Seiðkarlinn og galdrar andanna.

Ég og Pedro förum á fætur klukkan sjö og drífum okkur að hitta El Gato sem bíður eftir okkur á horninu við stóru matvöruverslunina. Þar sem við kaupum miðana fyrir rútuna hangir stór skjár á veggnum sem sýnir Fróða á flótta undan stórri könguló. Sámur bjargar deginum enn og aftur. Við hoppum upp í rútuna og keyrum inn í frumskóginn. Eftir hálftíma keyrslu erum við komnir. Við veginn stendur lítið sólskýli úr bambusstöngum með lauffléttað þak á gamla mátann og stígur liggur inn að litlum einsherbergis barnaskóla. Hér býr lítið quichua samfélag sem kallar sig Elskum Lífið. Hér býr vinur El Gato og hingað erum við komnir til að hitta hann af því að hann kann að búa til ayahúasca.

Við tveggja hæða hús kallar El Gato á vin sinn en ekkert svar berst. Hann er ábyggilega niður við ánna, segir Gato. Við göngum áfram stíginn framhjá húsinu og fyrr en varir erum við umvafnir þykkum laufskrúði sem sólargeislarnir leika við og engisprettusinfónninn slær taktinn. Við göngum yfir litla bambusbrú og niður náttúrulegan steinstiga. Við komum að stóru rjóðri þar sem búið er að höggva trén, slétta jörðina og byggja gistihús fyrir ferðamenn. El Gato kynnir okkur fyrir Gregorio sem er að vinna að vatnsleiðslunum fyrir salernið í nýja gistihúsinu. Gregorio er sá sem kann að búa til ayahúasca. Lítill strákur, fýldur á svip, gengur í hringi á eftir litlum hundi sem heitir líkt og vinur okkar: Gato, eða kisi á íslensku. Lengra inn í rjóðrinu stendur eldri maður að brýna sveðjuna sína á stórum sléttum steini. Hann heitir Don Gabriel og er pabbi Gregorio. Don Gabriel, sextugur, vitur á svip, með þykkt grátt yfirvaraskegg starfar sem skógarvörður með El Gato í Jatun Sachu. Hans sérsvið eru lækningajurtir og hefðir shamansins, þ.e. seiðkarlsins. Héðan í frá mun ég nota orðið shaman og það mun koma oft við sögu.

Eftir gott spjall við Don Gabriel kemur í ljós að faðir hans var shaman og bróðir hans líka. Pedro sem leitar að meiri visku spyr hvort að ayahúasca geti hjálpað honum. Já, ayahúasca getur veitt þér visku og krafta en til þess þarf að fara í gegnum ákveðna athöfn sem aðeins reyndur shaman getur framkvæmt. Bróðir minn Ricardo Tapuy getur hjálpað þér, hann á heima í Tena í San Antonio hverfinu, þú ferð yfir fyrstu brúnna og svo tuttugu metra til hægri, hann býr í tveggja hæða húsi með timbursvölum og steinsteypuviðbyggingu. Ef þið finnið ekki húsið getið þið spurt hvern sem er í hverfinu, það vita allir hver hann er. Hérna er símanúmerið hans, hringið í hann um eftirmiðdaginn þar sem að hann fer út á morgnanna.

Don Gabriel segir okkur frá því að allir hlutir séu lifandi og hafi anda, t.d. andi fljótsins, andi fjallsins, andi skógarins, andi slöngunnar, andi steinsins og allt þetta fæddi móður jarðarinnar sem er kölluð mamapacha. Hann fer með okkur niður að ánni og sýnir okkur latex tré. Hann sker lítinn skurð í börkinn og út lekur rauðleitur vökvi sem við tökum með puttunum og smyrjum á húðina. Er við smyrjum breytist gumsið um lit og verður hvítt. El Gato réttir mér nýtýndan villtan avocado, hann er mjúkari en venjulega og gómsætur á bragðið. Don Gabriel sýnir okkur fleiri lækningajurtir og lætur Pedro fá plöntur til að bera á fótsveppinn sinn. Við kveðjum Don Gabriel og tökum rútuna aftur til Tena. Þar kveðjum við El Gato sem fór ferðina í engum öðrum erindum en til að hjálpa okkur.

Við Pedro förum með Graeme og fáum okkur jarðarberjamjólkurhristing í skugganum á meðan við bíðum eftir Juliu sem er alltaf tuttugu mínútum of sein. Loksins kemur Julia og við förum og bíðum eftir Claudiu hinum megin við brúnna. Claudia, líkt og sönnum þjóðverja sæmir, mætir tímanlega og við förum og fáum okkur grænmetis taco, fyllt af baunum, osti og grængæti af ýmsu tagi. Ekkert kjöt síðastliðnu fimm daga til þess að hreinsa líkamann fyrir ayahúasca. Ayahúasca býr yfir anda og andanum líkar ekki við líkamsleifar dýra í blóðrásinni. Eftir matinn fáum við okkur ís. Pedro og Julia dansa salsa á meðan við hin ákveðum hvernig bragðtegund við viljum. Julia hefur prófað ayahúasca áður og ætlar ekki að koma með okkur til shamansins sem við erum búnir að hringja í og mæla okkur móts við. Graeme, sem trúir á vísindi, ekki anda, er alltaf jafn óöruggur og er búinn að breyta margsinnis um skoðun en ákveður að lokum að hann sé ekki tilbúinn og segir á gleðilegum nótum að hann hafi aldrei verið jafn ánægður með líf sitt eins og það er þessa stundina. Claudia, ljómandi af kærleiksríkri orku, stígur upp í leigubílinn með okkur sem finnur ekki húsið hans Ricardo Tapuy. Claudia hoppar út og spyr vegfarendur sem vita að sjálfsögðu hvar shamaninn dvelur.

Ricardo kemur að dyrum og bíður okkur velkomin inn í húsið. Við setjumst í stóran sófa sem tekur yfir allt herbergið með þremur samsettum hliðum. Við setjumst þrjú á sömu hlið og hann sest á móti okkur. Hann er gamall og góðmannlegur að sjá en ákveðin heimshryggð hreiðrar um sig í augntotunum. Hann er klæddur í joggingbuxur og stuttermabol. Ekki alveg eins og ég ímyndaði mér shaman. Á veggnum hangir sjónvarp sem sýnir suður-ameríska útgáfu af Idol, hljóðið er stillt lágt. Í horninu á herberginu er stór skápur fylltur af hátölurum og alvöru græjum. Lítill hundur trítlar um herbergið og inn um rifu á hurð sé ég dóttir hans og barnabarn. Konan hans kemur og heilsar upp á okkur. Þegar hann vinnur kemur hún alltaf með og þau eru aldrei aðskilin lengur en í nokkra tíma.

Faðir hans var voldugur shaman og var þekktur um allt héraðið. Ricardo byrjaði að feta veg shamansins eftir að hann missti dóttur sína sem var fimmtán ára, hann fór með hana út um allt til allra í leit að lækningu en ekkert virkaði. Hann vildi komast til botns í því afhverju hann gat ekki bjargað henni. Hann ferðaðist víða um samfélögin við ánna Napo og átti samneyti við shamana og gamla menn sem kunnu skil á vitneskju forfeðranna. Faðir hans kenndi honum líka grundvallaratriðin. Núna hefur hann starfað sem shaman í áratugi og fer víða um héraðið til þess að hjálpa fólki sem þarf á honum að halda. Hann fæst mikið við það að leiða fólk í gegnum ayahúasca upplifunina og hreinsa í burtu illa anda sem reyna að komast að þegar hliðin í hinn heimin opnast. Við ákveðum stað og stund. Í kvöld klukkan sjö þar sem við fórum í dag að hitta bróður hans Gabriel. Við eigum að koma með stóra viskýflösku og pakka af sterkum sígarettum. Hann er búinn að byggja upp svo mikið þol gegn ayahúasca að hann þarf viskýið til þess að það verki á hann. Við kveðjum, förum og kaupum það sem þarf. Síðan förum ég og Pedro upp á hostelið að slappa af í hengirúmunum og á slaginu sex hittum við Claudiu á horninu fyrir framan stóru matvöruverslunina.

Þegar við komum heim til Gregorio og Gabriel er shamaninn ekki kominn. Feðgarnir bjóða okkur sæti og segja okkur frá ýmsu. Í skóginum er Gregorio búinn að smíða gildrur sem forfeðurnir fundu upp til þess að veiða dýr skógarins, hann hefur þær til sýnis í garðinum og bíður upp á skoðunarferðir og hefur tvisvar verið í sjónvarpinu að tala um gildrurnar. Gregorio hefur einnig unnið að ýmsum rannsóknum þar sem hann hjálpar vísindamönnum við að fanga fugla til þess að mæla vængina, fituprósentu, gogginn og þvíumlíkt. Líka við að safna plöntum, laufblöðum trjánna og fræjum. Don Gabriel segir mér söguna af því þegar að þjóðverji kom til hans með svæsið húðkrabbamein sem læknarnir í þýskalandi sögðu að væri ólæknanlegt. Don Gabriel nýtti ýmsar plöntur og hann og konan hans brenndu í burtu æxlin og björguðu lífi hans. Fólkið í nágrenninu kemur til hans og fær hjá honum lyfjablöndur sem hann mallar sjálfur úr plöntum skógarins. Alla sína vitneskju hefur hann fengið frá öðru fólki, ekkert úr bókum. Hann segir að sumt fólk sé afar þekkingarmikið en vilji ekki deila þekkingu sinni frjálslega og kannski talar það bara quichua. Oft hefur hann lent í því að einhver fróður um lækningar segi honum leyndarmál um plöntu sem hann verður að lofa að segja engum öðrum. Don Gabriel lofar að segja engum en síðan deilir hann vitneskjunni með öllum sem vilja og hann hefur kennt öllum börnunum sínum og barnabörnunum og krökkunum í skólanum um lækningamátt jurtanna.

Shamaninn og konan hans ganga inn í húsið. Hann er klæddur í Chelsea-treyju og íþróttabuxur. Bræðurnir heilsast og fá sér sígarettur úr pakkanum sem við keyptum. Þeir sýna okkur Surupanga, sem þýðir hávaðalaufblað. Surupanga er eins og blómvöndur nema inniheldur bara lauf af einni gerð, laufin eru hituð með eldi til að þau þorni. Surupanga er eitt helsta verkfæri shamansins og hefur verið það síðan maðurinn fór fyrst að kukla í orku andanna. Laufblöðin hreinsa í burtu illa anda og vernda shamaninn. Ricardo bætir við að Guarani-indjánar noti blöðin við næturþvagi barna.

Við förum úr húsinu út í myrkrið. Vasaljós lýsa veg okkar inn í skóginn og eftir smá göngu komum við að öðru stærra húsi. Þar fáum við herbergi og rúm og skiljum dótið okkar eftir. Við húsið er stærðarinnar verönd þar sem við fáum okkur sæti í myrkrinu. Gabriel sýnir okkur hvar klósettið er og segir að þegar að við þurfum að æla þá megum við æla af veröndinni. Ég, Claudia og Pedro höfum ekkert borðað síðan í hádeginu til þess að undirbúa okkur fyrir hreinsunina sem ayahúasca setur í gang. Niðurgangur og æla er í aðsigi. Pedro er spakur sem steinn en Claudia er ögn óróleg. Ég er mjög spenntur og brosandi.

Shamaninn, sem er kominn úr fótboltatreyjunni og í skyrtu, hellir sér viský í glas og kyngir. Nú er komið að því. Gregorio réttir mér glas með kolsvörtum vökva, aðeins meira en botnfylli. Ég sulla því ofan í mig í þremur gúlsopum, beiskjan brennir kokið og tungan grettir sig. Claudia þarf hvatningu við að koma seinasta sopanum niður, hún kúgast en nær sér á strik þegar að hún fær tesopa til að skola kverkarnar. Pedro kyngir glasi af viský og glasi af ayahúasca. Flúorljósið sem hangir yfir veröndinni er slökkt og stjörnubjart myrkrið tekur yfir vitund mína. Eftir fimm mínútur finn ég að eitthvað er að gerast. Eftir korter fer ég á hinn enda verandarinnar og fæ mér sæti á gólfinu. Orkuöldur skella á veru minnni og öldurnar fara hækkandi og stækkandi. Fiðringur flögrar um mig líkt og fiðrildi. Ég loka augunum. Ég missi skynjun á sjálfum mér og líður eins og ég sé að detta inn í myrkur sálarinnar. Ég er miðja alheimsins. Ég er alheimurinn að upplifa sjálfan sig. Ég hef upplifað þessa tilfinningu áður í djúpri hugleiðslu, í þetta skiptið hef ég enga stjórn á dýptinni og hverf inn í einingu alls sem er. Tímans hjól stöðvast. Ég er einn með öllu.

Skordýrahljóð vekja upp frumhugsanir um hvernig það sé að vera skordýr í frumskóginum. Fyrir þeim er skógurinn risavaxinn og laufblað er á við fótboltavöll. Hættur steðja að úr öllum áttum og það þarf að finna fæðu og lifa af nóttina.

Ég sé stóran fjörð blasa við. Hann er ósnertur af manninum. Fjöllin speglast í hafinu og birkiskógur vex niður hlíðarnar. Ég sé landnám Íslands spilast fyrir augum mér líkt og hraðspóluð bíómynd. Víkingar stíga af knörrum og miðnætursólin lýsir upp eyjuna.

Mér er óglatt. Ég er búinn að sitja óhreyfður í einhvern tíma. Það er óþæginlegt að hreyfa sig. Ég einbeiti mér að andardrættinum til þess að róa mig. Mér líður illa. Ég stend upp og þarf að styðja mig við handriðið á veröndinni. Ég halla mér fram og fel andlitið í olnboganum sem styður sig við handriðið. Maginn snýst í hringi. Shamaninn spyr mig hvernig mér líður. Ágætlega segi ég, bara dálítið flökurt. Ertu búinn að sjá eitthvað, spyr hann. Já, svara ég, saga þjóðar minnar spilaðist fyrir mér. Ég staulast inn á klósettið og það sker í augun þegar ég kveiki á litla vasaljósinu mínu. Fríður flaumur niðurgangs vellur ofan í skálina. Ég sit dágóða stund og leyfi kerfinu að hreinsa sig. Ég veit að ég get ekki komist hjá því að æla. Ég skeini mér og strunsa út af klósettinu þar sem ég fer niður á hnén og æli í blómabeð. Ég æli þangað til að ég hósta galli og finn fyrir dýpstu magavöðvunum kreista seinustu dropana úr sítrónunni. Ég sest niður og halla mér upp að vegg. Núna líður mér betur. Hreinsaður. Slakur. Geimurinn blasir við og stjörnurnar glampa.

Pedro sest hjá mér og við spjöllum um æskuna og skólagönguna. Þegar að hann var í fyrsta bekk var hann felldur og þurfti að taka fyrsta bekk aftur, síðan féll hann aftur og þurfti að taka hann aftur. Ég hugsa með mér hverskonar kjaftæði það er að fella sex ára krakka. Upprunalega voru próf til þess að prófa kennarann. Bekkurinn tók próf og ef allir stóðu sig vel var kennarinn góður, ef nokkrir stóðu sig illa var það kennaranum að kenna. Núverandi skólakerfi er búið að snúa prófum á hvolf. Maya Loebell, gamli þýskukennarinn minn og besti kennari sem ég hef haft, orðaði það best: Ef maður vill rækta góð epli verður maður að leyfa þeim að vaxa, maður getur ekki alltaf verið að týna þau og gá hvort að þau séu tilbúin. Þessi föll létu Pedro hugsa að hann væri heimskur, en eftir smá tíma hristi hann það af sér. Í raun er hann ein klárasta og djúpasta mannvera sem ég hef kynnst.

Shamaninn kallar á mig, það er kominn tími á hreinsun. Ég sest við fætur hans og hann byrjar að blása á mig og veifa laufvendinum sínum. Ég sit grafkyrr og heyri taktfast þruskið í laufunum svífa yfir mér. Hann blæs ofan á kollinn minn, ræskir sig ofan í hárið og framkallar hljóð eins og að hann sé að hósta upp hori. Hann fer með fornar þulur og flautar lög sem öndunum líkar. Hann strýkur laufunum meðfram höndunum mínum og hreinsar í burtu illa anda. Hreinsuninni er lokið, ég fæ mér sæti við hliðina á Claudiu sem er líka hreinsuð og búin að gubba. Ég stari inn í myrkrið, dimman er góð og nóttin er göldrótt.

Eftir tvö glös af ayahúasca er Pedro ennþá rólegur. Hann tekur þriðja glasið og ögn af viský með. Eftir smá stund byrjar hann að æla af miklum krafti. Síðan leggst hann á gólfið og shamaninn byrjar athöfnina sem Pedro bað hann sérstaklega um. Shamaninn reykir og blæs reyknum yfir Pedro. Pedro sér kolsvartan fugl, með svört augu, svartan gogg, svartar klær, svartar fjaðrir með gylltum röndum á vængjunum. Pedro liggur enn á gólfinu, shamaninn veifar laufvendinum eins og óður maður og fer með þulur yfir kollinum á honum. Pedro sér kolsvartan frosk. Í myrkrinu sé ég útlínur líkama hans hristast. Í raun og veru sé ég áruna hans og orkuna hans glitra í svartnættinu. Ég segi honum frá því og hann gleðst.

Claudia heyrir í þyrlu og hún skynjar skordýrahljóðin eins og þau eigi uppruna sinn innan í sér. Mikið er hún falleg. Hún er næstum því þrítug að vinna í doctorsgráðunni sinni og ég geri mér grein fyrir því að ég eigi litla möguleika í hana verandi það unglamb sem ég er. Áhrifin frá ayahúasca segja mér að það sé alltaf betra að segja sannleikann þegar það kemur að tilfinningum. Ég krafsa fram hugrekki og segji henni á þýsku eftir dágóða hikandi stund: Ich habe viele in dir gedenkt. Du bist ein von dem sympathischste, intelligenteste und süßeste mädchen das ich habe in mein leben getrifft. Hún hlær og segir brosandi að þetta væri mjög fallega sagt.

Shamaninn er búinn að innbyrða helling af ayahúasca og heila viskýflösku. Hann er mölvaður og spyr mig og Claudiu á þriggja mínútna fresti frá hvaða landi við erum. Hann endurtekur nafnið mitt nokkrum sinnum og hlær. Arí arí, arí arí. Arí þýðir já á quichua, það er mjög jákvætt. Þeir kveikja ljósin og segja að það sé kominn tími á að greiða shamaninum fyrir þjónustuna, við förum og náum í pening og borgum 30$ á mann. Pedro skuldar honum 150$ fyrir athöfnina sem opnaði sál hans fyrir frekari visku og afli. Geriði það, slökkviði ljósið, það sker í augun, segi ég. Þeir slökkva ljósið, yndislega myrkrið snýr aftur. Pedro rís á fætur og ælir úr sér líftórunni. Mér líður eins og að klukkan sé fjögur um nótt þegar Pedro fer inn í herbergi til þess að fara að sofa. Gregorio segir okkur að klukkan sé bara eitt. Mér er boðið að taka inn meira. Áhrifin eru farin að mestu leyti. Ég tek inn annað glas, sem er aðeins minna en hið fyrsta. Shamaninn reykir sígarettu og þeir bræðurnir tala sín á milli á þeirra tungumáli. Greyið shamaninn, hugsa ég, þvílík vinna. Kona shamansins, sem ég er búinn að steingleyma, vaknar af blundi sem hún fékk sér í horni á veröndinni. Ég og Claudia segjum þeim að ef þeir vilji fara að sofa þá megi þeir gera það, við þurfum ekki á hjálp þeirra að halda lengur. Þeir segja að það sé skylda þeirra að vera hjá okkur þangað til að áhrifin dvína, ég segi að svo sé. Hægt og rólega mjakast þeir af veröndinni og fara að sofa.

Ég og Claudia sitjum ein úti á veröndinni í myrkrinu. Frumskógurinn spilar lag sitt. Hún spyr mig, warum hast du mir das gesagt? Weil mir gefällt dir, svara ég. Við spjöllum um upplifun kvöldsins og erum sammála um að shamaninn og bróðir hans töluðu of mikið. Henni er kalt og ég hoppa inn í herbergi og næ í ponchoið mitt sem hlýjar henni á augabragði. Við sitjum lengi og tölum. Tölum um lífið, ferðalögin okkar um Indland, áhugamálin, upplifanir. Uppáhalds borgin hennar á Indlandi er Varanasi, mín líka. Hún átti heima í Indónesíu í hálft ár þar sem hún fann hina fullkomnu strönd. Er orðin fljóta af vörum okkar líður nóttin. Claudia fer inn í herbergi að sofa.

Ég sit einn í myrkinu. Tilfinningin er góð. Ég fer aftur á klósettið og æli aftur í blómabeðið. Ég sit og stari á stjörnurnar í hálftíma, fer svo inn og leggst upp í rúmið. Í rúminu færist meðvitundin mín í hjartað og ég sofna í faðmi ástarinnar sem býr innan í mér.

Við vöknum öll frekar snemma, þau koma inn í herbergið mitt og við slöppum af í rúmunum og borðum nokkrar kexkökur. Höfuðið er ögn þungt en orkan í líkamanum góð. Við göngum niður að ánni og borðum ferskt villi avocado í skugga trjánna. Ég er með tvær mjög skýrar hugsanir í kollinum. Ég ætla að byrja aftur að hugleiða á hverjum degi og hætta aftur að borða kjöt. Við grænmetisætu ákvörðunina er þungu fargi lyft af sál minni. Ayahúascað reif í sundur þá blekkingu sem ég hafði byggt sjálfum mér frá því að ég byrjaði að borða kjöt aftur þegar ég byrjaði að vinna á leikskólanum. Pedro og Claudia, bæði grænmetisætur gleðjast við ákvörðunina. Ég heilsa sólinni að hætti heilagra manna Indlands. Pedro situr við árbakkann hugsi. Claudia baðar sig í ánni, hún geislar af náttúrulegri fegurð með frumskóginn, fjöllin og ánna í bakgrunni. Ég stikla á steinum og skelli mér út í grunnt kælandi vatnið. Claudia hefur stundað hugleiðslu og yoga í mörg ár og það sést á nettum líkamanum. Hún er með lítinn hring í naflanum. Þetta er fullkomin strönd, segi ég. Þetta er fullkomin strönd, svarar hún.

Við förum öll í leiðangur að kaupa ávexti í nærliggjandi þorpi. Apar klifra í trjánnum við aðaltorgið. Við kaupum tvo poka fyllta af ávöxtum og förum niður að ánni og höldum veislu í skugga trjánna. Þegar við komum aftur í húsið fær Claudia sér blund og ég kenni Pedro að hugleiða. Restina af deginum liggjum við í leti. Pedro ætlar að vera eftir í kofanum en ég og Claudia förum aftur til Tena í rútunni klukkan sex. Pedro segir að shamaninn hafi misskilið hann og að hann hafi haldið að Pedro vildi dulda krafta shamansins þegar að hann vildi í raun bara öðlast smá visku. En fyrst hann er búinn að taka fyrsta sporið ætlar hann að ganga aðeins lengra. Hann má ekki stunda kynlíf í heilan mánuð og ekki borða kjöt. Fyrstu dagana má hann ekki nota raftæki og ekki borða salt. Hann kveður okkur við biðskýlið og gengur út í nóttina.

Í rútunni spyr ég Claudiu hvort hún eigi sér draum. Hana dreymir um að stofna stofnun sem gerir ungu fólki kleift að gera sér grein fyrir því að gjörðir þeirra geti haft afleiðingar fyrir allan heiminn, góðar eða slæmar. Hún er mikill áhugamaður um dans og vill stofna dansleikhús sem heldur sýningar á öllum tegundum dansa. Draumurinn minn er að skrifa til að lifa, svara ég þegar hún spyr mig. Það sem ég sagði í gær, það meinti ég, segi ég. Þegar rútan kemur til Tena spyr hún mig hvort að ég sé svangur. Við fáum okkur sæti á litlum útiveitingastað og pöntum súpu án kjöts og hrísgrjón. Í súpunni eru nokkrir kjötbitar og kjúklingalappir sem við köstum ofan í glorhungraðan götukött. Við kveðjumst með kossi á kinnina og hverfum sitt í hvora áttina.

Djúpt inni’ í skóginum dvel ég í kofa.
Drekk ég úr ánni og andanna lofa.
Á litríkum laufblöðum skordýrin sofa,
er snerti ég myrkursins máttuga rofa.

Stjörnur við svartnættið dularfullt loða,
silfurglit hjarta síns rólegar boða.
Með eilífð í augum ég sjálfan mig skoða
og skynja mig heilrænt sem alheimsins goða.

Sem Alveran mynda ég allt sem við sjáum.
Með orðum við djúpstæðan hug okkar tjáum.
Saman við friðsama tilveru fáum,
ef fræjum í meðvitund hjartans við sáum.

Upprisinn álfröðull lýsir upp gjánna,
andarnir hvísla og flytja mér spánna,
næra mig nýtýndir ávextir trjánna,
nakinn ég hoppa í kælandi ánna.

20131005-134154.jpg

Standard

3 thoughts on “Seiðkarlinn og galdrar andanna.

Leave a comment