Einfalda lífið í frumskógarparadís, ævaforna tréð og ástríka hippaeyjan.

Við vöknuðum snemma, borðuðum morgunmat, komum okkur niður á höfn, fundum bát og komum okkur þægilega fyrir. Í bátnum hittum við stráka frá Argentínu sem höfðu verið með okkur í bátnum frá Perú. Þeir komust að því að matur var ekki innifalinn og þrír af fjórum fóru í land til þess að kaupa mat. Þegar þeir voru nýfarnir í land lagði báturinn úr höfn. Strákurinn sem varð eftir á bátnum fór í væga geðshræringu og talaði um að þeir myndu skíta á sig úr óðagoti þegar þeir kæmu til baka að auðri bryggju og hann bölvaði starfsmanni bátsins sem sagði þeim að það væri nægur tími til stefnu. Við létum hann vita að báturinn væri ekki að leggja strax af stað niður ána, hann ætlaði bara að sigla niður að næstu höfn sem er rétt hjá. Báturinn fór í land rétt hjá staðnum sem hann var til að taka á móti vörum, þá hljóp Argentínumaðurinn í land að finna vini sína. Báturinn fór síðan í höfn aðeins neðar og þar gengu þeir allir fjórir um borð með stóra poka af mat. Argentínumaðurinn kom til okkar og sagði að þeir hefðu vitað allan tímann af því að báturinn myndi skipta um höfn.

Í bátnum eignaðist ég vinkonu. Gömul kona sem lá í hengirúminu sínu alla ferðina. Ég fór til hennar og sýndi henni orð í bókinni sem ég var að lesa á portúgölsku og spurði um framburðinn. Eftir að við töluðum meira saman byrjaði hún að segja mér furðulega hluti. Hún sagði að þegar hún var lítil hafði mamma hennar verið neydd til að selja líffræri úr sér og tveimur systrum sínum og að þær höfðu fengið dýralíffæri í staðinn og síðan sagði hún að það hafði verið reynt að ráða hana af dögunum nýlega og að það væri fylgst stöðugt með henni. Hún benti á örin á handleggjunum sínum. Ég hætti að spyrja hana um framburð á orðum, hélt fjarlægð og brosti bara til hennar í staðinn.

Sólin settist yfir ánni sem endurspeglaði ávaxtalituðum logum. Áin streymdi og báturinn leið inn í myrkrið.

Himinhvolfið litaðist og sólin vaknaði. Dagurinn leið í ótíma og fyrr en varir var dagur að kveldi kominn. Í myrkrinu sáust ljós í miklum fjölda við bakkann. Báturinn kom í höfn og við og nokkrar aðrar manneskjur fórum í land. Staðurinn hét Santarem og var á stærð við Reykjavík. Leigubíll flutti okkur á ódýrt hótel og við fundum okkur mat á götuveitingastað. Við röltum út að bryggjunni og svart fljótið gáraðist svo langt sem augað eygði; bakkinn hinum megin ósýnilegur undir feldi næturinnar. Við fórum upp á herbergi og féllum í drauma.

Í morgunsárið tókum við rútu sem leiddi okkur í gegnum laufþaktar hvelfingar frumskógarins og lét okkur út í litla 5.000 manna bænum Alter do Chão. Við fundum fallegt gistihús sem leyfði okkur að tjalda en verðið var alltof hátt þannig að þegar við römbuðum inn á hippatjaldsvæði í göngutúr um svæðið ákváðum við að færa okkur samstundis. Við náðum í allt draslið okkar frá hinum staðnum og komum okkur fyrir í skuggsælum mangólundi þar sem afslappað langferðafólk eða farandsöluhippar, líkt og ég kýs að kalla þau, lifðu í sátt og samlyndi við nútíðina og frelsið. Þau djögluðu, stunduðu fimleika, bjuggu til skartgripi, sungu og spiluðu á hljóðfæri til að vinna sér inn peninga. Oftar en ekki voru karlkyns hipparnir með dredda, ef ekki með mjög sítt hár og þykkt skegg. Sumar stelpurnar voru með dredda og sumar með rakaðar hliðar og ótal húðflúr. Næturgistingin var ódýr, 500 krónur á mann og sumt fólk svaf í tjöldum líkt og við en langflestir í hengirúmum undir stóru regnskýli. Það var eldhúsaðstaða sem var í grundvallaratriðum ástættanleg en það vantaði handföng á flesta pottana, borðið var heimagert úr afgangstimbri, skurðarbrettin voru stórar gólfflísar brotnar í tvennt og tvær af fjórum gashellum virkuðu ekki. En það genga allir vel frá eftir sig og yfir vaskinum stóð: Fyrir ástina. Við hliðina á því var friðarmerkið teiknað. Á klukkuna á veggnum vantaði stóra vísi og litla vísi og það var sjaldan sem einhver vissi hvað klukkan væri. Það var ein sturta sem var ágæt en klósettið var stíflað, sem betur fer var eigandinn, argentísk hippastelpa sem hét Meri, með samning við barinn við hliðina á þar sem nóg var af klósettum. Einföld aðstaðan var eitthvað sem sumir myndu ekki láta bjóða sér upp á, en fyrir mér var þetta heillandi staður með heillandi fólki sem heilsaði manni með opnu hjarta.

Við fengum okkur að borða og röltum niður að ströndinni. Í bænum voru nokkrar strendur, flestar voru venjulegar með börum og veitingastöðum sem buðu upp á skugga en svo var falda ströndin sem enginn fór á og var náttúruleg með fullt af trjám og laus við sprengjustillta popptónlist. Við römbuðum óvart inn á földu ströndina. Frumskógarvatnið var laufblaðagrænt og sandurinn paradísarhvítur, undir þykkum trjánum var svalandi skuggi og í ferskvatninu, sem var hvorki of heitt né of kalt, skein sólin glaðlega. Ef maður tók vatnið upp í lófana var það tært og gegnsætt. Við settum upp slackline’ið á milli stærðarinnar trés á bakkanum og annars trés sem óx ofan í vatninu þannig að ef maður missti jafnvægið datt maður ofan í vatnið. Ég rölti út í vatnið og fyrr en varir náði ég ekki til botns, ég gat ekki synt vegna þumalputtans sem var ennþá mjög aumur. Hér á þessum guðsgræna stað hafði myndast lón vegna tanga og eyju út í ánni þannig að það var lítill straumur og engin hættuleg dýr. Í þokkabót voru engar mannverur og engar byggingar í augsýn; bara undurfögur náttúra og meðfylgjandi friður. Formin í bárum vatnsins dáleiddu mig, sólin lýsti upp hörund mitt, loftið var gegnumsýrt ávaxtailmi og sandurinn lék við tærnar mínar.

Um kvöldið elduðum við og eftir mat röltum við niður á aðaltorgið. Meðfram norður hlið torgsins var súpermarkaðurinn og kirkjan, vesturhliðin var þakin í alskonar verslunum og nammibásum sem seldu ljúffengt kókossúkkulaði, suður hliðin vísaði niður að ströndinni og meðfram henni var stór pallur þar sem litríkur tugur farandsöluhippa sat og sýndi vörurnar sínar, á austurhliðinni voru veitingastaðirnir og á einum staðnum var hljómsveit að spila brazilíska tóna sem ómuðu yfir torgið og tóku alla með sér inn í brosmildan taktinn. Frumskógarnóttin var heit og ljúf. Ég hugsaði með mér að ég gæti verið hérna í langan tíma.

Ég vaknaði ferskur, fór út úr tjaldinu og gékk út í sólina. Á leiðinni í eldhúsið heyrði ég háan dynk. Nýfallinn mangó lá tilbúinn til átu. Ég tók hann upp og borðaði er ég hitaði upp vatn fyrir te. Ég drakk teið mitt og settist niður í hugleiðslu. Ég fann mig knúinn til þess að hugleiða, ég þurfti á því að halda. Í þrjár vikur var ég varla búinn að fá sekúndu fyrir sjálfan mig, annaðhvort var ég með Þór eða Írisi, aldrei aleinn. Núna fann ég virkilega fyrir því hvað ég þurfti á einveru að halda. Frið til þess að tala ekki, frið til þess að hlusta ekki, frið til þess að vera í friði og frið til þess að heyra í sjálfum mér. Venjulega heilsaði ég öllum sem ég heilsað gat en í bátsferðunum hafði ég leitað í einveru og einangrun. Mér leið ekki beint illa en það var einhver þyngd yfir augnaráðinu mínu. Ég þurfti að gera eitthvað, komast að rót vandamálsins. Þegar ég var einn á ferðalagi var ég aldrei einmana en núna þegar ég var að ferðast með tveimur manneskjum sem voru í þokkabót svo gjörsamlega ólíkar og með ólíkar þarfir þá fannst mér ég vera andstæðan við einmana. Ég settist þó niður í eldhúsinu á kvöldin og fór að kynnast fólkinu sem hafði áhugaverðar sögur að segja.

Daníel, þrítugur maður frá Venezúela, dökkur á hörund með svarta stuttklippta dredda upp í loftið, sterklega byggður, með kuðung hangandi úr gati í eyrnasneplinum og bein úr hinum, tónlistarmaður og lifir á því að spila á götunni með hatt fyrir framan sig. Hann var Hare-Krishna munkur í þrjú ár og átti fimm ára dóttir sem var langt í burtu. Hann átti heima í strandbæ í Perú og eignaðist þýska kærustu, þau ráku saman litla búð þar sem þau seldu listgripi og undu vel við. Foreldrar stelpunnar komu síðan í heimsókn og fyrsta kvöldið þeirra var Daníel að spila á bar í bænum. Tengdafaðirinn heillaðist af tónlistinni hans og sagði honum að hann gæti gert góða hluti í Þýskalandi og bauð honum að koma og gaf honum flugmiða. Í fyrstu vildi hann ekki fara af því að hann var hræddur, hafði aldrei farið í flugvél áður, aldrei farið útfyrir Suður-Ameríku og kunni ekki stakt orð í Þýsku. Kærastan hans skildi hann vel og sagði honum að vera eftir ef hann vildi ekki koma. En að lokum ákvað hann að slá til og skella sér.

Fyrsta daginn sinn í Berlín keypti hann sér gras og var viss um að gæðin væru ekkert miðað við Venezúela. Hann rúllaði sér eina hreina og reykti hana alla í rólegheitunum. Hann varð alveg ónýtur, lamaður í hausnum og gat varla staðið uppréttur vegna styrkleikans. Hann fór í sturtu, fékk sér kaffi og jafnaði sig eftir nokkra tíma af sturlun.

Hann byrjaði að spila tónlistina sína úti á götu og síðan hjálpaði tengdapabbi honum að tala við veitingastaði og bari. Fyrsta kvöldið hans spilandi á bar vissi hann að Berlín væri staður fyrir sig, hann hafði aldrei grætt svona mikinn pening áður, hann seldi nokkra geisladiska og lét hattinn sinn ganga um barinn sem fólkið fyllti alveg upp að brún.

Þegar hann var nýlega kominn til landsins var hann einu sinni úti að borða með kærustunni sinni, klæddur í nokkrar peysur vegna kuldans sem hann var óvanur. Skyndilega kom yfir hann svimi og það leið yfir hann. Hann skall með hausinn í borðið, naumlega framhjá matnum sínum. Hann rankaði við sér við háværar sírenur og það var farið með hann á spítalann þar sem að hann jafnaði sig fljótlega. Þeir sögðu honum að ástæðan væri streita. Nýtt land, ný menning, nýtt tungumál, nýr matur, allt framandi og streituvaldandi. Hann hafði enga leið til að tjá sig og það safnaðist ýmislegt upp.

Einn daginn fór vinur hans með hann í hljóðfærabúð og Daníel hafði aldrei áður farið í hljóðfærabúð á þremur hæðum. Hann missti sig í gleðinni og hljóp um búðina prófandi allt sem hann kom hendi á. Sláandi trommurnar, plokkandi strengina, blásandi í flauturnar. Síðan fór þessi sami vinur hans með hann í upptökuver og hjálpaði honum að taka upp nokkur lög. Daníel horfði í kringum sig á takkaborðin og upptökutækin, hann hafði aldrei séð neitt þessu líkt.

Eftir þrjá sumarmánuði í Berlín var vísa’ið hans að renna út, hann fékk þá hugmynd að fara úr landinu og koma aftur inn í það til að fá nýtt vísa. Hann flaug til Búlgaríu og kom aftur til baka daginn eftir. Hann var tekinn inn í hvítt herbergi og yfirheyrður eins og glæpamaður og þeir vöruðu hann við: Þú verður að taka flugið þitt heim, við vitum hvar þú átt heima og ef þú brýtur vísalögin máttu ekki koma aftur til Evrópu í tíu ár. Hann byrjaði að blóta framan í mennina á spænsku og kalla þá hálfvita og drullusokka.

Hann kvaddi paradísarlandið sitt þar sem að fólkið bauð hann velkominn og flaug til baka. Núna eru fjórir mánuðir síðan og hann brann af þrá í að snúa aftur. Hann sagðist ætla til Ríó að vinna sér inn pening fyrir flugmiðanum og hann sagði að það væri ekkert mál en í augunum hans sá ég sorglegan veruleika farandsöluhippana; þeir áttu ekki krónu; þeir voru frjálsir í hjartanu og lausir við hlutdýrkun en að kaupa sér flugmiða til Evrópu virtist aðeins vera fjarlægur draumur fyrir einhvern sem talaði um fimmþúsund krónur sem frábær dagslaun.

Hér í þorpinu varð dagur að viku og vika að vikum. Á hverjum degi fór ég niður að ánni að baða mig og halda jafnvægi á slackline’inu. Ég sat í sandinum og hugleiddi eða las í bók á meðan ég tók sopa af gómsætu chai’i sem ég útbjó og kom með á ströndina í hitabrúsa. Á fjórum dögum gleypti ég í mig ritlistar meistaraverk sem heitir Shantaram. Ég var oftast einn og naut þess vel að tala við endurspeglun himinsins í vatninu og lauf trjánna í þögulli hugleiðslu. Ég komst að því afhverju ég hafði verið svona þungur og jafnvel dapur, það gat vel verið að andstæða einmanaleikans hafi haft áhrif en í rauninni var það malaríu-lyfið sem ég tók á hverjum degi sem breiddi yfir mig þunga blæju dimmra hugsanna. Um leið og ég hætti að taka inn pillurnar byrjaði kertið innra með mér að skína; óvenjulegu þyngslin hurfu líkt og köttur fyrir hundi. Ég hélt áfram að hugleiða á hverjum degi, kvölds og morgna með þessi orð í huglægri endurtekningu:

Ég er.

Ég er ekki þessi búkur.

Af og til hrundi ég í djúpa upplifun á rými veruleikans en oftast sat ég og fylgdist með lífskraftinum flæða um mig og huganum ímynda sér hitt og þetta, hoppa fram og til baka úr framtíðinni yfir í þátíðina og spjalla um hversdagslega hluti við sjálfan sig eða eiga ímynduð samtöl við aðra. Með hverjum deginum varð skilningur minn á veruleiknum skýrari. Veruleikur; veru-leikur; við erum guð berandi grímur; guðsgrímur; við teljum okkur vera til sem aðgreindar persónur, egó, einstakar verur, en sannleikurinn er svo ótrúlega einfaldur að hann dylst okkur í flóknum heimspekikerfum, huglægum rannsóknum sem ganga út frá því að við séum hugurinn og líkaminn, reglubundnum trúarbrögðum og ótal óþarfa spurningum. Sannleikurinn er: Ég er ekki til, mun aldrei vera til og hef aldrei verið til – ég er guð, Alveran, hið ónafngreinda, hið óorðanlega, alltsemer, spilandi spil, leikandi leik: Ég er Veruleikurinn hinn Eilífi. Við, verurnar, berum grímur af því að ef guð vissi að heimurinn væri bara leikur innan í sjálfum sér væri ekkert varið í leikinn. Allt það hræðilega sem gerist í leiknum, allt sem mannverurnar gera hvorri annari er í raun og veru guð að gera sjálfum sér. Það sem við köllum hugljómun er einfaldlega guðsgríma að taka af sér grímuna. En ekki taka mig á orðinu, ég boða alheimssýn mína ekki sem heilagan sannleik, ekki trúa neinu sem ég segi fyrr en að þú upplifir það innan í eigin veru. Ef þú hefur áhuga þá býð ég þér í hugleiðslu: Hvernig veistu að þú sért til?

Með tímanum kynntist ég sumum af hippunum betur, orðið hippi er þó ekki fullnægjandi orð, þau eru ekki endilega andleg, boðandi ást og frið, reykjandi gras og sleikjandi sýru, heldur einfaldlega öðruvísi, kjósandi rótarlaust flakk og ræktun hæfileika yfir langtímalán, þægilega íbúð og skrifstofuvinnu. Stundum lögðu þau saman í púkk og elduðu stóra máltíð saman. Þau byrjuðu daginn snemma og oftar en ekki sátu nokkur saman í hóp og spiluðu á hljóðfæri þegar ég dröslaði mér úr tjaldinu eftir góða dýnulausa nótt á hörðu gólfinu. Söngur þeirra og frelsi ómaði upp til fuglanna í trjánum sem sveipuðu tjaldsvæðið í skugga með laufum sínum. Þau voru öll góðhjörtuð og almennileg. Við skildum dótið okkar venjulega eftir í tjaldinu og aldrei var neinu stolið. Léttglaður andi sveif yfir svæðinu og ég varð ekki var við eitt einasta rifrildi. Í þröngu eldhúsinu myndaðist oft fjölskyldustemmning. Einn daginn hætti ísskápurinn að virka þegar að Argentínumaðurinn í fjólubláu buxunum, Nicola, velskeggjaður og síðhærður, var að hreinsa ísinn sem hafði safnast upp í frystinum með hamri, hann sló eitthvað út og skápurinn hætti að kæla. Hinn daginn vildi Merí, stjórnandinn, taka pönnurnar og geyma hjá sér og láta fólk spyrja um leyfi til að nota þær en það gleymdist eftir nokkra daga. Á nóttinni sungu skordýrin og apahljóð heyrðust úr fjarska; kyrrð og ró, friður og ást, lífið lék í lyndi við tjaldsvæðið. Svo kom Karnavalið.

Bærinn fylltist af óþæginlega háværri, leiðinlegri, tónlist; hann fylltist af fólki frá Santarem og uppblásin dýrð áfengisþambs sprakk líkt og blaðra fyrir nagla er ég og Þór kíktum á veisluhöldin. Stórt torg fyllt af fimbuldrukknu fólki sem hoppaði um með skrækjum og sprautaði á hvort annað hvítum lit úr brúsa. Hljómsveit á stóru sviði æpti lagleysu yfir múginn. Strákur hvítur í framan, ófrýnilegur undir valdi drykksins, kom til okkar og reyndi að selja okkur brúsa til að sprauta. Ég afþakkaði öll samskipti, Þór nýtti tækifærið og spurði hann hvort að hann vissi um jiu-jitsu stað í þorpinu. Torgið minnti mig á menningarnótt. Ég fann ekkert nema sterkan fráhrindandi kraft og vildi koma mér í burt sem fyrst. Á tjaldsvæðinu ríkti endalaus tónlistarmengun, eyrnatappar breyttust í svefngjafa og það reyndi á þolinmæðina að hlusta á leiðinlega tónlist á fullum styrk á meðan við reyndum að sofna. Ég samþykkti tónanna og náði oftast að sofna fljótlega. Ég lét Írisi fá svefnpokann minn og ponchoið til að hafa mýkra undirlag og svaf á hörðu gólfinu líkt og jógín frá Indlandi eða fátæklingur án vals, ég vandist því furðuvel og fór að líka við hörð óþægindin. Íris missti þolinmæðina vegna hávaðans sem stafaði frá barnum við hliðina á og bauð mér eina nótt á gistiheimili. Ég lagðist í mjúkt rúmið, með klósett mér á hægri hönd, rafmagnsinnstungu og loftkælingu. Mér leið eins og villimanni sem var fluttur af seiðkarli þorpsins í framtíðina. Ég var orðinn vanur því að sofa á gólfinu, vera án rafmagns, án klósetts; allslaus og ánægður; varla eyðandi krónu. Líkt og Íris orðaði það: Þú ert eina manneskja sem ég þekki sem hefur kvartað yfir of miklum þægindum. Ég reyndi að koma mér þæginlega fyrir í mjúku rúminu en hugsaði aftur í tjaldhellinn minn með söknuði; að lokum leið ég inn í ljúfa drauma. Eftir fjóra daga vöknuðum við öll upp af Karnaval martröðinni og þorpið tók á sig fyrri mynd friðar og rólegheita.

Eitt kvöldið er tjaldsvæðið var mannlaust sat ég í hálfbrotnum plaststól og las. Inn um hliðið kom maður, dökkur á hörund með rastafléttur og svartan pípuhatt, með gítar á bakinu og reiðhjól undir hendinni. Ég hafði oft séð hann spila og syngja frá hjartanu fyrir framan matvöruverslunina og oft gefið honum klink í hattinn.
Ei bróðir, sagði hann á djúpraddaðri portúgölsku, sló mér í hönd og gaf mér hnefakoss, veistu hvar allt fólkið er?
Það fór heim til Fabíó, hérna rétt upp götuna til hægri, sagði ég.
Ég skil, sagði hann, ég held ég fari þá frekar heim í húsið mitt í frumskóginum.
Hús í frumskóginum, er það langt í burtu?
Nei, ekki svo, einn kílómetri eða svo, viltu koma í heimsókn?
Rétt í því kom Íris fram úr tjaldinu og við þáðum bæði boðið.
Við röltum aðalgötuna í myrkrinu, út úr bænum. Hann leiddi hjólið og á bögglaberanum stóð lítið ferðaútvarp sem spilaði reggae tónlist sem ég gekk í takt við. Hann heilsaði hverri einustu manneskju sem við mættum. Er við gengum í burtu frá ljósastaurunum byrjuðu stjörnur eilífðarinnar að birtast okkur. Kolniðarmyrkur og fuglahljóð úr frumskóginum blönduðust reggae tónunum. Hann kynnti sig formlega og spurði hvað við hétum. Elton, hét hann, brosmildi maðurinn sem leiddi okkur inn í dimmuna haldandi á vasaljósi. Við gengum og gengum, lengi, lengra en einn kílómetra. Íris hló upp úr þurru að sögu líðandi stundar. Bílar komu á móti okkur og lýstu upp umhverfið örskamma stund er þeir þutu framhjá. Loksins komum við að litlum stíg sem leiddi okkur inn í frumskóginn.
Ef þið heyrið risaeðluhljóð þá eru það aparnir, sagði Elton og öskraði eins og risaeðla og hló.
Hátt yfir höfðum okkar lifðu greinar og laufblöð; maður sá engar stjörnur í gegnum svart laufþykknið en skordýrahljómsveit tók lagið. Við gengum inn í myrkrið.
Þetta er einstakur staður, sagði Elton, sem fáir hafa aðgang að. Við erum komin.
Frá stígnum lá annar stígur sem leiddi okkur inn í lauflétt rjóður. Hús á tveimur hæðum, byggt úr timbri; á efri hæðinni svefnherbergi með laufþaki, á neðri hæðinni, opið veggjalaust svæði með hengirúmum og vinnuaðstöðu fyrir listamenn. Velkomin í listamannahúsið, sagði Elton brosandi. Þrír kettir komu hlaupandi til okkar, einn stór appelsínugulur, einn minni hvítur og einn pínkulítill svartur. Við fengum okkur sæti í hengirúmum og Elton settist á kassa, tók upp svarta kisan og knúsaði hann og teygði og kramdi líkt og grimmur fimm ára krakki myndi leika við kisu.
Þeir verja okkur fyrir snákum og eru skemmtileg dýr, sagði Elton, litli svarti er hættulegastur, hann vill ekki láta klappa sér og klóraði mig um daginn. Appelsínuguli kötturinn kom upp að honum og Elton lamdi hann lauslega, kötturinn forðaði sér í burtu.
Eruð þið grænmetisætur, spurði hann.
Já, svöruðum við í kór.
Í Brazilíu er fólkið kristið, og kristni segir að það skipti ekki máli hvað maður láti upp í sig, það verður allt að skít hvort sem er. Afsakið orðbragðið. Við borðum allt, það sem skiptir máli fyrir okkur er hvað við látum út úr munninum, orðin sem við segjum verða að koma frá hjartanu, slæm orð hafa slæmar afleiðingar, en það skiptir ekki máli hvað við setjum upp í okkur af því að það verður allt að skít, sagði hann og gerði tilheyrandi látbragð til að leggja áherslu á orðið skít.

Hann setti olíurafal í gang sem kveikti ljósið í eldhúsinu; gaseldavél, stórt borð og matarbúr undir stóru regnskýli. Hann eldaði fyrir okkur náttverð, ljúffengt grænmetisspagettí sem við borðuðum undir ljúfum reggae tónum. Kettirnir hlupu um á þeysingsspretti og í þessum aðstæðum er ég ekki sammála skáldinu sem orti forðum: Illt er að hafa þá marga á bænum.

Eftir matinn löbbuðum við tvær mínútur niður að ströndinni og vatninu sem stjörnuglitraði undir frumskógarhimninum og allt var í friði undir frumskógarþögninni sem var gegnumsýrð af skordýrum og risaeðluöpum.
Er hægt að baða sig hérna, spurði ég.
Já það er hægt, maður þarf samt að passa sig á stingskötunum, ef maður stígur á eina slíka haltrar maður í heilt ár, svaraði hann. Kettirnir hlupu á eftir okkur með næturaugun opin og voru á varðbergi eftir snákum og þvílíkum kvikindum. Litli svarti lenti í bardaga við stærðarinnar strá og Elton lyfti upp appelsínugula og geymdi hann á öxlinni sinni.

Hann fylgdi okkur aftur að tveggja hæða kofanum og sýndi okkur efri hæðina. Við klifruðum upp lítinn stiga. Tómt rými, draumfangarar hangandi úr loftinu, bogi, ýmis skrítin hljóðfæri og stór dýna í einu horninu. Þið getið sofið hér í nótt ef þið viljið, sagði hann og klifraði niður stigann. Við lögðumst niður og sofnuðum næstum því en ákváðum síðan að rölta heim á tjaldsvæðið.

Á tjaldsvæðinu voru allir að gera sig til. Daníel var málaður eins og trúður, Ivan var klæddur eins og kona, Merí líkt og mús, Nicola líkt og ítölsk klámstjarna frá sjöunda áratugnum og það var spenningur í loftinu. Skrautlegi hópurinn var tilbúinn. Þau löbbuðu yfir götuna yfir á barinn við hliðina á. Ég og Íris fengum okkur sæti og borguðum aðgangseyrinn til að fá að sjá sýninguna, til að sjá sirkusinn. Þór sat nývaknaður á tjaldsvæðinu og borðaði morgunmat. Klukkan sló fjögur högg og þau voru klukkutíma á eftir auglýstri byrjun. Hljóðfæraleikarnir þrykktu í trommur, plokkuðu strengi og sungu. Engir aðrir áhorfendur komu eftir korters bið. Þau ákváðu að gefa staðinn upp á bátinn og færa sýninguna yfir á torgið. Við fengum endurgreitt og röltum með þeim niður á torgið. Þau komu sér fyrir á miðju torginu og eftir að hafa vakið næga athygli með því að labba í hringi og syngja og dansa var komið nægilega mikið af áhorfendum til að byrja sýninguna. Þór sem hafði komið í tæka tíð fyrir hringdansinn fékk sér sæti kátur á svip. Hljóðfæraleikarnir hófu tóna sína á loft. Ivan, eða Filippa líkt og hann vildi láta kalla sig, dansaði líkt og stelpa og vakti almenna kátínu. Hann passaði að sýna ekki geirvörturnar og lyfti kjólnum sínum reglulega upp með ýktu látbragði. Síðan lét hann bolta snúast í hringi á puttanum sínum, setti snúandi boltann á endann á spjóti og lyfti spjótinu með snúandi boltanum upp á hökuna sína og hélt því í jafnvægi, síðan rétti hann litlum krakka spjótið og lét alla klappa fyrir honum.
Daníel fékk sér sæti á einhjóli og hjólaði gólandi líkt og brjálæðingur út um allt.
Næsta atriði var kólumbíski strákurinn og svissneska stelpan, strákurinn lék listir með hattinum sínum og djöglaði á meðan stelpan spilaði lagið úr Amélie á blástursharmonikku. Hversu oft við höfðum heyrt hana spila þetta lag á tjaldsvæðinu var ómögulegt að vita. Strákurinnn missti keilurnar af og til í gólfið og var ekki mjög öryggur en uppskar þó klapp í lokin.
Á sviðið stigu tvær dansmeyjar í indverskum kjólum sýnandi beran magann, þær héldu á kertastjökum með grænum logum og stigu þokkafylltum skrefum um sviðið. Síðan létu þær stjakana á gólfið og byrjuðu að dansa við högg trommunnar sem Daníel sló líkt og að hann hafi alist upp við bakka Ganges. Áhorfendaskarinn, sem fór stækkandi, klappaði æstur taktinn með dansinum. Dansmeyjarnar, brosandi út að eyrum, sveifluðu mjöðmunum líkt og um rólu væri að ræða og uppskáru fagnaðaróp þegar þær hneigðu sig í lok atriðisins.
Trúður hljóp um leikandi listir með boltum sem hann kastaði upp í loft og greip, krakkarnir voru mjög ánægðir með hann, sérstaklega þegar að hann datt á rassinn.
Trumbusláttur byggði upp spennu fyrir næsta atriði. Svissneska stelpan, Salka, klifraði upp í langt tvískipt klæði sem hékk úr tré og lék ýmsar listir, hangandi á hvolfi, snúandi sér í hringi, klifrandi upp og vefjandi klæðinu um sig. Þegar hún var komin efst upp í klæðið lét hún sig falla og í sekúndubrot hélt ég að hún myndi skella í gólfið en klæðið hélt henni örugglega uppi.
Lokaatriðið var eldimagnað. Ivan kveikti í þremur kyndlum og fékk sjálfboðaliða til að leggjast á jörðina og yfir honum, róna af götunni, fleygði hann logandi kyndlunum hátt upp í loftið og greip þá síðan af mikilli list. Síðan voru fjórar manneskjur á sviðinu, allar leikandi með eld, haldandi eldkyndlum á lofti og sveiflandi eldkúlum. Fljúgandi eldurinn var mikið sjónarspil í næturbirtunni.

Fólk var duglegt að gefa þeim pening í hattinn og með þeim gátu þau keypt mat handa öllum í hópnum og eftir sýninguna sátu þau öll saman á tjaldsvæðinu og átu sig södd og ráku upp gleðióp eftir vel heppnaða sýningu.

Á öðrum deginum okkar í þorpinu rákum við augun í krúttlegt kaffihús sem hét Siriá, ég fékk mér sæti í þægilegum sófa og Íris lagðist í hengirúm og við drukkum kaffi og lásum og skrifuðum í svölum skugganum. Staðurinn skiptist í útisvæði og innisvæði, úti er hengirúmið og sófinn og inni eru borð með kollum og stólum. Úr loftinu hanga litríkir óróar, á veggnum synda litríkir fiskar, málverk fylla staðinn af lífi, í krakkahorninu hanga listaverk eftir krakka og hundrað barnabækur í stórum bala (m.a. Tinnabók sem ég las fullur af kátínu), stólarnir handmálaðir, borðin handmáluð, brazilísk jazztónlist á vís við frumbyggjatónlist úr frumskóginum og eitt besta grænmetisfæði sem ég hef smakkað eldað af yndislegu konunni sem á staðinn, Bettaníu. Við byrjuðum að venja komu okkar á staðinn, eiginlega á hverjum degi kíktum við í kaffi eða hádegismat. Á kvöldin settu þau stundum upp bíótjald og sýndu yndislegar bíómyndir og eitt kvöldið sýndu þau eina bestu mynd sem ég hef séð: La Belle Verte.

Eitt eftirmiðdagið sat ég í sófanum og las í hinum mikla meistara Nisgardatta Maharaj. Það var rigning úti og ljúft að sötra kaffi undir regnskýlinu. Eftir veginum kom maður á hjóli, rennandi blautur og renndi sér í hlað til að fá sér hressingu. Augun okkar mættust og við heilsuðumst. Hann var greinilega fastagestur af því að hann faðmaði Bettaníu sem kom með rjúkandi heitt kaffi handa honum. Hann kveikti sér í handvafinni sígarettu og fékk sér sæti á litlum kolli rétt hjá mér. Andlitið myndarlegt og brosandi, léttskeggjaður, yogabúkur, friður og ró stafaði út frá honum og geislandi augu gáfu til kynna vaknaða sál. Við tókum tal saman.
Hvaðan ertu, spurði ég hann.
Írlandi, svaraði hann með þykkum hreim.
Ertu búinn að vera lengi hérna, spurði ég.
Eitt og hálft ár, var svarið.
Áhugavert, ertu þá að leigja húsnæði? Hvað ertu annars að gera hérna?
Reyndar byggði ég mér hús í frumskóginum. Við erum með jörð hérna rétt fyrir utan bæinn og sjáum um ayahúasca-athafnir. Ég er búinn að vinna með ayahúasca í sjö ár, sagði hann og fékk sér sopa af kaffinu.
Eftir smá spjall vorum við komnir yfir í djúpar samræður um veruleikann, aðrar víddir, drauma, guð, hugleiðslu og meðvitund.
Fólk fer að sofa á kvöldin og meðvitundin þeirra flyst yfir í aðra vídd þar sem að önnur lögmál gilda og ótrúlegir hlutir gerast, en flest fólk gerir sér ekki grein fyrir mikilvægi drauma og afskrifar þá sem eitthvað sem heilinn spinnur upp og gleymir þeim án þess að gefa þeim gaum, sagði hann.
Við tökum draumana sem sjálfsögðum hlut, við sjáum ekki mikilfengleika þeirra af því að þeir eru beint fyrir framan nefið okkar, sagði ég.
Hann hélt áfram: Þú og ég, við erum til í mörgum víddum og búum yfir ótrúlegu afli. Þegar ég segi orðið dreki, sérðu dreka fyrir þér? Hvaðan kemur þessi dreki, hvað í raun og veru er aflið sem við köllum ímyndunaraflið? Hvernig virkar það? Höfum við aðgang að myndefni úr öðrum víddum sem við vörpum fram á tjald hugans?
Hann hélt áfram, ég hlustaði gaumgæfilega: Ég er ekki til, þessi búkur er blekking. Ég er ódauðleg meðvitund. Ég er ekki hræddur við neitt. Ósjálfrátt er ég vitni að öllu sem kemur upp í huganum og líkamanum. Ég er í þessum búk af ástæðu, ég hef verk að vinna, einhverjum tilgang að sinna, hlutverk að uppfylla, það vinna kraftar í gegnum mig sem stuðla að því að vekja fólk. Flest fólk er sofandi. Það trúir á tryggingar, bankalánið sitt og fína húsið og þolanlegu vinnuna sem það neyðist til að gera, það trúir á metorðastigann, það vill ekki heyra að það sé ónauðsynlegt að taka lán og að merkjavörur muni ekki skila þeim hamingju. Ég er breyttur maður. Ég horfi til baka á sjálfan mig og hugsa: Hver var þetta? Var þessi manneskja ég?
Ég tek við orðinu: Ég var allt önnur manneskja fyrir þremur árum, ég trúi því að mannkynið sé að vakna fyrir eigin guðdómi af því að ég finn breytingarnar í sjálfum mér og á vegi mínum hitti ég reglulega vaknað fólk sem hefur sömu sögu að segja. Það er andleg bylting í gangi og hún er að gerast innra með okkur. Ég er mjög bjartsýnn á framtíðina. Því fleira fólk sem vaknar því auðveldara verður það fyrir hina að vakna. Því útbreiddari og viðteknari hugmyndin er, að við séum öll eitt, því auðveldara verður það að slökkva á sjónvarpinu og setjast niður í hugleiðslu.

Við héldum áfram að spjalla með glóandi augu og ánægju í eyrunum. Það er ekki á hverjum degi sem maður hittir mannveru sem er að upplifa sömu hluti og maður sjálfur. Hann sagði mér frá ayahúasca upplifunum; þegar að meðvitundin hans tilfluttist í maur og hann var staddur í maurabúinu og skildi þá, fyrir maurunum var allt skýrt, allt í reglu, gáfaðar verur; þegar að hann treysti tónlistinni og leyfði henni að opna þriðja augað sitt og spyrna sér yfir í aðra vídd; þegar að prófraunir voru lagðar fyrir hann, þar sem viljastyrkurinn hans og siðferði var prófað.

Það leið á daginn. Hann bauð mér að koma í heimsókn hvenær sem er. Við kvöddumst með faðmlagi, hann hjólaði út úr bænum og ég fór niður á strönd að halda jafnvægi á slackline’inu.

Daginn eftir sat ég á torginu og horfði á mannlífið. Gamall skítugur farandsöluhippi með þykka dredda sat á gangstéttinni og drakk bjór. Brazilískir ferðamenn tóku myndir hver af öðrum. Litlir fuglar flögruðu á milli greina í stóra mangó trénu. Himininn blár og eins og venjulega var ég ekki klæddur í neitt nema sundbuxurnar mínar. Eftir götunni meðfram torginu keyrði stór jeppi með skúffu. Í skúffunni stóðu fjórir menn og héldu borði kjurru, á borðinu var risavaxin kaka. Kökubíllinn keyrði hægt út götuna og tók vinstri beygju. Stuttu síðar kom annar eins bíll með stærðarinnar köku. Síðan þriðji, síðan fjórði. Hvaða kökuveisla er í uppsiglingu, spurði ég sjálfan mig. Ég hitti Tiago, brazilískan strák með stór saklaus augu og dredda sem létu hann líta út fyrir að vera geimvera. Hann sagði mér: í dag á þorpið afmæli, það er 256 ára gamalt. Í kvöld verður kökuveisla.

Um kvöldið, eftir að hafa horft á bíó á kaffihúsinu, lögðum við leið okkar niður að torginu sem er í mínútu göngufjarlægð. Það var stútfullt af fólki. Fólk hélt á diskum og bökkum með risastórum kökusneiðum. Við gengum inn í stóran íþróttasal sem ég hafði aldrei tekið eftir áður og við blasti litríkt sjónarspil. Í salnum var tuttugu borðstofuborðum raðað í hring, borð þar sem að tíu manneskjur geta fengið sér sæti og borðað hátíðlega, og á hverju borði var risavaxin kaka. Ég hafði aldrei séð svona mikið af köku á ævinni. Kökur hér, kökur þar og kökur allstaðar. Þetta var eins og fermingarveisla heillar fílahjarðar eða draumur fimm ára krakka. Hávær tónlist blandaðist kjamsi og kökuhrópum. Fólk fór hringinn og fyllti ílátin sín af köku, sumir voru með plastpoka sem þeir fylltu af kökusneiðum og tróðu í bakpokann sinn. Kökurnar voru allar mismunandi en allar jafn risavaxnar, kremaðar, sykraðar og regnbogalitaðar. Fólkið við kökuborðin skar sneiðar eins hratt og það gat og þegar sneiðarnar kláruðust af borðunum sá ég krakka skafa kremið af kökuplötunum með puttunum. Gömul kona rétti okkur plastdisk og við fengum kökusneið. Hún var svo sæt og fyllandi að mér var orðið illt í maganum eftir hálfa. Ég sá mann troða kökusneið upp í sig, nánast kyngja henni og vinda sér beint í aðra. Hægt og rólega hurfu terturnar upp í munna og niður í maga. Við hörfuðum út á torgið til að komast í burtu frá kökunum og kökuáti en þar stóð Ivan sem bauð okkur köku af bakkanum sínum sem hann var búinn að fylla af kökum. Ég hugsaði með mér að farandsöluhipparnir hljóta að hafa nýtt tækifærið og þegar ég kom aftur heim á tjaldsvæðið sá ég að ónýti ísskápurinn var troðfullur af kökusneiðum.

Eina af fyrstu nóttunum okkar á tjaldsvæðinu var svo heitt að um kvöldið tókum við himininn af tjaldinu vegna svitaslykju og loftleysis. Tjaldinu var tjaldað undir regnskýli búið til úr spýtum og plasti en plastið var eilítið götótt. Um nóttina vaknaði ég við grenjandi rigningu. Það láku dropar úr þakinu. Ég stökk út úr tjaldinu, setti himininn aftur á og nóttini var bjargað. Aðra nótt seinna í vikunni vöknuðum við í polli. Rigningin féll líkt og örvadrífur milljón hermanna í baráttu upp á líf og dauða. Dropar höfðu lekið í gegnum stærsta gatið og myndað lón í sandinum sem tjaldsbotninn þoldi ekki. Ég hoppaði út á sundbuxunum með vasaljós í kjaftinum. Ég skóflaði pollinum undan tjaldinu, mokaði sýki í sandinn og bjó til farveg fyrir vatnið þannig að það rann í burtu frá tjaldinu, síðan reisti ég varnarvegg til að passa upp á tjaldið. Á meðan þurrkaði Íris inni í tjaldinu og setti regnponchoið sitt yfir botninn, síðan kom hún út og við færðum tjaldið lengra í burtu frá sýkinu sem fylltist hægt og rólega af vatni. Ég var orðinn rennandi blautur er ég kom aftur inn í tjaldið. Ég þurrkaði mér með handklæðinu og við fórum aftur að sofa. Mér hafði aldrei verið svona kalt í Alter do Chão.

Eitt kvöldið fórum við á einstaklingssýningu sem hippasamfélagið sem á heima á eyjunni Macaco setti upp. Kona, máluð blá í framan, sagði frumbyggja sögu og lék listir.
Einu sinni lifðu mennirnir í sátt og samlyndi við náttúruna, þeir dönsuðu, sungu og ræktuðu jörðina með ást í hjartanu, fyrir þeim var allt guðdómlegt, sagði hún og steig dans við trumbuslátt og sveiflaði eldkúlum sem virtust vera sólir á tímalausum sporbaug um svartmyrkur alheimsins.
En eitt kvöldið kom púki sem hrifsaði guðdómleikann frá mönnunum og faldi hann, en það var mjög erfitt að að finna góðan felustað, sagði hún og lék kristalskúlu renna eftir hendinni sinni, meðfram viðbeinunum og yfir á hina hendina. Kúlan táknaði guðdómleikann og hún reyndi að fela kúluna á ýmsum stöðum og krakkarnir sem sátu fremst sprungu úr hlátri þegar hún faldi kúluna bakvið gamlan mann í áhorfendaskaranum.
Hún kastaði eldkyndlum upp í loftið sem dáleiddu áhorfendurnar. Síðan klifraði hún upp haldandi í tvö klæði sem héngu úr loftinu og lék ótrúlegar listir sem krefjast styrks, jafnvægis og hugrekkis af því að hún var það hátt upp í loftinu að ef hún hefði dottið hefði hún slasað sig alvarlega.
Hún lokaði sig inn í klæðinu sem myndaði hjúp utan um hana á meðan hún hékk í loftinu og sagði: Púkinn fann stað til að fela guðdómleikann, stað þar sem að maðurinn myndi aldrei finna hann; innan í honum sjálfum.
Fallegir krakkar og frjálst fólk undir frumskógarstjörnum, brosandi og minnt á veruleika eigin veru stóðu upp og klöppuðu af miklum ákafa.

Við vöknuðum fyrir sólarupprás og gerðum okkur til. Við pökkuðum saman tjaldinu, fengum okkur morgunmat og settumst og biðum eftir hinum sem ætluðu að koma með í ferðina. Þór hafði verið veikur í þrjá daga og fór á hótel til að jafna sig en hann hélt áfram að gista í þæginlega einkaherberginu í þrjár nætur í viðbót eftir að hann náði sér og eyddi nóttunum í að horfa á bíómyndir talsettar á portúgölsku og deginum í að sofa, venjulega vaknandi klukkan hálf fimm á daginn. Ég bjóst við því að þurfa fara á hótelið að vekja hann en Þór var kominn á tilsettum tíma á tjaldsvæðið, hann hafði ekkert sofið um nóttina og var vel víraður, talandi hratt og af ofstopa um hluti eins og að hengja upp þvott. Það kom í ljós að lásinn minn var of stór fyrir skápana á tjaldsvæðinu en Þór hvarf án þess að segja orð og eftir örfáar mínútur kom hann aftur með tvo lása, brosandi og hreyfandi augun hratt í svefnleysisvímu.

Allt var tilbúið og allir komnir, nema Tiago, viðskiptafræðamenntaði brazilíski strákurinn með stóru augun, geimverudreddana og með drauma um að spila tónlist á götunni í Evrópu. Hann lét okkur bíða eftir sér í einn og hálfan tíma og þegar hann kom á tjaldsvæðið var ekki merki í barnalegum svip hans sem sagði til um að hann hefði gert eitthvað ónotalegt eða slæmt. Ég og Íris tókum á móti honum, frekar pirruð og sögðum að við værum búin að bíða eftir honum heillengi. Þrátt fyrir að við höfðum talað við hann tveimur dögum fyrir og Daníel líka þá var hann ekki viss um hvenær við ætluðum að fara og fyrir tilviljun hitti hann á Ivan, þegar að Ivan var að kaupa bensín á bátinn, og Ivan sagði honum að við værum að bíða eftir honum. Þá hjólaði hann og náði í dótið sitt og kom á tjaldsvæðið alveg ómeðvitaður. Eftir nokkrar mínútur, þegar við vorum öll komin í bátinn, baðst hann fyrirgefningar. Ég fyrirgaf honum fljótlega af því að hann er 23 ára krakki og það er erfitt að vera pirraður út í krakka.

Daníel eða El Negro líkt og Ivan kýs að kalla hann, ýtti litla græna bátnum úr vör og hoppaði um borð. Ivan rykkti mótornum í gang og hófst þá siglingin. Marie, 28 ára frönsk stelpa, arkítekt og ferðalangur, sat á móti okkur Írisi. Ivan og Daníel sátu hjá mótornum og hlóu og sungu, Tiago hjá töskunum og við hliðina á honum lá Þór sofandi. Í loftinu var ferðagleði og sykursæt sól sem komst ekki í gegnum litla laufvafða þakið. Fljótlega vorum við komin úr augsýn frá þorpinu. Okkur á vinstri hönd var skógivaxinn bakkinn, fyrir ofan okkur blár himininn með einstaka skýi og á hægri hönd, lengst í burtu mátti sjá glitta í hinn bakkann; áin glampaði og flaut áfram áreynslulaust, róleg og öldulaus. Daníel tók upp björgunarvestin og Ivan sagði að það væru vesti fyrir alla nema El Negro, það vildi svo til að vestið hans gleymdist í landi og í þokkabót kann hann ekki að synda. Ivan, með langa dredda og klæddur í Bob Marley bol, hélt í mótorinn og stýrði okkur af mikilli ró með pírð augun líkt og hann hafi nýverið reykt jónu, sem hann hafði jú gert og aðstoðar stýrimaðurinn Daníel líka. Kapteinninn er í ákjósanlegu ástandi, sagði Íris og við hlóum. Daníel tók upp gítarinn, fór að syngja og Ivan tók undir viðlagið. Báturinn rann ljúflega eftir ánni og Þór lá á gólfinu og dreymdi ljúfa drauma.

Eftir einn og hálfan klukkutíma tókum við land til þess að teygja úr okkur og einnig, líkt og Ivan orðaði það, gera kúkú eða pípí. Ég og Íris tókum upp brauð og Nutella og deildum því með hópnum sem kláraði dolluna á augabragði. Sandurinn var mjúkur og steinarnir í grynningunum litríkir, stór tré stóðu úti í vatninu og ég labbaði aðeins meðfram ströndinni í burtu frá hinum til að gera þarfir mínar og baðaði mig síðan nakinn í vatninu og átti góða stund með sjálfum mér og endurspeglun himinsins í ánni. Þegar ég kom aftur til hópsins voru Ivan og Daníel að kveikja sér í einni grænni. Síðan sungu þeir, lömdu trommuna og blésu í flautuna í smá stund áður en við lögðum aftur af stað. Núna sat Daníel við mótorinn. Ivan, á svipinn eins og bólufreðinn Búddha, sat á hinum enda bátsins og lamdi í trommuna í gervihugleiðslu grasvímunar. Daníel bað hann um að kasta til sín sólgleraugunum sínum en Ivan hitti ekki og henti þeim í þakið, í annari tilraun tókst honum þó kastið. Ég get ekki sagt að traust okkar á leiðsögumönnunum hafi aukist með hverri mínútunni en einhvernveginn treystum við bjánunum sem sungu og hlógu á milli þess sem þeir sungu og hlógu ennþá meira.

Skyndilega varð þungt yfir himninum líkt og að hann hafi fengið áhyggjur af framtíðinni og farið í slæmt skap. Úr grámanum byrjuðu að leka dropar. Ivan breiddi plast yfir farangurinn og við hin hjúfruðum okkur saman undir laufvafða regnskýlinu. Dropar lentu í ánni og mynduðu hringlaga gárur í bárunum. Hringlaga gárur sem komu og fóru líkt og við sjálf. En það varð ekkert úr hellidembunni sem virtist vera á leiðinni og himininn fór aftur í gott skap líkt og að hann hafi verið hughreystur af gömlum vin.

Við erum komin, sagði Ivan, heim í náttúruna okkar. Við komum í land á sólsleginni strönd. Er við tókum töskurnar okkar af bátnum var ekki mannveru að sjá og öldufallið eina tónlistin sem ómaði í róboðandi endurtekningu. Rétt við ströndina stóð hvítmálað tveggja hæða hús, stórt og mikið, veggjalaust og opið og reist á stultum. Ivan, Daníel, Marie, Tiago og Þór komu hengirúmunum sínum fyrir á fyrstu og annari hæðinni á meðan ég og Íris fundum herbergi á efri hæðinni með stærðarinnar rúmi. Síðan lögðust sumir til hvíldar og leyfðu öldunum að vagga sér í blund á meðan að hinir fóru og böðuðu sig í ánni. Ég settist í ruggustól og horfði yfir ánna sem virtist vera úthaf, það sást dauflega yfir á hinn bakkann og þar sem áin rann áfram hvarf hún inn í sjóndeildarhringinn og virtist vera endalaus og án upphafs. Ég og Þór spjölluðum saman og ég var núfastur í ómælanlegu tímaleysi. Ég reyndi að sannfæra Þór um að halda sér vakandi fram á kvöld í staðinn fyrir að hvíla sig í fjóra tíma líkt og hann vildi gera. Hann fór og baðaði sig í ánni, ég nýtti mér tækifærið og setti upp hengirúmið hans og sökk í svefnrof auðgleymdra drauma. Ég rankaði við mér og fékk mér sæti hjá Írisi sem var að dotta í hinum ruggustólnum. Við sátum hlið við hlið líkt og gömul hjón og ákváðum að fara í göngutúr til að hressa okkur við. Stór tré vöktu yfir ströndinni og örfáu húsunum sem stóðu á víð og dreif innar í landinu. Hænur hoppuðu um rótandi í jörðinni eftir æti og tístandi ungar eltu mömmur sínar. Við fundum matvöruverslun sem var opin en enginn að afgreiða. Vörurnar stóðu í viðarhillum og störðu á okkur tómum augum. Við gengum eftir moldarvegi og fundum plöntur sem bregðast við því þegar maður snertir þær, þær lokuðu laufblöðunum við minnstu snertingu og hnipruðu sig allar saman ef maður potaði hressilega í þær. Við gengum eftir stíg sem leiddi inn í skóginn og sáum fugl gogga í tré, stígurinn leiddi okkur að frumskógartjörn. Við snérum við endurnærð eftir labbið og á leiðinni til baka fann ég plöntu sem ég kynntist í Ekvador, ég tók fræbelg og opnaði hann, inni í honum sátu rauð fræ sem ég makaði framan í mig og litaði mig rauðan. Með miklum erfiðismunum tókst mér loksins að þrífa litinn í burtu eftir langt bað í ánni.

Við ströndina stóð stórt fjólublátt tveggja hæða hús með verönd sem umkringdi húsið. Þar bjuggu eigendur gistihússins, gamall krúttlegur karl og gömul krúttleg kona. Um kvöldið eldaði konan fyrir okkur og við settumst öll saman og borðuðum fylli okkar af hrísgrjónum, baunum og fisk fyrir þá sem vildu. Áður en við byrjuðum að borða héldumst við öll í hendur og sungum lag sem að Ivan lærði af indjánum. Ivan þakkaði fyrir matinn og þakkaði fyrir að það væru engir Argentínubúar viðstaddir. Við hlógum. Ivan og Daníel byrjuðu að tala illa um fólk frá Argentínu og síðan sögðu þeir okkur frá hlutum sem gerast við þá sem deyja áfengisdauða eða sofna í partýi í Venezúela. Þeir hrækja í smokk og binda utan um hann, setja hann í lófann á þeim sem sofnaði og þegar að sá óheppni vaknar sannfæra þeir hann um að honum hafi verið nauðgað.

Nóttin var björt undir tunglinu. Við lögðumst upp í mjúkt rúm og höfðum regnponchoið undir okkur af því að það var ekkert lak og leyfðum ölduhljómunum að rugga okkur í svefn. Ég svaf djúpt og lengi og dreymdi marga drauma.

Um morguninn borðuðum við bananahafragraut, yuca-pönnubrauð með grænmetisfyllingu og drukkum te sem að Daníel lærði að búa til þegar að hann var Hare Krishna munkur. Síðan þrömmuðum við áfram veginn undir flautuspili og baráttusöngvum. Um leið og við stigum út fyrir hússins dyr byrjaði að rigna úða yfir okkur. Vegurinn sem við gengum eftir var moldarvegur og af og til kom mótorhjól fram úr okkur eða skólarúta. Húsin við veginn voru einföld og við veifuðum fólkinu sem veifaði til baka. Eftir tuttugu mínútna göngu kom til okkar maður og sagði að leiðsögumaðurinn myndi koma eftir smá og að við ættum að bíða eftir honum í stóru regnskýli. Við fengum okkur sæti í hringlaga rými á fallega útskornum bekkjum sem voru í laginu eins og skjaldbökur eða frumskógarkettir og þak vafið úr laufum varði okkur frá úðanum. Eftir smá bið kom til okkar hraustur miðaldra maður sem sagði ekki meira en nauðsynlegt var, hann tók í hendurnar okkar og leiddi okkur út úr þorpinu og inn í töfragarð hundraðþúsund laufa þar sem að augun syntu um í grænum djúpum lit og himininn rétt svo gægðist í gegnum þykkni gróðursins sem virtist vaxa úr öllum áttum.
Við gengum dýpra og dýpra inn í fornu veröld frumskógarins. Ég var með farangurinn okkar beggja í einni tösku og tók að þreytast í brekkunum sem leiddu okkur hærra og hærra upp. Því lengra sem við fórum því þykkari varð skógurinn, fljótlega komum við að mörkunum þar sem að skógurinn var alfriðaður og ósnertur. Blátt risafiðrildi flögraði yfir stígnum og sprækur fugl þaut í gegnum trjáþykknið. Eftir einn og hálfan tíma komum við að litlu skýli með laufþaki, einu borði og vegg í einu horninu. Við losuðum okkur við töskurnar, hvíldum okkur aðeins og héldum svo áfram göngunni laus við þyngdina af herðunum. Leiðsögumaðurinn leiddi halarófuna og benti af og til á nytjaplöntur og lækningajurtir. Ég reyndi að staðsetja mig nógu langt í burtu frá Daníel og Ivan, sem töluðu viðstöðulaust, til að geta notið þagnarinnar og hlustað á skordýrin og fuglana syngja. Eftir klukkutíma göngu komum við á áfangastað ferðarinnar. Við okkur blasti sex hundrað ára gamalt tré. Augun mín opnuðust af undrun og náttúrudýrkun. Ég sá ekki bara tré, ég sá Móður Jörð standa fyrir mér gnæfandi upp í himininn og breiðandi út arma sína. Ég sá ævaforna viskufyllta risaveru og ég gleymdi sjálfum mér í greinunum, laufunum og fagurmunstraða berkinum.Trjábolurinn var svo þykkur að það þyrfti sex tugi manna til að haldast í hendur og umkringja það. Ég gekk hringinn í kringum tréð og settist við rætur þess sem voru jafn þykkar og venjuleg tré. Ég lokaði augunum og fann velviljaða orku flæða inn í veru mína frá trénu. Ég hugsaði með mér hvernig trénu tókst að verða svona risavaxið og mikilfenglegt og viðarhjartað hvíslaði að mér leyndarmálinu sínu: Þrotlaus þolinmæði. Við sátum lengi og dáðumst að trénu í dulspekilegri dýrð.

Við gengum hungruð til baka í skýlið og skárum niður grænmeti og kveiktum eld. Síðan þegar að grænmetið var skorið og bálið brann af krafti settum við pott á hlóðirnar og biðum eftir súpunni. Fólkið setti upp hengirúmin sín og við tjölduðum tjaldinu okkar. Myrkrið skall á og garnirnar gauluðu líkt og spikfeitur ítalskur óperusöngvari. Tunglið sem var næstum því fullt lýsti upp dimmuna sem lék við dularfullan skóginn í kringum okkur. Til að setja eitthvað í magann fengum við okkur yuca-mulning með sykri sem bragðaðist eins og kornflex með alltof miklum sykri. Loksins varð súpan tilbúin og hver munnfylli var lífgefandi og yndisleg. Við lögðumst södd og glöð upp í tjald og þytur skordýranna togaði okkur í drauma.

Eftir morgunmatinn var ég að beatboxa í rólegheitunum og Ivan byrjaði að rappa og þegar hann hætti tók Daníel við sem flæddi líkt og hann hefði alist upp í Brooklyn og Ivan fór að beatboxa líka og Tiago fór að slá skeið í disk og það var rappað og rappað. Á leiðinni út úr skóginum tókum við stutt stopp og sveifluðum okkur líkt og Tarzan. Ég komst á þokkafullan hátt á flug og sveif í gegnum skóginn og spyrnti mér í stærðarinnar tré og byrjaði að fljúga til baka og áður en ég vissi af var mér búið að takast að skella bakinu í stærðarinnar lurk. Ég jafnaði mig líkt og Tarzan hefði gert og við héldum áfram röltinu út úr skóginum og ég fann hugann sveima fram í framtíðina – ég dró andann djúpt og opnaði skynfærin fyrir núinu. Ímyndanir og hugsanir höfðu sig á brott. Laufhafið, djúpur grænn litur flöktandi í golunni, skordýratónar og hreint loft í indælli þögn af því að ég labbaði aftast. Brún laufin sem þöktu jörðina minntu mig á dauðann og nýsprotnu grænverurnar sem gægðust upp úr jörðinni minntu mig á endurfæðingu. Ég leiddi meðvitundina inn í þögla skynjun; ég var Alveran á hreyfingu um Alveruna, ég skynjaði hvert einasta skref, ég var ekki líkaminn, ég var heimurinn.

Það var undurljúft að labba út í ánna og baða af sér frumskógarsvitann. Við borðuðum kex og lágum í leti. Ivan eldaði baunir og hrísgrjón og eins og venjulega sungum við þakklætissönginn fyrir matinn og eins og venjulega þurftum við að bíða eftir Tiago sem var ekkert að flýta sér þegar að við kölluðum á hann í mat. Við meltum og lágum aðeins meira í leti og sungum. Síðan settum við farangurinn í bátinn og lögðum af stað þegar að Ivan og Daníel voru búnir að reykja.

Allir voru í hamingjuskapi. Áin slök og sólin blíð. Ivan spilaði á gítar, Daníel hélt í mótorinn og söng og Tiago sló trommuna. Þór kom öllum skemmtilega á óvart þegar að hann fór að rappa einhverja helþétta Fenrisúlfavísu yfir trommutaktinn. Himininn glansaði bláma og ský svifu í fjarskanum. Eftir langa skemmtisiglingu fór dagsljósið að dofna. Daníel söng þakkarsöng til sólarinnar er hún seig. Gullöldur dönsuðu í grænsilfurkjólum. Þeir slökktu á mótornum. Heilög þögn tók við. Ivan slengdi sér út í ánna. Ég stóðst ekki mátið og tók heljarstökk út í vatnið og þegar ég lenti fann ég fyrir dýptinni og þögninni sem var ekki til staðar við bakkann.
Frá sjónarhóli vatnsyfirborðsins horfði ég agndofa á eitt fallegasta sólarlag sem ég hafði á ævinni séð. Ský á stærð við konungsríki, bleik líkt og rósir. Sólin hrein og rauð líkt og tifandi vökvi lífsins eða blóm í földum fjalladal. Við vorum öll bundin saman í augnablikinu, snortin af fegurð og ljóma alheimsins.

Við sigldum í höfn undir silfurmána sem vantaði einn dag í að vera fullur. Við komum okkur fyrir á tjaldsvæðinu og gerðum chai og ég settist í hugleiðslu. Ég rann inn í dýpstu leiðslu ævi minnar. Ég var meðvitundin að vera meðvituð um sjálfa sig. Ég var tómur í kollinum og fullur í hjartanu. Eftir langan tíma í djúpi sjálfs míns komst ég til venjulegrar meðvitundar og varð meðvitaður um að ég var algjörlega blóðlaus í fótunum. Ég lagðist og þagði.

Á tjaldsvæðið var komin einstæð móðir með tveggja ára strákinn sinn. Fyrstu nóttina sem við sáum hann var hann brosandi út að eyrum borðandi hafragraut úr plastglasi. Síðan daginn eftir var hann hágrátandi og daginn eftir grét hann ennþá meira. Mamman, stelpa frá Chile um þrítugt sem eignaðist strákinn með brazilíumanni, var auðsjáanlega þreytt og ég sá votta fyrir í augum hennar að hún vildi ekki eignast þetta barn og hún var ekki starfinu vaxin að ala upp strákinn; hún tók hann upp þegar að hann hætti ekki að gráta og sagði honum að þegja þegar að það eina sem að hann þurfti var ást. Hippatjaldsvæði er ekki ákjósanlegur staður fyrir krakka sem ætti að vera á leikskóla eða að minnsta kosti í einhverri snertingu við önnur börn. Á þessum tímapunkti fannst mér þetta sorglegt; peningalaus hippamamma ráðalaus með grátandi krakkann sinn á tjaldsvæði; hippasirkuslífsstíllinn með barn í farteskinu brann í rauðum logum fyrir mér þegar að mamman spurði Írisi, sem hafði huggað strákinn einu sinni þegar að hann stóð grátandi inni í eldhúsinu, hvort að hún gæti passað strákinn fyrir hana í fjóra tíma á meðan hún færi með annarri hippastelpu til Santarem að djögla á umferðarljósum til að vinna sér inn einhverja peninga af því að þeir væru alveg á þrotum. Hvað gat Íris gert annað en að samþykkja barnið sem var stungið inn á hana fyrirvaralaust að morgni til. Mamman vissi ekki einu sinni hvað Íris hét þegar að hún spurði hana og þegar að hún þakkaði henni fyrir um kvöldið, eftir að hafa komið fimm tímum of seint, sagði hún nafnið hennar rangt. Íris passaði krakkann sem brosti allan daginn og þegar að mamman kom var Íris alveg uppgefin og staðráðin í að hún væri ekki tilbúin í að eignast barn næstu fimm árin. Ég hugsaði um þann hrikalega glæp að fæða barn inn í heiminn og yfirgefa það líkt og faðir stráksins hafði gert og líkt og Daníel hafði gert við fimm ára dóttur sína sem á heima hjá móður sinni í Venezúela.

Eftir að hafa drukkið morgun chai’ið og gert allt tilbúið fórum við með töskurnar í bátinn. Íris brosti sólkinsbrosi og Nico, Daníel, Ivan og austurrísk stelpa reyktu jónu er báturinn rann úr vör. Þór varð eftir á tjaldsvæðinu, hann þáði ekki boðið að heimsækja Macaco, hippaþorpið sem var orðið goðsagnakennt fyrir mér. Ég geislaði af gleði og var ótrúlega spenntur. Himininn var hreinn og vatnið spegilslétt. Frumskógurinn í kringum vatnið grænn og mikill. Ég andaði inn í hjartað mitt og fann ástarorkuna titra. Ég horfði inn í gárurnar og upp úr vatninu stökk silfraður höfrungur; ég gapti úr fegurð, hann sýndi sig aftur og hvarf síðan ofan í djúpið. Nicola, argentíski gítarsnillingurinn með þykkt brúnt skegg og bítlahár, klæddur í lausar buxur með bláan klút sem belti, plokkaði strengi og fyllti andrúmsloftið af glaðværum tónum. Ivan, sem átti heima í Macaco í meira en þrjú ár, útskýrði fyrir okkur fyrirkomulagið er báturinn flaut ljúflega áfram. Í Macaco eiga heima sex fjölskyldur eða tuttugu mannverur. Hver fjölskylda lifir í sínu eigin húsi og svo er eitt stórt sameiginlegt rými þar sem að krakkarnir leika sér og þar er sameiginlegt eldhús þar sem að þorpsbúar elda stundum saman stórar máltíðir. Einu sinni var það þannig að hver sem var gat komið í heimsókn án þess að tala við neinn og þá var mikið um að fólk kom til að slappa af og reykja gras og drekka áfengi en núna verður maður að þekkja einhvern og tala við einhvern frá Macaco sem verður að samþykkja heimsóknina. Þið tvö eruð bæði mjög róleg og passið vel inn í stemmninguna sem er í gangi núna; kyrrð, friður og ró; fjölskyldustemmning, bætti Ivan við. Það er ekki rukkað fyrir gistinguna í Macaco en í sameiginlega rýminu er baukur ef þið viljið gefa fjárframlag en það er algjörlega valfrjálst. Það er góður andi í fólkinu og allir eru indælir, þið eigið eftir að njóta ykkur í botn.

Við vorum komin í völundarhús þar sem að Ivan smeygði bátnum á milli trjánna sem uxu upp úr vatninu af meistaralegri yfirvegun. Frá því að við komum til Alter do Chão hafði vatnsyfirborðið hækkað um einn meter, þar sem áður var strönd var vatn og þar sem við sigldum á milli trjánna er sandur á þurra tímabilinu. Farþegar um borð pössuðu sig á greinum sem reyndu að komast um borð í þröngum beygjum og sluppu allir ómeiddir fyrir utan nokkrar skrámur sem Daníel fékk í ógáti.

Við komum að litlu húsi sem stóð á stólpum úti í vatninu, meter yfir yfirborðinu, frá húsinu lá brú að landi. Húsið var varið með laufþaki og plasti og hengirúm hékk í einu horninu og lítið barnatjald með leikföngum í hinu. Við fórum í land rétt hjá húsinu og við okkur blasti stórt hús sem stóð í rjóðri við ánna. Gömul kona tók á móti okkur. Hún brosti mildu brosi og augun báru merki um hamingju. Hún heilsaði öllum og hélt svo áfram að vinda þvott og flauta með sjálfri sér. Við eltum Ivan sem þaut eftir stíg lengra inn í frumskóginn, gróðurinn var þykkur og umkringdi okkur. Ég leit upp og sá græna fegurð. Út frá stígnum láu fleiri leiðir í allar áttir. Við tókum beygju til hægri eftir smá labb og komum að sameiginlega rýminu; stórt rými með eldhúsi í einu horninu, stóru borði í miðjunni umkringt af bekkjum og í einu horninu stóð tjald og tvö hengirúm, þakið vafið úr laufum með yfirbreiðu úr plasti, hátt til lofts og trjástólpar héldu öllu saman uppi, gólfið þettpressuð mold og örlítið hækkað, engir veggir og grænverur gægðust inn. Við heilsuðum upp á stelpu frá Argentínu og strák frá Venezúela sem voru líka í heimsókn í Macaco og höfðu komið daginn fyrir. Við komum dótinu okkar fyrir og tjölduðum tjaldinu í þéttum frumskóginum í stuttri fjarlægð frá sameiginlega svæðinu.

Konan sem var með sýninguna um daginn kom og heilsaði upp á okkur, með henni var tveggja ára dóttir hennar, Pachita, sem faðmaði pabba sinn hann Ivan og sagði að hún vildi fara í bað. Ivan og konan höfðu verið saman í sjö ár en fyrir tveimur vikum slitu þau sambandinu og Ivan var að hugsa um að fara til Þýskalands með Daníel á vit draumanna og þar með yfirgefa dóttur sína. Ivan fór með hana niður að vatninu og bauð okkur með. Þegar við komum til þeirra stóð Ivan guðslifandi nakinn úti í vatninu sem náði honum upp í hné. Pachita, með ljóst hár og brún augu, buslaði í vatninu eins og lítill engill. Þið getið baðað ykkur alveg róleg hérna, sagði Ivan og brosti eins og Bob Marley. Ég, Íris og austurríska stelpan skelltum okkur úr fötunum og dýfðum okkur nakin ofan í grængeislandi vatnið. Sólin renndi gulli yfir frelsi hjarta míns. Íris synti í fangið mitt þar sem hún hékk góða stund áður en við fórum að synda í frumskógarvatninu. Við köfuðum niður á botn líkt og selir og fórum lengra út í vatnið þangað til að við náðum ekki til botns. Eftir góðan sundsprett gengum við upp stiga sem leiddi upp í húsið yfir vatninu, við sátum á pallinum og sólin þurrkaði okkur glaðlega. Við fórum aftur í sameiginlega rýmið og elduðum risa máltíð saman, ég sá um að gera salatið og á meðan ég skar niður gulrætur og ýmislegt grænmeti var tónlist spiluð af miklum krafti af heilli hljómsveit. Það var slegið á trommur, tekið í gítarinn og sungið með röddinni. Við settumst niður þegar allt var tilbúið, sungum þakkarsöng og tíu manneskjur deildu dýrð augnabliksins og borðuðu sig saddar með þakklæti í sálinni.
Eftir matinn setti ég upp slackline’ið í frumskóginum og labbaði fram og eftir línunni við undirspil tónlistarinnar sem ómaði frá húsinu yfir vatninu. Ég steig aftur og aftur upp á línuna þangað til ég var orðinn lekandi úr svita. Síðan tók ég dótið saman og rölti niður að vatninu og yfir brúnna sem liggur að húsinu yfir vatninu. Þar sátu Ivan, Daníel, Nico og Rodrigo og spiluðu frá hjartanu. Rodrigo er með sítt svart hár og ljúft andlit, hann á heima á eyjunni, heilsar með knúsi og spilar á flautu líkt og skógarálfur. Konan hans, brún og glansandi í sólinni, sat nakin á pallinum við stigann niður að vatninu og hélt á átta mánaða stelpunni þeirra sem horfði á heiminn gáttuð úr gleði. Mér fannst mjög eðlilegt að við værum að baða okkur nakin í vatninu. Afhverju að vera í sundfötum? Hvað höfum við að fela? Hvað höfum við að óttast? Nákvæmlega ekki neitt, hugsaði ég og hoppaði allsber ofan í kælandi vatnið til Írisar. Paradís var okkar.

Sólin tók að falla ofan í vatnið og litaði himininn með blómrauðu mistri. Ivan og fyrrverandi konan hans og dóttir þeirra Pachita, Daníel, Nico og austurríska stelpan fóru upp í bátinn og sigldu til Alter do Chão. Í því andartaki sem að ljósaskiptin féllu í hendur myrkursins komum við inn í sameiginlega rýmið þar sem við höfðum eldað saman um daginn. Við kveiktum á kertum og settumst niður til að skrifa í dagbækur og lesa. Í bókahillu í aðalhúsinu niðri við vatnið fann ég mér bók eftir Gabríel García Marquez og sökk mér ofan í stafi hennar sem blöktu undir fögru ljósu kertisins. Myrkrið var alsvart og notalegt. Þögnin var fullkomin og nóttin var hlý. Er kertin okkar höfðu brunnið upp til að agna lögðum við leið okkar í gegnum dimman frumskóginn og fundum tjaldið okkar sem stóð innan um þykkan gróðurinn. Á gólfinu lá teppið sem við höfðum keypt í dagsferð til Santarem og skuggar skógarins skreyttu veggi tjaldsins að innan. Ég settist niður í hugleiðslu og eftir smá stund byrjaði ég að heyra skrítin angurvær hljóð. Hljóðið var eins og blásandi vindur nema hann var andsetinn af djöflum sem vildu blóð. Hljóðið nísti líkt og einhver væri að kalla fram púka eða hafa samband við undirveröldina. Ég hélt áfram að hugleiða og lagðist síðan niður við hliðina á Írisi sem var líka búin að hugleiða. Hljóðið magnaðist og við heyrðum það bæði hátt og skýrt, það var ógurlegt og Íris varð dálítið hrædd og spurði eftir stutta stund hvort að mér findist það vera að nálgast okkur. Ég sagði að svo væri ekki og mundi eftir því hvað Elton, hippinn sem fór með okkur í frumskógarheimkynni sín, sagði um apana: Þeir öskra eins og risaeðlur. Hljóðin sem bárust okkur úr fjarska voru frá öskuröpum. Það byrjaði að rigna. Orðið regnskógur er gott. Það rigndi viðstöðulaust og óteljandi droparnir slóu takt er þeir lentu á tjaldhimninum. Í stutta stund óttaðist ég um að tjaldið myndi ekki þola fötuhellinguna en draumar helltust yfir mig og við sváfum þurr alla nóttina og vöknuðum í faðmlögum undir morgunhimni.

Í eldstæðinu raðaði ég litlum prikum í pýramída, líkt og Daníel kenndi mér daginn sem að gasið kláraðist á tjaldsvæðinu og ég þurfti að kveikja eld með rökum prikum til að útbúa chai, og undir pýramídann setti ég kerti, síðan gaf ég eldinum stærri og stærri prik að borða og blés líf í hann þangað til að ég gat komið lurki fyrir og þegar að eldurinn læsti sér í hann var bálið tilbúið. Við elduðum bókstaflega morgunmatinn og hituðum te. Við lágum í hengirúmum og lásum þangað til að við kláruðum að melta og fórum síðan að skoða svæðið. Við gengum eftir stíg sem leiddi okkur að rjóðri og húsinu hans Rodrigo sem var hringlaga vegglaust rými varið fyrir rigningu með laufþaki og plasti, pallur yfir jörðinni í einu horninu þar sem að rúm lá varið með flugnaneti, bækur stóðu í stöflum við rúmið og í einu horninu var borð og lítið eldhús. Við horfðum upp í trén og sáum apafjölskyldu klifra og hoppa á milli trjánna. Aparnir voru tignarlegir í hreyfingum og óttalausir. Lítill apakrakki hoppaði spakur á eftir mömmu sinni líkt og hann væri í sunnudagsgöngutúr um miðbæ Reykjavíkur. Við fylgdumst með öpunum sem litu út fyrir að vera kettir þegar þeir voru komnir í meiri fjarlægð og síðan hurfu þeir sjónum inn í haf frumskógarins.

Við gengum eftir stíg og komum að öðru húsi, síðan fórum við aftur inn á aðalstíginn og römbuðum inn á sirkushúsið, húsið þar sem Ivan átti heima, húsið sem fyrrverandi konan hans og Pachita eiga heima. Það var hátt til lofts líkt og í sirkustjaldi og stór pallur smíðaður úr timbri stóð í miðju húsinu. Úr loftinu hékk róla og líka þessi klæði til að klifra upp í; æfingaaðstaða fyrir sirkus. Bækur um allt á milli himins og jarðar stóðu í fallegri bókahillu og Ghandi plakat skreytti rýmið. Í horninu var eldstæði og fyrir neðan sirkuspallinn var leiksvæðið hennar Pachitu, afgirt svæði á stærð við hjónarúm fyllt af leikföngum. Allt í kring var frumskógurinn og til að fara niður að ánni þurfti að ganga tuttugu skref. Húsið var svo ævintýralegt að mér leið eins og að ég væri staddur í draumi.

Við gengum lengra eftir aðalstígnum og komum að opnu svæði þar sem að fólkið ræktaði hveiti, hitinn var steikjandi miðað við skuggasvalan skóginn. Við héldum áfram og eftir langa göngu heyrðum við daufa tónlist óma. Við komum að litlu húsi þar sem að gamall horaður maður, tannlaus að mestu leiti, með sítt grát hár, sat hjá litlu útvarpi með kaffi við höndina og bjó til skartgripi. Hann heilsaði okkur glaðlega. Húsið var ekkert nema stólpar sem héldu uppi laufþaki. Í hringlaga rýminu voru vinnubekkir og á þeim sátu ýmsir skrítnir hlutir smíðaðir úr beinum. Er þetta húsið þitt, spurði ég hann. Svona eiginlega, svaraði hann og brosti. Hann benti okkur á góðan göngustíg sem leiddi okkur að frumskógartjörn þar sem við settumst niður og nutum kyrrðarinnar.

Í Macaco lifði fólkið í friði frumskógarins, innan um regnbogalitaðar eðlur og öskurapa, undir vetrarbrautinni er draumanætur liðu og við ánna sem hreinsaði og svalaði þorsta þeirra. Landið var sameign og það borgaði enginn leigu. Fólkið vann saman þegar það þurfti að byggja eitthvað og ræktaði mat í sameiningu. Fólkið vann fyrir sér með því að selja brauð, búa til skartgripi, spila tónlist, setja upp sirkussýningu eða kenna Reiki námskeið. Þorpið var rafmagnslaust fyrir utan litla sólskífu sem gerði fólkinu kleift að hlaða rafmagnstæki. Að heimsækja Macaco var eins og að rifja upp gleymdan draum. Eitt sinn hafði ég séð fyrir mér slíkt líf á slíkum stað og nú sá ég með berum augum paradísina sem ég hafði ímyndað mér. Það rann upp fyrir mér að ég gæti gert hvað sem er, svo lengi sem ég gæti ímyndað mér það.
Fjórar nætur liðu í alsgnægtar friði og síðan snérum við aftur til Alter do Chão. Ég vildi alls ekki fara en það var kominn tími á að breyta til. Þegar við komum aftur talaði Þór um að hann vildi fara til Ríó og ég gat ekki ímyndað mér að stíga fæti inn í stórborg. Eftir eilitlar vangaveltur varð niðurstaðan sú að Þór keypti sér flugmiða til Ríó og ég og Íris ákváðum að kveðja Brazilíu og fara upp til Kólumbíu, landið sem við elskuðum bæði.

Nákvæmlega mánuði seinna yfirgáfum við Alter do Chão. Í bátnum frá Santarem til Manaus, sem tók þrjár nætur vegna þess að í þetta skiptið var báturinn að fara á móti straumi, vaknaði ég seinustu nóttina og fór á klósettið, þegar ég kom til baka í hengirúmið mitt var hvíslað á mig úr myrkrinu. Maður í hengirúmi rétt hjá mér lét mig vita að það hafði einhver verið að gramsa í töskunum okkar á meðan við sváfum. Ég opnaði töskuna mína og fann hvergi litlu höggheldu töskuna þar sem ég geymdi iPhone’inn, Kindle’inn og iPodinn. Ég vakti Írisi og hún fann hvergi myndavélina sína né iPodinn sinn. Við vissum um leið hver þjófurinn væri. Á öðrum degi hafði strákur með litað bleikt hár og ónýtar tennur komið hengirúminu sínu fyrir við hliðina á Írisi og verið með hávaða og ónotalegheit, m.a. verið að fikta í hengirúminu hennar á meðan hún var að reyna að sofa. Ég bað hann um að færa sig, af því að það var nóg pláss á öðrum stöðum, en þegar að hann hló að þeirri uppástungu skiptum við Íris um hengirúm. Núna um nóttina var hengirúmið hans hvergi að sjá, hann var horfinn. Við fórum að finna eiganda bátsins og töluðum við konu sem hafði verið vitni að glæpnum. Bleikhærði strákurinn og annar fimmtán ára strákur höfðu leitað í töskunum okkar og síðan fór bleikhærði strákurinn með hengirúmið sitt á neðri hæðina og svaf innan um tómatana. Við fórum niður með eiganda bátsins, eldri maður með sterkan búk og fundum þann bleikhærða sofandi. Við vöktum hann og sögðum honum að skila dótinu. Hann neitaði sök og spurði hvort að við hefðum séð hann stela. Nei, sagði ég, en við höfum þrjú vitni sem sáu þig og bleika hárið þitt. Hann sýndi okkur töskurnar sínar, sem innihéldu væntanlega ekki góssið, líkt og að það myndi hreinsa glæpinn af höndum hans. Við fórum upp og fundum vitorðsmanninn, fimmtán ára strák sem ég hafði talað við yfir hádegismatnum og meira að segja lánað honum heyrnatól. Eigandi bátsins sagði þeim að skila þýfinu. Þeir þóttust ekki hafa gert neitt. Skyndilega voru komnir fimmtán sterkbyggðir menn með stálvöðva, allir tilbúnir að verja heiður lands síns og hjálpa okkur að finna góssið. Þegar að það var pressað á fimmtán ára strákinn og þegar ég sagði að ég hefði engan áhuga á að senda hann í fangelsi, að ég vildi bara fá hlutina aftur, gaf hann sig aðeins og sýndi hvar þeir höfðu falið tólf brazilíska reala, eða sexhundruð krónur, sem þeir stálu úr buxunum mínum. Þá var það komið á hreint að þeir hefðu stolið af okkur og fimmtán ára pollinn sagði að bleikhærði strákurinn væri aðal sökudólgurinn. Sá bleikhærði var handjárnaður og neitaði enn sök með bálreið augu út í svik félaga síns. Feitlaginn ungur maður sló hann fast aftan í hnakkann. Hávaxinn maður, Wolbert, yfirheyrði hann með aðdáunarverðum töktum og sló hann síðan í andlitið með lófanum nokkrum sinnum en þegar að hann hrinti honum í gólfið og byrjaði að sparka í hann þurfti þrjá menn til að draga hann í burtu og róa hann. Sá bleikhærði virtist vera að bugast, hann var tómur á svipinn með lítið tár rennandi niður kinnina. Mér leið alls ekki illa yfir því að þeir væru að beita hann ofbeldi og ég var sallarólegur og viss um að við myndum fá hlutina aftur. Þeir tóku þjófana niður af því að allur báturinn var kominn á fætur, klukkan var fjögur um nótt og myrkrið yfir ánni var algjört. Það fóru allir að leita að góssinu sem fannst í plastpoka undir vatnsröri. Þegar við fengum hlutina aftur var það yndislegur léttir. Við þökkuðum hjálparsveitinni kærlega fyrir. Allir á bátnum horfðu til okkar brosandi og sumir komu og báðust fyrigefningar. Andrúmsloftið róaðist og allir fóru aftur að sofa, nema þjófarnir sem voru handjárnaðir við staur við hliðina á endalausum tómatakössum. Báturinn kom í land eftir sólarupprás og við létum okkur hverfa inn í frumskógarborgina án þess að kveðja glæpamennina sem ég hef ekki hugmynd um hvað þeir gerðu við að lokum.

20140403-112540.jpg

20140403-112619.jpg

20140403-112644.jpg

20140403-112654.jpg

20140403-112719.jpg

20140403-112831.jpg

20140403-112851.jpg

20140403-112919.jpg

20140403-112902.jpg

20140403-112912.jpg

20140403-112842.jpg

Advertisements
Standard

One thought on “Einfalda lífið í frumskógarparadís, ævaforna tréð og ástríka hippaeyjan.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s