Vængjað gljúfrið, eilífa eyjan og þokufalda þorpið.

Ég sit á barmi næst dýpsta gljúfri jarðar og líð úr draumkenndum tilfinningum með lokuð augun yfir í að opna augun og sjá himnesku dýrð alheimsins birtast mér í tignarlegum fugli sem svífur í uppstreyminu rétt fram hjá mér; vænghafið þrír metrar, þyngsti fugl í heimi, borðar asna og kindur; svartur á litinn, vængirnir breiddir út líkt og að fjaðrirnar búi yfir frumkrafti sem hvert vængtak leysir úr læðingi. Kondórinn svífur í burtu þangað til að hann er orðinn að litlu listaverki skreytandi bláan himininn sem er svo hreinn að sálin hreinsast við að líta hann augum.

Biru fékk nafnið Perú vegna þess að Spánverjar báru Biru vitlaust fram. Fyrir nokkrum dögum hitti ég Þór vin minn í höfuðborg Perú, Lima. Við áttum rólega daga í höfuðborginni, glímdum í almenningsgarðinum sem lögreglan var ekki alveg sátt með, héldum jafnvægi á slackline, röltum niður að ströndinni, stóðum á háum kletti og dáðumst að fegurð hafsins sem glitraði út að endamörkum augnanna. Síðan settumst við upp í fimmtán tíma rútu sem keyrði með okkur til Arequipa. Þar hugleiddum við á morgnanna og spjölluðum á þakinu undir kyrrð sexþúsund metra eldfjalls sem gnæfði hvítt yfir borginni. Við röltum um hvít stræti og sötruðum kaffi í bakgarðinum við klaustrið er rigninginn hreinsaði göturnar og loftið og lyktin blandaðist veru minni. En mér leið ekki vel í borgunum, ég saknaði Kólumbíu, hlakkaði mikið til að Bettina kæmi og vildi í háfjöllin, himinbornu dýrðina, þorpið og vinalegu mennina í stígvélum sem leiða asna á eftir sér og litríku konurnar með barn á bakinu. Ég var ánægður að fá Þór til mín en fann einnig fyrir því að nú var nýr kafli hafinn, af því að á milli ferðalags í einveru og ferðalags í félagsskap er himinn og haf. Þegar maður er einsamall er maður opnari á að kynnast fólki og maður hefur meiri þörf fyrir að segja hæ. Maður fær meiri tíma með sjálfum sér í löngum rútum, tekur sjálfur allar ákvarðanir um næsta áfangastað og þarf að reiða á sjálfan sig, maður getur t.d. ekki spurt: Ertu viss um að við eigum að fara úr rútunni hérna?

En í félagsskap hefur maður einhvern til að passa upp á töskuna sína þegar maður fer á klósettið eða að finna upplýsingar, maður er öruggari, sífellt að deila reynslunni, sífellt að kynnast ferðafélaganum betur og bindast sálarböndum. En það fer eftir félaganum.

Þetta er fyrsta alvöru ferðalag Þórs, hann er í stöðugri vímu og fer upp á þak að dansa á kvöldin, hann lofsamar kaffibolla morgunsins og hlakkar til hvers einasta augnabliks. Þór og ég eigum margt sameiginlegt, við erum skrítnir, einfaldir en flóknir á sama tíma, tölum um hluti sem við skiljum stundum ekki alveg sjálfir, sitjum í þögn og skyndilega byrjar einn okkar að blaðra út í eitt um vitundarvakningu Alverunnar eða lofsama skuggafall hafsins eða velta fyrir sér orsakasamhengi orðsköpunar. Við förum á markaðinn og kaupum alla ávextina sem við þekkjum ekki og smökkum. Við sjáum heiminn sem undraverðan stað, fylltan af kraftaverkum og dularfullum leyndardómum, stað þar sem allt er hægt, ljóðrænan stað þar sem ásýnd hlutanna er svo falleg að munnur okkar gapir, stað þar sem að við berum ábyrgð á eigin líðan með viðhorfi og hugsunarhætti, stað þar sem að tími er blekking og ást á öllu lausnin á öllu; hlutir fylla ekki upp í tóm lífs þíns; það sem við sendum frá okkur snýr aftur til okkar, þess vegna er gott að slappa af, festa vitundina í núinu með daglegri hugleiðslu, brosa til ókunnugra, klappa hundum og þykjast deyja þegar krakkar skjóta þig með puttabyssu með tilheyrandi skothljóðum, lyfta þeim svo á hvolf og kitla þá; láta gott af sér leiða án þess að hugsa um verðlaunin; gefa; anda; elska; ferðast um plánetuna og opna hugann.

Eftir fimm daga dvöl í Arequipa stígum við upp í rútu og yfir mig byltist náttúrheimur fjallgarðsins; lamadýr bíta grænverur og fiðraðar goggverur loða við ljósbláan himininn sem endurspeglast í tæru fjallavatni við veginn. Hvítur litur tindanna bindur augu mín líkt og þula seiðkonu er rútan keyrir hærra og hærra, síðan yfir sléttuna sem breiðir úr sér sandblásin og ægifögur líkt og frumtómið og síðan hærra og hærra yfir skarðið í 4800 metra hæð, síðan líður rútan niður í gljúfrið, sikksakkandi vegi þar sem að mistök þýða dauði, síðan meðfram gljúfrinu langt inn í dalinn. Gljúfrið verður sífellt breiðara og dýpra því lengra sem við förum inn og frá barminum sem við keyrum eftir er auðvelt að ímynda sér að rútan keyri útaf. Á tímapunkti festist rútan í mölinni og heimamenn kalla á bílstjórann að þau vilji út, þrír skelkaðir gamlir túristar standa upp og ætla út; ég sit rólegur og horfi á gljúfurbotninn, síðan kippist rútan til og heldur áfram veginn líkt og ekkert hafi í skorist.

Við komum að endastöðinni, lítið þorp sem heitir Cabanaconde. Hér þekkjast allir og hundar ráfa um slitrótt strætin dillandi rófunum. Húsin eru fátækleg, steinhlaðin með bárujárnsþaki, ómáluð og litlaus. Við finnum okkur koju á hosteli og förum í göngutúr er sólin litar skýin með lagi sínu. Við erum í mikilli hæð og loftið er þunnt og ég finn þrýsting í hausnum.

Eftir ljúfa daga í gljúfrinu undir vængjum Kondóra og augnliti til augnlitis við fjallarefi og eðlur kveðjum við gljúfrið með söknuð í hjarta og tökum rútu að Titicaca vatni. Við komum til Puno er sólin er að setjast yfir vatninu og finnum okkur rúm. Við erum í 3800 metra hæð og ég er fjallaður, vel fjallaður, með skrítinn hausverk, óskipulagðar hugsanir og lélegt jafnvægi líkt og hálfdrukkin fyllibytta. Ég set kókalauf í vörina sem slá á áhrifin líkt og blóðberg losar mann við kvef.

Við förum á fætur við sólarupprás og göngum niður að bryggju. Við kaupum tvo miða og setjumst í bát sem fer með okkur langt út á vatnið. Fyrst er stefnan tekin á eyjunna Uros. Í bátnum kynnist ég spænskri stelpu sem vinnur sem leiðsögumaður í Noregi; hún ferðast um í rútu með fimmtíu spánverjum sem haga sér eins og smábörn. Vatnið er slétt og rólegt; skýjaður himininn endurspeglast í gárunum. Puno, sem er ágætlega stór borg, hverfur sjónum. Ég og Þór förum upp á þakið og ævintýralegt vatnið virðist óendanlegt og báðir erum við fylltir af gleði. Eftir klukkutíma siglingu komum við í land, sem er samt ekki land í hefðbundum skilningi. Ég stíg í land á eyjunni Uros og finn hvernig fótatak mitt hefur áhrif á undirlagið. Eyjan Uros er nefnilega búin til af mönnum og er fljótandi eyja búin til með aldagamalli tækni þar sem að trébolir, mold og ákveðnar plöntur eru notaðar í að byggja risastóran lifandi fleka. Höfðingi eyjunnar tekur á móti okkur og segir okkur frá lífsháttum: tíu fjölskyldur, þrjátíu manneskjur, lifa á eyjunni. Þau veiða litla fiska og skipta þeim fyrir kartöflur og grænmeti eða peninga sem er að verða algengara núna. Það tekur ár að smíða svona eyju. Krakkarnir sigla á litlum bátum í skólann sem er á stórri eyju í nágrenninu. Þau búa til allskonar gripi til þess að selja ferðamönnum sem streyma til þeirra. Höfðinginn fer með mig og Þór inn í litla húsið sitt sem er fléttað úr reyrgresi. Húsið er eitt herbergi, minna en lítið baðherbergi á Íslandi. Við kaupum koddaver með mynd af kondóri, púmu og snák. Kondórinn táknar efri heiminn, púman miðheiminn, heim hversdagslífsins, og snákurinn undirveröldina.
Höfðinginn segist muna sakna okkar.Við fáum okkur sæti á eyjunni og ég velti því fyrir mér hvernig það sé að búa í svona einangrun og stöðugum félagsskap, ekkert einkalíf. Við stígum upp í bátinn okkar sem siglir af stað út á vatnið sem lítur út fyrir að vera haf.
Ég tek mig á tal við einn stýrimanninn. Hann er frá Amantani, eyjunni þangað sem ferðinni er haldið. Langaafi hans og langaamma voru flutt nauðug út í eyjuna af Spánverjunum, hann segir að það hafi verið mikil heppni að þau hafi verið sent þangað en ekki í námurnar því að námurnar þýddu aðeins eitt: Dauði. Á eyjunni þekkjast allir fjögurþúsund íbúarnir með nafni og það tekur hálfan dag að labba hringinn í kringum eyjuna. Ég dett í vænan blund og vakna er við komum í land. Kona í marglituðum fötum tekur á móti okkur og fer með okkur heim til sín. Spænska stelpan kemur líka. Á leiðinni upp fer hjartað hennar að slá eins og í veðhlaupahesti og við bjóðumst til að taka töskurnar hennar fyrir hana sem hún þiggur eftir mikið kurteisisþras. Við erum í fjögurþúsund metra hæð. Á eftir okkur dröslast gömul kona með þunga byrði á bakinu. Brattur stígurinn tekur upp hærra og hærra. Yfir stígnum vaxa tré og gleðióp krakka heyrast úr húsum í nágrenninu. Húsin eru vel byggð með bárujárnsþökum sem eru öll appelsínugul á litinn. Steinhlaðnar girðingar marka lóðirnar og öldufall vatnsins iðar aftan í eyrunum okkar. Við komum loksins að húsinu sem er á tveimur hæðum og af svölunum sést langt yfir vatnið sem glitrar í hádegisbirtunni. Ég leggst berfættur í grasið og horfi sælufullur á skýin synda um himininn. Eftir ómældan tíma í innri friði og himnaglápi er kallað á okkur í hádegismat. Við fáum okkur sæti við lítið borð og konan, hún Virginia, sem talar takmarkaða spænsku, færir okkur quinoa-súpu. Maðurinn hennar, Venseslao, stendur upp úr plaststólnum sínum og bíður okkur velkomin. Virginia fær sér sæti við hlóðirnar sem eru hitaðar upp með eldiviði. Þau tala quechua sín á milli og nota spænsku aðeins þegar þess þarf. Hvernig segir maður takk, spyr ég. Isparasúnkí. Hvernig segir maður ég elska þig. Mún ækí. Maturinn er einfaldur og ljúffengur.
Við förum í göngutúr um eyjuna sem virðist vera sofandi. Þorpið er þögult. Fuglakliður úr laufþykkninu, mannlaust aðaltorg fyrir utan tvær gamlar vinkonur sitjandi fyrir framan litlu búðina sína að hekla. Ég heilsa þeim og þær brosa líkt og þær hafi fengið bestu fréttir lífs síns. Steinilagður stígur leiðir okkur út úr þorpinu upp að hæstu tindum eyjunnar. Kartöfluakrar eru afmarkaðir með hlöðnum steingörðum og útsýnið yfir vatnið er undurmagnað. Þór ráfar á eftir mér, fjallaður með þrýsting í hausnum og slitróttan andardrátt. Ég er í góðu lagi með kókalauf í kjaftinum og leiði okkur hærra upp í eyjuna. Það er hvergi mannveru að sjá og heilagleiki eyjunnar skynjast ósjálfrátt í gegnum vitin; hreint loftið, fornar gjörðir fornra manna, frumorkan, þögnin og djúpt vatnið í fjarska. Yfir stígnum vaka hlið hlaðin úr steinum sem virðast hleypa okkur úr einum heim yfir í annan, sífellt dýpra og dýpra þangað til að við komum að Pachamama hofinu sem er stór þriggja metra hár hringur hlaðinn úr grjóti. Stórt læst járnhlið meinar okkur aðgang að helgidómnum sem er lokaður öllum allan ársins hring nema einn dag í janúarmánuði þegar haldið er upp á uppskeruna. Við löbbum hringinn í kringum hofið og fáum okkur svo sæti á barmi kletts þar sem að sjóndeildarhringurinn blasir við okkur. Ég held ég geti teygt mig upp í skýin og snert þau, segir Þór. Endamörk vatnsins eru óskýr og yfir fjöllunum í fjarska rísa appelsínugul ský. Óteljandi bárur djúpsins dansa í sólskininu og ég hugsa með mér að þetta sé einn fallegasti staður sem ég hef komið á. Við sitjum lengi og leyfum dýrðinni að drjúpa inn í okkur.

Við röltum til baka niður hæðina til þess að fara upp á hina hæðina þar sem að Pachatata hofið stendur. Pachatata er faðir sól. Núna er sólin fer lækkandi erum við ekki einir. Túristar í hópum elta leiðsögumanninn sinn líkt og kindur. Þau eru flest armædd á svipinn og horfa á okkur líkt og fangar með hendurnar á rimlunum. Við valhoppum upp hæðina og virðum fyrir okkur hofið. Tveir litlir strákar fara á undan okkur sparkandi í steina. Frá þessari hæð sjáum við annað lítið þorp og sólgyllta akra skorna í hlíðina.
Við röltum aðra leið til baka niður í þorpið og tökum ævintýralegar krókaleiðir um mannlaus stræti og skoðum yfirgefið hús og mætum þremur hettuklæddum konum sem heilsa okkur hljóðlátar. Eyjan er dularfull líkt og óklifið fjall eða hálfgleymd draugasaga. Við komum að húsinu okkar og við setjumst á svalirnar og ég sauma blóm í hattinn minn er himininn tekur að rökkva. Voldugt myrkrið sendir okkur inn í herbergið okkar þar sem að við skiptumst á að lesa ljóð eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi fyrir hvorn annan. Síðan þegar ég er orðinn hungraður líkt og sléttuúlfur er kallað á okkur í mat. Spænska stelpan kemur og sest dösuð við matarborðið, hún hafði sofnað um eftirmiðdegið og sofið í þrjá tíma. Maturinn er ljúffengur og seðjandi. Við fáum te bruggað úr máttugri lækningarjurt. Isparasúnkí, segjum við í kór.

Þrumur rymja í fjarska og óveður í vændum. Hávær öskur heyrast úr þorpinu, ungir sem aldnir fara út og öskra á óveðrið til þess að bægja því frá. Allt kemur fyrir ekki og það byrjar að hellirigna. Við skríðum upp í rúm og sofnum. Ég vakna um miðja nótt og á erfitt með andardrátt en tekst að lokum að sofna.

Morguninn eftir heyrist hávært brothljóð. Þór, nývaknaður, setur höndina á vaskinn sem hrynur í gólfið og mölvast. Við bjóðumst til að borga helminginn þar sem að þetta var alls ekki honum að kenna. Þau taka því með brosi og við kveðjum Virginiu.

Venseslao fylgir okkur niður að bryggju. Á leiðinni útskýrir hann að í dag er hinn vikulegi rusladagur og þessvegna eru ungir sem aldnir á vappi um eyjuna að týna rusl í stóra poka sem eru síðan sendir á til meginlandsins. Við stígum upp í bát. Í bátnum sitja tveir góðir vinir og tyggja kókalauf í gríð og erg. Einn þeirra tekur stóra lúku af laufum úr sínum poka og setur í poka vinar síns, vinurinn gerir svo hið sama. Gömul reynsla gengur inn og lyftir hattinum sínum með breitt bros á vör. Hendurnar hans geisla af áralangri vinnu og augun hans búa yfir hugsanatengingu við Móður Jörð. Skipið leggur úr vör og ég kveð eyjuna með söknuði, ákveðinn í að snúa aftur. Vatnið er órólegt og ég berst við að gubba ekki í bátinn.

Um kvöldið tökum við hlægilega ódýra næturrútu til Cusco og komum ekki dúr á auga í þröngum sætunum. Við rennum inn í borgina fimm um nótt og komum okkur fyrir á fallegu hosteli. Er fyrstu geislar sólarinnar breiða úr sér yfir borginni ráfum við um strætin í leit að engu. Við fáum okkur sæti á aðaltorginu, dasaðir úr þreytu. Við gefumst upp á því að ráfa um og komum okkur fyrir í hengirúmum á hostelinu þar sem við liggjum í góða stund og reynum að sofna aðeins. Síðan fáum við okkur sæti á þakinu og pöntum okkur morgunmat. Við hliðina á okkur sest bandarískur furðufugl sem heitir Kent, hann er listamaður og málar veggi á hostelum í skiptum fyrir ókeypis gistingu. Hann var nýverið í frumskóginum að tengjast Móður Jörð í gegnum ayahuasca. Í gær tók hann sýru og fór í göngutúr upp í mánahofið þar sem að hann segist hafa hitt þrjár nornir sem vildu honum illt. Hann fær sér sopa af kaffinu sínu og hlær.

Síðan gerist dálítið skemmtilegt. Fyrir nokkrum dögum hafði ég samband við Cooper, strákinn sem gaf mér iPhoneinn fyrsta daginn minn í Quito og sagði honum að ég væri að koma til Cusco. Ég vissi að hann væri í nágrenninu. Skyndilega labbar hann inn og fær sér sæti við hliðina á mér. Við heilsumst með faðmlagi. Eftir fjóra mánuði er hann orðinn ævintýralegri í útliti með sítt hár. Hann er búinn að ferðast víða og eiga yndislegar stundir. Síðastliðnu tvær vikur átti hann heima hjá fjölskyldu í Cusco og var í spænskuskóla. Núna er spænskan hans orðin nokkuð góð og hann getur átt góðar leigubílstjórasamræður.

Við förum í göngutúr og hann sýnir okkur borgina. Við förum á markaðinn þar sem að hægt er að kaupa allt á milli himins og jarðar, meðal annars froska sem eru settir lifandi í blandara og eiga að vera góðir við allskonar kvillum. Við eigum litríkan dag saman þar sem við hoppum um þröng stræti borgarinnar, kaupum teikniblokkir og liti, drekkum mate upp á þaki og tölum um ævintýri og framtíðar háska sem við hyggjumst setja okkur í. Um kvöldið býð ég honum út að borða. Hann segist ólmur vilja koma með okkur niður Amazon fljótið en hann á stefnumót við vin sinn í Argentínu og seinna við pabba sinn í Chile. Við kveðjum hann og hann hverfur inn í leigubíl sem rennur inn í nóttina.

Hann gaf okkur allar þær upplýsingar sem við þurftum um Machu Picchu. Snemma um morguninn kemur lítil rúta og nær í okkur á hostelið. Hún keyrir okkur eftir ógleðisvaldandi vegum sex tíma upp í fjöllin. Ég spjalla við strák frá Sviss sem er í allt-innifalið túr og hann er að borga að minnsta kosti 70$ meira í heildina en við fyrir ferðina sína til Machu Picchu.
Hjá stórri virkjun stökkvum við út og löbbum meðfram lestarteinum í tvo klukkutíma í áttina að þorpinu Aguas Calientes. Leiðin er gullfalleg, hún liggur meðfram straumharðri á og alsgnægtar frumskógi og er umkringd af háum tindum. En það eru margir að labba leiðina og maður fær það á tilfinninguna að maður þurfi að flýta sér. Skyndilega heyrist hávaði líkt og tröll nálgist en fyrir hornið kemur lest fyllt af túristum sem borguðu okurverð fyrir ferðina. Að lokum komum við í þorpið sem er líklega mesta túristaþorp sem ég hef nokkurn tíman komið í. Við fáum okkar að borða og kaupum Machu Picchu miða og förum snemma að sofa.

Klukkan fjögur förum við á fætur. Ég klæði mig í plastpokann minn sem ég fékk í Kólumbíu og við höldum út í næturregnið. Það streymir fólk út á veginn, flestir klæddir í plastponchó með vasaljós í hendi. Við komum að hliðinu og bíðum í langri röð, síðan hefst klöngrið upp á toppinn. Ég stíg þrep eftir þrep í myrkrinu og svitna undir plastpokanum. Ég stoppa til að ná andanum og heyri útundan mér að við séum hálfnuð upp. Nú er vasaljósið óþarft. Út frá stígnum sést ekkert vegna þykkra skýja. Ég kem mér upp á toppinn og bíð í svitabaði eftir Þór sem ofklæddi sig og þurfti að stoppa nokkrum sinnum á leiðinni.

Við göngum í gegnum hliðið og líðum inn í skýjaþokuna sem er þykk og sveipar staðinn í dulúð. Við tökum fyrstu beygjuna til vinstri og lamadýr heilsa upp á okkur bítandi gras á pallinum fyrir ofan okkur. Við göngum eftir stíg í korter og komum að sólarhliðinu, útsýnið yfir þorpið er ekki til staðar vegna skýja. Við förum til baka og göngum inn að þorpinu. Í gegnum dalalæðuna má sjá glitta í steinhlaðna veggi skipulagðs þorps. Við stöldrum við og drekkum í okkur dýrðina. Háfjallaþorp fornar menningar, í loftinu fljóta horfnar kenningar um alheiminn, stjörnurnar og sólina. Ég ímynda mér ljúfa daga lýðsins sem reikaði hér um göturnar í leik, bæn og starfi, umkringt grænum tindum og gæfu guðanna. Í hverju húsi finn ég fyrir mætti mannverunnar og eilífð steinsins. Við göngum inn um háar dyr og reikum um þröng strætin. Á þessum tíma dags er þorpið nánast mannlaust og andar fyrri tíma fjúka um í þykkum skýjabólstrunum. Þokuvafin þögnin þekur sál mína er við göngum um þetta mannvirkisundur. Fjallasalurinn er fullur af fuglum sem þjóta um loftið af mikilli gleði. Er við stöndum við sólarhofið brýst sólin í gegnum skýin og smám saman hverfur þokan og falda þorpið sem almúgi síns tíma hafði ekki hugmynd um að væri til sýnir sig í heild sinni.

Eftir því sem líður á daginn lekur dýrðarljóminn hægt og rólega í burtu vegna túristanna sem traðka inn í stórum hjörðum og taka mynd á tíu sekúndna fresti. Við stöldrum aðeins við en komum okkur svo niður af fjallinu og röltum til baka þar sem að rútan lét okkur út fyrst og setjumst sveittir í rútuna. Það er svo vond lykt af okkur að ein stelpan skiptir um sæti þegar við erum u.þ.b hálfnuð til Cusco.

í Cusco slöppum við af, teiknum, skrifum og deilum alsælu lífsins. Síðan splæsum við í góða næturrútu til Lima sem tekur um tuttugu tíma.

Í Lima höldum við jafnvægi á slackline og fyrsti dagurinn líður í rólegheitum. Um kvöldið daginn eftir tek ég leigubíl út á flugvöll. Ég stend í biðsalnum með eftirvæntingu í augum og óafmáanlegt bros. Klukkan tifar, klukkan tifar. Taflan upplýsir að vélin sé lent. Ég bíð þolinmóður en spenntur. Síðan opnast hurðin og Bettina Íris birtist upp úr þurru líkt og hún hafi verið dregin úr hatti galdramanns. Augun hennar grípa augun mín um leið. Við mætumst og kyssumst líkt og ástfangnar plánetur sem hafa sigrast á þyngdarafli alheimsins og klesst inn í hvora aðra til þess að mynda eigin vetrarbraut. Síðan sitjum við hlið við hlið í leigubíl og draumvefur veruleikans virðist óraunverulegur líkt og við trúum ekki fréttunum sem skilningarvitin senda huganum. Við höldumst í hendur, hlægjum, horfumst í augu, kyssumst, tölum saman og fyrr en varir erum við komin á hostelið og förum beint upp á herbergi og liggjum í fangi hvors annars og reynum að sannfæra hvort annað um að veruleikurinn sé í raun og veru raunverulegur.

Daginn eftir röltum við um Miraflores hverfið sem er ekki ósvipað bandarískri stórborg og tökum strætó lengst í burtu til að skoða hverfið þar sem Íris átti heima í þrjú ár. Við finnum skólann hennar og gamla húsið. Síðan fáum við okkur sæti og lepjum kaffi. Írisi líkar strax vel við Þór og Þór líkar strax vel við Írisi. Við erum ein lítil skrítin fjölskylda og eldum okkur ljúffengan mat um kvöldið.

Við ljúkum undirbúningi fyrir frumskóginn daginn eftir og tökum síðan flug til Iquitos. Um leið og við stígum út úr flugvélinni tekur mikill hiti og raki við okkur. Við komum okkur fyrir á skrítnu hosteli sem Kent mældi með. Fólkið á hostelinu er furðulegt og óbrosmilt og starir tómum augum út í loftið.

Daginn eftir skiptum við um hostel sem er aðeins skárra en orkan heldur áfram að vera einkennileg líkt og það liggi ill norn yfir bænum. Við förum á safn og myndirnar á veggjunum og sögurnar útskýra þungu tilfinningarnar. Hér voru framin ódæðisverk í árhundruð. “Siðmenntað” fólk fór með upprunalegu íbúa og réttmætu yrkjendur landsins líkt og hunda; hrein illska, sú tegund af illsku sem nýtur þess ekki endilega að kvelja heldur er bara alveg gjörsamlega sama um fórnarlambið; nauðganir, útrýmingar, ógnvænlegt ofbeldi og trúarbragðaeyðing; í nafni gúmmígróða, siðmenningar og kirkju Drottins.

Um kvöldið, klukkan sjö, komum við aftur á hostelið með poka fulla af grænmeti og ætlum að elda. Konan á hostelinu bendir okkur á að eldhúsið lokar klukkan sex á kvöldin. Við þurfum að þræta og tauta til þess að fá að elda, enginn hafði látið okkur vita af þessari óskiljanlegri og einstöku reglu. Við borðum matinn og hlökkum til að yfirgefa Iquitos.

Íris og ég, þrátt fyrir að þekkjast í rauninni ekki neitt, högum okkur líkt og að við höfum þekkst í mörg ár og grínumst og hlæjum langt fram á nótt. Hún er svo ótrúlega falleg, hugljúf og vitur að það lýstur af og til niður í sál mína þakklætiseldingu sem dreifir hispurslausri gleði um atóm veru minnar. Brún augun bjóða mér inn í sál hennar og blá augun mín þyggja boðið og litirnir blandast saman í hringekju tímans sem snýst á ógnarhraða en við tvö sem sitjum í miðjunni greinum ekki hreyfinguna vegna þess að það eina sem við sjáum á þessu augnabliki er hvort annað og blábrúnir blossar umlykja okkur og við rennum saman í eitt.

Á milli hafsins og okkar eru 3.680 kílómetrar. Á morgun munum við hefja siglinguna niður stærsta fljót jarðar.

20140218-123254.jpg

20140218-123537.jpg

20140218-123609.jpg

20140218-123642.jpg

20140218-123659.jpg

20140218-123713.jpg

20140218-123725.jpg

20140218-123739.jpg

20140218-123810.jpg

20140218-123758.jpg

Advertisements
Standard

One thought on “Vængjað gljúfrið, eilífa eyjan og þokufalda þorpið.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s