið banasári í orrustu. Það byrjar að rigna af alvöru. Einhver kemur niður stigann – við slítum okkur frá hvoru öðru og þykjumst stara inn í blautt myrkrið.

Á meðan við bíðum eftir að myrkraveran fari á klósettið spyr ég hana út í frjálsa ást. Hún og Francisco höfðu deilt djúpri ástríðu fyrir hvoru öðru. Francisco, sem er farinn að ferðast einn og Melisa sem fór til Quito að vinna í tvær vikur við að kasta boltum af mikilli list, eru búin að þekkjast síðan þau voru lítil. Þegar þau byrjuðu að ferðast þrjú saman þá horfði Melisa bara á. Smám saman fór hún að taka meiri þátt. Þegar þau komu hingað í paradísina fór allt úr skorðum hjá þeim. Francisco kynntist Belén og þau fóru að stinga saman nefjum. En þau áttu góða fjóra mánuði saman. Myrkraveran stígur út af klósettinu og læðist upp stigann að svefnherberginu sínu.

Ég sný mér að Lolu. Varir okkar mætast í ástríðufullum leik. Hún bítur mig laust. Ég kyssi á henni hálsinn líkt og vampíra. Hún grípur um hönd mína og setur hana á kvið sinn. Ég renni fingrum mínum niður. Hávær blossi útrýmir myrkrinu eitt augnablik; þúsund dropar hrynja og flæða um jörðina. Hún heldur niðrí sér stununum og þrýstir sér upp að mér. Þrumur lýsa upp almyrkvið, tröllið er hamstola úr bræði.

Hviðunum innan í okkur lægir, við setjumst á gólfið á móti hvoru öðru og horfumst í augu í regnmildri þögninni. Eftir góða stund spyr ég hana hvort að hún sé þreytt. Við kyssumst góða nótt og förum að sofa.

Daginn eftir hegðum við okkur líkt og ekkert hafi skeð, og daginn eftir það og daginn eftir það. Þráin er uppfyllt, líkt og þegar hágrátandi krakki fær loksins dótið sem hann vildi en missir samstundis áhuga á því þegar að hann fær það í hendurnar. Hvorugt okkar sækir í meira líkamlegt, en við tölum mikið saman og bæði erum við brosandi.

Í ljósaskiptunum fer ég út í lítinn kofa í skóginum að hugleiða. Ég fer djúpt inn og gleymi stað og stund í titringi frumnanna. Er ég geng til baka að húsinu er svartamyrkur. Í húsinu er dimmt, líkt og það hefur verið seinustu daga vegna rafmagnsleysis. Ég heilsa þremur nýkomnum ferðalöngum. Þremur dönskum píum. Allar ljóshærðar og sætar. Ja, jeg forstar en lille dansk. Á tveimur dögum opnast gátt dönskunnar og skringileg hljóð byrja að vella út úr mér. Og nu snakker vi dansk. For fanden da. Ég kynnist þeim dönsku vel næstu daga og spyr hvort ég megi vera samferða þeim til Baños. Þær ljóma við spurninguna. Æj nu er jeg glad, hvor fint! Nu rejser vi med en mand, æj det er flott! Det er hyggeligt!Ég fer að sofa með vissu í huganum: Ég á tvo daga eftir.

Daginn eftir er sunnudagur, frídagur. Ég hefst handa við að smíða lítinn hugleiðslupall til þess að koma fyrir á heilögum stað í frumskóginum. Ég fer og finn fullkominn stað, til þess að komast þangað þarf ég að sveifla sveðjunni ófáum sinnum. Staðurinn er falinn og með frábært útsýni inn í laufþykknið. Ég hreinsa jörðina með haka og dröslast síðan fjórar ferðir með poka fulla af hnullungum og eina ferð með sand til þess að búa til grunninn. Fullkomið. Ég hefst handa við að smíða. Rama finnur handa mér spýtur og ég saga, pússa og negli með allri minni einbeitingu. Pallurinn er tilbúinn áður en ég veit af, ég lakka hann með sérstakri blöndu sem verndar viðinn gegn termítum og fúnun, og skil hann eftir í sólinni til að þorna. Örmagna fer ég upp í hús og borða hádegismat.

Daginn eftir, seinasta daginn minn, fer ég með pallinn og kem honum vel fyrir á steinunum notandi hallamæli. Síðan strengi ég stórt og mikið plast yfir til þess að vernda pallinn frá rigningu. Lola kemur til mín og við kveðjumst með litlum kossi, hún er að fara að heimsækja annan stað sem er heldur frjálslegri, hálfgerð nektarnýlenda. Bless Lola. Hún gengur í burtu, ég mun aldrei sjá hana aftur. Ég tek af mér stígvélin og prufukeyri pallinn. Ég dett ekki inn í djúpa hugleiðslu vegna þess að ég er stöðugt truflaður af morðóðum flugum með beittar blóðsugutennur. Kannski var þetta ekki svo góð hugmynd, hugsa ég. Flugurnar hverfa skyndilega og ég virði fyrir mér þennan mikla skóg. Ég kveð skóginn með hug og hjarta og fer að borða hádegismat.

Um kvöldið er ég að kenna einni dönsku stelpunni spænsku. Elena, þýska átján ára stelpan, kemur til okkar og segir frá því að hún hafi verið á Skype að tala við kærastann sinn. Þannig er mál með vexti að viku áður en að hún fór út í sjö mánuða ferðalag kynntist hún strák og þau byrjuðu saman og hafa verið að kynnast hvoru öðru í gegnum höktandi nettengingar, hvorugt þeirra vill að hinn aðilinn geri eitthvað með öðru fólki þannig að þau eru trú hvoru öðru, bíðandi, vonandi að þau muni virka þegar að hún snýr aftur til Þýskalands. Ef þetta er ekki sönn ást við fyrstu sýn, eða geðveiki, þá veit ég ekki hvað.

Seinasta nóttin líður blíðlega. Við morgunverðarborðið, fyrir seinustu máltíðina, fer ég með þakkarræðuna. Ég þakka fyrst og fremst fyrir allt sem ég hef lært, vinina sem ég hef eignast og fyrir það að þessi staður sé til. Eftir mat fer ég hringinn og knúsa alla bless. Síðan förum við, ég og dönsku stelpurnar út að veginum þar sem að apinn vakir yfir okkur er við bíðum eftir rútunni til Tena.

20131109-184844.jpg

20131109-184903.jpg

20131109-184925.jpg

20131109-185008.jpg

Standard