Stærsta fljót í heimi og glíman í frumskógarborginni.

Við settumst upp í lítinn mótorhjólaleigubíl og náðum rétt svo að koma öllum farangrinum fyrir. Eftir fimm mínútna keyrslu fór ekillinn að kvarta yfir þyngdinni, hann stöðvaði og labbaði hringinn í kringum hjólið til þess að gá hvort allt væri í lagi, hann vildi ekki halda áfram. Við mótmæltum. Hann fékk sér loksins sæti og hélt áfram með nöldurtón í röddinni. Við komum að fiskimannahöfninni og stigum út í brennandi sólina. Slorlykt fyllti vitin, jörðin var óhrein og plastrusl á víð og dreif. Við tókum farangurinn af vagninum og það kom í ljós að einn gönguskórinn hennar Írisar sem hékk utan í töskunni hennar hafði komist í snertingu við keðjuna sem sagaði sig þvert í gegnum skóinn. Það reyndist basl að losa hann. Húðflúraður fiskari með þykkar hendur rykkti skóinum úr klóm keðjunnar. Síðan henti hann skónum frá sér með litlu kettlingaópi; gúmmíið var brennandi heitt. Allir viðstaddir fóru að hlæja. Ekillinn vildi fá 200 krónur til að láta kíkja á keðjuna og við samþyktum það.

Við fórum um borð í tveggja hæða ferju, El Gran Diego. Ég og Íris komum tjaldinu okkar fyrir á annari hæð og Þór hengdi upp hengirúmið sitt rétt hjá. Það var nóg pláss í bátnum enda mættum við fjórum tímum fyrir brottför til þess að gulltryggja gott pláss. Sólin glitraði í brúnum bárum vatnsins og það var gleðiþrungin spenna í loftinu. Sölumenn þeystu um bátinn með hengirúm og matvöru, síðan tóku þeir sér pásu saman og spiluðu aðeins á spil. Fjölskyldur komu sér fyrir og ferðalangar með þykk skegg og sítt hár sátu og biðu eftir brottför. Hæðin fylltist smám saman af hengirúmum og litlir prakkarar hlupu um litríka hengirúma völundarhúsið með hrópum og brosum. Þeir sem komu seint fengu þröngsetin og léleg pláss. Vikapilturinn reyndi að banna tjaldið en við tókum það ekki í mál þar sem að við tókum jafnmikið pláss og tvö hengirúm; hann gaf sig eftir nokkrar tilraunir.

Sólin settist og ljósin kviknuðu í bátnum, vélin fór í gang og hristi dallinn hressilega til. Ég setti í mig eyrnatappa og las í Alkemistanum á portúgölsku er við runnum út í Amazon-nóttina.

Ég fór á neðri hæðina og þræddi mig í gegnum hengirúmma þrautabraut og passaði mig á því að stíga ekki á fólkið sem svaf á teppum á gólfinu. Ég fann klósettið sem var lekandi skítugt og án setu. Ég þakkaði Indlandi fyrir það að ég gæti losað úrgang hvar sem er, í hvaða aðstæðum sem er og haft það bara nokkuð notalegt.

Er ég kom upp stóðu Íris og Þór og burstuðu tennurnar við enda bátsins með Amazon ána í bakgrunninum. Áin breiddi úr sér voldug og stjörnusilfruð; hún leit út fyrir að vera haf eða endalaust stöðuvatn. Bakkarnir voru langt í burtu frá hvorum öðrum og dimmur frumskógurinn vakti yfir ánni. Stjörnum reifaður svartnæturhimininn merlaði í vatninu og ég gat ekki annað en staðið í myrkrinu og glápt í ósnertanlegri þögn.

Dagur vaknaði yfir ánni. Sólin glansaði, vatnið flæddi og skógurinn stóð. Sum trén voru hærri en fimm hæða blokk. Himininn djúpblár og skýin mjallhvít. Við bakkann bjuggu manneskjur. Af og til sátu litlar kofaþyrpingar við ánna og lítil börn með frumskógarsálir hlupu um í grasinu og veifðu bátnum. Sterkbyggður maður gerði við bátinn sinn og fljótfagurt fljóð sat við bakkann og þreif þvott upp úr ánni. Gluggalaus húsin voru litrík og smíðuð úr timbri. Af og til stóð einsamall kofi á bakkanum og frumskógurinn gnæfði yfir honum líkt og voldug vera sem gæti gleypt hann í sig á augabragði. Sumir kofarnir litu út fyrir að vera mannlausir og yfirgefnir.

Báturinn tók land í stærra þorpi og fólk á öllum aldri flykktist að með mangóa, kókoshnetur, óþekkta ávexti og djúpsteikt súkkulaðibrauð. Í einni svipan varð báturinn að óðum markaði sem fylltist af skvaldri; hrópum sölumanna og gleðismjatti viðskiptavina. Jafnsnöggt og markaðurinn skapaðist týndi hann lífinu er fólkið flýtti sér úr bátnum áður en hann leysti landfestar. Við sátum eftir með poka af mangóum og ferskan kókossafa.

Það leið ekki langur tími á milli mannabyggða. Fyrir fimmhundruð árum var sagan önnur en þá ríkti viðvarandi stríðsástand í frumskóginum. Ættbálkar héldu sig langt í burtu frá öðrum af því að reglulega fóru menn í víking og tóku land í óvinaþorpi, rændu börnunum og konunum til að eiga sem þræla, slátruðu öllum mönnunum sem náðu ekki að flýja inn í skóginn og brenndu þorpið og akrana til grunna. Núna voru engir ættbálkar við ánna, fyrir löngu voru þeir hraktir í burtu lengra inn í skóginn og til þess að heimsækja menningarlega ómengaðan ættbálk, sem var ekki hægt nema án sérstaks leyfis frá ríkisstjórninni, þurfti að ferðast í tíu daga dýpra inn í frumskóginn. Flestar mannverurnar sem bjuggu við ána áttu rætur sínar að rekja til frumbyggjanna, þau voru fórnarlömb kristniboðs og höfðu að miklu leiti glatað fornri menningu sinni og tengingu við seiðgaldra frumskógarins. Unglingarnir höfðu ekki áhuga á sögum gamla fólksins og vildu heldur klæða sig í bandarísk föt og setja myndir á facebook í staðinn fyrir að læra um plöntur og forna söngva.

Mannverurnar á bátnum höfðu ekkert að gera nema að vera til. Fólkið lá í hengirúmunum, spjallaði eða horfði upp í loftið. Á bátnum var tímaleysið lauslátt; það var auðvelt að gefa sig á vald líðandi stundar og stara á líðandi ána. Í störukeppni við strauminn byrjaði ég að skynja betur og betur mismunandi mynstur í grábláu vatninu. Dagurinn dó og ég sat og horfði á skuggasvartar útlínur trjánna sem virtust vera alelda er sólin sökk til fulls.

Dagur braust út. Við nálguðumst hægt og rólega landamærin. Áin streymdi og skógivaxinn bakkinn leið hjá á letilegum hraða. Áin var slétt og andi hennar stór og kraftmikill. Skýjaheimurinn var stórfenglegur líkt og konungsríki ævintýraheims. Himininn ljósblár líkt og haf fjarlægrar plánetu. Frumskógurinn reis upp til himins, bolirnir stóðu þétt saman (líkt og Stuðmenn og snéru bökum saman) og laufþykknið verðskuldaði orðið þykkni; laufin alveg upp við hvert annað líkt og apar hefðu fléttað greinarnar saman. Endurspeglun himnanna í kjurrum fleti fljótsins, gárurnar bláar og hvítar á víxl, kórónur trjánna grænar og bolir dauðra risa stóðu gráþurrkaðir með tómhentar greinar út í loftið líkt og betlarar. Fljótið óhugsandi breitt miðað við íslensk fljót, svo breitt og djúpt að tröll myndu eigi reyna við vaðið, svo breitt að á einum bakkanum var grenjandi rigning á meðan sólin skein á hinum með regnboga yfir fljótinu fyrir miðju.

Við komum til Brazilíu snemma um morguninn eftir tvo daga og tvær nætur í bátnum frá Iquitos. Í lítilli kænu sigldum við yfir ána frá landamærabænum Santa Rosa í Perú og stigum á land í öðrum heimi. Hávær tónlist spangólaði framan í okkur af veitingastöðum við bryggjuna. Portúgalska ómaði úr ljúfum raddböndum heimamanna og brosandi augu tóku vel á móti okkur. Við tókum leigubíl, mótorhjól fast við kerru, á lögreglustöðina þar sem að við stimpluðum okkur inn í landið, þaðan fórum við og keyptum tuttugu lítra dúnk af vatni, skiptum peningunum okkar í brazilíska og brunuðum svo niður á höfn til að kaupa miða í bátinn. Þar rann upp fyrir okkur að við værum ekki með nægan pening til að kaupa miða, en ekkert mál, ég hoppaði aftan á bak hjá leigumótorhjólaknapa sem rétti mér hjálm og rúllaði með mig eftir forugum strætum að hraðbankanum, síðan sneri ég aftur sigrihrósandi með nægan gjaldeyri til að kaupa miða. Við komum okkur vel fyrir í bátnum, ég og Íris tjölduðum og Þór setti upp hengirúmið sitt á góðum stað en stuttu síðar komu tvo gamalmenni og hengdu rúmin sín við hliðina á honum, líklega var það fagurt skeggið hans sem laðaði þau að.

Ég hafði aldrei séð Þór jafn nálægt því að vera ekki í góðu skapi af því að hann var ekki í bátnum samkvæmt sínum vilja, nánast í nauðarflutningum, en svo var mál með vexti að honum áskotnaðist ræpa í bátnum frá Perú sem ágerðist um nóttina. Ég sannfærði skástrik kúgaði hann til að koma um borð vitandi það að aðstæður í brazilíska bátnum yrðu miklu betri og maður getur ekki gert neitt betra en að liggja í hengirúmi allan daginn þegar maginn drullumallar og Tabatinga, landamærabærinn, hefur ekki upp á neitt að bjóða nema brottför. Hann lagðist upp í hengirúm, drullaði og róaðist furðuvel við að lesa um Steve Jobs. Íris lagðist upp í tjald og sofnaði í góðar þrjár klukkustundir. Um kvöldið borðuðum við ágætis máltíð sem er innifalinn í fargjaldinu. Spagettí, hrísgrjón, baunir og steiktur yuca-mulningur. Íris og Þór voru sammála um að maturinn væri vondur. Þór lagðist síðan í hengirúmið og Íris í tjaldið og ég settist uppi á þriðju hæð og skrifaði með eyrnatappa í eyrunum vegna brazilísku sápuóperunnar sem ómaði úr sjónvarpinu. Grænir skuggar skógarins liðu hjá og áin glansaði í síðdeginu.

Í tómi dagsins lauk ég við að lesa Alkemistann á portúgölsku. Fyrir þremur árum sat ég í herberginu mínu á íslensku haustkvöldi og þessi sama bók breytti lífi mínu. Ég var nýbúinn að ljúka við miðannarpróf í lögfræði og líkaði mér námið vel. En í helgarferð með vinum mínum, beint eftir prófin, í bústaðnum í Hvítársíðu skall í mig ímynd um framtíðarsjálfið mitt þar sem ég sat rykfallinn og grár inn á skrifstofu að fletta í lögbókum. Ég fór að efast. Lögfræði var ekki jafn skapandi fræðigrein og ég hafði haldið. Ég sá Alkemistann liggja upp í hillu í herberginu mínu og án þess að vita afhverju settist ég niður og byrjaði að lesa. Ég las bókina í einni setu og eftir lesturinn ákvað ég að hætta í lögfræði og eltast við örlagakostinn minn eða draum hjarta míns. Núna sat ég og sigldi niður Amazonfljótið með draumrætingu í hjartanu og fingurgómanna á lyklaborðinu.

Dagarnir á bátnum voru rólegir, atburðarlausir og ferðin niður fljótið var ekki jafn ævintýraleg og ég ímyndaði mér hana, en fegurð fljótsins og kyrrðin var yndisleg upplifun. Í morgun vöknuðum við klukkan sex, fórum upp á þilfar, horfðum á sólarupprásina, borðuðum morgunmat og síðan lagði ég mig fram að hádegismat. Saddur sat ég og horfði á ánna og bakkann, síðan las ég í bók. Það var ekkert sem lá á, ekkert sem þurfti að gera, ekkert til að hafa áhyggjur af og ekkert annað að gera en að vera.

Eftir þrjár nætur og þrjá daga komum við til Manaus sem er stórborg byggð í miðjum frumskóginum. Við fórum í land og ég burðaðist með tuttugu kílóa vatnskútinn á öxlinni sem við notuðum ekkert á bátnum af því að það var ókeypis ískalt vatn í boði. Við tókum leigubíl á Hostal Manaus og ekillinn svindlaði af okkur þúsund krónur. Síðan röltum við niður í bæ og fengum okkur ljúffengan mat á grænmetisveitingastað þar sem maður skóflaði mat á diskinn sinn af hlaðborði og borgaði fyrir þyngdina. Gömul litrík hús blönduðu geði við ljótar steypublokkir og hitinn í borginni mýktist við að drekka nýkreistan appelsínusafa. Við skoðuðum óperuhúsið og glöddumst yfir því að bílar stoppuðu fyrir manni á götunum sem var nánast óhugsandi í Perú.
Verðlagið í Brazilíu var allt annað, allt var dýrara. Við leystum það með því að kaupa grænmeti og ávexti á útimörkuðum og ég og Íris sáum um að elda og Þór vaskaði upp diskana. Eftir fimm mánaða ferðalag hafði ég matreitt ofan í mig ótal sinnum og eldhúskraftar mínir höfðu margfaldast.

Við eignuðumst franska vini og þeir kenndu okkur teningaspil. Við fórum í almenningsgarð og settum upp slackline’ið eða jafnvægislínuna sem að við keyptum í Lima og héldum jafnvægi í sólinni berir að ofan. Við hliðina á okkur var fótboltavöllur þar sem innfæddir spiluðu af hörku og það vakti eftirtekt mína að ungir sem aldnir spiluðu saman. Fimmtugur maður stóð í markinu og varði bolta frá tíu ára gutta sem fékk klapp á bakið frá mössuðum unglingi. Við tókum stutta pásu frá jafnvægislistinni og fengum okkur nýkreistan appelsínusafa.

Um kvöldið sat ég slakur og las í bók í sameiginlega rýminu á hostelinu. Stelpa frá Ísrael kallaði á alla út að sjá skrúðgönguna. Við skelltum okkur út á götu og við okkur blasti hundraðmanna trommusveit, risavaxinn hátalarabíll, hellingur af fólki á dansskónum og taktur sleginn af þrumukrafti. Við slóumst í för með hersingunni og gengum inn í taktinn. Halarófan var sameinuð í einni sterkri heild: Dansandi, syngjandi slanga límd saman með trommuslátti og almennum hávaða. Það var skorað á okkur að dansa og ég hófst handa við að stíga hraðan dans við fagnaðaróp innfædda sem klöppuðu og hrópuðu. Gömul hjón, rétt á undan okkur, brugðu á leik og stigu taktfastan dans á svo miklum hraða að maður hefði getað haldið að jörðin væri brennandi heit. Við dönsuðum og hrópuðum og brostum. Síðan þreyttumst við og kvöddum lestina og fórum heim á hostalið. Ég komst seinna að því að skrúðgangan hafi aðeins verið æfing fyrir karnavalið sem var á næsta leiti.

Seinna um kvöldið handþrifum við gi’in okkar, þ.e.a.s. glímugallana, og kreistum úr þeim bleytuna í mikilli athöfn. Daginn eftir um eftirmiðdegið tróðum við þeim þurrum í bakpoka og héldum á vit glímuævintýranna en það var einmitt hér í Brazilíu þar sem að Brazilískt Jiu-Jitsu var fundið upp. Við byrjuðum á því að ganga í vitlausa átt í korter, við snérum við þegar við vorum komnir í skuggalegri part borgarinnar og fundum ekki götuheitið sem átti að leiða okkur áfram. Við létum það ekki á okkur fá og röltum rólegir til baka í gegnum stræti borgarinnar. Þór talaði um að við værum á hápunkti tilverunnar og hvað það væri yndislegt að labba um götur Brazilíu í myrkrinu með tilgang í hjartanu og spennandi áfangastað. Við komumst á réttu slóðina en týndumst svo aftur, við spurðum vegfarenda um hjálp og hann labbaði með okkur í tíu mínútur til þess eins að hjálpa okkur. Við römbuðum inn á rétta götu, kvöddum vegfarendavin okkar og örkuðum seinasta spölinn yfir stærðarinnar brú. Eftir klukkutíma göngutúr í heildina fundum við staðinn. Hvít bygging glansaði í götumyrkrinu. Stórir svartir stafir og merki: Academia Gracie Barra. Við gengum inn og við okkur blasti stór dýnulagður salur og glímandi krakkar og nokkur forvitin augu. Við fengum okkur sæti og það kom til okkar brosandi ungur maður klæddur í gi með blátt belti um mittið. Hann talaði litla sem enga ensku en ég bað hann um að tala hægt og þá skildi ég meira og minna hvað hann sagði. Frá hvaða landi eruð þið? Ahh, Islandia. Hvar þjálfið þið? Ahh, Gunnar Nelson, ég veit hver það er, sagði hann, hann glímir fallega. Hann fékk sér sæti og byrjaði að stara í símann sinn. Það kom í ljós að það vissu allir hver Gunnar Nelson var.

Þjálfarinn, Bruno, mætti á svæðið og heilsaði glaðvær upp á okkur. Hann fór og klæddi sig í hvítt gi’ið og kom út úr búningsklefanum með svart belti um mittið. Hann sagði að við gætum farið og klætt okkur í gallana. Búningsklefinn var eitt lítið herbergi með einni sturtu, pissuskál, vaski og klósetti. Er við komum út var krakkaæfingin búin og kennarinn benti okkur á að koma til sín. Ég byrjaði að svitna við það eitt að vera í gi’inu. Það var heitt í salnum og raki í loftinu. Þjálfarinn sýndi okkur hvernig maður átti að hneigja sig áður en maður stigi inn á dýnuna. Við stigum inn á dýnuna og hneigðum okkur í virðingarskyni.

Á dýnunni voru um tuttugu manns. Við byrjuðum að hlaupa hringinn í kringum dýnuna til að hita upp. Eftir marga hringi átti maður að rúlla sér eftir dýnunni endilangri, þ.e.a.s. fara í marga kollhnísa í röð. Ég rúllaði mér fimm sinnum í kollhnís og stóð upp áttaviltur. Eftir nokkrar svona ferðir var ég orðinn vel ringlaður í hausnum. Kennarinn kom til mín og sagði mér að það væri nóg að gera einu sinni eða tvisvar eða bara labba ef maður væri mjög ringlaður. Síðan rúlluðum við okkur afturábak og síðan gerðum við tegund af kollhnís sem ég hafði aldrei séð áður þar sem maður var í raun að æfa sig í því að detta. Upphitun lauk og ég var perlaður úr svita. Það var frumskógarheitt og ég var móður og másandi. Kennarinn sagði okkur að fá okkur vatn eða fara á klósettið ef við þyrftum.

Það var byrjað að glíma. Kennarinn ákvað hver glímdi við hvern. Hann kallaði á mig og ég átti að glíma við blábelting. Við hneigðum okkur fyrir hvorum öðrum, tókumst í hendur og innsigluðum með hnefakossi. Við byrjuðum standandi. Ég hoppaði um leið á hann og greip um mittið hans með löppunum. Hann var sterkur en ég náði honum niður örugglega. Síðan náði ég hægri höndinni hans og náði honum fljótlega í það sem kallast þríhyrning sem er kyrking með fótunum. Við tókum strax aðra glímu þar sem ég náði honum í Kimura, eða armlás. Í þriðju glímunni vorum við báðir nokkuð máttlausir og kennarinn kallaði yfir hópinn, glímunni var lokið. Hann skipaði ný glímupör og senti mig hvíldarlausan í strákinn sem tók fyrst á móti okkur. Ég var nánast uppgefinn og lekandi úr svita er ég mætti honum. Ég náði að krækja löppunum utan um hann en hann stóð upp og ég hékk í honum líkt og api. Hann losaði sig hægt og rólega og náði mér niður. Síðan tók hann mig nokkuð auðveldlega í armlás. Ég hvíldi aðeins. Ég náði varla andanum úr hita, þreytu og svita. Við glímdun aftur og hann kláraði mig auðveldlega. Ég sagði honum að ég þurfti pásu og hann skildi það vel. Ég fór og lagðist við vegginn og fann svitafljót líða um líkamann. Hjartað sló þrefalt og ég var ringlaður í hausnum en mikið andskoti leið mér vel. Ég var í glímuvímu og fékk mér tíu gúlsopa af vatni.
Ég sat og jafnaði mig og spjallaði við fimmtán ára stelpu sem var líka á æfingunni. Hún heillaðist af því að í Mjölni væru æfingar sem bara stelpur mættu mæta á. Ég hélt áfram að svitna og glímdi ekkert meira á æfingunni, alveg búinn á því. Þjálfarinn kom og sest hjá mér og spurði mig út í allt saman. Hann sagði mér að í apríl til nóvember væri virkilega heitt, núna var frekar svalt í samanburði. Eftir tveggja tíma æfingu klappaði hann saman höndunum og við stóðum í röðum, blá belti og hærra í fremri röðinni og hvít belti fyrir aftan og börðum höndunum í síðuna og hneigðum okkur líkt og hermenn. Hann þakkaði okkur Íslendingunum fyrir komuna og allir klöppuðu fyrir okkur brosandi. Síðan tóku allir í hendurnar á öllum og sögðu: Oss.

Þjálfarinn spurði okkur hvar við gistum og sagði að það væri hættulegt að labba leiðina til baka núna. Hann spjallaði við nokkra nemendur og reddaði okkur í bíl sem lét okkur út hjá óperuhúsinu. Mér leið eins og að þau hafi boðið okkur velkomna í fjölskylduna er við kvöddumst. Frá óperunni var ekki langt heim. Við gengum í gegnum tóm stræti og ég fór í viðbragðsstöðu, ég læt Þór vita af hættunni og við vorum tilbúnir að hlaupa ef þess þyrfti. Skuggalegur maður með plastpoka gékk framhjá en hann hélt sig á gangstéttinni. Við gengum á auðri götunni, það var mannlaust, þögult, dimmt og óöruggt. Hjartað sló en augun héldu ró sinni. Við komumst á fjölmenna götu og fundum loksins götuna okkar. Við gengum inn á hostelið fegnir með gleðilega glímuþreytu í búknum.
Íris tók vel á móti okkur og eldaði ljúffenga máltíð fyrir okkur. Um nóttina svaf ég eins og steinn.

Daginn eftir fórum við aftur um kvöldið að glíma. Íris kom með. Annar þjálfari tók vel á móti okkur. Íris fékk ekki að taka þátt af því að hún var ekki með galla, hún fór og gerði yoga í teygjuaðstöðunni. Upphitunin var sú sama og það var farið að glíma úr ákveðnum stöðum án þess að fara í neina tækni. Ég og Þór vorum paraðir saman og ákváðum að taka því rólega til þess að klára ekki kraftana okkar. Síðan byrjaði alvöru glíman. Ég mætti blábeltingi sem spriklaði eins og fiskur og glímdi með miklum æsing og ofsa. Ég lenti í því að þumalfingur hægri handar beyglaðist afturábak í árekstri við dýnuna og varð ónothæfur með öllu. Ég hélt áfram að sækja á hann einhentur en allt kom fyrir ekki, kennarinn kallaði og glímunum var lokið. Ég settist og hvíldi með sársauka í puttanum. Ég var með blóð á fullri ferð að innan og svitaflóð að utan. Ég losaði beltið mitt og klæddi mig hálfan úr gi jakkanum; það var mikill léttir. Ég fékk merki um að klæða mig fallega í gi’ið og laga beltið, samkvæmt siðareglum sem eru ekki til staðar í yndislega afslappaða Mjölni. Ég lagaði mig til með smá mótþróa í sálinni vegna sársaukans í puttanum og hélt áfram að leka úr svita. Ég þurrkaði perlurnar af bringunni minni og hálfri mínútu síðar var ég aftur útataður í dropum. Eftir ágætis hvíld var mér úthlutað nýjum glímufélaga en gat lítið gert á móti honum annað en að verja mig útaf slasaða puttanum. Eftir þessa viðureign var ég orkulaus og blautur úr svita. Æfingin var búin. Við stóðum upp og röltum hringi í kringum dýnuna til þess að kæla okkur aðeins niður. Ég fékk merki um að hnýta beltið mitt rétt. Ég krafsaði saman orku til að hnýta það fallega með auma puttanum. Síðan slóum við höndum í síðuna og förum í halarófu og tökum í hendurnar á öllum. Eftir fyrstu æfinguna var ég í alsælu og ómældri ánægju en núna, með slasaðan putta til að koma mér niður á jörðina, var ég kominn með upp í kok af hermannasiðunum og agareglunum. Við tókum leigubíl heim og í staðinn fyrir að sjá allt það fallega tók ég eftir ruslahaugunum á gangstéttinni og hættunni á götunum.

20140329-181942.jpg

20140329-182002.jpg

20140329-181926.jpg

20140329-182009.jpg

20140329-182019.jpg

20140329-181951.jpg

20140329-182208.jpg

20140329-182222.jpg

20140329-182158.jpg

Advertisements
Standard

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s